Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Árangur Ingibjargar Sólrúnar

Ég las athyglisverða bloggfærslu míns góða bloggvinar Hjartar J. Guðmundssonar, þar sem hann fjallar um væntingar stuðningsmanna Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, og vonbrigði þeirra. Hann rifjar upp margvíslegar spásagnir þeirra um hvernig veröldin myndi verða betri með hana við stjórnvölinn, spásagnir, sem fæstar rættust. Þetta er ágætt safn tilvitnana, sem ber óneitanlega vott um sérkennilega persónudýrkun. Hvernig hún rímar svo við erindi nútímalegs jafnaðarmannaflokks á nýrri öld og allt það er verðugt viðfangsefni fræðimanna.

En: Ég er sammála Hirti um að Ingibjörgu Sólrúnu hafi ekki tekist að uppfylla spádóma stuðningsmanna sinna um kjörfylgi eða kosningasigra, en má hitt ekki vera augljóst að henni hefur orðið verulega ágengt við að leiða Samfylkinguna til áhrifa? Á laugardag verður ríkisstjórnin 100 daga gömul og hveitibrauðsdagar hennar að baki. Getur Samfylkingin ekki vel við unað árangur sinn á þeim tíma, sem jafnan er mikilvægastur í lífi hverrar ríkisstjórnar? Með fullri virðingu fyrir okkar ágætu flokksbræðrum í ríkisstjórn — hið nýja þing hefur enn ekki látið til sín taka af alvöru — sýnist manni að Samfylkingin leiði umræðuna, hvert sem hún svo leiðir.

Þá má ekki gleyma hinu, að Ingibjörgu Sólrún hefur tekist það á undraskömmum tíma, sem henni hafði ekkert gengið við áður: að ná undirtökunum í flokki sínum og ekki síst þingflokknum, sem hún gat ekkert við tjónkað áður. Í því samhengi er rétt að benda á eitt, sem ekki vakti neina athygli á sínum tíma: Þegar flokksstjórn Samfylkingarinnar samþykkti tillögu formanns síns um stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn, fylgdi ein lítil tillaga með, sem samþykkt var umræðulaust. Hún gaf formanni Samfylkingarinnar fullt umboð til þess að hrókera í ríkisstjórn eins og henni sýndist, án þess að bera það undir flokksstjórn eða þingflokk.

Ingibjörg Sólrún er utanríkisráðherra og hefur allt það sviðsljós, sem henni er nauðsynlegt til þess að blómstra. Embætti hennar er einnig öðrum fremur hentugt til þess að hafa þá veislu, sem flokksformanni best hentar. Hún hefur nú þegar sýnt að hún kann að nota völd af því taginu til þess að styrkja stöðu sína.

Geta Samfylkingarmenn kvartað þó þingstyrkurinn sé minni en í þeirra villtustu draumum? 


Það er stórt orð einelti

Ég hef lítillega fylgst með krytunum í kringum Q-bar, enda bý ég við Ingólfsstræti og þar að auki áhugamaður um skemmtanalíf í Miðbænum. Er raunar fyrrverandi atvinnumaður á þeim vettvangi, því ég var meðal eigenda Kaffibarsins um hríð og þekki vel þann núning, sem getur orðið milli veitingastaða og íbúa.

Erna Valdís Valdimarsdóttir gekk við hér á heimilinu um liðna helgi og bauð okkur að skrifa undir mótmæli sín, en við afþökkuðum það reyndar; við höfum ekki ama af Q-bar umfram aðra veitingastaði hér í bænum.

Auðvitað er erilsamt hér í nágrenninu um helgar: hróp og vondur söngur, ill umgengni og annað það álag, sem fylgir skemmtanalífinu. Mér var hins vegar fullkunnugt um það þegar ég flutti í Miðbæinn og þarf að sýna því umburðarlyndi. Allir staðir hafa sína kosti og ókosti og mér finnast kostirnir veigameiri en ókostirnir. Einhverjir eru á öðru máli og þess vegna búa þeir annars staðar. Þannig virkar þetta nú, svona almennt, en það þýðir ekki að fólk eigi bara að láta hvað sem er yfir sig ganga hér í Miðbænum, að veitingamenn geti farið sínu fram án ábyrgðar og yppt öxlum þegar nágrannarnir ærast.

Ég skil þess vegna afstöðu Ernu mætavel, hún býr fast við Q-bar og hefur verulegt ónæði af, sem ekki hefur minnkað eftir að reykingabannið var sett á. Það veldur auknu rápi, pallurinn fyrir utan er stappfullur af fólki, en þar að auki er talsvert rennerí frá staðnum yfir í port þarna bak við, en það er við bakdyrnar hjá Ernu. Þar sinna gestirnir alls kyns erindum.

Ekki síst er þó ónæðið af völdum hávaða frá Q-bar, en hann hefur aukist til muna frá fyrri tíð. Meðan Ari í Ögri var rekinn þarna var þar afdrep peysukomma og misupprennandi skálda, þar sem Leonard Cohen hljómaði ekki ýkja hátt. Þegar Q-bar var settur á laggirnar var því aldeilis breytt, nýtt hljómflutningskerfi sett upp og beinlínis gumað af því að nú „yrði allt sett í botn“. Síðan hefur dunað þar HNRG og Eurotrash tónlist á fullu blasti fram undir morgun, sem er í takt við eðli staðarins.

Mér finnst það því harla léleg vörn hjá Ragnari Ólafi Magnússyni, sem á helming í Q-bar og sjá má á myndinni að ofan, að bera það upp á Ernu, að andófi hennar valdi fordómar gegn samkynhneigðum. Í vorri pólitísku réttrúnaðarkirkju eru það harla alvarlegar ásakanir, sem þyrfti þá að rökstyðja með greinarbetri hætti en Ragnar gerir. Q-bar er ljóslega sá veitingastaður, sem mestu ónæði veldur fyrir Ernu, og fráleitt að kalla það einelti, þó hún dirfist að benda á það hvaðan mestur hávaðinn komi inn á heimili sitt. Fram á morgun.


mbl.is Telur um einelti að ræða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dellufjölmiðlar

Ég sé að vatnaskil eru í blaðaútgáfu vestanhafs, því útgáfu Weekly World News hefur verið hætt eftir 28 glæsta sögu geðveikra „frétta“. Í því var aldrei að finna satt orð og dellan gat verið dásamlega fyndin. Samt átti maður erfitt með að verjast þeirri hugsun að einhversstaðar væri til fólk, sem tryði fregnum blaðsins um andlitsbirtingu Elvisar á framandi hnöttum, yfirnáttúrulegar verur á vappinu ásamt geimverum og svo framvegis. Miðað við auglýsingarnar var trúgirni nokkur meðal lesendanna, þar auglýstu nær einvörðungu spámiðlar, stjörnuspekingar og ámóta. Blaðamaðurinn Stan Sinberg skrifar skemmtilega minningargrein um sinn gamla miðil á Salon.

Weekly World News svipaði um margt til hins frábæra Lundúnablaðs Sunday Sport, þar sem blaðamennirnir stærðu sig af því að ekki væri neitt satt í því nema sjónvarpsdagskráin. Meira að segja lungnahlífarnar á fáklæddum fyrirsætum blaðsins væru óekta. Þegar ég var við nám í Lundúnum vaknaði maður stundum um helgar með þynnku beint upp úr Opinberunarbókinni og þá var Sunday Sport tilvalið meðal til þess að leiðrétta fremur þungbúna afstöðu til lífsins.

En auðvitað er til nóg af illa upplýstu og trúgjörnu fólki, nú sem fyrr. Menn þurfa ekki að skoða sölutölunar hjá National Enquirer (sem selst alveg prýðilega hér á Íslandi) til þess að komast að því, því hvað má segja um allt samsæriskenningaliðið, álfaskoðarana eða allan þann fjölda, sem spilar í lottóinu af því að það lagði sig ekki fram í stærðfræði á sínum tíma?

Hér á Íslandi hefur samt ekki komið upp hrein lygapressa af þessu tagi. Þó Séð og heyrt geri út á svipaðan markað er þar ekki að finna slíkar fréttir, þó efast megi um fréttagildi blaðsins á stundum. Um tíma var DV komið á hálari ís, en fór samt ekki alla leið. Sjálfsagt er eina dæmið um hreinar lygafréttir í íslenskum miðlum Gula Pressan, sem Gunnar Smári Egilsson ritstýrði af röggsemi hér á árum áður. Að vísu var það aðeins ein síða í Pressunni og hún gat verið óborganlega fyndin. Á þeim árum gáfu kommarnir út Þjóðviljann eða Vikublaðið undir slagorðinu „Til vinstri — þar sem hjartað slær“, en Gula Pressan valdi sér annað: „Fyrir neðan beltisstað, þar sem það er sárast“.  En það er svo skrýtið að stöku sinnum kom upp missilningur hjá lesendum blaðsins, sem lögðu trúnað við fréttir Gulu Pressunar og býsnuðust mjög. Sem gerist reglulega þegar fréttir The Onion fara á flakk, en dæmi eru um að alvöru fréttamiðlar hafi étið þvæluna upp og birt sem sannar fréttir.

En auðvitað vantar Ísland ekki fjölmiðil, sem skáldar upp ólíkindafréttir. Við eigum alveg nóg með miskilninginn, missagnirnar og mistökin, sem reglulega má finna í þeim, sem fyrir eru.


Vefur og vanræksla Valgerðar

Hinn góði ritstjóri á Eyjunni, Pétur Gunnarsson, bloggaði á föstudag um fréttir af stöðu Ratsjárstofnunar og gerði sér upp nokkra undrun yfir því hvernig Bjarni Benediktsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, ætti að vera að hnýta í Geir H. Haarde, forsætisráðherra. Bjarni hefur látið í ljós efasemdir um hvernig hefur verið haldið á málefnum stofnunarinnar í aðdraganda þess, að Íslendingar taki að öllu leyti við rekstri hennar og kostnaði við það, alltof margir þræðir séu lausir um hver verkefni hennar séu, í hvers þágu og svo framvegis. Sérstaklega í ljósi þess að Bandaríkjamenn telja sig ekki þurfa á merkjum frá íslenska ratsjárkerfinu að halda lengur. Lætur Pétur eins og að með þessu hljóti Bjarni að vera að agnúast út í Geir, þar sem hann hafi „tekið forræði samninga við Bandaríkin með sér úr utanríkisráðuneytinu yfir í forsætisráðuneytið“ á sínum tíma.

Þetta er einkennileg skoðun hjá Pétri fyrir margra hluta sakir. Og ekki verður hún minna rannsóknarefni í ljósi þess að pólitískt átrúnaðargoð hans, Valgerður Sverrisdóttir, hafði nákvæmlega sama boðskap að flytja heimsbyggðinni í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins á laugardag. Það er vitaskuld ótrúleg tilviljun, sem kann að valda byltingu í líkindastærðfræði, en við skulum líta á spunann og hvers konar vefur varð úr.

Í fyrsta lagi er óskiljanlegt að greindur maður eins og Pétur skuli ímynda sér að vegna þess að Geir hafi haldið áfram að annast samningaviðræðurnar við Bandaríkjamenn (m.a. vegna þess að Valgerður, arftaki hans í utanríkisráðuneytinu, treysti sér ekki til þess), eigi hann þaðan í frá að bera ábyrgð á öllum þar að lútandi málaflokkum. Eins og Pétur víkur raunar sjálfur að kynnti Geir niðurstöðu viðræðnanna hinn 26. september í fyrra og þar með lauk aðkomu hans að málinu. Allan þann tíma hafði utanríkisráðuneytið vitaskuld farið með forræði Ratsjárstofnunar, flugumsjónar á Keflavíkurflugvelli, Leifsstöðvar og alls þess annars, sem á grundvelli fortíðarfyrirkomulags um varnarstöðina á Miðnesheiði, var haft til umsýslu í utanríkisráðuneytinu. Þannig var það fyrir viðræðurnar, á meðan þeim stóð og eftir þær. Eða heldur Pétur virkilega að Geir hafi flutt forræði Fríhafnarinnar í KEF með sér yfir forsætisráðuneytið?

Í öðru lagi er vandalaust að átta sig á því að utanríkisráðuneytið bar fulla og algera ábyrgð á afdrifum íslenska loftvarna- og ratsjárkerfisins. Á því lék enginn vafi, eins og best má sjá á því að utanríkisráðuneytið, en ekki forsætisráðuneytið eða nokkurt annað stjórnvald, átti í viðræðum við bandarísk yfirvöld um framtíð þess á fundum í Brussel og Reykjavík, eins og fréttatilkynningar voru sendar út frá utanríkisráðuneytinu um hinn 23. febrúar og 11. maí

Í þriðja lagi er fróðlegt að bera þessa skoðun Péturs saman við skrif hans um þessi málefni í janúar síðastliðnum. Þá kepptist hann við að lofsyngja Valgerði Sverrisdóttur, þáverandi utanríkisráðherra, fyrir það að hafa innleitt glasnost í íslensk utanríkismál, hvorki meira né minna, með því að aflétta leynd af viðaukum gamla varnasamningsins frá 1951, en leyndina sagði hún bera keim af karllægu pukri í reykfylltum bakherbergjum. Bæði henni og Pétri láðist hins vegar að nefna, að ákvörðunin um afléttingu leyndarinnar var tekin í utanríkisráðherratíð Geirs H. Haardes (sem er karlmaður en reykir held ég ekki), en hins vegar var beðið með að fylgja henni eftir uns málið hafði farið sína leið í bandarísku stjórnsýslunni. Þrátt fyrir áskorun undirritaðs var leynd ekki aflétt af málaskrá ráðuneytisins til þess að upplýsa um hvernig ákvarðanatökunni var háttað og með því lauk glasnostinu frá Lómatjörn.

Pétur dró þó aðeins í land síðastliðinn vetur með fullyrðingar sínar um að forsætisráðherra hefði forræði um allt það, sem að varnarsamningnum lyti. Hann bætti við færslu sína:

Það er ofsagt hér að ofan að formleg samskipti hafi verið á höndum forsætisráðuneytisins - vitaskuld ber utanríkisráðherra stjórnskipulega ábyrgð á þessum málum en ekki forsætisráðherra.

Nú virðist Pétur hafa gleymt því öllu.

En hann veit betur og margnefnd skoðun hans er því í fjórða lagi athyglisverð fyrir þær sakir að hann er að reyna að drepa á dreif þeirri staðreynd að ábyrgðina á þessum vandræðum með Ratsjárstofnun nú hvílir á herðum skjólstæðings hans, frú Valgerðar Glasnost Sverrisdóttur, varaformanns Framsóknarflokksins. Frá því að Geir H. Haarde kynnti samkomulagið við Bandaríkjamenn (í félagi við Jón Sigurðsson, þáverandi formann Framsóknarflokksins og arftaka Valgerðar í Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu) í Þjóðmenningarhúsinu hinn 26. september 2006, sat Valgerður í stóli utanríkisráðherra í 240 daga, að því er virðist án þess að hirða hið minnsta um hvert stefndi með Ratsjárstofnun, þó undirsátar hennar funduðu um það með fulltrúum Bandaríkjastjórnar, en það var í maí 2006, sem varnarliðið hætti að fylgjast með merkjum frá Ratsjárstofnun. Hún vissi vel um þá stöðu og haft var eftir henni í fjölmiðlum í september síðastliðnum að þarna væri brýnt úrlausnarefni. Hún gerði bara ekkert til þess að leysa það.

Ég er enginn sérstakur aðdáandi núverandi utanríkisráðherra eða verkefnavals hennar, en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur aðeins setið 80 daga í embætti og þó hún hafi sjálfsagt mátt leggja meiri áherslu á að ráða úr framtíð Ratsjárstofnunar, væri afar ósanngjarnt að leggja sökina að hennar dyrum. Sökina ber fyrst og fremst Valgerður Sverrisdóttir, átrúnaðargoð Péturs, sem hafði setið 103 daga í ráðuneytinu þegar nýja samkomulagið var kynnt og vanrækti það svo í 240 daga til viðbótar að grípa til viðeigandi ráðstafana. Værukærð og vanræksla Valgerðar  í kjölfar samningsins var ekki einsdæmi eins og alþjóð varð ljóst í nóvember síðastliðnum þegar milljónatjón varð í íbúðarhúsum á Keflavíkurflugvelli vegna fyrirhyggjuleysis hins nýja húsvarðar. Það var dæmigert.

Í fimmta lagi gaf Pétur til kynna að vandræði stofnunarinnar nú megi rekja til þess að sjálfstæðismenn hafi ekki viljað afgreiða frumvarpsdrög Valgerðar Sverrisdóttur um nýja lagaumgjörð Ratsjárstofnunar úr ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili. Það þarf eindreginn brotavilja til þess að setja málin fram með þeim hætti. Valgerður vildi binda þetta lén við utanríkisráðuneytið fyrir fullt og fast, hafa allt óbreytt og tryggja þannig lífsviðurværi Ólafs Arnar Haraldssonar, forstjóra Ratsjárstofnunar (og fyrrverandi þingmanns Framsóknarflokksins), þó engin ástæða væri til þess lengur að Ratsjárstofnun heyrði undir utanríkisráðuneytið fremur en umhverfisráðuneytið, svo annað ámóta fráleitt dæmi sé tekið. Eðlilegast væri vitaskuld að hún hefði verið flutt undir dómsmálaráðuneytið sem hluti af öryggiskerfum landsins, nú eða undir samgönguráðuneytið og þá væntanlega sem undirstofnun Flugmálastjórnar eða hluti Flugstoða. Það var engin tregða af hálfu sjálfstæðismanna til þess að samþykkja nýjan lagagrundvöll Ratsjárstofnunar, heldur það fyrirkomulag, sem framsóknarmenn kusu, en það miðaðist ekki við ytri þarfir eða hagsmuni þjóðarinnar. Það helgaðist annars vegar af valdahagsmunum ráðuneytisins, sem engan spón vildi missa úr sínum aski, og hins vegar valdahagsmunum Framsóknarflokksins.

Það segir kannski mesta sögu um málið að Valgerður Sverrisdóttir fékkst ekki til þess að lýsa þessu sögulega frumvarpi frá síðasta vetri, sem aldrei varð, í hádegisfréttunum í dag og bar fyrir sig nauðsynlegri leynd! Hvar var glasnostið þá, Pétur? En auðvitað stenst það ekki, fremur en annað í málflutningi framsóknarmanna, að leynifrumvarp Valgerðar hefði skipt sköpum, enda var þá engan veginn ljóst hvaða verkefnum Ratsjárstofnun skyldi sinna. Tómt mál væri að tala um að Alþingi hefði getað ákveðið það einhliða með lögum: viðræður við Bandaríkjamenn höfðu ekki einu sinni hafist þegar hún fór að bauka þetta, hvað þá að utanríkisráðuneytið hefði myndað sér einhverja afstöðu. Það blasir við að þetta tal um leynifrumvarp Valgerðar er hreinn fyrirsláttur; aumkunarvert yfirklór til þess að reyna klína ráðaleysi, vanrækslu og embættisafglöpum Valgerðar Sverrisdóttur á aðra.

Í sjötta lagi er með ólíkindum að framsóknarmenn af öllum skuli kjósa að færa vanda vegna Ratsjárstofnunar sérstaklega í tal, alveg burtséð frá trassaskap Valgerðar í embætti og öldungis óbreyttri starfsemi stofnunarinnar og kostnaði, þrátt fyrir gerbreytt umhverfi. Það er sjálfsagt að rifja upp sögu stofnunarinnar, sem er samofin flokksgæðingaharmsögu Framsóknarflokksins og beinlínis á mörkum hins löglega. Mönnum hefur blöskrað hroki Ólafs Arnar Haraldssonar, forstjóra Ratsjárstofnunar, en hann hefur látið eins og málefni stofnunarinnar komi öðrum hreint ekki við og síst almenningi, sem fær að borga brúsann. Að ekki sé minnst á framgöngu Gunnlaugs M. Sigmundssonar, sem einnig er fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins. Þegar hann var framkvæmdastjóri Þróunarfélags Íslands keypti hann liðlega fjórðungs eignarhlut í Kögun, en hún fékk einkarétt til þess að annast rekstur og viðhald hugbúnaðar fyrir ratsjárkerfið. Þetta sætti miklu ámæli á sínum tíma en það breytti engu um orðinn hlut. Og allt í boði og skjóli Framsóknarflokksins. 

Í sjöunda lagi snerist lokaliðurinn í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 26. september 2006 um, að gerðar yrðu ráðstafanir til að lesa úr öllum merkjum frá ratsjárstofnun, sem þýðingu hefðu varðandi eftirlit með flugvélum í lofthelgi Íslands. Við núverandi aðstæður er augjóst að eftirlit með þessum merkjum ætti annars vegar að vera hjá flugumferðarstjórn og hins vegar þeim, sem manna vaktstöðina við Skógarhlíð. Flóknara þarf það nú ekki að vera. Ég þekki lítillega til umræðu um varna- og öryggismál innan Sjálfstæðisflokksins og kannast ekki við að þar hafi verið minnsti ágreiningur um þessi mál, en vilji frú Valgerður og lærisveinn hennar liggja sjálfstæðismönnum á hálsi fyrir að hafa viljað átta sig á því, hvert skyldi vera raunverulegt verkefni Ratsjárstofnunar eftir brottför varnarliðsins, þau um það. En þá er líka rétt að rifja það upp að það var Valgerði sérstakt kappsmál, að engu yrði breytt um starfshætti innan utanríkisráðuneytisins og stofnana á þess vegum fyrir kosningarnar í maí og var engu líkara en að þáverandi utanríkisráðherra vildi ekki horfast í augu við breyttar aðstæður og nýtt hlutverk, þótt varnarliðið væri farið.

Í áttunda lagi virðist framsóknarmafían enn vilja loka augunum fyrir veruleikanum, annars vegar til þess að verja vígi gæðinganna og hins vegar til þess að dylja vanrækslu og vitleysu Valgerðar í utanríkisráðuneytinu. Í næstu viku hefjast heræfingar hér á landi, sem meðal annars fela sér sér flug orrustuþota.  Þá hefst einhver söngur um að Ratsjárstofnun sé varaskeifa í þeim og þess vegna sé afar mikilvægt að starfsemi hennar verði bara áfram eins og verið hefur. Það er vitaskuld tómt píp, Ratsjárstofnun er engin varaskeifa, hvorki við slíkar æfingar né ef til hernaðar kæmi. Bandaríkjamenn koma einfaldlega með allt sitt með sér og eru ekki að púkka upp á íslenska ratsjárkerfið fremur en hið grænlenska. Eftir að varnarliðið hvarf héðan varð Ratsjárstofnun þeim einskis virði, bandarískur herafli notar aðra, nýrri og fullkomnari tækni til að fylgjast með flugumferð. Þjóðhyggjumennirnir í Framsóknarflokknum telja NORAD sjálfsagt ekki standast hinni þjóðlegu Ratsjárstofnun sinna manna snúning og því skal hvað sem tautar og raula halda öllu í horfinu á kostnað skattgreiðenda svo Ólafur Örn týni ekki gullskeifunni varaskeifunni sinni.

Látið er í veðri vaka, að merki frá Ratsjárstofnun hér hafi gildi fyrir evrópskt eftirlitskerfi Atlantshafsbandalagsins, en er það svo? Með hvaða hætti? Á þá að miðla upplýsingum héðan beint til Evrópu? Hvert? Hvaða orrustuþotum verður stjórnað í gegnum kerfið? Ef nota á kerfið með stjórnstöð fyrir orrustuþotur eða eldflaugakerfi, þarf væntanlega að setja lög um heimildir fyrir starfsmenn íslenska ríkisins til að sinna hernaðarlegum störfum. Kannski eitthvað slíkt hafi verið að finna í hinu fræga leynifrumvarpi Valgerðar. Maður verður að vona að hún eða Pétur treysti sér til þess að svara því. Þó ekki væri nema fyrir glasnostið.

Í níunda lagi var ratsjárkerfið sett upp á sínum tíma til þess að styrkja varnaviðbúnað hér vegna vaxandi spennu á Norður-Atlantshafi undir lok Kalda stríðsins. Sú spenna er löngu horfin, ratsjárkerfið gegnir engu hlutverki hvað varðar varna- og öryggishagsmuni Íslands og ný tækni hefur leyst það af hólmi þegar á þarf að halda. Er réttlætanlegt að íslenskir skattborgarar borgi milljarð á ári, svo gömlum framsóknarþingmanni haldist á þægilegri innivinnu?

Í tíunda lagi situr höfuðspurningin enn eftir: Af hverju er starfsemi af þessu tagi á vegum utanríkisráðuneytisins? Hvar í ósköpunum er þannig staðið að málum? Valgerði þóttu það óþægilegar spurningar þá og hún virðist enn vita skömmina upp á sig, þó hún virðist ekki kunna að skammast sín. Nema náttúrlega hún hafi étið þetta allt beint upp eftir Pétri. Auðvitað á utanríkisráðuneytið ekkert með að vera að vasast í þessu öllu, eins og ég hef áður ritað um; það samræmist ekki hlutverki þess að vera varnamálaráðuneyti í hjáverkum. Í krafti gamla varnasamningsins við Bandaríkin — annað ríki með herafla hér á landi — þótti eðlilegast að utanríkisráðuneytið færi með þau mál, sem tengdust varnastöðinni, en um leið og bandaríski fáninn var dreginn niður hinsta sinni á Keflavíkurflugvelli, þraut allar forsendur þess. Nú er enda verið að vinda ofan af því og færa hina ýmsu starfsemi til viðeigandi ráðuneyta, fyrst og fremst dómsmálaráðuneytis, samgönguráðuneytis og fjármálaráðuneytis, en ekki er útilokað að eitthvað af henni verið einkavætt. Eftir stendur þó furðan, að hin sérstöku öryggissvæði á vellinum verða áfram á vegum utanríkisráðuneytisins og það mun áfram þykjast vera varnamálaráðuneyti. Væri nær að gagnrýna forsætisráðherra fyrir að gera ekki breytingar á því fráleita fyrirkomulagi, en stefnulausir tilburðir utanríkisráðuneytisins við að leita varnasamstarfs út um allar trissur er við það að gera landið að athlægi á alþjóðavettvangi.

Forsætisráðherra á síðasta orðið um verkaskiptingu innan stjórnarráðsins, en hefur ekki tekið af skarið um breytingu á þessari tilhögun. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, lýsti skoðunum sínum á því hvernig honum þætti skynsamlegast að skipa þessum málum í erindi hinn 29. mars síðastliðinn, sem öllum áhugamönnum um öryggis- og varnamál er hollt að lesa. Þar lýsti hann einnig þeim ráðstöfunum, sem gerðar hefðu verið, og það er einkar fróðlegt að bera saman hversu misjafnlega þau Björn og Valgerður nýttu tíma sinn eftir að samkomulagið við Bandaríkjamenn var kynnt. Þar kann að vera fundin rót þess ágreinings, sem Valgerður og Pétur básúna nú að sé fyrir hendi og sé ástæðan fyrir óefnum Ratsjárstofnunar. Sumsé að þeim sjónarmiðum hefði verið lýst af sjálfstæðismönnum að gera þyrfti frekari breytingar á stjórnarráðinu, en forsætisráðherra látið það vera.

En það er enginn ágreiningur eða deilur innan Sjálfstæðisflokksins um þessi mál, heldur kaus forsætisráðherra að auðsýna ráðherra samstarfsflokks tillitssemi, ráðherra, sem hélt dauðahaldi í úrelta verkaskiptingu innan stjórnarráðsins til að verja ímyndaða framsóknarhagsmuni án hins minnsta tillits til öryggishagmuna, enda hafði Valgerður ekkert vit á þeim, þó ekki skorti belginginn. Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var mynduð var mikil áhersla lögð á hraðar hendur. Þrátt fyrir áhuga á að aðskilja öryggis- og varnarmál frá utanríkisráðuneytinu (líkt og ýmsir aðrir málaflokkar voru færðir milli ráðuneyta) var það látið eiga sig, til þess að það yrði ekki túlkað formanni Samfylkingarinnar til minnkunnar. Áherslan á þann málaflokk var enda engin; í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar var alls að finna eina setningu um hann:

Ríkisstjórnin mun fylgja markaðri stefnu í öryggis- og varnarmálum og koma á fót samráðsvettvangi stjórnmálaflokkanna um öryggismál. 

Þar kann tækifæri að hafa glatast fyrir persónulegar og pólitískar ástæður, sem vitaskuld ættu í fullkomnum heimi ekki að ganga fyrir þjóðaröryggishagsmunum. Á hinn bóginn sýnist manni að Ingibjörg Sólrún hafi afar takmarkaðan áhuga á öryggis- og varnarmálum, að hennar áherslur í embætti muni liggja á öðrum sviðum. Það kann því vel að vera að henni sé það að meinalausu, þó málaflokknum verði sinnt annars staðar. Enginn skyldi þó velkjast í vafa um það að ráðuneytismenn munu vinna að því öllum árum að halda í varnarmálin, enda mæla opinberir starfsmenn mátt sinn í deildarstjórum og milljörðum á fjárlögum, en líkt og við flest vilja þeir fremur vaxa en visna. Það er góður prófsteinn á pólitíska mannkosti ráðherra hvort þeir láta ráðuneytið vinna fyrir sig og þjóðina eða öfugt: að þeir og þjóðin séu spenntir fyrir vagn ráðuneytisins.

Ég skal játa að ég hef meiri trú á staðfestu Ingibjargar Sólrúnar í þeim efnum en Valgerðar Sverrisdóttur, en hvaða samanburður er það? Mér þótti Valgerður ekki merkilegur utanríkisráðherra og þessi nýlega spunaþvæla hennar, sem að ofan er rakin, varð ekki til þess að auka álit mitt á henni, hvaða hvatir sem að baki kunna að liggja.

Mæli þarft eða þegi! 

 


Landnám á hafsbotni

Síðasta fimmtudag bárus fregnir af því frá Rússlandi að könnuðurinn Artúr Tsjílíngarov í félagi við nokkra rússneska þingmenn hefði stungið rússneska fánanum niður á hafsbotni Norðurheimskautsins og helgað Rússlandi svæðið. Auk þess tók hann bergsýni til þess að reyna að sanna að hafsbotninn, Lomonosov-hryggurinn nánar til tekið, sé hluti af rússneska landgrunninu.

Auðvitað er auðvelt að afgreiða þetta sem rússneska furðufrétt í ætt við hinar sovésku frá fyrri tíð, þar sem þróunarríki með kjarnorkuvopn og geimferðaáætlun kepptist við að sanna tæknilegan mátt sinn og megin meðan þegnarnir sultu í heimsins víðfeðmustu þrælabúðum. Þessi flöggun, liðlega fjóra kílómetra undir yfirborðinu, hefur vitaskuld enga þýðingu að alþjóðalögum, en með henni þarf enginn að velkjast í vafa um ásetning Kremlarbóndans, Vladímírs Pútíns.

Í húfi er um 1.200.000 km2 flæmi milli norðurstrandlengju Rússneska ríkjasambandsins og Norðurheimskautsins, en það er ámóta svæði og öll Vestur-Evrópa. Talið er að þar megi finna miklar olíu- og gaslindir, auk alls kyns jarðefna á borð við blýs, demanta, gulls, mangans, nikkels, platínu og tins. Þá má ekki gleyma að þar eru einnig fiskimið og — ef Al Gore hefur rétt fyrir sér um bráðnun heimskautaíssins — mikilvægar nýjar siglingaleiðir. Nýting þeirra náttúruauðæva er enn of erfið og kostnaðarsöm, en það kann vel að breytast á næstu áratugum, tala nú ekki um ef bráðnunarspárnar rætast að einhverju leyti. Sjálfur myndi ég ekki sýta það ef meðalhitinn á Íslandi hækkaði, þó ekki væri um nema eina gráðu.

Þessar breyttu aðstæður — tækniframfarir og loftslagsbreytingar — hafa endurvakið áhuga margra ríkja á auðlindanýtingu í norðri en þar er sjálfsagt um gífurleg auðævi að ræða. Þess vegna hafa mörg ríki Norðurheimskautsráðsins, fyrst og fremst Bandaríkin, Danmörk, Kanada, Noregur og Rússland verið að ræskja sig, en ekkert þeirra hefur gengið jafnlangt og Rússar.

Samkvæmt hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna eiga öll strandríki sjálfkrafa landgrunn allt að 200 sjómílum, sem eru einnig ytri mörk efnahagslögsögunnar. Mörg ríki, þar á meðal Ísland, eiga hins vegar mun víðáttumeira landgrunn samkvæmt ákvæðum hafréttarsamningsins. Ríkin, sem í hlut eiga, skulu senda landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna ýtarlega greinargerð um mörk landgrunnsins utan 200 sjómílna og yfirfer nefndin greinargerðina, leggur tæknilegt og pólitískt mat á hana og gerir tillögur um ytri mörk landgrunnsins. Á grundvelli þeirra getur strandríkið svo ákveðið á endanlegan og bindandi hátt mörk landgrunnsins gagnvart alþjóðlega hafsbotnssvæðinu sem liggur þar fyrir utan.

Ísland gerir tilkall til landgrunns utan 200 sjómílna í suðri, á Reykjaneshrygg og Hatton Rockall-svæðinu, og í norðaustri, í suðurhluta Síldarsmugunnar. Landgrunnið var afmarkað til suðurs með reglugerð árið 1985. Aðeins Ísland gerir kröfu um landgrunnsréttindi á Reykjaneshrygg, en á Hatton Rockall-svæðinu hafa Bretar, Írar og Danir fyrir hönd Færeyja, einnig sett fram kröfur um slík réttindi. Í suðurhluta Síldarsmugunnar gera Norðmenn einnig kröfu til landgrunnsréttinda, bæði út frá meginlandi sínu og Jan Mayen, og Danir gera kröfu um slík réttindi fyrir hönd Færeyja. Þar liggur fyrir samkomulag aðila um skiptinguna, en það veltur á því að hverjum um sig takist að sannfæra landgrunnsnefndina um tilkall sitt.

Kemur þessi dagskrá Rússa norður við heimskaut Íslendingum eitthvað við? Það er nú það. Íslendingar hafa ávallt verið fremur deigir við að halda fram landakröfum á norðurslóð og hafa raunar gefið þær frá sér, enda fremur hæpnar. En ekkert miklu hæpnari en tilkall Norðmanna til Jan Mayen eða Bjarnareyjar, svo tvö dæmi séu tekin. En það er ekki gefið að það eigi við um nýtingarrétt á heimskautahafsbotni, ef svo fer, sem horfir, að semja þurfi um hann. Ísland á aðild að Norðurheimskautsráðinu og á margvíslegra hagsmuna að gæta þar nyrðra. Nú saknar maður Eykons sárt.

Í því samhengi þurfa Íslendingar sérstaklega að halda til haga samhengi landsins við Atlantshafshrygginn, sem liggur eftir Atlantshafinu endilöngu. Ekki svo að skilja að Íslendingar eigi rétt á nýtingu hans alls (ef því væri þanig farið gætum við allt eins rakið okkur eftir öllum plötuskilum allt inn í Persaflóa!), en þau rök eru að minnsta kosti jafnhaldbær og hinar nýju kenningar Rússa, sem þeir byggja landnám sitt á hafsbotni á.

Allt þetta kann einnig að skipta máli á öðrum forsendum. Samstarf okkar við næstu nágranna okkar, Grænlendinga og Færeyinga, í Vestnorræna ráðinu verður að líkindum aðeins nánara á næstu árum og áratugum. Ekki er ósennilegt að Grænlendingar muni þegar stundir líða fram gerast aðilar að Hoyvíkursamningnum um fríverslun og þá kann að verða styttra í nánari sambúð vestnorrænu ríkjanna en nokkurn kann að óra fyrir. Grundvöllur þess kynni að verða að þjóðirnar væru samstíga í ábyrgri auðlindanýtingu og eftirliti á nýjum siglingaleiðum á norðurslóð.

Það væri kannski nærtækara og brýnna verkefni utanríkisráðuneytisins en órar um friðflytjendahlutverk Íslendinga fyrir botni Miðjarðarhafs. Og gæti jafnvel borið ríkulegan ávöxt.


mbl.is Kanadamenn gera lítið úr norðurpólsleiðangri Rússa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband