Leita í fréttum mbl.is

Nei nei, nei nei, nei.

Icesave, Iceslave… helvítis fokking fokk!

Aldrei hefur framganga stjórnarinnar verið einkennilegri en nú. Jóhanna Sigurðardóttir, sem segist vera forsætisráðherra, gefur út þá tilkynningu í málgagni ríkisstjórnarinnar að hún ætli að sitja heima í þjóðaratkvæðagreiðslunni af því að hún sé markleysa.

Markleysa?! Af hverju skyldi hún vera markleysa? Þarna er kosið um lögin, sem Jóhanna sjálf barðist fyrir með öllum ráðum (og ekki öllum vönduðum) að yrðu samþykkt. Enginn díll í heiminum væri betri. Þau lög — eða álög öllu heldur — væru nú skuldaviðurkenning þjóðarinnar á skuldum, sem sagðar eru tilkomnar vegna falls Landsbankans, Icesave-reikninganna nánar tiltekið. Og þannig stæðu málin, án þess að Íslendingar fengju nokkra rönd við reist, ef forsetinn hefði ekki höggvið á þann hnút með því að synja lögunum staðfestingar. Þess vegna er kosið í dag og þess vegna fengust Bretar og Hollendingar aftur að samningaborðinu.

Kosningin í dag er þess vegna engin markleysa, heldur kærkomið tækifæri fyrir þjóðina til þess að segja álit sitt á lögunum og málatilbúnaði stjórnarinnar. En með orðum sínum var Jóhanna að segja að hún tæki ekkert mark á þjóðinni. Að þjóðin væri marklaus. Við skulum sjá hvort sú traustsyfirlýsing verði ekki ríkulega endurgoldin.

Það var líka furðulegt að sjá forsætisráðherranefnuna, sem treystir sér ekki til þess að taka afstöðu til eigin laga og veigamesta álitamáls íslenskra stjórnmála, hugsanlega lýðveldissögunnar, trega það að málin væru komin í þennan farveg. Einmitt það? Og hverjum skyldi það nú vera að kenna?

Ef þjóðin færi hins vegar að fordæmi Jóhönnu og sæti bara heima, hvað þá? Jú, þá myndu lögin taka gildi. Og Bretar og Hollendingar myndu glaðir í bragði hverfa frá samningaborðunum og bíða þess að íslenska gullið tæki að streyma inn samkvæmt þessum vondu lögum, sem jafnvel forysta ríkisstjórnarinnar játar nú að hafi kannski ekkert verið svo frábær eftir allt saman. Afleiðingar þess væru nánast óhjákvæmilega örbirgð, greiðslufall, brottflutningur og landauðn.

Vandinn er sá að þessi ömurlega Icesave-umræða komst snemma í röng hjólför og hefur ekki komist upp úr þeim síðan. Fyrst og fremst hefur hún nefnilega snúist um tæknileg atriði eins og vaxtakjör á lánum frá Hollendingum og Bretum fyrir greiðslum til Hollendinga og Breta. Það byggir hins vegar á afar veikum og óútkljáðum forsendum um það hvort og hvers vegna Íslendingar ættu að inna þær greiðslur af hendi. Greiðslur, sem að miklum hluta eru tilkomnar vegna einhliða og ógrundvallaðra ákvarðana í stjórnkerfi þessara tveggja landa, sem þau vilja gjarnan að aðrir standi straum af.

Ríkisstjórnin og málaliðar hennar hafa frá öndverðu hamast á því að Íslendingar beri einhverjar þjóðréttarlegar skuldbindningar í málinu, en þeir hafa aldrei greint frá því við hvað er átt.

Þjóðréttarlegt hvað? Fór fram eitthvert fullveldisafsal til Landsbankans, sem gleymdist að segja okkur frá? Og ef þarna var um skuldbindingar að ræða, hvort sem þær væru þjóðréttarlegar eða ekki, af hverju þurfti þá að setjast að samningum um þær og samþykkja ný lög þar að lútandi? Væru skuldbindingarnar til staðar þyrfti ekkert slíkt.

En það er nú mergurinn málsins, að þarna var ekki um neinar skuldbindingar að ræða nema þær sem Tryggingasjóður hafði. Hann naut og nýtur ekki ríkisábyrgðar og má það ekki einu sinni, samkvæmt rammalöggjöf Evrópusambandsins. Fyrir nú utan hitt að það eru ekki mörg ár síðan hér fór fram mikil umræða um einkavæðingu gömlu ríkisbankanna og þar var sérstaklega rætt um mögulega ríkisbáyrgð á þeim. Niðurstaðan var óyggandi sú að sölu bankanna fylgdi ekki ríkisábyrgð og vitnað í reglur EU í því sambandi. Þær hafa ekkert breyst.

Það sem ekki má komast upp
Vandinn er hins vegar sá að aldrei hefur mátt á það minnast að þessi miklu álitaefni og hagsmunamál yrðu útkljáð fyrir dómstóli eða á annan þann hátt, sem menn gera út um deilur um lög og rétt. Þangað til það er gert mun aldrei nást viðunandi niðurstaða um þessi efni, því deilan snýst ekki um tæknileg atriði heldur grundvallaratriði valda og ábyrgðar.

Ástæðurnar fyrir því að Bretar og Hollendingar vilja ekki reka málið fyrir dómstólum eru vafalaust margvíslegar, en fyrst og síðast er þeirra að leita í Lundúnum. Það er nefnilega eins og allir hafi gleymt því að fall íslenska fjármálakerfisins má að mestu leyti rekja til Lundúna og aðgerða breskra stjórnvalda. Það var breska fjármálaráðuneytið sem ákvað að hirða Heritable bankann og Kaupþing Singer & Friedlander og loka Icesave. Eftir því sem tíminn hefur liðið hefur komið í ljós að þessir bankar voru hreint ekki gjaldþrota. Vel má vera að þeir hefðu ratað í megnustu vandræði fyrr en síðar, en þegar þar var komið voru helstu vandamál þeirra óvinveittar aðgerðir breskra stjórnvalda. Og það er vert að gefa því gaum að þar tók breska fjármálaráðuneytið ákvarðanir án þess að bera þær undir fjármálaeftirlitið breska.

Ef til dómsmála kæmi þyrftu bresk yfirvöld hins vegar að aflétta trúnaði af málatilbúnaðinum og það vilja þeir forðast í lengstu lög, einfaldlega af því að hann þolir ekki dagsins ljós.

Getur verið að íslensk stjórnvöld geri sér grein fyrir þessu, en vilji af einhverjum óskiljanlegum ástæðum ekki færa það í tal, hvorki við hin erlendu ríki né íslensku þjóðina? Nóg hefur pukrið og leyndarhyggjan verið í málinu. Minnumst þess að Steingrímur J. Sigfússon laug að þjóð og þingi um það allt, hann vildi bera upphaflega samninginn undir þingið án þess að það fengi að sjá hann og síðan misstu menn tölu á því hversu oft Steingrímur sór og sárt við lagði að „öll gögn málsins“ væru fram komin. Hann er enn að leggja ný gögn fram!

Í fyrrgreindri frétt Fréttablaðsins hélt Jóhanna áfram að bulla um málið: „Sumir virðast halda að málið hverfi ef lögin verða felld en það er mikill misskilningur. Það er líka misskilningur að málið fari beint fyrir dómstóla. Þjóðirnar þrjár verða að standa sameiginlega að slíku en Bretar og Hollendingar hafa alltaf hafnað þeirri leið.“ Nú hef ég reyndar engan heyrt halda því fram að málið hverfi eða að fari beint fyrir dómstóla verði lögin felld. En það er misskilningur hjá Jóhönnu að þjóðirnar þrjár veði að standa sameiginlega að því að koma málinu fyrir dóm. Íslendingar þurfa ekkert að aðhafast sem þjóð í þessum efnum, en telji Hollendingar og Bretar sig eiga fjármuni hingað að sækja þá geta þeir stefnt málinu. Fyrir héraðsdómi Reykjavíkur. Flóknara er það nú ekki.

Nema auðvitað menn telji málið snúast um eitthvað annað, eins og hvar ábyrgðin liggi á hinu gallaða regluverki Evrópusambandsins og framkvæmd þess. Séu menn þeirrar skoðunar blasir jafnframt við að hér ræðir ekki um einhverjar óyggjandi skuldbindingar Íslendinga, hvað þá þjóðréttarlegar.

Hér ber allt að sama brunni, málið er rangt grundvallað frá öndverðu og þar til menn breyta því mun sitja við sama. Íslensk stjórnvöld, bæði þessi ríkisstjórn og sú sem sat á undan henni, létu kúga sig í veikri von um að verða auðsýnd einhver sanngirni. En auðvitað gerðist það ekki. Núverandi ríkisstjórn sendi fullkomna viðvaninga til samningaviðræðna um hluti sem átti ekki að vera að semja um og fannst síðan niðurstaðan alveg frábær fyrst hún var skárri en fyrsta samningstilboð Hollendinga frá vetrarbyrjun 2008. Tær snilld hvað?

Ofan af öllum þessum ósköpum verður að vinda. Það mun vafalaust taka tíma og það verður örugglega ekki sársaukalaust fyrir okkur Íslendinga. En það verður að gera, því ella blasir við óþolandi óréttur og upplausn. Fyrsta skrefið er að segja nei í dag.

— — —

Til þeirra stuðningsmanna Samfylkingarinnar, sem enn vilja fylgja Jóhönnu Sigurðardóttur og sitja heima hef ég þetta að segja: Hrunið og endurreisnin snýst ekki um Jóhönnu Sigurðardóttur. Eða Samfylkinguna. Hvað þá þessa ríkisstjórn. Hún snýst ekki heldur um Sjálfstæðisflokkinn eða Framsóknarflokkinn. Enn síður um útrásarvíkingana eða orsakir hrunsins. Hún snýst um þetta eitt: Vilja Íslendingar una því að þeir sem þjóð taki á sínar herðar allan skaða hrunsins, hverjum sem um er að kenna? Nei, það eiga þeir ekki gera og nei, það mega þeir ekki gera. Annars getum við allt eins hætt þessu basli, gefist upp á því að vera fullvalda þjóð í eigin ríki og gengið einhverjum á hönd. Því um það snúast þessir Icesave-samningar, að gera Ísland að skattlendu. Þá má ekki gerast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Finnur Bárðarson

"sem segist vera forsætisráðherra" Er hún það ekki ?

Finnur Bárðarson, 6.3.2010 kl. 15:26

2 Smámynd: Andrés Magnússon

Hún virðist a.m.k. ekki vera að sinna þeim starfa. Ef henni er síðan ómögulegt að taka afstöðu til þessa máls, til hvers annars getur hún þá tekið afstöðu?

Andrés Magnússon, 6.3.2010 kl. 16:29

3 identicon

"Ef þjóðin færi hins vegar að fordæmi Jóhönnu og sæti bara heima, hvað þá? Jú, þá myndu lögin taka gildi. Og Bretar og Hollendingar myndu glaðir í bragði hverfa frá samningaborðunum"

Frábær punktur hjá þér og afhjúpar forheimskuna hjá ráðamönnunum sem sitja heima í dag í geðvonsku yfir því að hafa ekki fengið að sigla hér öllu í kalda kol - og inn í ESB - þegjandi og hljóðalaust. 

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 6.3.2010 kl. 17:11

4 Smámynd: Landfari

Smá leiðrétting Andrés. Lögin eru í gildi og verða það áfram þar til þau verða felld í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Synjun forseta á staðfestingu kemur ekki veg fyrir að lög taki gildi.

Þess vegna er það enn furðulegra hjá þeim að sitja heima og hvetja aðra til slíks þegar vitað er að hæt er að fá betri samninga. Það verða ekkert betri samningar gerðir nema þessir verði felldir fyrst.

Alþingi er búið að samþykkja ríkisábyrgð og ég fæ ekki séð hvernig það má vera að alþingi geti samþykkt ríksábyrgð á einhverju, t. d. láni og svo bara samþykkt að draga hana til baka þegar búið er að greiða lánið út. Þá er ríkiábyrgð bara markleysa.

Þess vegna held ég að það fái ekki staðist að alþingi dragi þessi lög til baka. Þau verða að vera felld í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Landfari, 6.3.2010 kl. 18:06

5 Smámynd: Andrés Magnússon

Landfari: Rétt er það, að lögin eru formlega í gildi, þar sem þau voru birt í Stjórnartíðindum. Fjármálaráðherra sagði hins vegar að heimildin yrði ekki nýtt nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslunni. Þau eru því dauður bókstafur nema þau verði samþykkt nú í dag. En Alþingi hefur löggjafarvald og þarf ekki að taka tillit til hentugleika ríkisstjórnarinnar frekar en það vill, það getur sett lög og afnumið að vild, hvenær sem því líst. Þess vegna hefði Alþingi vel getað snúist hugur allt þar til í gær og afnumið lögin.

Andrés Magnússon, 6.3.2010 kl. 18:41

6 identicon

Satt heima. Ánægður með það. Þið eruð bara með pólitiskt plott. Nenni ekki að taka þátt í svona rugl. Sérstakleg ekki frá þér, Andrési, sem líklegu í den fannst Icesave tær snilld. Búinn að horfa á þig í t.d. Silfur Egills og man ekki betra en allt sem útrasarvíkingarnir gerði voru hafin yfir gagngrýni í þinum huga. Gagngrýni gæti leitt til að gengið fellt o.sv.frv. Ja, halló!

Jakob Andersen (IP-tala skráð) 6.3.2010 kl. 21:24

7 Smámynd: Andrés Magnússon

Landfari: Athyglisvert að Jóhanna sagði í sjónvarpinu núna áðan eitthvað á þá leið að kosningin væri ómark af því að lögin „væru í raun fallin úr gildi“! Hún hættir aldrei að koma á óvart.

Jakop: Láttu vera að setja upp líkindareikning um hvað fólki hafi fundist hér í den. Ég hafði enga sérstaka skoðun á innlánasöfnun bankanna erlendis til eða frá. Þú ert haldinn mögnuðu minnisleysi um afstöðu mína til útrásarinnar og víkinga hennar. Ég varaði eindregið við þeim ofurskuldsettu strandhöggum erlendis og hafði ýmis varnaðarorð að færa bönkunum. Ekki síst gagnrýndi ég þó slakt viðskiptasiðferði þeirra sumra, sem Hæstiréttur setti síðan gæðastimpil sinn á.

Andrés Magnússon, 6.3.2010 kl. 23:32

8 Smámynd: Landfari

Þau verða, sjálfra sín vegna og ekki síst þjóðarinnar vegna, að segja af sér eftir þessa lítilsvirðingu við þjóðina og lýðræðið.

Landfari, 7.3.2010 kl. 00:04

9 Smámynd: Jóhann Elíasson

Nú ætti að nýta þann meðbyr, sem málstaður okkar hefur hlotið meðal heimsbyggðarinnar, til að knýja á um að þetta mál fari fyrir dómstóla.

Jóhann Elíasson, 7.3.2010 kl. 13:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband