Leita í fréttum mbl.is

Vélað gegn lýðræðinu — Steingrímur verður að segja af sér

 You can't handle the Truth!

Fregnirnar af tölvupóstsamskiptum Indriða H. Þorlákssonar, aðstoðarmanns fjármálaráðherra og þá settum ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins, og Mark Flanagan, fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) í málefnum Íslands, hinn 13. og 14. apríl síðastliðinn, sem Wikileaks hafa birt, eru alveg hreint ótrúlegar. Þar í felast ótal hneyksli á báða bóga. Það er t.d. varla sætt lengur fyrir fulltrúa AGS, sem nú hafa orðið uppvísir að ósannindum og óþolandi starfsháttum.

Stóri skandallinn er hins vegar hjá Indriða og yfirmanni hans, Steingrími J. Sigfússyni, sem hafði sannanlega vitneskju um hvernig í pottinn var búið og við blasir að stýrði ferðinni. Það snýr ekki aðeins að efni málsins, heldur miklu fremur hinu, að þarna var vélað gegn sjálfu gagnverki lýðræðisins.

Í þessu einu veigamesta viðfangsefni Íslendinga kaus ráðherrann að láta þrönga pólitíska hagsmuni sína og ríkisstjórnarinnar ganga fyrir hagsmunum hins opinbera og almennings. Það hlýtur að kalla á tafarlausa lausnarbeiðni Steingríms. Ella hlýtur einhver sómakær þingmaður að leggja fram vantrauststillögu á ráðherrann. Ekki ríkisstjórnina, heldur þennan tiltekna ráðherra, sem með leynimakki, pukri, lygum og falsi tók völdin fram yfir almannaheill.

Í tölvupóstinum hinn 13. apríl segir Indriði afar skýrt að nú verði lausn málsins að bíða, að minnsta kosti fram yfir kosningarnar hinn 25. apríl:

[…] a loan agreement along the previous lines (increased governmental debt) would be politically impossible to accomplish before the election on April 25 and possibly very difficult for a considerable period of time after the elections […]

Vandinn er ekki sá að drápsklyfjarnar séu óaðgengilegar, nei, hann er aðeins sá að þær séu pólitískt erfiðar fyrir ríkisstjórnina. Var einhver að tala um forgangsröðun?

Alvarlegra en Icesave-málið
Þetta er grafalvarlegt mál, mun alvarlegra en sjálft Icesave-málið, því hér var vegið að rótum sjálfs lýðræðisins. Í kosningunum var tekist um ýmis mál, fyrst og fremst uppgjör hrunsins, hverjir bæru ábyrgð á því og hverjir væru líklegastir til þess greiða úr óreiðunni. Þar var Icesave-málið eitt hið brýnasta og mikilvægasta, eins og Steingrímur sjálfur og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra þreyttust ekki á að hamra á. Þar mátti engan tíma missa og framtíð landsins sögð hanga á spýtunni.

Kjósendur sárvantaði upplýsingar um framvindu Icesave-málsins til þess að geta tekið upplýsta ákvörðun í kjörklefanum, en Steingrímur ákvað að leyna þá því; hann ákvað að afvegaleiða þá með þögninni og biðinni. Og þó hann þagði ekki alveg um Icesave; hann sagði „glæsilega niðurstöðu“ í augsýn!

Og það gekk upp, vinstrigrænir unnu sinn glæstasta kosningasigur. En biðinni og þögninni linnti ekki, þó samningunum yndi fram í kyrrþei. Undir lok maí fór þó að kvisast út að lyktir kynnu að vera í nánd og hinn 3. júní var Steingrímur spurður að því á Alþingi hvað Icesave-samningunum liði. Hann kom upp í pontu, en sagði lítið sem ekkert af þeim að frétta. Fullvissaði þó þingheim um að ef svo ólíklega færi að eitthvað gerðist á þeim vígstöðvum yrði þeim vitaskuld gert viðvart:

Viðræður eða þreifingar milli aðila hafa gengið hægar en ætlunin var, m.a. vegna þess að Bretar hafa ítrekað óskað eftir frestun á fundum sem fyrirhugaðir voru. Það er verið að reyna að koma í gang formlegum samningaviðræðum en þær eru ekki hafnar heldur eru könnunarþreifingar eða könnunarviðræður í gangi. Ég held að ég geti fullvissað hv. þingmann um að það standi ekki til að ganga frá einhverju samkomulagi á morgun eða einhverja næstu daga og áður en til slíks kæmi yrði að sjálfsögðu haft samráð við utanríkismálanefnd og aðra þá aðila sem þingið hefur haft til að fylgjast með framvindu þessara mála. Staða málsins er sú að það eru könnunarviðræður eða könnunarþreifingar í gangi.

Á sama tíma voru hann, Indriði og Svavar að leggja lokahönd á samningana við stjórnarerindreka frá Lundúnum og Haag, en aðeins tveimur dögum síðar lagði hann samninginn fyrir ríkisstjórnina, sem samþykkti hann án þess að menn hefðu fyrir því að lesa hann yfir. Jafnvel ríkisstjórnin var ekki fyllilega upplýst um inntak samningsins, eins og forsætisráðherra átti raunar eftir að reka sig á. En ekki fyrr en búið var að undirrita samninginn í skjóli nætur. Þó ekki án fyrirvara um samþykkt Alþingis.

Alþingi átti að samþykkja óséða leynisamninga
Laumuspilinu var þó langt í frá lokið. Ríkisstjórnin vildi að Alþingi samþykkti ríkisábyrgð á Icesave-samningum hennar án þess að samningarnir væru birtir þingmönnum, hvað þá aumingja þjóðinni, sem átti að borga fyrir þessa glæsilegu niðurstöðu. Fjármálaráðherra og forsætisráðherra báru fyrir sig trúnað við Hollendinga og Breta, en á daginn átti eftir að koma að sá trúnaður hentaði aðeins íslensku ríkisstjórninni og svonefndum samningamönnum hennar.

Efni samninganna lak þó út í fjölmiðla, svo sú ráðagerð fór út um þúfur, það þurfti að birta uppgjafarsamningana. Eftir að spunalæknar ríkisstjórnarinnar höfðu gert yfirmönnum sínum grein fyrir að þeir hefðu valdið sjálfum sér verulegum skaða fór Steingrímur allt í einu að tala á þann veg að „auðvitað“ yrði allt uppi á borðum í þessum efnum, allt í kringum samningana yrði birt. En það var ekki þannig. Lögð voru fram skjöl, sem áttu að vera allt heila klabbið, en fljótlega komu í ljós eyður í þeim. Þegar eftir var gengið var játað að eitthvað væri enn ókomið og svo gekk áfram nokkrum sinnum, alltaf átti allt að vera komið upp á yfirborðið og alltaf kom hið gagnstæða í ljós. Loks fór svo að hluti skjalanna var settur í sérstakar möppur, sem þingmenn máttu skoða en ekki taka afrit af, færa til bókar eða vísa í á opinberum vettvangi.

Leyndin og hagsmunir Steingríms
Fyrir slíku geta verið málefnalegar ástæður. Það er hins vegar fróðlegt að hafa í huga að fyrrnefndir tölvupóstar Indriða og Flanagans voru hluti af þeim trúnaðarskjölum. Og þá má spyrja: Hvað í þessum tölvupóstum er svo viðkvæmt að ekki megi sýna nema með eftirgangsmunum í luktu bakherbergi Alþingis og þá aðeins ef þingmenn hafa undirritað sérstakan trúnaðareiðstaf? Er það eitthvað gagnvart viðsemjendunum? Gagnvart AGS? Alþjóðasamfélaginu? Nei, hið eina í þessum póstum sem ekki þolir dagsins ljós eru nákvæmlega þessi vélabrögð gegn lýðræðinu, vel heppnuð tilraun til þess að hafa áhrif á niðurstöður almennra kosninga.

Eftirleikinn þekkja menn svo. Steingrímur fullyrti hvað eftir annað að þetta væru langbestu, mögulegu samningarnir í stöðunni og í þeim væru margvíslegar varnir reistar fyrir Íslendinga. Þegar efast var um það lagði hann „pólitískt líf“ sitt „að veði“ með þeim glæsilegu samningsdrögum og lagði gífurlega áherslu á að hvergi mætti við þeim hrófla. Það gerði Alþingi nú samt og samt tórði Steingrímur. Þegar Bretar og Hollendingar höfðu skoðað fyrirvara Alþingis breyttu þeir þeim bara aftur og sendu til Steingríms til þess að láta Alþingi stimpla. Þá bar svo við að Steingrímur — þrátt fyrir fyrri fullyrðingar um ágæti upphaflega samningsins — sagði að þessi útgáfa væri jafnvel enn betri og hagfelldari fyrir Íslendinga en sú fyrsta og sú önnur með fyrirvörunum! Án þess að blikna.

Er manninum fyrirmunað að koma hreint og beint fram í þessu máli?

Fjármálaráðherra er ekki trúandi um neitt lengur
Í ljósi þess hvernig Steingrímur  hefur opinberað sig sem raðlygara í Icesave-málinu er óskiljanlegt að nokkur maður, hvað þá fjölmiðlar og þingheimur, skuli taka við nokkrum athugasemdum frá honum um Icesave (eða annað) án þess að krefjast skjalfestra og vottaðra sannana þar um.

Mér þykir því einsýnt að hann verði að biðjast lausnar, ellegar þola vantraustsumræðu (það væri raunar athyglisvert að sjá hvaða þingmenn vilja taka þátt í lygavefnum hans svona eftir á). Það er niðurlæging fólgin í því, en þó skárra en hitt sem gæti beðið hans. Og Indriða, gleymum ekki ábyrgð hans í málinu.

Í þessari sömu viku í apríl tók Morgunblaðið viðtal við Steingrím og hvað skyldi hann hafa helst að segja því?

Fólk vill heiðarleg, hreinskiptin og opinská stjórnmál.

Það var einmitt það. Framhaldið var líka athyglisvert í ljósi annarra viðburða:

Ég held að það sé borin virðing fyrir því að við segjum það skýrt fyrir kosningar hvað við teljum að gera þurfi að loknum kosningum. Okkar tillögur í skattamálum sem og öðrum eru mjög hófstilltar og ábyrgar.

Maður veit ekki hvort maður á að hlæja eða gráta.

Stjórnin á einn sjens enn
En er ekki stjórnin fallin og allt í voða ef Steingrímur fer? Nei, í lýðræðisþjóðfélagi eru engir ómissandi menn. Allra síst af þessari sortinni. Það vill raunar svo til að vinstrigrænir eiga óþreyttan forystumann á hliðarlínunni, sem er þekktur fyrir hreinskiptni og að standa við sín prinsipp. Lausan við valdafíkn. Ekki bara í orði, heldur líka á borði.


mbl.is Icesave-póstar á Wikileaks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir

Góð grein, og í þessu öllu saman koma vinnubrögð Samfylkingarinnar sem hún hefur viðhaft svo lengi í ljós einu sinni enn. Kemur sér undan í skjóli annara, og þeir látnir sæta ábyrgð á meðan Samfylkingin hvítþvær sig á kostnað Vinstri Græna núna.

Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 7.12.2009 kl. 11:02

2 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Það var fyrir löngu orðið tímabært! Steingrímur er ekki hæfur í nokkurri stjórn. Hann er ekki í stjórnum hæfur.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 7.12.2009 kl. 11:05

3 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Þetta eru ómerkileg skrif hjá þér sem dæma sig sjálf.

Níels A. Ársælsson., 7.12.2009 kl. 11:18

4 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Svona lekamál þarf að rannasaka af óháðum aðila en hvar finnum við hann á litla Íslandi?  

Andri Geir Arinbjarnarson, 7.12.2009 kl. 12:38

5 Smámynd: Fannar frá Rifi

er nilli byrjaður að verja landráð, AGS og ESB?

Fannar frá Rifi, 7.12.2009 kl. 12:38

6 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Fannar.

Hvaða fjandans landráð ?

Ég hika ekki við að verja minn mann og læt ekki mellur íhaldsins komast upp með lygar átölulaust.

Níels A. Ársælsson., 7.12.2009 kl. 12:47

7 Smámynd: Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir

hverja er verið að kalla mellur íhaldsins..

Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 7.12.2009 kl. 12:50

8 Smámynd: Andrés Magnússon

Níels: Þú segir þetta ómerkileg skrif sem dæmi sig sjálf, en nefnir svo engin sérstök dæmi. Næst segistu ekki hika við að verja þinn mann, en hvar er sú vörn? Og af hverju ertu að verja manninn en ekki gerðir hans? Að lokum segirðu „mellur íhaldsins“ ekki komast upp með lygar átölulaust meðan þín nýtur við. Hvaða mellur, hvaða lygar og hvar eru átölur þínar?

Andrés Magnússon, 7.12.2009 kl. 13:04

9 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Mér finnst lekinn vera minna vandamálið hér. Þetta sýnir svart á hvítu hversu óvönduð vinnubrögð eru höfð í starfi þessarar Ríkisstjórnar. Ekki nema von að einhverjum blöskri.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 7.12.2009 kl. 13:23

10 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Andrés.

Ég sagði að skrif þín dæmdu sig sjálf og þar við stendur.

Ég þarf ekkert að benda á mellur íhaldsins því þær eru út um allt og átölur mínar geta menn séð víða.

Ég ætla ekki að fara að munnhöggvast hér á þínu bloggi.

Níels A. Ársælsson., 7.12.2009 kl. 13:32

11 identicon

....enda er Níels bensínlaus, málefnalega séð.

Skröggur (IP-tala skráð) 7.12.2009 kl. 13:53

12 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Góður pistill og samantekt. Það virðist nokkuð líklegt af öllum þessum lekum að Bretar hafa haft upplýsingar um allt sem var að gerast á bak við tjöldin á Íslandi og líklega í íslensku samningnefndinni líka. Spurning hvort þeir hafi ekki hlerað allt sem fram fór, þó það sé kannski svolítið langt seilst að ímynda sér slíkt....

Og það er eiginlega ótrúlegt til þess að hugsa að "ríkisstjórn heiðarleikans" skuli ekki á nokkurn hátt heiðarlegri en þær fyrri sem forystumenn núverandi ríkisstjórnar hafa gagnrýnt svo mjög. Eru íslensk stjórnmál og embættismannkerfi virkilega svona gerspillt upp úr og niður úr....? Ótrúlegt...!!!

Ómar Bjarki Smárason, 7.12.2009 kl. 13:58

13 Smámynd: Andrés Magnússon

Ómar:

Bretar hafa svo sem tækin til þess að hlera allt Ísland, bæði farsíma, tölvupóst og velflest önnur fjarskipti. Úrvinnslan er svo annað mál, þetta kostar sitt og framtakið í ráðuneytunum er eins og það er, þannig að á venjulegum degi væri það ósennilegt. Þetta voru hins vegar óvenjulegir dagar og beiting hryðjuverkalaganna kann að hafa gert að verkum að beiðnum um þvílíkt hafi verið framfylgt þegar í stað hjá GCHQ hér í Cheltenham og MI5. Hefði jafnvel stappað nærri vanrækslu að gera það ekki.

Á móti má spyrja hvernig í ósköpunum standi á því að í æðstu stjórn ríkisins virðist menn fullkomlega fákunnandi um grundvallaratriði í miðlun viðkvæmra upplýsinga. Það er ekki alls staðar þannig, en víðast hvar í kerfinu. Kannski einhver gangi hringinn og selji þeim PGP?

Andrés Magnússon, 7.12.2009 kl. 14:12

14 identicon

Innkoma Níels er með þeim slökustu sem maður hefur séð og röksemdarsnillin einstök. Hann stendur með sínum manni hvað sem gengur á.  Er ekki viss um að nokkrum stjórnmálamanni er hollt að hafa slíkan "fylgdarsvein"?   Augljóslega undirlægja síns manns sem er ómerkilegasti raðlygari sem á þingi hefur logið.  Það gefur augaleið að það þarf að fara vandlega í gegnum hvort að Steingrímur og fleiri stjórnarliðar hafa ekki gerst brotlegir við stjórnarskrá og hegningarlög sem varða landráð.  Mælirinn er löngu orðinn fullur.  Bloggið er satt og höfundur á þakkir skilið.

Guðmundur 2. Gunnarsson (IP-tala skráð) 7.12.2009 kl. 14:16

15 identicon

Sæll Andres,

Fyrir nokkru benti ég á uppákomu sem Indriði var aðili að er hann ritaði fundargerð Icesavesamningafundar á almennu farrými í flugvél. sjá http://kiljan.blog.is/blog/kiljan/

Í fyrstu neitaði Indriði þessu (sjá DV frá þessum tíma) en hefur síðan viðurkennt atburðinn. Tvennt var alvarlegt í því tilfelli. Í fyrsta lagi að skrifa fundargerð um mjög alvarleg mál er varðaði niðurstöðu Icesave sem gerði að verkum að fyrirvarar alþingis frá í sumar voru margir hverjir felldir niður og í öðru lagi þagði hann, fjármálaráðherra og nokkir æðstu embættismenn þjóðarinnar um þessa fundargerð í margar vikur. Ef farþegi á almennu farrými hefði ekki opinberað þetta væri þetta ennþá leyndarmál.

Indriði og fjölmargir aðilar í æðstu stjórn ríkisins eru því miður óheiðarlegir og ættu að mínu mati að segja af sér.

Bergur (IP-tala skráð) 7.12.2009 kl. 14:18

16 identicon

Ótrúleg skrif Níels eru einkennandi fyrir málflutning talsmanna nýkommúnismans. Allt er leyfilegt og réttlætanlegt svo fremi að mellum íhaldsins sé haldið frá völdum. Aldrei skal gagnrýna leiðtogann. Hann er óskeikull.

Maður fær hroll þegar maður les svona ummæli, þarna kristallast sú "hugmyndafræði" sem reisti t.d. Sovétríkin og Kúbu.

Framganga stjórnvalda í þessu máli er sú svívirðilegasta frá upphafi byggðar á Íslandi og sagan mun dæma Steingrím og Jóhönnu hart.

Fólk eins og Níels, sem í blindni eltir fólk sem hefur komist næst Íslendinga því að fremja landráð, er aumkunnarvert og skrif hans "dæma sig sjálf."

Haukur (IP-tala skráð) 7.12.2009 kl. 14:28

17 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Ekkert merkilegt þarna - nema það að sjallar eða  stjórnarandstaðan öll í samráði virðist hafa lekið trúnaðargögnum. 

Þega kosningarnar voru var búið að semja um icesave.  Þá lá fyrir Sjallasamningurinn.   7% vextir og byrjað að borga eftir 2-3 ár.  Sjallar gerðu engar athugasemdir við það í kosningabaráttunni - enda fögnuðu þeir þeim samningi á sínum tíma.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 7.12.2009 kl. 14:59

18 identicon

Þetta er óttaleg smjörklípa hjá þér Andrés, enda ertu dyggur skósveinn þinna herra. Af hverju er svona erfitt að skilja að Steingrímur og co. fengu þetta ömurlega mál í arf frá ríkisstjórn Geirs Haarde. Það er nokkuð ljóst að ef þinn Flokkur væri núna í stjórn þá væri hann að reyna að nauðga þessu sama máli í gegnum þingið. Það er nú eiginlega það broslegasta í þessu öllu.

p.s. Eru ekki flestir stjórnmálamenn raðlygarar, það fylgir nú eiginlega því miður starfslýsingunni?

Ólafur Magnússon (IP-tala skráð) 7.12.2009 kl. 15:15

19 identicon

Þetta er grafalvarlegt mál, ekki síst í ljósi þess að Indriði leikur eitt stærsta pólitíska hlutverkið í kerfisbreytingum íslensku samfélags í kjölfar hrunsins, án þess að vera til þess kjörinn. Fjármálaráðuneytið er orðið valdamesta ráðuneytið vegna hlutverks síns fjárhagslegri endurreisn og vanmáttar Jóhönnu. Og þar er Indriði valdamesti maður ráðuneytisins sem helsti pólitíski hugmyndafræðingurinn, eins og sjá má m.a. glögglega í hugmyndum um umbyltingu skattkerfisins.

Það er nöturlegt að sami maður og semur af sér í einni stærstu skuldbindingu þjóðarinnar við umheiminn skuli síðan blygðunarlaust snúa sér við og skattpína eigin þjóð til að greiða fyrir mistökin.   

Jóhannes (IP-tala skráð) 7.12.2009 kl. 15:35

20 Smámynd: Andrés Magnússon

Ómar Bjarki Kristjánsson: Nú veit ég ekki hvernig gögnin eru tilkomin, en ég efa að þau hafi lekið út af Alþingi, einfaldlega vegna þess hvernig umbúnaður þeirra er þar á bænum. Það er ekki útilokað, en ég myndi fremur horfa til einstakra ráðuneyta. Afrit af þessum póstum eru til í 5 ráðuneytum það ég veit, þar af einu sem kemur málið ekkert við! Það er svo gaman að þú nefnir „Sjallasamninginn“ um Icesave. Þar er um að ræða viljayfirlýsingu Áslaugar Árnadóttur stjórnarformanns Tryggingasjóðs, Baldurs Guðlaugssonar þáv. ráðuneytisstjóra Fjármálaráðuneytisins og hollenska sendiherrans, sem gerð var viku eftir hrun. Sem slík hefur hún ekkert frekara gildi, hún varð aldrei samningur. Kannski einhver hafi fagnað því.

Ólafur: Hitler tók við alveg ömurlegu búi eftir Weimar-lýðveldið. Og hvað? Það var ekkert áskilið um með hvaða hætti hann skyldi útkljá málið, en hann Grímur hefur greinilega kokgleypt þjóðréttarþvaður Samfylkingarinnar í málinu. Nema honum hafi verið hótað einhverju enn hræðilegra, sem hann hefur ekki sagt okkur frá frekar en svo mörgu öðru. Eftir allt það sem á undan er gengið á þjóðin skilið að fá sannleikann þó ekki væri annað.

Væru sjálfstæðismenn að bauka í sömu veru væru þeir í stjórn? Ekki get ég útilokað það, en þá væri hann ekki lengur minn flokkur. Þetta mál snýst um rétt, ekki hagsmunagæslu og ef ríkið stendur ekki á ýtrasta rétti, til hvers er það þá? Við krefjumst þess að lögreglan gæta laga og réttar í hvívetna, en sættum okkur ekki við að hún finni „bestun“ í jafnvægi löggæslu og glæpatíðni með samningum við glæpamenn

Jóhannes: Mönnum á ekki að koma neitt á óvart hvað Indriða varðar. Meðan hann var ennþá reichsführer hjá skattinum skrifaði hann eitt sinn leiðara í málgagn sitt (skatturinn á eigið málgagn, Tíund — það var þá nafnið!) þar sem hann sagði eitthvað á þá leið að öll lífsins gæði væru í eðli sínu skattskyld, nema annað væri fram tekið. Þetta lýsir auðvitað óvenjusúrri afstöðu til lífsins og tilverunnar almennt, en sem skattstjóri eða næstráðandi í fjármálaráðuneytinu er hann náttúrlega stórhættulegur: Hann telur að fólkið sé til fyrir ríkið en ekki öfugt.

Andrés Magnússon, 7.12.2009 kl. 17:45

21 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þessi Ólafur Magnússon, sem skrifar undir stílfærðu swastikumerki (hakakrossi), hefur engin efnisleg rök í málinu, bara fortíðarhyggju, sem hefur hér ekkert að segja, og almenna yfirlýsingu um, að flestir stjórnmálamenn séu raðlygarar! Hann er því litlu skárri en Nillinn, og saman geta þeir sungið Nallann, án þess að við kippum okkur upp við það.

Andrés Magnússon á þakkir skildar fyrir ágenga, en sanna greiningu málsins.

Því má bæta við, að Steingrimur stóð ekki við það að "haf[a] samráð við utanríkismálanefnd og aðra þá aðila sem þingið hefur haft til að fylgjast með framvindu þessara mála," heldur lauk samningnum (sem hann hafði skrökvað að væri ekki verið að gera!) og byrjaði að lofa hann í hástert og ætlast til, að ríkisábyrgð á hann óbreyttan væri samþykkt í þinginu.

Guðfríður Lilja upplýsti um það í sjónvarpi nokkru síðar, að margir ráðherranna væru ekki einu sinni búnir að lesa samninginn! A sama tíma var þó ætlazt til, að þengmennirnir samþykktu hann ólesinn!

Sammála er ég greinarhöfundi, að fjármálaráðherra er ekki trúandi um neitt lengur, það blasir við af greiningunni!

Þessi lokaorð Andrésar þykist ég alveg skilja: "Það vill raunar svo til að vinstrigrænir eiga óþreyttan forystumann á hliðarlínunni, sem er þekktur fyrir hreinskiptni og að standa við sín prinsipp. Lausan við valdafíkn. Ekki bara í orði, heldur líka á borði."

Hér mun átt við Ögmund Jónasson, máttarstólpa flokksins, mann sem nýtur mun meiri trúnaðar og trúverðugleika en formaðurinn, mann sem afþakkaði að vera á sérstökum ráðherralaunum, þegar hann gegndi embætti heilbrigðisráðherra bæði í bráðabirgðastjórninni og þeirri næstu, mann sem sagði af sér fremur en að taka ábyrgð á því vonda stefnumáli sem ríkisstjórnin var að véla um.

Já, nú er kominn tími fyrir almenna flokksmenn Vinstri grænna til að kalla á hann aftur, bæði landsins vegna og ef þeir vilja síður að formaðurinn dragi þá niður í 7% fylgi á ný.

Jón Valur Jensson, 7.12.2009 kl. 17:46

22 Smámynd: Andrés Magnússon

Níels: Ég er haldinn talsverðu umburðarlyndi gagnvart athugasemdum hér á síðunni. Ég líð hins vegar ekki sóðaskap eða fúkyrði gagnvart öðru fólki. Athugasemd var eytt.

Andrés Magnússon, 7.12.2009 kl. 17:49

23 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Sæll Andrés.

Svakalega var þetta mikill dónaskapur af þér að taka út athugasemd mína.

Þar var engin fúkkyrði að finna aðeins blákaldar staðreyndir um menn og málefni.

Svo getur þú tútt um talað:

Djöfull ertu tvöfaldur í roðinu maður minn!

Hvað kallaru þetta ?

"Það hlýtur að kalla á tafarlausa lausnarbeiðni Steingríms. Ella hlýtur einhver sómakær þingmaður að leggja fram vantrauststillögu á ráðherrann. Ekki ríkisstjórnina, heldur þennan tiltekna ráðherra, sem með leynimakki, pukri, lygum og falsi tók völdin fram yfir almannaheill".

Níels A. Ársælsson., 7.12.2009 kl. 18:56

24 Smámynd: Haraldur Pálsson

Þetta er svakalegt..
En hrikalega er hlutdrægni fjölmiðla nú auðsjáanleg sem aldrei fyrr.
Það er akkurat ekkert búið að hamast í honum eins og eðlilegt þætti ef stjórn landsins væri ekki þessi draumastjórn fréttastofu RÚV og Stöðvar 2.

Haraldur Pálsson, 7.12.2009 kl. 19:10

25 identicon

Ég kaus VG og Steingrím síðast. Af hverju? Jú, ég hélt að þarna færi heiðarlegur, rökfastur og sanngjarn maður á ferð … aðaláherslan á “heiðarlegur”, og ég taldi þá og taldi enn að það sem Ísland þarfnast umfram allt þessa dagana sé heiðarlegur og sanngjarn pólitískur leiðtogi.

Það er skemmst frá að segja að Steingrímur er stærstu pólitísku vonbrigði lífs míns.

Lengi framan af árinu hélt ég í vonina um að þarna færi heiðarlegur og grandvar maður sem hefði bara lent í vondum félagsskap (Samfylkingin) sem beitti honum miskunarlaust í skítverk sín, en Steingrímur er því miður endanlega búinn að afhjúpa sig sem einn allra mesti lýðskrumari í stétt stjórnmálamanna sem komist hefur til valda hér í síðari tíð. Tvöfeldni hans og svik við fyrri orð eiga sér fáar hliðstæður, ef nokkrar, svo umfangsmikil eru þau.

Sum viðbrögðin hérna, líkt og hjá "Níelsi A. Ársælssyni" segja sína sögu. Ef þetta er sýnishorn af þeirri manngerð sem laðast að Steingrími og heldur enn uppi vörnum fyrir hann ... tjah, þá er framtíðin hrollvekjandi.

Ég trúi því ekki fyrr en í fulla hnefana að flokksfólk í VG, sem ég held að sé upp til hópa ágætis fólk, sitji aðgerðarlaust hjá á meðan Steingrímur eyðileggur einn síns liðs orðspor VG og trúverðugleika.

Garðar Guðnason (IP-tala skráð) 7.12.2009 kl. 19:33

26 Smámynd: Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir

hvað hver gerði vita allir, en Steingrímur og Jóhanna voru með allt í hendi sér til að bregðast við stöðunni fyrir hönd þjóðarinnnar, og það er það sorglega, að þau skuli velja þessa aðferð, frekar en að hafa þjóðina með sér. Við erum engir vitleysingar, og einhver vegin þá er það þannig að þegar sannleikurinn er sagður þá skilja allir, og velja þennan baktjaldaleik frekar, er búið að gera það að verkum að þau eru rúinn öllu trausti, og það er öllu verra.

Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 7.12.2009 kl. 19:53

27 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

"Það er svo gaman að þú nefnir „Sjallasamninginn“ um Icesave. Þar er um að ræða viljayfirlýsingu Áslaugar Árnadóttur stjórnarformanns Tryggingasjóðs, Baldurs Guðlaugssonar þáv. ráðuneytisstjóra Fjármálaráðuneytisins og hollenska sendiherrans, sem gerð var viku eftir hrun. Sem slík hefur hún ekkert frekara gildi, hún varð aldrei samningur."

Haa ?  Nú þú ættir kannski að segja Hollendingum það:

"Þegar viðræður hófust að nýju undir forystu nýrrar samninganefndar héldu Hollendingar því fram að þeir hefðu í raun í höndum samning um 6,7 % vexti, 10 ára lánstíma og að allt félli á ríkissjóð og gáfu það ekki frá sér fram á síðasta dag að það væri sú viðmiðun, sem vinna ætti út frá. Því hafnaði Ísland alfarið."

http://www.island.is/endurreisn/stjornvold/adgerdir-stjornvalda/samantekt-adgerda/icesave-samningurinn/greinargerd-med-frumvarpi/#

Já já það er eigi að undra að ykkur sjöllum skuli finnast þetta gaman !  Að semja svona geipilega af sér !  Svona ætluði líka að semja við breta þið Baldur sem fór fyrir samninganefndinni fyrir hönd Ríkisstjórnar sjalla. 

Og þið sjallar fögnuðu ógurlega:

"Að loknum uppbyggilegum viðræðum hafa hollensk og íslensk stjórnvöld náð samkomulagi um lausn mála hollenskra eigenda innstæðna á IceSave-reikningum Landsbankans.

"Fjármálaráðherra Hollands, Wouter J. Bos, og fjármálaráðherra Íslands, Árni M. Mathiesen, tilkynntu þetta.

Ráðherrarnir fagna því að lausn hafi fundist á málinu. Wouter J. Bos kvaðst einkum ánægður með að staða hollenskra innstæðueigenda væri nú skýr. Árni M. Mathiesen bætti við að aðalatriðið væri að málið væri nú leyst."

http://www.forsaetisraduneyti.is/frettir/nr/3047

Ómar Bjarki Kristjánsson, 7.12.2009 kl. 20:34

28 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta var enginn bindandi samningur, Ómar Bjarki (og var þetta ekki einmitt samningurinn sem var nánast jafnóðum hætt við?). Allir slíkir samningar eru gerðir með fyrirvara um formlegt samþykki samkvæmt reglum lýðveldisins, og ljóst er af stjórnarskrá, að valdið er Alþingis eins að samþykkja endanlega slíka samninga sem fela í sér skattheimtu hér á landi og/eða skuldsetningu ríkisins.

Reyndar gerir stjórnarskráin líka ráð fyrir valdi þjóðarinnar í slíku máli í því neyðartilviki, að forsetinn telji sér ekki fært að staðfesta lögin, heldur verði að skjóta málinu til þjóðaratkvæðagreiðslu. Við skulum vona, að málið fari á leið, ef stjórnarmeirihlutinn reynir (með eða án ofbeldis*) að fá frumvarpið samþykkt á þingi.

Einstaklingar, þótt þeir flaggi embættistitlum, hafa aldrei fengið slíkt vald í hendur.

Ómar Bjarki Kristjánsson vinnur að því baki brotnu að reyna að koma okkur inn í Evrópubandalagið – á hvers vegum, veit ég ekki.

* Vera má, að bæði Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Atli Gíslason hafi verið til neydd að hverfa af þingi. Atli er nú kominn í "frí" og hún í fæðingarorlof, sem vel hefði mátt bíða. Bæði virðast þó hafa verið þvinguð til að gefa út Icesave-sinnaðar yfirlýsingar, áður en þau hættu, sbr. nýleg ummæli Atla (þar sem hann taldi Icesave ekki málið, af því að ríkið skuldi miklu meira!) og frægan Kastljóssþátt með Guðfríði sem vægast sagt var þar naumast í því jafnvægi sem hún er þekktari af.

Jón Valur Jensson, 7.12.2009 kl. 21:29

29 Smámynd: Jón Valur Jensson

Við skulum vona, að málið fari ÞÁ leið ...

Jón Valur Jensson, 7.12.2009 kl. 21:59

30 identicon

Vill benda fólki hér á að bæði heilög Jóhanna og Steingímur landráðamaður(ekki mín orð heldur hans) voru bæði í ríkisstjórn hér áður fyrr og gott ef ekki heilög Jóka lækkaði öryrkjabæturnar á sínum tíma þegar hún var ráðherra þá, og vill endilega benda mönnum á hvað kostaði og hver sá um keyrslu í flugvöll á Langanesi þegar Steini var ráðherra, hver var kostnaðurinn við þann flugvöll og hver fékk mestu peningana úr því, minnir að sá maður heitir Sigfús og rak fyrirtæki með vinnuvélum þar í heimabæ Steingríms J. Sigfússonar.  Tekur einhver eftir samheitum hér.

Bjarni (IP-tala skráð) 7.12.2009 kl. 22:17

31 identicon

Horfði á fréttir á RUV í kvöld. Hefði betur sleppt því. Svavar Halldórsson fréttamaður átti einn af sínum döprustu dögum í starfi. Stundum ágætur, jafnvel góður fréttamaður. Spurði hann Indriða einnar gagnrýninnar spurningar? Onei, ekki einnar einustu! Jafnvel þótt að nú liggi fyrir að töfin á endurskoðun AGS sé alveg heimatilbúin, af því að það yrði nú voða pólitískt erfitt fyrir ríkisstjórnina að klára málið fyrir kosningar. Síðan kemur rúsínan í pysluendanum: "Indriði gaf einnig upp einkatölvupóstfang sitt enda var hann á leið til samningafundar um Icesave ytra og vildi getað lesið svarið fyrir fundinn". Á að halda því fram að það sé bara hægt að lesa póst sem sendur er á svavar@ruv.is í Efstaleytinu? Og hvergi annars staðar, amk. alls ekki í útlöndum? Ruglinu sem "Fréttastofa" RUV leyfir sér að demba yfir áhorfendur þessa dagana eru greinilega engin takmörk sett.

baldur (IP-tala skráð) 7.12.2009 kl. 22:44

32 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Sættið ykur bara við það að ekkert merkilegt er í þessum pósti.

Það eina merkilega er að einhverjir vildu endiega koma þessu á wikileaks.  Einhverju emaili sem ekkert er !

Böndin berast að sjöllum og stjórnarandstöðu því viðvíkjandi.  Óneitanlega.  Smellpassar við það gerningarmoldviðri sem hefur verið þyrlað upp á þeim bæjunum almennt varðandi mál það er til umræðu er.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 7.12.2009 kl. 23:01

33 Smámynd: Elle_

Níels skrifaði: "Fannar.

Hvaða fjandans landráð ?

Ég hika ekki við að verja minn mann og læt ekki mellur íhaldsins komast upp með lygar átölulaust."

Ekki verja þessi orð hann Steingrím neitt.  Steingrímur J. Sigfússon hefur gjörsamlega brugðist vonum þeirra sem héldu að hann væri heiðarlegur, rökfastur, sterkur leiðtogi og kusu hann á þeim forsendum.  Og svipaða sögu segja nokkrir að ofan.  Það var hans vegna og nokkurra annarra manna sem ég kaus líka VG.  Og allir hafa þeir líklega brugðist í Icesave nema kannski Lilja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson.  

Icesave-ríkisstjórnin verður að víkja.  Óheilindi stjórnarinnar koma í ljós dag hvern.  Falin gögn og skjöl. Leyni hitt og leyni þetta.  Lygar, ofbeldi og ótrúleg svik gegn Alþingi og þjóðinni.   Og hvað sem Ómar Kristjánsson segir það oft skuldum við EKKI Icesave.  Og takk kærlega fyrir pistilinn Andrés Magnússon.  Við þurfum á öllum pistlum og skrifum að halda sem upplýsa óheilindi stjórnarflokkanna.  

Elle_, 8.12.2009 kl. 00:09

34 identicon

Ég hef haldið því fram í rúmt hálft ár að SteinFREÐUR er algjörlega að bregðast sem formaður VG.  Hann er ítrekað að taka rangar & stórhættulegar ákvarðanir.  Ákvarðanir sem kjósendur VG upplifa sem svik.  Fylgi flokksins hrynur og Samspillingin brosir út í bæði á meðan.  Verkstjórn Jóhönnu & Steingríms er því miður skelfilega léleg, í raun til skammar.  Það verður að koma þessari gagnlausu & stórhættulegu stjórn frá, þó svo það þýði að Ránfuglinn komist að völdum.  Þið þurfum allaveganna ríkisstjórn ÁN Samspillingarinnar og ég tel daga Steingríms & Jóhönnu talda.

kv. Heilbrigð skynsemi (fun.blog.is)

Jakob Þór Haraldsson (IP-tala skráð) 8.12.2009 kl. 09:26

35 identicon

Ótrúlegt.  Bara allir helstu sorapennar íhaldsins samankomnir á einu bloggi.  Jón Valur sakar einhvern hér um að skrifa undir merkjum hakakrossins, má kanski benda Jón Vali á að ef maður skrifar án þess að vera skráður inn þá hefur maður ekkert vald yfir hvaða logo birtist.  -  En þetta er reyndar nokkuð típískt fyrir sjallamellurnar sem settu landið á hausinn og kenna nú öllum öðrum um , þvælast fyrir björgunarstarfinu, komu þjófum og kúlulánaþegum á þing og kunna ekki að skammast sín.  Já talandi um landráðapakk,- þá hef ég það allavega á hreinu fyrir mitt leyti í hvaða flokki það er helst að finna.

One (IP-tala skráð) 8.12.2009 kl. 12:27

36 identicon

Hvaða helvítis björgunarstarf er verið að vinna??? Krónan fellur og fellur ríkisstjórnin mætir ekki á alþingi. Skjaldborg heimilana hefur hvergi sést ja nema þið teljið að skattahækkanir teljist til skjaldborgar. Helstu gjörningamenn hrunsins Bónus feðgar standa þétt á bak við Samfylkinguna og fá á móti Haga til baka fyrir sama og ekkert Fjölmiðlana keyptu þeir aftur (með hvaða peningum ætli þeir hafi gert það) og breyta þeim af fullu afli gegn öllum sem talaá móti Samfylkingunni, enda sást það í nýju fjölmiðlalögunum, þar á að taka á öllu ja nema því sem máli skiptir sem er eignarhaldið, það má jú ekki hreyfa við því á meðan Samfylkingarmenn eiga þá. Held reyndar að Evrópusinnar ættu að flytja bara til Evrópu í stað þess að draga okkur hin þangað, og þá helst áður en þeir eru búnir að samþykkja Icesave.

Sigurður Hjaltested (IP-tala skráð) 8.12.2009 kl. 18:49

37 identicon

Hvernig væri að fara að hætta að tala um hægri og vinstri,og sjalla og allaballa,og frammara og valsara,og átta sig á að öxulveldi hins illa er með 4 grímur.Meðan almenningur ekki áttar sig á þessu,og er upptekinn við að rökræða hvort hægri sé meira til vinstri en vinstri,geta mónótíkusar þvælt,pælt og plottað  um áframhaldandi arðrán landsins,með dyggum stuðningi siðblinduvíkinganna.Og fyrir Ísland,að sækja um inngöngu í ESB er svipað því að gyðingur sæki um inngöngu í nasistaflokkinn.Mónótíkusar ESB eru enn minna fyrir vilja almennings en sólótíkusar öxulveldis hins illa.

earthvomit (IP-tala skráð) 16.12.2009 kl. 21:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband