Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Áttavillt í áttunda sinn

Tu-160 Blackjack

Þessi frétt gefur enn tilefni til þess að minna á það  þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og aðrir fulltrúar Kvennaframboðsins í borgarstjórn Reykjavíkur báru fram tillögu um það í lok Kalda stríðsins, að Reykjavík yrði lýst kjarnorkuvopnalaust svæði. Davíð Oddsson, sem þá var borgarstjóri, tók tillögunni vel, en taldi þó að ekki bæri að flana að neinu. Hann myndi því styðja það, að Árbæjarhverfi yrði lýst kjarnorkuvopnalaust svæði til reynslu. Gæfist það vel væri sjálfsagt að lýsa Reykjavík alla kjarnorkuvopnalaust svæði að reynslutímanum loknum. Af einhverjum ástæðum dagaði tillaga Kvennaframboðsins uppi.

Þessi 8. tillaga er þó borin fram á réttum vettvangi. Hins vegar væri glapræði af Íslendingum að samþykkja hana sisona, því hún græfi undan stefnu Atlantshafsbandalagsins um sveigjanleg svör í hernaði, en sú stefna hefur verið leiðarhnoð bandalagsins frá 1967. Samkvæmt henni áskilur bandalagið sér rétt til þess að svara hvers kyns hernaðarógn með þeim hætti, sem það kýs. Að staðbundin árás á eitt bandalagsríkið geti kostað allsherjarárás og tortímingu. Beiting kjarnorkuvopna er þannig ekki háð því að hugsanlegur óvinur beiti þeim fyrst. En þetta er tvístefnugata, því um leið er bandalagið (eða kjarnorkuvígvædd ríki þess: Bandaríkin, Bretland og Frakkland) ekki skuldbundið til þess að svara kjarnorkuárás í sömu mynt. Þessi stefna tók við af fyrri stefnu, sem Eisenhower forseti hafði mótað, og bauð að sérhverri árás yrði mætt með takmarkalausri gagnárás, þar sem kjarnorkuvopn kæmu einkum við sögu.

Annars átta ég mig ekki á því hver tilgangurinn með þessum tillöguflutningi er, ekki snýr hann að vörnum og öryggi landsins. Dettur helst í hug að hér sé hefðbundin sýndarmennska á vinstrikantinum. Hér hafa aldrei nein kjarnorkuvopn verið, nema hugsanlega á leið yfir hafið milli meginlanda Evrópu og Ameríku. Tillagan er að minnsta kosti ekki til þess fallin að styrkja varnasamstarf Íslendinga við aðrar þjóðir, einmitt á sama tíma og varnamálaráðherrann og utanríkisþjónusta hennar er á útopnu við að efla það um allar trissur. Enn athyglisverðara er svo að þessi tillaga skuli lögð fram nú, einmitt þegar Rússar hafa tekið upp á því að nýju að senda flugvélar að íslensku lofthelginni. Í því samhengi er rétt að hafa í huga að meðan Birnirnir svonefndu eru aðallega notaðir í eftirlitsflug eru Blackjack-vélarnar, sem hingað eru einnig sendar, einungis hannaðar sem sprengjuflugvélar. Með kjarnorkuvopn.

Það væri kannski ráð að flutningsmenn spyrðu vini sína austur í Moskvu hvort þeir hyggist virða kjarnorkuvopnaleysi landsins.


mbl.is Frumvarp um kjarnavopnalaust Ísland í 8. sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gallar á gjöf Kjarvals

Meistari Kjarval og dr. Bjarni Benediktsson.

Ekki ætla ég að draga í efa að dómurinn sé réttur, þó manni kunni að þykja nokkurt ranglæti í. Ég hef enda ekki allar forsendur til þess að meta það og þekki raunar ekki mikið meira en af stöku skrifum Ingimundar Kjarvals, sem hefur að vonum verið mikið niðri fyrir. Af dóminum og vitnisburði, sem þar er til greindur, virðist manni þó ljóst að Jóhannes S. Kjarval hafi verið með fullum mjalla þegar hann ákvað að gefa borginni verkin og hafði rúman tíma til þess að íhuga málin og snúast hugur ef því hefði verið að skipta. Það segir þó sína sögu um efnin í málinu að Hæstiréttur, líkt og héraðsdómur Reykjavíkur, dæmir að málskostnaður skuli niður falla.

Hins vegar verð ég að játa að ég skil ekkert í Reykjavíkurborg að hafa ekki fyrir langa löngu reynt að semja við dánarbúið um sanngjarnar bætur til þess án nokkurrar viðurkenningar, þó ekki væri nema til þess að koma málinu út úr heiminum. Borgin hefur reitt fram 580 milljónir króna fyrir minni verðmæti af minna tilefni. Það er ekki of seint fyrir borgina að sýna það veglyndi núna.

Eins er ég fremur efins um þessa hneigð á síðustu áratugum að safna sem mestri og bestri list í opinber söfn. Hugmyndin er sjálfsagt sú að tryggja varðveislu hennar og að allur almenningur fái notið hennar. Raunin er hins vegar allt önnur, hvort sem er hér á landi eða annars staðar. Hin opinberu söfn standa sig síst betur en einkasafnarar við varðveisluna, alls ekki, og megnið af dýrgripunum rykfellur í geymslum engum til yndis. Eini ábatinn felst í skráningu verkanna. Jú, svo er annar: með þessu móti er verð þeirra verka, sem enn eru á einkamarkaði, miklum mun hærra og á einskis færi nema auðkýfinga.


mbl.is Dánarbú Kjarvals á ekki myndir Reykjavíkurborgar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vill ekki fara

Er þá um annað að gera en að lýsa yfir óskoruðu trausti á honum og vona það besta?
mbl.is Musharraf hættir ekki sjálfviljugur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sovét-Ísland í Silfrinu

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir

Ég hnaut um að í Silfri Egils að mín góða vinkona Guðfríður Lilja Grétarsdóttir tönnlaðist á hinni „sovésku stóriðjustefnu Sjálfstæðisflokksins“ og nefndi til marks um hana áform um álver hér og þar og olíuhreinsistöð. Ekki var að heyra að aðrir hefðu neitt sérstakt við það að athuga. En hvað á hún við? Þessi iðnaðaráform, sem sum teljast til stóriðju og önnur ekki, eru ekki á forræði hins opinbera. Öðru nær raunar, því Samfylkingarráðherrarnir Össur Skarphéðinsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir hafa gert allt sem í þeirra valdi stendur til þess að koma í veg fyrir slík áform.

Ekki nóg með það, því þau hafa gert ýmislegt, sem í þeirra valdi stendur ekki til þess. Er þess skemmst að minnast hvernig einhver starfsmaður Össurar í iðnaðaráðuneytinu (nema það hafi verið sjálfur ráðherrann) varð uppvís að því að dreifa ósönnum óhróðri um fjárhagsstöðu eins þessara fyrirtækja til fjölmiðla og sjálfur umhverfisráðherra taldi það ekki fyrir neðan virðingu sína að segja Alþingi ósatt um losunartölur í fyrirspurnartíma. Hún ætti að minnast þess að menn njóta aldrei meiri virðingar en sjálfsvirðingar.

En þetta er sem sagt hin nýja staða. Hér áður fyrr voru stjórnvöld á þeytingi út um allan heim til þess að lokka fjármagn til iðnaðaruppbyggingar hérlendis, en nú koma menn sjálfviljugir með fjármagn og er vel tekið af heimamönnum, en möppudýr eins og Össur og Tóta reyna að bregða fæti fyrir þá með bellibrögðum. Ekki frekar en það kemur þeim við hvort alltof margar ísbúðir séu í Hafnarfirði eða ekki.

En Lilja var frekar fúl yfir þessu öllu og sérstaklega vegna þess að þessi þróun væri ekki í samræmi við umræðuna fyrir kosningar. Hvaða umræðu? Umræðugrundvelli vinstrigrænna? Eða Íslandshreyfingarinnar? Vinstrihreyfingin — grænt framboð fékk 14,35% atkvæða og Íslandshreyfingin 3,27%, mætti þá ekki segja að sjónarmiðum þeirra hafi verið hafnað? Ég veit ekki, enda kom í ljós að hún var fyrst og fremst að vísa til „Fagra Íslands“, umhverfisstefnu Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar og fannst lítil til um efndirnar. Sérstaklega hvað varðaði stóriðjustoppið svonefnda. Það snerist um „að öllum ákvörðunum um frekari stóriðjuframkvæmdir verði frestað þar
til fyrir liggur nauðsynleg heildarsýn yfir verðmæt náttúrusvæði Íslands og verndun þeirra hefur verið tryggð.“ Þar er vitaskuld átt við ákvarðanir stjórnvalda, en Lilja virðist halda að þar ræði um allar heimsins ákvarðanir. Eða a.m.k. á Íslandi. Þannig er það nú ekki. 

Annars hjó ég eftir því að hún var jafnvel enn fúlli þegar talið barst að nýsamþykktum ályktunum vinstrigrænna gegn einkavæðingaráformum, sem engin eru. Hún varðist fimlega og sagði að þarna væru vinstrigrænir að nefna einu nafni útvistun, úthýsingu, einkaframkvæmd og hvað þetta nú allt heitir. Gott og vel, en er þá ekki rétt að kalla stefnu vinstrigrænna í þessum efnum einu nafni og réttara? Þjóðnýting er gott og gilt orð og meira að segja smíðað af vinstrimönnum sem jávætt og fagurt orð yfir eignaupptöku og sovétvæðingu. Er ekki tímabært að vinstrigrænir gangist bara við þeirri stefnu sinni? Manni sýnist að Samfylking og Sjálfstæðisflokkur hafi sameinast um þjóðnýtingaráform í orkugeiranum, svo hvað dvelur kommana?


Blaðamannaverðlaunin

Verðlaunagripirnir.Ég var víst búinn að lofa skýringum á því hvers vegna spádómar mínir um Blaðamannaverðlaunin gengu ekki eftir, svo það er rétt að efna það heit.

Kristján Már Unnarsson á Stöð 2 er duglegur fréttamaður og fréttir hans úr „hversdagslífi á landsbyggðinni sem vörpuðu ljósi á þjóðfélagsbreytingar“ hafa örugglega verið góðra gjalda verðar. Vandinn er sá að ég man ekki eftir einni einustu þeirra. Dómnefndin hefur sjálfsagt í og með verið að verðlauna ákvörðun fréttastofunnar um að sinna slíku málefni í fréttaröð, enda oft undan því kvartað í hinum faglegu kreðsum Blaðamannafélagsins að slíkum fréttaflutning sé of lítið sinnt, eftirfylgni sé of lítil o.s.frv.

Ég fer hins vegar ekki ofan af því að Pétur Blöndal á Morgunblaðinu hefði verið betur að verðlaununum kominn. Umfjöllun hans um REI-málið var leiftrandi snilld, vel skrifuð, upplýsandi og fól í sér ótal góða fréttapunkta. Slíkt finnst mér nær að verðlauna en hugmyndir um ritstjórnarstefnu. A.m.k. meðan verið er að veita einstaklingum verðlaunin.

Því finnst mér einnig merkilegt að gervöll ritstjórn DV hafi verið verðlaunuð fyrir umfjöllunina um Breiðavíkurmálið. Þar er misjafn sauður í mörgu fé og það sást enda á umfjöllun blaðsins um þetta viðkvæma mál, að hún var brokkgeng. Í þokkabót deildi ritstjórnin svo verðlaununum með þeim Þóru Tómasdóttur og Sigmari Guðmundssyni í Kastljósi RÚV fyrir umfjöllun um sama mál, en mér fannst þeirra framlag langtum betra og áhrifameira. Þannig voru verðlaunin útþynnt enn frekar, ekki aðeins með því að láta heilu miðlana deila þeim, heldur ekki síður hinu að erfitt er að verjast þeirri hugsun að dómnefndin hafi verið að verðlauna Breiðavíkurmálið sjálft fremur en umfjöllunina um það.

Til hvers er þá verið að standa í þessu? 

 


mbl.is Kristján Már hlaut Blaðamannaverðlaun ársins 2007
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandinn við Villa

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, núverandi oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur.

Nú berast af því fregnir að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hyggist leita eftir því að verða áfram oddviti borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna í Reykjavík og taka þá við embætti borgarstjóra að ári. Með því vilji hann freista þess að standa af sér storma undanfarinna vikna og ná fyrra trausti Reykvíkinga. Hvað hæft er í þessu er óvíst. Fréttablaðið segir að Vilhjálmur hafi verið mjög tvístígandi í þessum efnum undanfarna daga og hafi raunar verið búinn að ákveða það að sækjast ekki eftir borgarstjóraembættinu. 

Margir stuðningsmenn Vilhjálms hafa hins vegar lagt hart að honum um að halda sínu striki og segja uppgjöf af hans hálfu nánast viðurkenningu á að hann hafi eitthvað óhreint í pokahorninu. Einkum mun fjölskylda Vilhjálms halda þessu sjónarmiði á lofti, en jafnframt hefur Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra staðið fast á því að Vilhjálmur megi ekki segja af sér. Ég sé að hinn innvígði en útmúraði Friðjón R. Friðjónsson telur í bloggi sínum á Eyjunni að hann hafi riðið baggamuninn í þeim efnum og kann honum engar þakkir fyrir. Þeir Vilhjálmur og Guðlaugur Þór hafa verið í gagnkvæmu stuðningsbandalagi í prófkjörum, þar sem hvor hefur eindregið beint því til stuðningsmanna sinna að kjósa hinn og má segja að það bandalag hafi verið lykillinn að prófkjörssigrum beggja.

Mér skilst að aðeins eitt sé á hreinu: Vilhjálmur hafi ekki viljað segja opinberlega af eða á fyrr en eftir helgi því honum hafi mislíkað mjög sá frestur sem Geir H. Haarde forsætisráðherra hafi sett honum í Silfri Egils um liðna helgi. Þá sagði Geir að Vilhjálmur hefði aðeins umþóttunartíma út vikuna. Geir hefur eindregið gefið til kynna að hann vilji að Hanna Birna Kristjánsdóttir taki við oddvitastöðunni og til marks um það höfðu menn samhljóma ummæli Borgars Þórs Einarssonar stjúpsonar Geirs og Þórlinds Kjartanssonar, formanns Sambands ungra sjálfstæðismanna, í liðinni viku, en þeir eru í innsta hring Geirs og telja menn ómögulegt að þeir fóstbræður hafi báðir sagt í sama mund að beinast lægi við að Hanna Birna tæki við forystunni í borgarstjórnarflokknum án samráðs við Geir.

Vilhjálmur er sagður taka þá afstöðu Geirs nærri sér, því hann hafi ævinlega stutt Geir af heilindum og talið að það væri gagnkvæmt. Vinir Villa benda á að Geir hafi stutt hann í síðasta borgarstjórnarprófkjöri Sjálfstæðisflokksins, meðal annars til þess að stöðva framgöngu Gísla Marteins Baldurssonar, sem flestir litu á sem frambjóðanda Davíðsæskunnar. Er rifjað upp að aðalræðumaðurinn við opnun kosningaskrifstofu Vilhjálms um árið hafi einmitt verið Inga Jóna Þórðardóttir svo ekkert færi nú milli mála. Geir gat trauðla gert upp á milli Vilhjálms og Gísla Marteins opinberlega, enda nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins.

Þverrandi stuðningur, ný vandamál
Nú segir Vísir þá frétt að hvorki Geir né Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, vilji að Vilhjálmur haldi áfram sem oddviti. Heimildirnar eru ekki tilgreindar, en mér þykir afar sennilegt að þetta sé rétt. Að minnsta kosti er það í nokkru samræmi við það, sem heyrst hefur úr þeim áttum að undanförnu. Þau eru sögð ætla að hitta Vilhjálm á fundi síðar í dag til þess að telja hann af þessari fyrirætlan sinni. Sjáum nú til hvernig það fer, en það hlýtur að vera fróðlegt að fylgjast með því á næstunni hvort að þessi ágreiningur Guðlaugs Þórs og Geirs hefur einhver eftirmál. Til þessa hefur ekki komist hnífurinn á milli þeirra.

Þó Vilhjálmur hafi legið undir feldi í tvær vikur (þegar Ljósvetningagoðanum dugðu þrjár nætur) er ég mjög efins um að Vilhjálmur meti stöðu sína rétt. Eða að hann átti sig á vandanum — þessi langi tími bendir til þess að markmið hans hafi verið eigin lausn en ekki Sjálfstæðisflokksins. Ég skil vel að hann vilji endurheimta pólitíska æru sína, en vandinn er sá að til þess hefur hann þröngan kost. Ef nokkurn. Í stjórnmálum er nefnilega aðeins ein leið til slíks og hún felst í því að bera mál sín undir kjósendur. Þeir einir geta reist menn við. Vilhjálmur hefur þegar sagt að hann hyggist ekki bjóða sig fram í næstu kosningum. Því er von að menn spyrji til hvers leikurinn sé gerður; pólitísk uppreisn hans getur ekki falist í því að sitja sem fastast í skjóli hálfvolgra og kreistingslegra stuðningsyfirlýsinga annara borgarfulltrúa.

Menn geta þá líka velt fyrir sér framhaldinu. Vilhjálmur þyrfti þá að taka upp þráðinn, þar sem frá var horfið fyrir tveimur vikum, og svara því hvernig lá í svörum hans um samráð við borgarlögmann í REI-málinu. Það mun reynast snúið og þegar í stað rífa ofan af sárinu. Við bætist að Umboðsmaður Alþingis er loks að taka REI-málið fyrir og ekki verður það léttara fyrir Vilhjálm, hvorki út á við né í borgarstjórnarflokkinum. Sjálfsagt eru svo enn fleiri fletir á REI-málinu, sem eiga eftir að koma í ljós, aðallega hvað varðar aðdraganda þess. Ekki styttast svipugöngin við það. Þegar svo við bætast alvarlegar ásakanir um spillingu eins og lagðar eru fram á hendur Vilhjálmi í Vísi í dag blasir við alger skelfing.

Eins má ljóst vera að minnihlutinn í borgarstjórn mun ekki láta sitt eftir liggja í aðsúg að Vilhjálmi og borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna öllum. Þar í eru veruleg efni og ekki síður skiptir hitt máli að hann myndi tala máli mjög margra borgarbúa ef marka má skoðanakannanir, orðið á götunni og þá hárskera og leigubílstjóra, sem ég hef ráðfært mig við.

Langdregið pólitískt sjálfsmorð
Ég óttast því að úr gæti orðið eitt langdregnasta pólitíska sjálfsmorð í manna minnum, Death of a thousand cuts, eins og það heitir á ensku. Þegar að kæmi að borgarstjóraskiptum næði það sjálfsagt nýjum hæðum og við tæki ömurlegur aðdragandi sveitarstjórnakosninga. Sú passía myndi ekki varða Villa einan, Sjálfstæðisflokkurinn allur myndi fyrir gjalda, bæði hér í borginni og á landsvísu, enda hefur flokksforystan fengið æ meiri gagnrýni upp á síðkastið fyrir að vera ekki vandanum vaxin.

Henni er auðvitað vandi á höndum, rétt eins og borgarstjórnarflokknum, því heitstrengingar um stuðning við Vilhjálm er erfitt að taka til baka. Þar hefur líka hver keppt við annan í fullyrðingum um að ákvörðunin sé alfarið í höndum Vilhjálms. Vegna þess hversu vandasöm hún sé, ekki síst fyrir Vilhjálm, þurfi að veita honum tilfinningalegt svigrúm til þess arna.

Sú kenning er hrein firra og er einmitt rót vandans. Það er hreint ekki í valdi og vilja Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar eins hvort hann verður borgarstjóri í Reykjavík. Borgarstjórinn er ráðinn af borgarfulltrúum og það eru því þeir, sem ráða þessu. Rétt eins og það eru borgarfulltrúar sjálfstæðismanna, sem velja sér oddvita úr sínum röðum. Oddvitinn situr í þeirra friði, rétt eins og borgarstjórinn. Mistök Vilhjálms í REI-málinu voru einmitt þau að hann taldi sig á einhvern hátt geta skipað borgarfulltrúunum fyrir verkum, en gleymdi að því var öfugt farið: Hann sat í umboði þeirra. Fyrir vikið missti hann borgarstjórastólinn.

Borgarstjórnarflokkurinn taki af skarið
Þó að borgarfulltrúar sjálfstæðismanna, að ógleymdum formanni og varaformanni flokksins, trúi því ennþá, vilji trúa því eða þykist trúa því, að allt sé þetta á forræði Vilhjálms, er gallinn er sá að því trúir enginn annar. Alls enginn.

Taki Vilhjálmur ekki af skarið blasir við að einhver annar verður að gera það. Fyrst og fremst liggur vandinn fyrir dyrum borgarstjórnarflokksins og þar ætti að leysa hann. Væri þá ekki eðlilegast að Hanna Birna Kristjánsdóttir sýndi forystuhæfileika sína með afgerandi hætti og hyggi á hnútinn? Hún er máske rög við það, annars vegar af tillitssemi við Vilhjálm og hins vegar kann hún að óttast að menn reki það til eigin metnaðar. Það eru ástæðulausar áhyggjur. Vilhjálmi hefur nú þegar verið sýnd ýtrasta tillitssemi. Á hinn bóginn er fyllilega tímabært að sjálfstæðismönnum, kjósendum Sjálfstæðisflokksins, borgurum Reykjavíkur og Íslendingum öllum sé sýnd sú tillitsemi að láta stjórn höfuðborgarinnar ekki reka lengur á reiðanum. Hvað hitt varðar þá er margsannað að Reykvíkingar kæra sig ekki um metnaðarlausa borgarstjóra.

Láti borgarstjórnarflokkurinn það vera að taka af skarið, hættir málið að snúast um traust og trúverðugleika Vilhjálms. Þá fer það að snúast um traust og trúverðugleika borgarstjórnarflokksins alls og í framhaldinu Sjálfstæðisflokksins. Þó ég sé bara úr máladeild er það reikningsdæmi ekki flókið. En úrlausn þess er brýn. Leysi Vilhjálmur það ekki í dag eða á morgun þarf borgarstjórnarflokkurinn að gera það á mánudag. Geri hann það ekki hefur hann lagt eigin trúverðugleika og flokks síns að veði með Vilhjálmi. Þá ætti hann að hafa hugfast að það er enginn einn maður stærri en Sjálfstæðisflokkurinn. Eða hvað?


Jobbi frændi biðst forláts

Jakob Frímann Magnússon.

Það mætti halda að það væri að koma prófkjör, svo ótt og títt sem Jakob Frímann Magnússon, frændi minn og tónlistarmaður, kveður sér hljóðs á síðum blaðanna um þessar mundir. Hann skrifar afsökunarbeiðni í Morgunblaðið í dag til handa Gísla Marteini Baldurssyni vegna þeirra orða, sem Össur Skarphéðinsson lét falla í hans garð í alræmdri bloggfærslu á dögunum. Að sögn rennur honum blóðið til skyldunnar þar sem þeir Össur báðir hafi notið þeirrar gæfu að meðtaka kristilegt hugarþel á kné síra Friðriks Friðrikssonar, upphafsmanns KFUM á Íslandi. Kappið hafi hins vegar borið bróður Össur ofurliði.

Af því að ég er gamall KFUM-maður finnst mér þetta fallega gert hjá bróður Jakobi. En af því að ég er einnig gamall skógarmaður — líkt og þeir eru nefndir er dvalist hafa í Vatnaskógi — finnst mér rétt að minnast á annað þessu tengt. Í Vatnaskógi hefur alla tíð verið mikið lagt upp úr því að venja drengi af þeim ljóta ósið að bölva. „Ekki blóta!“ gall við úr öllum áttum ef einhverjum varð það á. Íþróttaiðkun var snar þáttur í Vatnaskógi og þar gilti þetta líka. Blót inni á velli kostaði fríspark. Innan vítateigs kostaði það víti. Ég þarf ekki að orðlengja það að maður vandist hratt og örugglega af því að blóta í Vatnaskógi. Össur mætti rifja það upp.

Hitt er annað mál að Össur hefur alla tíð verið blendinn í trúnni, enda ólst hann að hluta upp inni á gafli hjá mínum góðu grönnum í Aðventkirkjunni. Ég fæ ekki betur séð en að Jobbi frændi sé líka orðinn blendinn í sinni trú:

Í þeim ljúfa vangadansi sem við bróðir Össur stígum við íhaldið um þessar mundir, í sölum bæði ríkis og borgar, hljótum við að framvegis að temja okkur betra íhald, þ.e. að læra að halda betur í okkur, a.m.k. á meðan dansinn er stiginn.

Það var og. Ég áttaði mig ekki á því að Jakob ætti aðild að dansinum. Var hann ekki í efsta sæti á framboðslista Íslandshreyfingarinnar í Suðvesturkjördæmi í kosningunum síðasta vor? Af þessum orðum er ekki annað að sjá en að hann sé kominn „heim“ til Samfylkingarinnar aftur. Eða fór hann kannski aldrei?


Dómharka er meiri löstur en fjárhættuspil

Birkir Jón Jónsson.Ég skrifaði færslu á Eyjuna í gærkveldi, þar sem ég vék að spilamennsku Birkis Jóns Jónssonar. Þar setti ég í stuttu máli fram þá skoðun að hún kæmi engum við nema Birki Jóni sjálfum.

Nú les ég hugleiðingar Reynis Traustasonar, ritstjóra DV, um þessi mál. Þar heldur hann því fram að Birkir sé haldinn spilafíkn og verði að leita sér hjálpar. Það byggir hann á því að Birkir hafi komið í spilavíti á Suðurgötu fyrir sex árum!

Mér finnast svona sleggjudómar og dómharka ekki boðleg. Hvað þá að þeir eigi erindi í fjölmiðla. Bendir eitthvað til þess að spilamennska Birkis hafi háð honum á einhvern hátt? Eða að almenningur eða almannavaldið þurfi að grípa til sinna ráða vegna hennar? Nei, svo er ekki. Hins vegar er verið að stilla manninum upp við vegg, knýja hann til þess að bera af sér ósannaðar sakir og um leið láta hann svara því hvort hann sé fíkill eða ekki. Það finnst mér ósæmilegt í meira lagi.

En kannski þetta lýsi einhverjum breyttum viðhorfum í þjóðfélaginu, að menn telji samfélagið eiga einhverja kröfu á breytni einstaklinganna umfram þessar lágmarkskröfur, sem settar eru fram í lögum. Að það sé tækt til opinberar umræðu hvort Bubbi reykir eða ekki, Birkir spili eða Bjarni Harðarof feitur.

Tillitssemi og umburðarlyndi eru dyggðir; afskiptasemi og dómharka ekki. Dómharka er meira að segja meiri löstur en fjárhættuspil, því hún smitar út frá sér en mögulegur skaði af fjárhættuspilum er næsta takmarkaður við þann, sem þau stundar.


Pressudagur

Prentsmiðja Morgunblaðsins árið 1953

Á laugardag er opinber bakklappsdagur íslenskra fjölmiðlunga, en þá er pressudagurinn svonefndi. Klukkan 15.00 verður opnuð ljósmyndasýning á vegum Blaðaljósmyndarafélags Íslands í Gerðarsafni í Kópavogi. Þar verður til sýnis úrval blaðaljósmynda síðasta árs og verðlaun veitt fyrir myndir ársins í ýmsum flokkum. Ástæða er til þess að hvetja alla áhugamenn um fjölmiðlun til þess að sjá sýninguna, en vel má halda því fram að þar rísi fagmennskan hæst í íslenskri fjölmiðlun, enda starfsmannavelta þar minni en í öðrum greinum hennar og svigrúm til listræns metnaðar meira.

Klukkan 17.00 verða hins vegar veitt Blaðamannaverðlaunin, en þau eru þrjú talsins. Fyrst skal telja Blaðamannaverðlaun ársins 2007, þá eru veitt verðlaun fyrir bestu umfjöllun ársins 2007 og loks fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins 2007. Nefnd fór yfir tilnefningar frá félögum í Blaðamannafélaginu, valdi þrjár í hverjum flokki og loks verðlaunahafana. Verðlaun af þessu tagi eru ávallt umdeilanleg og ekki síður hvernig staðið er að vali þeirra, en minna má á það hneyksli þegar Sigríður Dögg Auðunsdóttir var verðlaunuð fyrir ritstuld annars vegar og umfjöllun upp úr þýfi hins vegar. Eins komu upp efasemdir um það þegar Gerður Kristný fékk verðlaun fyrir bókarskrif, þó bókin hafi vissulega verið alls góðs makleg.

Í ár er ólíklegt að verðlaunin valdi mikilli úlfúð, þó sjálfsagt yrðu einhverjir hissa ef gervöll ritstjórn DV yrði verðlaunuð fyrir nærgætna umfjöllun um vistheimilið í Breiðavík eða Baldur Arnarson á Morgunblaðinu fyrir röð frétta og fréttaskýringa um svifryk, jafnágæt og hún var.

Hér skal spáð að Pétur Blöndal fái Blaðamannaverðlaun ársins fyrir frábæra umfjöllun sína um REI-málið í Morgunblaðinu, sem sló öllu öðru við, bæði hvað varðaði efnistök og fréttagildi. Eins að Þóra Tómasdóttir og Sigmar Guðmundsson hljóti rannsóknarblaðamennskuverðlaun fyrir umfjöllun sína um Breiðavíkurmálið í Kastljósi Ríkissjónvarpsins. Loks að Jóhannes Kr. Kristjánsson og Kristinn Hrafnsson fái umfjöllunarverðlaunin fyrir margvíslega umfjöllun í Kompási á Stöð 2. Um helgina má svo að líkindum lesa langt mál um það á þessum stað hvers vegna spáin gekk ekki eftir.


Blogg og auglýsingar

Nei, ég hætti ekki að blogga af fýlu í garð auglýsingarinnar hér til hægri. Ég hef bara verið frekar pennalatur að undanförnu, með kveflurðu og haft í ýmsu öðru að snúast.

Ég vildi hins vegar nota tækifærið og þakka fyrir mig. Morgunblaðið hefur boðið mér og öðrum lysthöfum þessa frábæru, ókeypis þjónustu í tvö ár. Netdeild Morgunblaðsins hefur tekið athugasemdum frá mér vel og jafnvel hnikað einhverju til þegar ástæða hefur þótt til. Mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að þeir beri eitthvað úr býtum í staðinn og tekjur af auglýsingasölu finnast mér vel geta fallið þar undir. Morgunblaðið leggur til rammann, bakendann, lénið, megnið af tilvísunum, o.s.frv. Þar á bænum lifa menn ekki á loftinu frekar en aðrir.

Hitt er annað mál, að hugsanlega ætti Moggi að bjóða bloggurum einhverskonar tekjuskiptingu. Bloggmaskínur eins og Stebbi Fr. eru með ríflega 2.000 manns í áskrift hjá sér daglega. Ég hygg að Morgunblaðið græði meira á honum en hann á því. Kannski upphæðirnar séu þó smávægilegri en svo að það svari kostnaði að standa í slíku bókhaldi.

Síðan lít ég auðvitað á það sem sérstakan heiður að auglýsendur taki þessa örmiðla okkar hér á Moggabloggi nægilega alvarlega til þess að vilja auglýsa og um leið borga fyrir þá þjónustu sem ég þigg.

En er ekki ritstjórnarlegu sjálfstæði mínu ógnað með þessu? Tæpast. Ég hef fengist við blaðamennsku í liðlega 21 ár og það hefur aldrei plagað mig þó hitt eða þetta sé auglýst á sömu síðu. En hvað ef auglýsingin væri ekki fyrir símkerfi heldur pólitísk? Myndi ég una því ef Samfylkingin keypti auglýsingu hér við hliðina á? Ójá, því meira hrós gæti maður varla fengið en ef pólitískir andstæðingar sæju sérstaka ástæðu til þess að andæfa manni með þeim hætti.

 

....................

P.S. Sé mér til vonbrigða að bloggkerfið tekur ekki gríska stafrófið vandræðalaust. Mætti líklega laga Unicode-stuðninginn. 


Næsta síða »

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband