Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Jón forseti og Churchill

winstonogjon

Það er fyndin aðsend grein í Mogganum í dag. Eða meina ég hlægileg? Þar skrifar Samfylkingarmaðurinn Kjartan Emil Sigurðsson stuttlega um málflutning Sturlu Böðvarssonar, forseta Alþingis, í Evrópumálunum og þykir heldur fáfengilegt hjá honum að nefna til Jón Sigurðsson forseta í þeirri orðræðu. Þykir honum það ótækt að draga Jón inn í umræðuna, enda hafi hann verið 19. aldar maður og ekkert um Evrópusambandið vitað.

Verða orð manna einskis virði um leið og þeir deyja? Eða að einhverjum tilteknum árum liðnum? Ég er því öldungis ósammála og þykir ekkert að því að ráðfæra mig við Mill um frelsið, Jónas um fegurðina og Snorra um ótal hluti aðra, þar á meðal utanríkismál! Menn þurfa ekki að vera ýkja vel lesnir í Jóni forseta til þess að átta sig á því að hann hefur ýmislegt til málanna að leggja í Evrópuumræðunni. Og það er ekki heldur flókið að komast að þeirri niðurstöðu að hann hefði verið efins um inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Þarf raunar ekki að leita lengra en í fyrsta tölublað Nýrra félagsrita, þar sem Jón ritar Um Alþíng á Íslandi í víðu samhengi, til þess að fá álit hans á þessum efnum. Eða telja menn að einhverja sérstaka hugmyndauðgi þurfi til þess að komast á þá skoðun að sjálfstæðishetjan Jón Sigurðsson, óskabarn Íslands, sómi þess, sverð þess og skjöldur, hefði verið fremur efins um að framselja völd héðan af landi til erlends yfirvalds?!

Það er helber misskilningur ef menn halda að Jón forseti hafi aðeins verið sjálfstæðissinni á einhverju rómantísku og sentímental plani. Þvert á móti var þetta harðkjarna pólitísk afstaða hjá manninum, vel ígrunduð og grundvölluð á athugunum á stjórnvísi, sagnfræði, hagfræði og ótal fræðum fleirum. Hann var ekki lýðræðissinni, svona af því það var í tísku á kaffihúsunum í Höfn, heldur af sannfæringu. Það er ekki ofmælt að kalla hann frjálshyggjumann á 19. aldar vísu. Jón var ekki aðeins á því að Íslendingar ættu að vera sjálfstæðir frá Dönum, heldur öllum öðrum og þar á meðal sem mest sjálfstæðir hver gegn öðrum: frjálsir menn í frjálsu landi.

Þá spyrja Kjartan Emil og Evrópusinnarnir, hvernig megi snúa þeim skoðunum Jóns upp á Evrópusambandið, sem sé svo og svo frábært í öllu tilliti. Jón hafi enga hugmynd haft um slíka ríkisskipan og þar af leiðandi fráleitt að draga hann inn í þá umræðu. Þar fyrir utan vanti ekkert upp á frelsið í ESB, ekki geti Danir talist ófrjálsir í neinum skilningi og så videre. Látum vera í bili hvernig frelsinu vegnar í ESB og látum — umræðunnar vegna — sem það taki öllu öðru fram. En það var ekki það frelsi, sem Jón hafði áhyggjur af, borgararéttindi voru enda að mestu til fyrirmyndar í Danaveldi þá. En Jóni voru alls ekki ókunnugar hugmyndir um ríkjasambönd að fornu og nýju. Allt frá Babýlon til Rómar, frá Miklagarði til Aachen, hann var vel heima í því öllu sem dyggur andstæðingur nýlendustjórnar. Gleymum því ekki heldur að þegar Jón fæddist árið 1811 stóð Napóleon á hátindi frægðar sinnar og mönnum voru hreint ekki gleymdar hugmyndir þess fúla foringja um evrópskt ríkjasamband þegar Jón hélt til Hafnar að lesa mannkynssögu 1833. Enn frekar er þó vert að gefa því gaum að einmitt um þær mundir var skandínavisminn að láta á sér kræla meðal norrænna stúdenta, en Jón var síður en svo hallur undir þær hugmyndir (og skandínavistunum flestum lítt um Ísland). Nei, Íslandi dygði ekkert minna en sjálfstæði.

Hver vill mæla gegn því?

Þá er hins vegar ósvarað hinni augljósu spurningu, sem Evrópusinnarnir forðast að vonum eins og heitan eldinn: Væri innganga í Evrópusambandið eitthvað annað en uppgjöf og framsal á sjálfstæði Íslands?

Geymum okkur þá umræðu samt enn um sinn. Nóg gefast tækifærin til hennar, grunar mig. En það er þetta með Jón Sigurðsson, eiga hugmyndir hans eitthvert erindi við Evrópuumræðuna í dag? Svarið við því er tvímælalaust já. Að því tilskildu vitaskuld, að hugmyndir hans og saga eigi yfirleitt eitthvert erindi við okkur. Menn geta auðvitað sagt sem svo að Jón sé löngu dauður, hugmyndabarátta hans sömuleiðis. Hann hafi að vísu upplifað endurreisn Alþingis og stjórnarskrána 1874, en misst af heimastjórninni, fullveldinu og lýðveldinu. En ef það er svarið geta menn eins sagt að sagan öll sé einskis virði og við eigum að einblína á núið, dæmd til þess að endurtaka sömu mistökin aftur og aftur. Ég hafna þeirri afstöðu.

Hugmyndir Jóns Sigurðssonar og sjálfstæðisbaráttan eiga erindi við okkur enn í dag og um ókomna tíð. Ástæðan er augljós: málið varðar fleiri en eina kynslóð manna. Mönnum væri hollt að minnast þess í Evrópuumræðunni nú, að það mál varðar fleiri en eina kynslóð. Vegna þess að það snýst um sjálfstæði þjóðarinnar og menn þekkja af biturri reynslu að það er hægara að ganga konungum á hönd en komast undan krumlu þeirra. Það á líka við um ESB. Þess vegna er með ólíkindum að heyra málsmetandi fólk tala um að breyta verði stjórnarskránni til þess að auðvelda inngöngu í ESB ef það yrði nú niðurstaðan (í sama mund og sama fólk muldrar eitthvað um að sjálft sé það auðvitað andsnúið inngöngu). Stjórnarskráin á einmitt að torvelda slíkt, hún er sá rammi sem önnur lög og skammæjari verða að fylgja, hún segir til um grundvallarskipan ríkisins og heldur við réttindum borgaranna gagnvart því. Við hana á ekki að fikta til þess að gera hlutina auðveldari, þvert á móti.

Í því samhengi blasir við að skoðanir manna — þó settar hafi verið fram í fyrndinni — geta átt við enn á vorum dögum. Hugmyndir Einars Þveræings þykja mér t.d. fullboðlegar í Evrópuumræðuna núna og eiga raunar brýnt erindi. Í ræðu sinni á Alþingi vegna óskar Ólafs konungs Haraldssonar um að fá Grímsey að gjöf benti Einar (eða Snorri Sturluson sem færði hana í letur) þingheimi á að skattar væru mun hærri í Noregi en hérlendis og að kóngar væru misjafnir, sumir jafnvel til hinna mestu vandræða. Loks hefur Snorri eftir Einari:

En ef landsmenn vilja halda frelsi sínu, því er hafa haft, síðan er land þetta byggðist, þá mun sá til vera að ljá konungi einskis fangstaðar á, hvorki um landaeign hér né um það að gjaldahéðan ákveðnar skuldir, þær er til lýðskyldu mega metast.

Blandast einhverjum hugur um afstöðu Einars og/eða Snorra til ESB? Og var Snorri þó með alþjóðasinnuðustu mönnum! Rök þeirra, sem þá og síðar töldu nánara samband við Noreg nauðsynlegt, eru nákvæmlega hin sömu og ötulustu Evrópusinnana nú. Þau rök eru fullkomlega tæk til umræðu og menn eiga ekki að veigra sér við hana. En þá eiga menn einnig að viðurkenna kinnroðalaust, að deilan stendur fyrst og fremst um sjálfstæði Íslands.

Í Íslandssögunni eru tvö skeið sjálfstæðis og eitt skeið erlends yfirvalds. Fyrra sjálfstæðisskeiðið stóð í 388 ár, en hið síðara hefur staðið í 104 ár (ef við miðum við heimastjórnina). Samtals 492 ár. Þar á milli liðu 642 ár. Svo geta menn velt því fyrir sér hvernig Íslendingum vegnaði misvel á þessum skeiðum. Og það er ekkert að því að þiggja ráð frá löndum okkar á öðrum tímum en hér og nú. Ella getum við allt eins efnt til eigin bókabruna, kollvarpað styttunni af Jóni Sigurðssyni og látið okkur nægja að lesa Mannlíf mánaðarins og tigna gulllíkneski af Gillzenegger dagsins á Austurvelli.

En aftur að grein Kjartans Emils. Hann víkur að einni helstu hetju vestrænnar siðmenningar:

Á Bretlandi var uppi maður á 19. og 20. öld sem hét Winston Churchill. En umræddur Jón var jú 19. aldarmaður. Það er skemmst frá því að segja að það má líta svo á hin ýmsu ummæli Churchills og segja hann hlynntan og andvígan þátttöku Bretlands í núverandi Evrópusambandi. Það hefur orðið niðurstaða manna þar í landi að ekki sé hægt með nokkru móti að ráða beinlínis í það hvorum megin hryggjar Churchill lendir í slíkri Evrópuumræðu. Það jafnvel þó Churchill hafi með beinum hætti haft afskipti af og tekið afstöðu sem laut að samskiptum Evrópuríkja sín í milli.

Ég er ekki viss um hvað Kjartan Emil er að fara í síðustu setningunni. Kannski hann sé í gamansemi að vísa til Seinni heimstyrjaldarinnar, þar sem Churchill hafði „með beinum hætti [...] afskipti af og [tók] afstöðu sem laut að samskiptum Evrópuríkja sín í milli.“ Vægast sagt.

En hvern þremilinn á Kjartan Emil við þegar hann heldur því fram að Bretar hafi komist að einhverri niðurstöðu um að Churchill megi ekki setja öðru hvor megin hryggjar í Evrópumálunum? Churchill var forsætisráðherra þegar hann afþakkaði gott boð til Breta um að gerast eitt af stofnríkjum Kola- og stálbandalagsins árið 1951, sem var forveri Efnahagsbandalags Evrópu og síðar þróaðist í Evrópusambandið eins og við þekkjum það. Hann hafði heilmikið til þeirra mála að leggja og talaði enga tæpitungu fremur en endranær. Þegar umræðan hófst um inngöngu Breta í það (sem de Gaulle lagðist svo gegn) tók Churchill þátt í henni, þó hann væri þá hættur í pólitík. Churchill var mjög hlynntur Evrópusamrunanum, sem hann taldi bestu leiðina til þess að sætta forna fjendur á meginlandinu, en áhugi hans á veru Breta í sameinaðri Evrópu var enginn. Allra síst ef markmiðið væri Bandaríki Evrópu. Það þarf því ekkert að túlka Churchill fram eða til baka, hann tók einfaldlega afstöðu og það ekki með neinni leynd. Hans gömlu orð standa:

We have our own dream and our own task. We are with Europe, but not of it. We are linked but not combined. We are interested and associated but not absorbed.

Það má taka undir þau sjónarmið nú þó Churchill hafi dáið árið 1965.


Hrein bilun

moska 

Það er auðvitað hrein bilun að vekja fólk upp að svefni hinna réttlátu með bænakalli kl. fimm um morgun. Þórarinn Ingi Jónsson, hinn frumlegi listnemi og sprengjusérfræðingur Listaháskóla Íslands (LHÍ), sem stendur fyrir ósköpunum segir „að bilun í hugbúnaði hljóti að hafa valdið því að upptaka af bænakalli múslima fór að hljóma klukkan fimm í nótt.“ Er það nú víst? Samkvæmt sið múhameðstrúarmanna ber að ganga til bæna fimm sinnum á dag, í fyrsta sinn við dögun. Sólarupprás í Reykjavík í morgun var kl. 4.51, svo máske var hugbúnaðurinn einmitt að virka fullkomlega.

Að sögn listnemans var tilgangurinn með tiltækinu að „koma með mótvægi við neikvæða umræðu um íslam í hinum vestræna heimi.“ Mikið gekk það nú vel!

Fram kom í frétt um málið að Þórarinn hafi stundað nám við LHÍ í um tveggja mánaða skeið, þannig að tæpast telst hann nú fullnuma. Það vekur hins vegar spurningar um hvers vegna skólayfirvöld í LHÍ tóku hugmyndinni svo opnum örmum, ekki síst í ljósi þess að hún er fráleitt frumleg. Ég held að það hafi verið sumarið 2002, sem bænaköll múslima ómuðu reglulega yfir miðbæ Reykjavíkur frá Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsinu. Þar var þá sýning um menningu araba og ekki af miklu að taka í myndlistinni eins og gefur að skilja. Mér er það í fersku minni, enda vann ég í Hafnarhúsinu þá. Bænaköllunum var vægast sagt misvel tekið, en það sem mér þótti einna merkilegast var að arabískur starfsmaður fyrirtækisins var hreint ekki ánægður með uppátækið og þótti móðgun og nánast guðlast að dæla út bænaköllum í auglýsingaskyni eða „listrænum tilgangi“.

Hitt er svo annað mál, að þarna er máske ein skýringin á því hversu illa borgaryfirvöldum hefur gengið að verða við óskum safnaðar múslima um lóð undir mosku hér í höfuðstaðnum. Morgunsvæfum mörlandanum þykir alveg meira en nóg að þurfa að þola kirkjuhringingar um ellefuleytið einu sinni í viku. 


mbl.is Bilun í hugbúnaði kveikti á bænakalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband