Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Purple enn í Höllinni

Ég fór á afskaplega skemmtilega tónleika Deep Purple, sem Concert hélt í Laugardalshöll í gær. Það lifir lengi í gömlum glæðum og Ian Gillan náði að hita upp furðukaldan sal án vandræða. Það sást langar leiðir að bandið skemmti sér konunglega við þessa iðju, þó stofninn í henni sé kominn á sjötugsaldur. Röddin í Gillan er vitaskuld ekki alveg sú sama og áður, en þó er mesta furða hvað hann nær að keyra hana. Trumbuslagarinn Ian Paice er svo nánast náttúruundur og hefur engu gleymt. Ég hafði sérstaklega gaman af því að þó manni sýndist að hann hefði alveg nóg að gera við hendurnar á sér, þá munaði hann ekki um það að pota gleraugunum ofar á nefið með reglulegum hætti án þess að það kæmi niður á bumbubarningum. Það var helst að ég væri óánægður með gítarleikarann Steve Morse. Ég er ekki að ætlast til þess að hann stæli hinn eina sanna Ritchie Blackmore, en mér finnst gítarstíllinn hans alveg út úr kú með Purple. Hann er fingrafimur og getur leikið sér að 80's hármetal riffum með rifjárns ívafi, en mér fannst hann hvorki gera það vel né svo hæfði hljómsveitinni. Það ætti einhver að kynna Deep Purple fyrir Gumma Pé.

Þetta truflaði þó ekki upplifunina og það var frábært að rifja upp kynnin við slagara á borð við Strange Kind of Woman, Lazy, Space Truckin', Highway Star, Hush, Black Night og Smoke on the water. Og það var fjölskyldustemming í Höllinni, þar mátti finna fólk sem var á tónleikunum 1971, fólk á miðjum aldri eins og mig, glænýja metalhausa og krakka, sem kunnu lögin utan af og sungu þau með af lífs og sálar kröftum á háhesti á pabba.

Ian Gillan er merkilegur náungi fyrir margra hluta sakir, vel skrifandi og heimspekilega þenkjandi. Á vef sínum hikar hann ekki við að taka Richard Dawkins til bæna, gagnrýna hvernig Evrópusambandið er að fara með hans heittelskaða England og svo framvegis. Þar er líka að finna sambland af bloggi og sagnabanka, sem er gaman að glugga í. Gillan er ágætur sögumaður eins og sjá má á myndbandinu að neðan, þar sem hann greinir frá ýmsum örðugleikum árið sem hann söng með Black Sabbath. Það er eins og beint úr Spinal Tap, þó líkindin séu nær örugglega tilviljun. Í ræmunni minnist Gillan á Ronnie James Dio, fyrirrennara sinn í Sabbath, en hann hefur löngum verið talinn með allralágvöxnustu mönnum rokksins og er samkeppnin þó hörð.


Sagnir

Ég sé í orðrómi Mannlífs, að sá sem þar heldur á penna er nokkuð gramur í garð eiganda Íslandsprents, sem mun hafa í hyggju að gefa út nýtt blað sem keppa á við Söguna alla. Er talað um prentsvart siðleysi í því samhengi og verður ekki annað séð en að blaðamaðurinn sé nokkuð upptekinn af hagsmunum eigenda sinna, jafnótrúlegt og það nú er.

Geta Birtíngsmenn í alvöru verið hissa og hneykslaðir á því að einhverjir aðrir en þeir vogi sér að gefa út tímarit á Íslandi? Mér finnst það bera vott um khutspa í ljósi sögunnar, því eigendur Birtíngs (sem áður hét Fróði) keyptu fyrirtækið eftir að hafa gert einstaklega harða hríð að því, fyrst með tímaritaútgáfu 365 og þegar það gekk ekki með tímaritaútgáfu Fögrudyra. Tímaritaútgáfa 365 helgaðist af því að búa til misvandaðar eftirlíkingar af tímaritum Fróða og það var ekkert sérstaklega farið í felur með það eins og sjá mátti þegar Hér og nú stældi Séð og heyrt. Fögrudyr voru sömuleiðis stofnaðar utan um Ísafold, sem stefnt var gegn Mannlífi (en var óneitanlega engin eftirlíking og þvert á móti mun betra blað), og síðan voru gefin út einhver skammæ blöð, sem var stefnt gegn titlum Fróða/Birtíngs.

Mér þóttu allar þessar eftirlíkingar frekar ömurlegar, aðallega vegna þess að þær áttu sér engan sjálfstæðan tilgang, annan en þann að skaða keppinaut á auglýsingamarkaði. Atlagan mistókst að því leyti að blöð Birtíngs lifðu af en hin ekki, ef Ísafold er undanskilin enda var hún allt annars eðlis. En hún tókst að því leyti að Baugur komst yfir allt saman.

En er eitthvað við slíku að segja? Á maður að bölsótast út í Caleb Badham, sem fyrstur bruggaði Pepsi, fyrir ófrumleika eða láta sér nægja að leggja mat á mjöðinn út frá bragði og verði? Ég hallast að hinu síðarnefnda. Sem félagi í Sögufélagi hlýt ég því að fagna aukinni samkeppni í útgáfu rita um sagnfræðileg málefni um leið og ég skora á lesendur þessara lína að ganga til liðs við Sögufélag, sem gefur út tvö tímarit og alls kyns fræðirit.


Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins

Þá er Geir H. Haarde búinn að kynna ráðherralista sinn og hann er lýsandi fyrir Geir, þar er að öllu farið með gát og engar byltingar boðaðar. Ráðherrarnir eru sex og valinn maður í hverju rúmi.

Eigi að síður má gera athugasemdir við samsetninguna á listanum, þó ekki sé unnt að finna að verjum ráðherra fyrir sig. Ég hygg að snöggasti bletturinn á listanum felist í kynjasamsetningunni. Líkt og í þingflokki Samfylkingarinnar er um þriðjungur þingmanna konur, en samt er ekki nema einn ráðherra flokksins kvenkyns. Einn sjötti. Það þykir mér nokkuð á skjön við þær jafnréttisáherslur, sem gætt hefur í auknum mæli í málflutningi flokksins að undanförnu. Sérstaklega sker það í augu í samanburði við Samfylkinguna með sína jöfnu kynjaskiptingu í ráðherrastólum.

En það má líka finna að því hversu misjöfn dreifing er á ráðherrum eftir kjördæmum. Í raun er Einar K. Guðfinnsson eini landsbyggðaráðherrann, þó Árni M. Mathiesen sitji á þingi fyrir Suðurkjördæmi; það er eiginlega ekki hægt að verða hafnfirskari en Mathiesenar. En á móti má auðvitað nefna að Guðlaugur Þór Þórðarson er Borgnesingur að uppruna og var eitt sinn varaþingmaður fyrir Vesturland.

Það þarf ekki að fjölyrða um hæfileika Geirs H. Haarde sem forsætisráðherra, en ég skal játa að ég varð eilítið hissa að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, skyldi kjósa að vera um kyrrt í menntamálaráðuneytinu. Hún hefur vaxið mjög sem stjórnmálamaður upp á síðkastið og vann glæsilegan sigur í kjördæmi sínu. Því hefði ég haldið að hún kysi eitthvað annað en kyrrstöðu í ráðherrastóli. Nú er hætta á að menntamálin eignist hana í stað þess að hún tileinki sér fleiri málaflokka. En menntamálaráðuneytið er auðvitað valdamikið og hún telur sig líkast til eiga mikilvægum verkefnum þar ólokið.

Markaðurinn fagnar því vafalaust að Árni M. Mathiesen skuli áfram vera fjármálaráðherra; hann kann fáu betra en stöðugleika og Árni hefur til að bera þá nauðsynlegu gætni og kostgæfni, sem embættið krefst. Eins er ég sérstaklega ánægður með að Einar K. Guðfinnson skuli áfram vera sjávarútvegsráðherra og fá landbúnaðarráðuneytið að auki. Hann hefur að mínu viti verið afar farsæll í embætti og bryddað upp á nýjungum í ráðuneytinu. Hann er líka frjálslyndur maður, þannig að það má vonast til þess að honum verði ágengt í landbúnaðarráðuneytinu. En ég skal játa að ég hefði ekki sýtt ef Samfylkingin hefði tekið við landbúnaðarráðuneytinu, hún eru sannast sagna mun líklegri til þess að koma landbúnaðinum úr forneskjunni en Sjálfstæðisflokkurinn.

Ég er einstaklega ánægður með að Björn Bjarnason skuli vera dómsmálaráðherra áfram. Ekki aðeins vegna þess að hann er einstaklega duglegur og skeleggur ráðherra, heldur eiginlega ekki síður vegna þess að með skipun hans sýnir forsætisráðherra að hann lætur hið nýja auðvald ekki skelfa sig.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur undanfarna landsfundi samþykkt ályktanir um að flokkurinn þurfi að taka heilbrigðismálin að sér. Þar bíða mörg knýjandi verkefni, en hið stærsta er allsherjar kerfisbreyting þeirra, því við það verður ekki lengur unað við árlega krísu í heilbrigðisgeiranum, þar sem peningar eru ávallt upp urnir sama hve mikið fé er látið til hans renna. En jafnvel þó menn einhendi sér ekki í slíkan slag er heilbrigðisráðuneytið afar erfitt, eins og best sést á því að sjúkraþjálfinn Siv Friðleifsdóttir náði ekki einu sinni tökum á ráðuneyti sínu, hvað þá heilbrigðiskerfinu á þessu rúmlega ári sínu þar á bæ. Sagan bendir til þess að starfinn sé í besta falli vanþakklátur, þennig að þetta er mikil áskorun fyrir Gulla að ganga beint í þetta erfiða ráðuneyti. En hann er vanur að taka sjensa á sínum pólitíska ferli og lengst af verið sigursæll. Af sama leiðir að hann er bardagamaður og það veitir sjálfsagt ekki af því í þessu ráðuneyti. Það er mikils krafist af honum en það er líka til mikils að vinna.

Ég heyri í kringum mig að sumir eru óánægðir með að Bjarni Benediktsson skuli ekki hafa orðið ráðherra. Ég get tekið undir það. Alveg eins og ég hefði kosið að sjá Illuga Gunnarsson fara beint í ráðherrastól og að ráðherraliðið hefði betur endurspeglað hina öru endurnýjun þingflokksins í undanförnum tvennum kosningum. En ég hef líka heyrt hinu fleygt, að Bjarni kunni að vera kvaddur í ráðherraliðið síðar á kjörtímabilinu. Ég vona að það gangi eftir, því annars óttast ég að hann ákveði að snúa sér alfarið að fyrirtækjarekstri og það er illt ef stjórnmálalífinu helst ekki á mönnum af hans kalíberi.


mbl.is Guðlaugur Þór verður heilbrigðisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bleikjan

Það var gys gert að okkur sjálfstæðismönnum í borgarstjórnarkosningunum í fyrra fyrir að dirfast að nota bleikan lit í auglýsingum. En í umræðu um vandræðaganginn yfir nafngift ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks í Silfri Egils fyrr í dag átti Sigurður G. Tómasson, útvarpsmaður, þá hugmynd, að hún yrði nefnd eftir Þingvallableikjunni, sem hann setti í um daginn. Mér segir svo hugur um að jafnréttismál verði nokkuð á dagskrá hinnar nýju stjórnar. Væri þá ekki gráupplagt að henda þetta á lofti og nefna stjórnina Bleikjuna?

Hvað á barnið heita?

Hér áður fyrr á árum fengu ríkisstjórnir gjarnan nafngiftir, en yfirleitt voru þau nú frekar valin af kerskni en öðru. Oft var þar vísað til hástemmdra yfirlýsinga um stefnu þeirra, eðli og inntak. Þannig heyra menn kannski ekki lengur í gegnum nið sögunnar þann hæðnistón, sem jafnan fylgdi Stjórn hinna vinnandi stétta (1934-39). Þá þótti nokkrum tíðindum sæta að Alþýðuflokkurinn á mölinni og Framsóknarflokkurinn í moldinni gætu starfað saman og málgögn flokkanna tönnluðust á samstarf hinna vinnandi stétta í aðdraganda stjórnarmyndunar, þar sem bændur og verkamenn tækju höndum saman gegn „iðjuleysingjum, bröskurum og slæpingjum“, eins og þorri Reykvíkinga var nefndur af þeim, en guðfaðirinn var vitaskuld Hriflu-skrímslið, þó þeir Hermann Jónasson og Eysteinn Jónsson boluðu honum blessunarlega frá landstjórninni. Ráðherrarnir, sem skipuðu stjórnina þóttu á hinn bóginn ekki beinlínis salt jarðarinnar eða fulltrúar alþýðunnar og því festist nafnið. Snorri vissi hvað hann söng um oflofið.

Alveg eins voru fyrirheitin hent á lofti þegar Nýsköpunarstjórnin fékk sitt nafn og Viðreisnin sömuleiðis, en það vildi þeim til happs að nöfnin voru ekki neikvæð og áður en yfir lauk gátu viðkomandi stjórnarflokkar haldið því fram með góðri samvisku, að þær hefðu borið nafn með rentu. Stefanía og Ólafía voru nefndar eftir forsætisráðherrunum Stefáni Jóhanni Stefánssyni og Ólafi Jóhannessyni, en það var nú ekki í neinu sérstöku virðingarskyni.

En svo hafa ekki allar ríkisstjórnir fengið nöfn af þessu tagi. Sú ríkisstjórn, sem nú er senn á förum, eignaðist þannig ekkert viðurnefnið og hefði maður þó haldið að einhver hefðu fundist tilefnin. Hið sama átti við um ríkisstjórn sömu flokka undir forsæti Geirs Hallgrímssonar. Sumir reyndu eitthvað fyrir sér í þeim efnum, en allt var það fremur kreistingslegt og ekkert þeirra festist. Stöku stjórnir hafa svo hlotið fjarskahlutlaus nöfn: Þjóðstjórnin á styrjaldarárunum lýsti eðli hennar næsta vel og Viðeyjarstjórn Davíðs Oddssonar og Jóns Baldvins Hannibalssonar vísaði fyrst og fremst til fundarstaðarins, þar sem hún var mynduð, þó mörgum hafi þótt sniðugt að í nafninu fólst hljóðlíkingarvísun til Viðreisnarstjórnar sömu flokka.

Skipta nöfn máli?
Til forna þótti mönnum nöfn skipta miklu máli. Þannig var hið raunverulega nafn Rómar strangleynilegt, svo óvinir hennar gætu ekki notfært sér þá vitneskju með galdri eða ámóta til þess að sigrast á henni. Það þekkir enginn nú. Eins er rík hefð fyrir því meðal kristinna og annarra trúarbragða að nefna þann vonda ekki réttu nafni af ótta við að auka honum mátt eða jafnvel kalla hann til sín. Sjálft nafn Guðs gyðinga og kristinna manna er að líkindum ekki þekkt lengur, þó einhverjar launhelgar finnist, sem þykjast búa yfir því. Hann fyrirbauð enda í boðorði að það væri lagt við hégóma. Gyðingar forðast enn þann dag í dag að nefna hann nema með auknefnum og jafnvel þau eru vandmeðfarin, jafnt á hebresku sem öðrum tungum. Í texta skrifa trúaðir gyðingar þannig yfirleitt „G*ð“ þurfi þeir að víkja að honum.

Menn þurfa þó ekki að seilast svo langt til þess að átta sig á því að nafngiftir skipta máli. Ekki er langt síðan menn rökræddu það hvort N1 væri gott nafn og frumlegt á benzínstöðvar, reglulega er boðið til samkeppni um ný nöfn á fyrirtæki, hús og hvaðeina og á góðum dögum hlæja Íslendingar og mæra Eirík rauða Þorvaldsson sem föður almannatengsla fyrir að hafa gefið Grænlandi það nafn.

Í persónulega lífinu þekkja það svo flestir hvílíkur vandi er að velja börnum nafn. Foreldrar hafa ýmsar aðferðir og markmið við það val, en enginn gefur það út í loftið að óathuguðu máli. Það eiga allir menn sameiginlegt óháð menningu. Óhætt virðist því að slá föstu að í hugum fólks skipta nöfn verulegu máli.

Baugsstjórn eða hvað?
Þetta er orðið pólitískt þrætuepli vegna hinnar ómynduðu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, sem líklegt verður að teljast að verði mynduð á næstu dögum. Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, og ýmis flokkssystkin hans hamra á því að hún verði réttnefnd Baugsstjórn og vísa þar til þess, að Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs, hafi í kosningabæklingi Samfylkingarinnar, sem dulbúinn var sem sérútgáfa DV (sem er réttnefndur Baugsmiðill), lagt á það mikla áherslu að af stjórnarsamstarfi þessara tveggja flokka yrði. Í því samhengi er einnig minnst á þá taug, sem verið hefur milli Baugs og forystu Samfylkingarinnar, en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var á sínum tíma óþreytandi við að taka upp hanskann fyrir auðhringinn og naut þeirra tengsla á ýmsan hátt. Haldi menn að það sé allt í fortíðinni geta þeir velt fyrir sér hvaðan Samfylkingin fékk sínar 30.000 rauðu rósir í kosningabaráttunni um daginn og við hvaða verði.

Hitt er svo annað mál hvort að sú staðreynd, að þetta ríkisstjórnarmynstur sé Baugi þekkilegast, þýði að stjórnin yrði á einhvern hátt á hans vegum, þó einstakir eða einstakur ráðherra hennar væri kannski hollari Baugi en hollt væri. Á það má minna að í skoðanakönnunum — meðal annars á þessari síðu! — hefur komið fram, að margir telja þetta samstarf ákjósanlegast. Sá áhugi er meiri í atvinnulífinu en meðal almennings, eins og fram kom í könnun Miðlunar fyrir Viðskiptablaðið, sem gerð var meðal stjórnenda í einkageiranum, og hefur komið enn sterkar í ljós síðustu daga í viðbrögðum markaðarins.

Nei, að því leyti er nafngiftin enn innistæðulaus, þó pólitískir andstæðingar flokkanna hafi gaman af að nudda þeim upp úr henni, enda sárnar stjórnarflokkunum in spe það báðum verulega, af sitt hvorri ástæðunni. Hins vegar bíður maður málefnasamnings ríkisstjórnarinnar með eftirvæntingu. Verður þar eitthvað að finna til þess að treysta íslenskt atvinnuumhverfi og fjármálalíf, auka ábyrgð og þar fram eftir götum? Í því samhengi hlýtur maður sérstaklega að líta eftir hlutum eins og ábyrgð stjórnenda gagnvart almenningshlutafélögum, upplýsingaskyldu þeirra og stjórnarmanna, hlutverks og styrks Fjármálaeftirlitsins, yfirtökuskyldu og þannig mætti áfram telja. Af ávöxtunum skulið þér þekkja þá.

Hvaða nöfn eru þá tiltæk fyrir þessa ríkisstjórn, ef um semst? Vinur minn stakk upp á Kaffibætisbandalaginu, en mér finnst það nú fulllangtseilst. Ég sá einhversstaðar Geirrún og Geirbjörg, en það er kreistingur, sem engin hætta er á að festist. En hvernig ríkisstjórn verður þetta? Báðir flokkar hafa þokast nær miðju undanfarna mánuði og ég hygg að þeir muni nálgast hvor annan enn meira í ríkisstjórn. Þar verður sjálfsagt lögð meiri áhersla á „fagleg vinnubrögð“ en pólitíska stefnufestu og ekki kæmi mér á óvart þó pólitískur rétttrúnaður næði nýjum hæðum. Ríkisvæðing stjórnmálaflokkanna á vafalaust enn eftir að aukast og á þingi sitja nánast tómir atvinnustjórnmálamenn, mengaðir af póst-módernískum viðhorfum til lífsins og verkefna sinna.

Í því samhengi leyfi ég mér því að leggja það til að hin nýja ríkisstjórn verði kölluð Stjórn hinna talandi stétta.

 


Boðið upp í dans


Á kosninganótt getur ýmislegt ófyrirséð gerst og jafnvel í beinni útsendingu, eins og ég fékk sjálfur að reyna í viðtali við Ríkissjónvarpið, þegar minn gamli skólabróðir Úlfur Hróbjartsson fékk þá skínandi hugmynd að hringja í gemsann minn, sem hann réttilega giskaði á að ég hefði gleymt að þagga niður í.

Annað slíkt ógleymanlegt augnablik átti sér stað á sjötta tímanum um nóttina, þegar viðtal var tekið við Illuga Gunnarsson, þingmann okkar Reykvíkinga, á heimili hans, þar sem margir voru gestkomandi að samfagna honum. Tveir gestanna ákváðu að reyna að fipa þingmanninn með því að hafa uppi hljóðlátan dáraskap utan myndsviðs tökuvélarinnar, en þannig að Illugi kæmist ekki hjá því að sjá þá. Hann stóðst þessa þrekraun með prýði, en þeir félagar áttuðu sig ekki á einum óvæntum gagnleik myndatökumannsins. 


Fyrstir með fréttirnar

Eða eiga menn kannski að bíða eftir fréttunum áður en þeir skrifa þær?


Um hvað er svo kosið?

Það hefur verið vinsælt umræðuefni í aðdraganda kosninga, að hún hafi reynst í bragðdaufara lagi. Það er ekki hægt að tala um að kosningabaráttan hafi helgast af neinum tilteknum málefnum, líkt og t.d. sjávarútvegsmálin voru í síðustu kosningum. Eins eru leiðtogastjórnmálin engan veginn jafnafgerandi og síðast, þegar Davíð Oddsson tók sinn síðasta slag og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var boðin fram sem forsætisráðherraefni og manni skildist að það væri síðasti sjens fyrir mannkyn að taka því kostaboði að geta kosið sér konu í það embætti, sem þó var ekki í boði. Af hverju hefur maður ekki heyrt orðið „forsætisráðherraefni“ í þessari baráttu?

Hvað sem því líður held ég að kosningarnar snúist í flestra hugum um Geir H. Haarde og hæfni hans til þess að vera forsætisráðherra. Kannanir um fylgi flokkanna hafa verið á ýmsa lund og sumar misvísandi, en allar kannanir um hvernig menn vilja sjá Stjórnarráðið skipað að kosningum loknum eru á eina lund: Þorri þjóðarinnar vill greinilega að Geir verði áfram við stjórnvölinn. Til þess að svo megi verða er aðeins ein leið til þess að tryggja það, en hún er að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Það dugir ekki að kjósa einhvern annan flokk í von um að gera hann líklegri til þess að komast í ríkisstjórn með Geir, orð leiðtoga stjórnarandstöðunnar í sjónvarpssal í gærkvöldi tóku af öll tvímæli um það, að stjórnarandstöðuflokkarnir miða enn að því að mynda vinstristjórn.

Hér gæti ég skrifað langt mál um það hvers vegna það væri afleit ógæfa, að yfir landið kæmi vinstristjórn, en vísa nú bara til fyrri skrifa um það allt. En ég var spurður um það af bestu vinkonu minni, nokkuð vinstrisinnaðri, hvers vegna það væri svo afleitt að „gefa gömlu stjórninni frí“ og leyfa vinstrimönnum að spreyta sig við landsstjórnina. Ég vissi sem var að ég kæmist ekki langt með röksemdafærslu frjálshyggjunnar við hana, en af því að ég þekki talsvert til haga hennar, fór ég aðra leið. Við nánari umhugsun finnst mér með ólíkindum að hafa ekki heyrt þau rök í kosningabaráttunni.

Íslendingar hafa lifað ótrúlegt hagsældartímabil undanfarin ár. Því hafa fylgt miklar fjárfestingar heimilanna, sem að miklu leyti hafa verið fjármagnaðar með lántökum í trausti þess að efnahagslífið haldist stöðugt og hér verði engar kollsteypur. Að hagur manna haldi áfram að vænkast, kaupmáttur aukist, atvinnuástandið blómstri enn og allt það. Svo ég spurði þessa mína góðu vinkonu, af því að hún hefur fjárfest í litlu huggulegu húsi hér í Þingholtunum: Mátt þú við því að órói komist á peningamarkaðinn og greiðslubyrðin þyngist, jafnvel hið minnsta? Mátt þú við því að kaupmátturinn standi í stað, hvað þá að hann minnki? Mátt þú við því að missa vinnuna, þó ekki væri nema í 2-3 mánuði?

Hún svaraði öllum þessum spurningum neitandi og ég hygg að þeir séu æði margir aðrir, sem eins er ástatt fyrir. Ég veit að ég er einn þeirra.

Vinkona mín getur ekki fengið af sér að kjósa íhaldið, en hún fór að spyrja mig talsvert út í Framsóknarflokkinn. Hvort það væri ekki rétt skilið hjá sér að framsóknarmenn stæðu við gefin loforð, þó þeir væru lúðalegir og ekki með ýkja spennandi hugmyndafræði. Jú, ég gat tekið undir það, að þeir legðu nokkuð upp úr því og eins að flokkurinn væri sem kjörinn fyrir hana, því fyrst og fremst stæði hann fyrir öfgaleysi og hófstillta framfarastefnu með félagslegu ívafi. Ég held að Jón Sigurðsson fái a.m.k. einu fleira atkvæði en síðustu kannanir gáfu til kynna.


Hátíðardagur í Norður-Reykjavík

Ég var alinn upp við það að kjördagur væri hátíðardagur og eins og vant er klæði ég mig upp í tilefni dagsins, vel fallegt bindi og pússa skóna. Svo er að kjósa rétt.

Í mínu kjördæmi getur verið vandi að velja milli lista, þó það vefjist ekki fyrir mér. Minn gamli vopnabróðir, Guðlaugur Þór Þórðarson, leiðir lista sjálfstæðismanna og hefur náttúrlega nokkuð forskot í mínum huga. En ef heimurinn væri svo skrýtinn, að ég væri fráhverfur Sjálfstæðisflokknum þennan annars ágæta dag, þá er ýmislegt gott fólk í framboði hjá öðrum flokkum. Katrín Jakobsdóttir, ágæt vinkona mín, leiðir lista Vinstrihreyfingarinnar — græns framboðs og ég er viss um að Alþingi verður betri staður með hana þar. Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, leiðir lista hans, en að mínu viti er hann sá stjórnmálamaður, sem mest hefur vaxið í þessari kosningabaráttu. Það væri slys ef hann kæmist ekki á þing. Og ekki má gleyma Össuri Skarphéðinssyni, leiðtoga íslenskra jafnaðarmanna, sem fer fyrir lista Samfylkingarinnar í kjördæminu.

Á hinn bóginn verð ég að játa að það kitlar ekki mikið að geta kosið Magnús Þór Hafsteinsson, oddvita frjálslyndra. Fyrir nú utan það að ég átta mig ekki á því hvaða erindi sá tækifærissinnaði orðhákur á á Alþingi, þá kann hluti máflutnings hans að hafa haft áhrif á mig: Sem Reykvíkingur get ég ekki hugsað mér að kjósa einhvern Akurnesing á þing. Ég þekki hans gömlu flokkssystur, Margréti Sverrisdóttur, af góðu einu (ef undan er skilið daður hennar við kynþáttastefnu frjálslyndra á síðasta landsfundi þeirra), en ég held að ljóst sé orðið að Íslandshreyfingin fer erindisleysu í þessum kosningum.


Dauflegur lokasprettur

Umræðuþáttur stjórnmálaleiðtoganna í gærkvöldi var upplýsandi, en ekki var hann nú ýkja skemmtilegur eða til þess fallinn að skerpa skilin fyrir kjósendur. En þegar hér er komið í kosningabaráttunni eru það kannski ekki karp um einstök málefni, sem mest áhrif hafa á kjósendur, heldur fremur persónuleg frammistaða, ímynd og útgeislun. Í þeim efnum veittist ýmsum betur.

Ég fékk að vísu ekki séð að ímyndarráðgjafar hafi komist í tæri við stjórnmálaleiðtogana nema Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem bar af í klæðaburði. Karlarnir voru hins vegar allir fremur gráir og guggnir í því samhengi; helst að Jón Sigurðsson hefði valið sér bindi, sem tískulöggur gætu fellt sig við. Hvað framkomuna áhrærði voru leiðtogarnir flestir sjálfum sér líkir. Geir H. Haarde var öryggið uppmálað og óneitanlega sá eini, sem bar með sér fas forsætisráðherra. Mér fannst Ingibjörg Sólrún líka standa sig vel, þó á annan hátt væri, hún var brattari en maður hefur séð hana um langan tíma og það kann að hafa sitt að segja.

Sem fyrr segir er ég efins um að kappræðan í Kastljósinu hafi haft mikil áhrif á lokasprettinum. Gæti trúað því að kosningaþáttur Stöðvar 2 á miðvikudagskvöld hafi reynst sá vettvangur, sem mótaði afstöðu flestra óvissra kjósenda. Þátturinn bar líka af sem gull af eir þegar litið er til kosningaaðdraganda sjónvarpsstöðvanna.


Næsta síða »

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband