Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Siðferðismælikvarðar barónsins af Bónus

Það hafa margir fært í tal við mig auglýsingaherferð Jóhannesar Jónssonar í Bónus, þessari sem er beint gegn Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra. Menn spyrja hvað megi lesa út úr henni, hvort hún hafi áhrif og hvort svona auglýsingar séu passandi.

Helgi Hjörvar sagði mér þá sögu einu sinni, að vorið 1996 hefði hann verið afskaplega upptekinn ungur maður í kosningastjórn Ólafs Ragnars Grímssonar, sem þá þóttist hættur í pólitík og vildi komast á Bessastaði. Talsvert fyrir kosningar hafi pabbi hans hins vegar boðið honum að koma með sér og nokkru fylgdarliði í mikinn reiðtúr, en til ólukkunnar var hann einmitt ráðgerður um kosningahelgina, svo Helgi þurfti að afþakka boðið þó hann dauðlangaði með. Á fimmtudag fyrir kosningar birtust hins vegar auglýsingar í fjölmiðlum, sem kostaðar voru af athafnamönnunum Björgólfi Guðmundsyni, Ómari Kristjánssyni og Sigurði Helgasyni, en þar voru kjósendur vaktir til umhugsunar um pólitíska fortíð Ólafs Ragnars. Þær auglýsingar ollu ekki minni titringi en auglýsing Bónus-barónsins nú, enda ýmislegt í fortíð hans sem orkaði tvímælis. Kosningaskrifstofa Ólafs fór á taugum og sendi frá sér svör, þar sem raunar var ekki aðeins farið með rétt mál. En Helgi fór ekki á taugum. Þvert á móti. Hann lagði frá sér blaðið við morgunverðarborðið, tók upp símann og sagði pabba sínum, að auðvitað kæmist hann með, það væri ekki fleira að gera í kosningabaráttunni.

Þetta mat Helga reyndist auðvitað rétt. Einu gilti þótt auglýsingarnar vektu athygli á réttmætum efasemdum um forsetaframbjóðandann, sem sagan hefur raunar staðfest síðan, að full ástæða var til þess að hafa áhyggjur af. Kjósendur virtust flestir líta á þessa íhlutun manna úr athafnalífinu sem óviðurkvæmileg afskipti af gangverki lýðræðisins. Þeir vildu ekki láta peningamenn segja sér fyrir verkum og voru þeir félagarnir þó fráleitt með auð eða áhrif í einhverri líkingu við Jóhannes nú.

Ég dreg því í efa að auglýsing Jóhannesar hafi mikil áhrif, þó sjálfsagt muni einhverjir verða við áskorun hans. Því má ekki gleyma að margir líta til hans sem velgjörðamanns alþýðunnar og ekki síður hinu, að hann er vinnuveitandi þúsunda manna.

En hvað býr að baki þessari heift hans í garð Björns Bjarnasonar? Björn hefur vissulega ekki legið á skoðunum sínum um vinnubrögð Baugsmanna í opinberri umræðu, en það er nákvæmlega ekkert, sem bendir til þess að hann hafi sem dómsmálaráðherra haft neinn atbeina að Baugsmálinu umfram það, sem skyldan hefur boðið. Enda nefnir Jóhannes ekkert um það. Hann talar aðeins um hina löngu rannsókn og ferð málsins um dómskerfið, en hvernig í veröldinni má kenna Birni um það? Enginn vafi virðist vera um það lengur að Baugsmenn brutu lög, en vera kann að þeir sleppi með skrekkinn vegna óljósra refsiheimilda laga. En hvað kemur það samsærinu mikla við, sem Jóhannes hefur dylgjað um öðru hverju?

Rannsóknin var vissulega löng og viðamikil, enda gaf umfangið og alvarleikinn tilefni til, en hver skyldi nú hafa valdið mestum töfum þar á? Gæti hugsast að þar hafi nokkru um valdið eilífar frestanir á viðtölum við sakborninga (að sögn vegna anna erlendis, þó á sama tíma hafi birst fréttir af þeim í lystireisum), bið eftir alls kyns boðuðum gögnum (sem skiluðu sér misvel), og endalausar vífilengjur fyrir dómstólum, þar sem ekkert tækifæri hefur verið látið ónotað til þess að draga málið á langinn? Spyr sá, sem veit.

Heift Jóhannesar má þannig ljóslega rekja til þess, sem Björn hefur sagt og skrifað um baróninn af Bónus, son hans og húskarla. Ekkert af því hefur verið tilefni til lagalegra aðgerða Baugsmanna gegn honum og eru þeir þó seinþreyttir til slíkra verka. Eins liggur fyrir dómsorð um að málflutningur ráðherrans sé öldungis innan þess ramma, sem stjórnmálamenn hafa til þess að ræða veigamikil mál samfélagsins. En orðin komu við kaunin og þess vill Jóhannes hefna.

Það er sjálfsagt alvarlegasti hluturinn við þessar auglýsingar, að með þeim er Jóhannes ekki aðeins að reyna að hefna sín á Birni, heldur er hann um leið að senda viðvörunarskot fyrir bóginn á öllum stjórnmálamönnum eða því fólki, sem gæti hugsað sér að leggja þá iðju fyrir sig, um að þeir skuli ekki voga sér að láta í ljós skoðanir á nokkrum þeim málum, sem Jóhannesi eru á móti skapi. Það er skelfileg þróun og ömurleg afstaða auðjöfurs til lýðræðisins og umræðuhefðar þess.

Nú má auðvitað segja sem svo, að Jóhannes megi sem hver annar kjósandi láta í ljós skoðanir sínar á Birni, að hann sem stjórnmálamaður verði bara að þola það. Og þannig er það auðvitað. Jóhannes má neyta málfrelsis síns með þeim hætti, sem hann velur, og auglýsingar eru betur til þess fallnar en stæði hann á sápukassa á Ráðhústorgi á Akureyri að þusa þetta. Í því samhengi hefði ég samt talið eðlilegra að hann sem kjósandi hefði sig í frammi í eigin kjördæmi en annarra. En eins og Jóhannes víkur að, þá er hann ekki að þessu í pólitísku skyni, heldur segist hann vilja stöðva það, sem honum finnst vera siðleysi. Gott og vel, krafa um siðferðisstyrk á þingi á tæpast að vera einskorðuð við kjördæmi. En er þá ekki merkilegt, að á siðferðismælikvarða Jóhannesar Jónssonar baróns af Bónus skuli frambjóðandinn Árni Johnsen engum tíðindum sæta? Hvað þá áskorun um útstrikanir?


« Fyrri síða

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband