Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008
17.12.2008 | 13:15
Dagar reiði og pólitísk ábyrgð
Áfallið mikla hefur að vonum verið helsta umhugsunarefni þjóðarinnar undanfarnar vikur. Hvað fór úrskeiðis? Hverjum er um að kenna? Hversu mikið er tjónið? Eru sökudólgarnir enn að störfum? Af hverju brást kerfið? Þarf að stokka það allt upp? Mun þjóðin nokkru sinni rétta úr kútnum? Af hverju skyldi hún bera ábyrgð á afglöpum einkafyrirtækja? Hver er ábyrgð stjórnvalda? Og svo framvegis. Einn og einn hefur jafnvelt velt vöngum yfir því hvernig megi bæta úr því sem komið er og hefja endurreisnina.
Fyrst og fremst hafa menn þó orðið varir við háværa kappræðu, þar sem þátttakendurnir virðast halda að sá vinni, sem er reiðastur. Auðvitað er fólk felmtri slegið. Og reitt. Bálreitt, raunar. Reiðin er hins vegar afleitt vegarnesti á háskaför og minnkar beinlínis líkurnar á því að menn komist heilir á leiðarenda.
Hafa stjórnvöld brugðist? Já, það hafa þau augljóslega gert á fjölmörgum sviðum, bæði á undanförnum árum, ekki síður á misserinu í aðdraganda áfallsins og enn frekar má gagnrýna ýmsar aðgerðir (og aðgerðaleysi) eftir að ósköpin dundu yfir. Það að skipta leifunum af bankakerfinu upp eftir búsetu innistæðueigenda reyndist t.d. vera glapræði þegar nær hefði verið að skipta því upp eftir gjaldmiðlum. Það að láta undan kúgun Evrópusambandsins vegna Icesave-reikninganna kann að reynast þjóðhættulegt ef eftir gengur (og máske er ekki allt komið í ljós þar). Værukærð um lagaleg úrræði vegna efnahagshryðjuverka Gordons Brown og breskra stjórnvalda vekur aðeins frekari spurningar. Eins má vel spyrja af hverju hugmyndin um tafarlaus og einhliða gjaldmiðilsskipti hefur ekki fengið verðskuldaða umfjöllun á sama tíma og stjórnvöld fóru nánast umhugsunarlaust í stórfenglegar erlendar lántökur til þess að reyna að bjarga krónunni upp á von og óvon. Því miður mætti fleira tína til.
Það er því ekki skrýtið þó málsvarar reiðinnar hrópi eftir afsögn ríkisstjórnarinnar, brottekstri helstu embættismanna og þingkosningum. Hins vegar hafa þeir ekki getað bent á það hvað skuli síðan til bragðs taka, sem máske er ekki svo skrýtið í ljósi tengsla helstu hávaðaseggjanna við hina vinstrigrænu grasrót. Sumir þeirra eru þó merkilegt nokk vel tengdir inn í Samfylkinguna og orðræðan fremur mörkuð af innanflokksátökum um komandi forystukreppu þar en áhuga á velfarnaði þjóðarinnar.
Vel er skiljanlegt að margir vilji kjósa á nýjan leik, en hvort það er hyggilegt er önnur saga. Næstu mánuðir eru dýrmætur tími, sem ekki má sóa; það er ástæða fyrir því að kveðið er á um reglulegar kosningar og kjörtímabil; þjóðin er í þvílíku uppnámi að kosningabarátta myndi vafalaust gera illt verra; síðast en ekki síst má draga í efa að kosningaúrslit byggð á andrúmslofti upplausnar og reiði séu vænleg til endurreisnarstarfsins sem bíður okkar. Flatneskjulegt líkingamál um eldsvoða, brennuvarga og slökkviliðsstjóra hefur móðins síðustu vikur, en svo nýgervingunni sé haldið áfram: væri skynsamlegt að efna til klukkutíma skyndiútboðs um hönnun og smíði nýbyggingar meðan maður horfir á gamla húsið fuðra upp?
Bakarar og bölvasmiðir
Auðvitað finnur ríkisstjórnin fyrir þessum þrýstingi. Það eru ekki bara hettuklæddir anarkistar (sem mér heyrist raunar að séu fremur syndíkalistar) sem hafa vantrú á getu hennar til þess að kljást við vandann. Jafnvel innan ríkissjórnarinnar hafa menn fundið að mistökum og vandræðum annarra ráðherra. Þess vegna heyrist manni nú að forystumenn ríkisstjórnarinnar vilji kaupa sér frið með því að hræra í ráðherraliðinu, væntanlega þannig að þjóðinni (eða háværustu vandlæturum hennar) finnist að einhverjir ráðamenn hafi sætt ábyrgð, pólitískri ábyrgð.
Það væri nú gott og blessað ef ábyrgðin var skýr hjá tilteknum ráðherrum. En er það svo? Það er helst um það rætt að í hópi sjálfstæðismanna í ríkisstjórn verði það Björn Bjarnason, sem víki úr stóli dómsmálaráðherra. Dettur einhverjum í hug að það komi áfallinu við? Að hann hafi með störfum sínum á einhvern hátt brugðist, í aðdraganda eða eftir áfall? Nei, það er öðru nær.
Innan Samfylkingarinnar er helst rætt um að það verði Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra og Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra, sem verði látin fara. Af hverju Tóta ætti að víkja veit ég ekki. Fyrir að hafa drepið hvítabjörn í gáleysi? Hugsanlega sjá forystumenn Samfylkingarinnar þó fram á að þurfa að grípa til þeirra ráðstafana í atvinnuuppbyggingu, sem Þórunn myndi aldrei fallast á af umhverfisástæðum, en þá þarf líka að segja það hreint út: að umhverfisstefna Samfylkingarinnar hafi bara verið upp á punt.
Með Björgvin gegnir öðru máli. Hann er bankamálaráðherra, segja menn, og í bankahruni er eðlilegt að hann segi af sér. Ekki að honum hafi orðið á neitt saknæmt eða þannig, heldur sé þetta bara eðli pólitískrar ábyrgðar. Virkilega? Svo ef skip sekkur eða flugvél ferst, þá segir samgönguráðherra af sér?
Nei, svara menn þá, en hann átti að vita alls kyns hluti um ástandið í bankakerfinu og hann átti að grípa tilviðeigandi ráðstafana til þess að afstýra voðanum. Í þeim röksemdum kunna að felast meiri efni. Við fyrstu sýn að minnsta kosti. Nenni menn að skoða málið nánar er hins vegar erfitt að sjá að þau haldi.
Það hefur vissulega komið fram að Björgvin vissi ekki um margvísleg varnaðarorð vegna bankakerfisins, ekki síst þau sem mælt voru úr Seðlabankanum, en af hverju heyrði hann þau ekki? Jú, vegna þess að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, sagði honum ekki frá þeim. Hún sat þá fundi, þar sem greint var frá þessum viðsjám, en kaus að greina ráðherra bankamála ekki frá þeim af einhverjum ótilgreindum ástæðum. Á Björgvin að bera pólitíska ábyrgð á þeim óskiljanlegu ákvörðunum Ingibjargar Sólrúnar?
Nei, það hlýtur hver maður að sjá að í því fælist engin sanngirni, heldur væri þvert á móti verið að dýpka hinum pólitísku syndum í málinu með því að hengja Bjögga fyrir Sollu. Ég efa hins vegar að til þess komi. Léti hún hann víkja úr ríkisstjórn vegna bankahrunsins væri hún um leið að viðurkenna eigin ábyrgð sem óneitanlega er veruleg en neita að axla hana. Ég hugsa að pólitísk sjálfsbjargarviðleitni hennar komi í veg fyrir það.
Ekki þar fyrir, Björgvini hefur ekki gengið allt í haginn í viðskiptaráðuneytinu, gert mistök, yfirsést eitt og annað og það má meira en vel vera að hann hafi átt að vera almennt krítískari í garð fjármálaiðnaðarins en hann var. Mér finnst hann hins vegar farið vaxandi sem stjórnmálamaður á þessum erfiðu tímum, ekki síst í ljósi þess að meintir samherjar hans hafa ekki alltaf verið að hjálpa honum. Ég hef ekki verið sammála öllu því sem hann hefur sagt eða gert (eða ekki sagt og ekki gert), en ég fæ ekki séð að hann hafi neitt gert af öðru en fyllstu heilindum, þvert á það sem sumir hafa gefið til kynna og ýjað að.
Telji forystumenn ríkisstjórnarinnar á annað borð að einhverjir ráðherrar eigi að víkja vegna áfallsins þurfa þeir ekki að leita lengi að viðkomandi. En það væri fráleitt ef þeir veldu bara 1-2 fagráðherra til þess að fórna sem syndahöfrum.
15.12.2008 | 16:05
Einn kostur, ekkert val
Ég hélt eitt augnablik að það væri varaformannskjör í uppsiglingu í Sjálfstæðisflokknum, því af orðum, sem höfð voru eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur í norska vinstriblaðinu Klassekampen varð ekki séð að hún hefði áhuga á að leita endurkjörs.
Jeg tror ikke Island har noe valg etter den knekken vår valuta har fått.
Nú hefur Þorgerður Katrín sagt að þarna sé ekki rétt eftir henni haft, hún hafi aðeins sagt að aðildarviðræður væru nauðsynlegar. Það má vera að það sé eina leiðin til þess að komast að því hvaða kostir væru í boði, þó ég haldi nú að það sé nógsamlega skjalfest hvernig því öllu er farið. Fyrirfram hef ég efasemdir um það þegar atburðarásir eru settar af stað, því þeir sem það gera hafa yfirleitt meiningar um hvert þær skuli leiða. Tala nú ekki um þegar hafist er handa við að kanna í þaula aðeins einn kost eins og þennan, en aðrir látnir liggja milli hluta.
Þjóðráð og afarkostir
Svona almennt og yfirleitt lýsir það vitaskuld ráðleysi að sjá engan kost nema einan, en þegar því er þannig farið er ljóst að menn telja sig þess ekki umkomna að hafa nokkur áhrif á atburðarásina. Þegar ráðamenn eru komnir í þá stöðu að vera fórnarlömb atburðarásar en ekki forystumenn er augljóst að þeir þurfa að rýma til fyrir öðrum, sem vilja leiða fremur en láta leiðast.
Ekki síst á það við í máli sem þessu, sem varðar sjálfstæði þjóðarinnar. Flokksforysta Sjálfstæðisflokksins virðist hafa farið að tilmælum (eða hótunum) Samfylkingarinnar og ætlast til þess að sjálfstæðismenn landsfundarfulltrúar altjent geri Evrópumálin upp við sig fyrir janúarlok. Gott og vel, til er ég. En hvernig væri þá að þingmenn flokksins gæfu upp sína afstöðu, af eða á? Það er varla til of mikils mælst. Reynist þeim það ofviða ættu þeir að snúa sér að einhverju öðru en stjórnmálastarfi.
Vandi Evrópusinnanna í Sjálfstæðisflokknum er hins vegar sá að gefi þeir sig upp eru þeir í raun að snúa baki við sjálfstæðisstefnunni. Það stendur í nafninu hvert er grundvallarerindi Sjálfstæðisflokksins í stjórnmálum. En þeir geta þá gengið til liðs við nýfrjálshyggjumennina í Samfylkingunni, sem er snöggtum eðlilegra en að við, þessir klassísku frjálshyggjumenn sem kjósum sjálfstæðið, göngum til liðs við vinstrigræna, eins og Geir H. Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins stakk upp á af alkunnri gamansemi í viðtali við Fréttablaðið um helgina.
Nauðhyggjan
Það þarf ekki að rekja vandann, sem Íslendingar standa frammi fyrir. Kostirnir eru ekki margir og fæstir góðir. En er þá ástæða til þess að fækka þeim frekar? Veigamikil álitamál eru ítrekað reifuð á þann hátt að aðeins séu tveir kostir í boði og virðist einu gilda hvort málshefjendur eru stjórnarliðar, í stjórnarandstöðu eða hinir margrómuðu hlutlausu fræðimenn. Í Evrópumálunum láta nú sumir eins og það sé ekki einu sinni kostur lengur að standa fyrir utan ESB. Hin sögulega nauðsyn sé öll á eina leið.
Nauðhyggjan hefur leikið þjóðina nógu grátt undanfarnar vikur, þar sem menn hafa tekið erfiðar ákvarðanir á skömmum tíma og án þess að leita umræðu um þær. Icesave-samningarnir svokölluðu eru hræðilegt dæmi um það. Eftir ítrekaðar yfirlýsingar ráðamanna um að þeir myndu ekki láta kúga sig fór óvænt að bera á tíðindum um að samkomulag væri að nást og svo var það kynnt sem meiri háttar sigur, þegar orðalagið skilyrðislaus uppgjöf hefði átt betur við. Þar var enn tönnlast á því að ekki hefði verið um nema einn kost að ræða. Eitthvað var umlað um þjóðréttarlegar skuldbindingar án þess þó að nokkur hefði fyrir því að útskýra hvenær fullveldisafsalið til útibúa Landsbankans erlendis hafi átt að hafa farið fram. Undir síðustu helgi samþykkti þingið svo þingsályktun um að ríkisstjórninni yrði barasta falið að semja um þetta allt saman. Væntanlega af því að henni hefur farnast svo vel því sviði að undanförnu.
Máske er ekki öll nótt úti í því samhengi, en ekki er maður bjartsýnn. Enn sem fyrr varpar hver ábyrgðinni yfir á annan, þannig að allt útlit er fyrir að Íslendingar klúðri því að sækja rétt sinn á hendur breska ríkinu vegna árásar þess á íslenska bankakerfið. Árásar sem síðan var fylgt eftir með afarkostum Evrópusambandsins, sem fylkti sér að baki óþokkanum Gordon Brown til þess að kúga Íslendinga. Vanræki ríkisstjórnin eða stofnanir, sem starfa á ábyrgð hennar, að grípa til varna og sóknar í þessu máli er aukast vandræði stjórnarinnar enn, en ekki hálft eins og vandræði þjóðarinnar, sem mun sitja uppi með óbærilegar skuldir löngu eftir að þessi ríkisstjórn verður farin frá og ráðherrar hennar orðnir sendiherrar í Brussel, Strassborg, Lúxemborg, Frankfurt og Haag.
Uppgjöfin gagnvart þessum fantabrögðum óvinaþjóða okkar í Evrópu er ömurleg. En hálfu verra er að horfa upp á þau viðbrögð að þá sé eina ráðið að gangast undir okið að öllu leyti og ganga ofsækjendum okkar á hönd. Mér finnst það raunar ganga landráðum næst.
Ekkert annað hægt en sækja um aðild | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 14
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 13
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar