Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Aðildarviðræður við vinstristjórnina?

Forysta Sjálfstæðisflokksins í þinginu.

Ég sé í Orðinu á götunni á Eyjunni, að þar telja menn víst að tillagan um aðildarumsókn að Evrópusambandinu verði samþykkt á Alþingi nú á eftir. Ég ætla mér ekki þá dul að spá fyrir um það, en það má ljóst vera að afar mjótt er á mununum og getur hæglega farið á hvorn veginn sem er.

En ég hnýt um það að sagt er að einhverjir þingmenn Sjálfstæðisflokksins kunni að styðja málið eftir allt saman og nafn Ragnheiðar Ríkharðsdóttur sérstaklega nefnt í því samhengi. Það finnst mér nú fremur ósennilegt, því þótt Ragnheiður hafi ekki leynt Evrópuáhuga sínum, þá er ekkert í breytingartillögunni um tvöfalda kosningu, sem truflar það. Þvert á móti væri með þeim hætti komið samkomulag á þinginu um ferilinn, þar sem þjóðin er í aðalsæti, í stað þess að tillagan hökti í gegn við áköf mótmæli stjórnarandstöðunnar og við hálfan hug þjóðarinnar.

Með því væri engum dyrum til Evrópu lokað, eins og sumir hafa viljað orða það.

Breytingartillagan skiptir því engu til eða frá fyrir Evrópuunnendur, en pólitískt skiptir hún máli fyrir margsært stolt ríkisstjórnarinnar. Ég hef enga trú á því að Ragnheiður eða aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins ákveði upp úr þurru að rjúfa samstöðu þingflokksins í þessu mikilvæga máli, styðji ekki sáttatillögu sjálfstæðismanna og hafi nýsamþykktar landsfundarályktanir Sjálfstæðisflokksins að engu.

Færi svo þætti mér raunar tilefni til þess að boða til nýs landsfundar til þess að spyrja viðkomandi þingmann eða þingmenn að því hvers vegna þeir hefðu í senn ákveðið að hundsa stefnu flokksins, bæði eins og hún var boðuð á landsfundi og í kosningabaráttu, en þó ekki síður hvers vegna þeir hefðu snúist á sveif með ríkisstjórninni. Það væru vægustu viðbrögðin, því vel má spyrja hvaða erindi viðkomandi ættu í þingflokknum lengur.

Ég hef hins vegar enga trú á því að forysta Sjálstæðismanna hafi ekki þétt raðirnar í þessu veigamikla máli og að þingflokkurinn standi saman sem einn maður gegn ofríki og offorsi ríkisstjórnarinnar. Annað snerist um aðildarviðræður við vinstristjórnina vanhæfu og vitlausu.


Til varnar Borgarahreyfingunni

Þingmenn Borgarahreyfingarinnar ásamt Þráni Bertelssyni, þingmanni Samfylkingarinnar.

Ég skrifaði m.a. um það í fjölmiðlapistli mínum í Viðskiptablaðið í dag, hvernig mér þættu  sumir miðlanna hafa gengið hart fram gegn Birgittu Jónsdóttur, þingmanni Borgarahreyfingarinnar, vegna meintra svika hennar við stefnu framboðsins, jafnvel kjósendur. Mér þóttu rökin harla fáfengileg, ekki síst í ljósi opinberrar stefnu Borgarahreyfingarinnar, sem víkur ekki einu orði að Evrópu eða evrunni. Enn frekar væri það þó umhugsunarefni að þessir sömu miðlar, jafnvel fleiri, virtust setja ríkisstjórnarflokkana undir einhvern allt annan kvarða. Að minnsta kosti væri ekki gengið jafnhart að þeim vegna tvöfeldni þeirra í Evrópumálflutningum.

Svo sé ég Staksteina Morgunblaðsins í dag, þar sem veist er að þremur þingmönnum Borgarahreyfingarinnar með offorsi — jafnvel á mælikvarða hinna harðskeyttu Staksteina — og rætt um „ógeðfellda verslunarhætti“, að „sannfæring þeirra sé til sölu“ og þar fram eftir götum. Tilefnið sú ákvörðun þingmannanna að styðja breytingartillögu sjálfstæðismanna við þingsályktunartillögu utaníkisráðherra um aðildarviðræður við ESB, sem snýst um að þjóðin eigi bæði fyrsta og síðasta orðið í þeim efnum: að gengið verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja skuli um aðild. Það hafa þingmennirnir sagst ætla að gera þvert á fyrri yfirlýsingar, nema ríkisstjórnin taki Icesave-nauðungarsamningana út af borðinu.

Það er fráleitt að tala um að sannfæring þingmannanna sé til sölu. Það er áskilið í stjórnarskrá að engum þingmanni megi setja reglur um hvernig hann ráðstafi atkvæði sínu, þeir séu aðeins bundnir sannfæringu sinni. Það þýðir ekki að í hverju og einu máli verði þeir að greiða atkvæði eins og þeirra innsta hjartans sannfæring í því máli ráði, þar getur fleira komið til, eins og er í þessu máli.

Rætt er um að þeir séu að svíkja „handsalað“ „heiðursmannasamkomulag“, sem þingflokkur Borgarahreyfingarinnar mun hafa gert við stjórnarmeirihlutann, en þeir eru auðvitað ekki lagalega bundnir af því í atkvæðagreiðslu á þingi, frekar en öðrum reglum, þó þeir hafi verið siðferðislega bundir að því leytinu. Hins vegar er með ólíkindum að enginn hinna hneykslunargjörnu farísea hafi bent á að í því samkomulagi felast væntanlega hin upphaflegu hrossakaup, seld sannfæring og það allt! Látum það þó vera og setjum sem svo að það hafi allt verið fagurt og gott. Af hálfu Borgarahreyfingarinnar að minnsta kosti. Menn gleyma því nefnilega að það samkomulag var gert út frá öðrum aðstæðum, aðstæðum sem stjórninni var kunnugt um, en lét vera að upplýsa Borgarahreyfinguna (og alla aðra) um, en það er Icesave-málið, sem tengist Evrópuumræðunni beint. Samningar byggðir á slíku falsi eru einskis virði og Samfylkingarmenn ættu að tala varlega um „heiðursmannasamkomula“ í því samhengi. Eða nokkru samhengi, eins og málum er komið.

Þessir þrír þingmenn Borgarahreyfingarinnar átta sig á því að Icesave-málið er mál málanna á þessu þingi. Verði breytingartillaga sjálfstæðismanna samþykkt er engum dyrum lokað í Evrópumálinu, öðru nær. Þá mun liggja fyrir þingsályktun um aðildarumsókn að undangengum kosningum, sem maður skyldi ætla að styrkti umsóknina veiti þjóðin umboð sitt. Það kann að fresta umsókninni í 3-6 mánuði, en í ferli, sem að öllu jöfnu tekur 5-7 ár, skiptir sá tími engu máli til eða frá. Ekki fyrir efni málsins. Kannski ríkisstjórninni finnast það einhverju máli skipta fyrir eigið sjálfstraust og sjálfsvirðingu, en það er ekki stjórnarandstöðunnar að fóðra ranghugmyndir um það.

Punkturinn er nefnilega sá, burtséð frá því hvað mönnum finnst brýnt að komast í fang ESB eða ekki, að það skiptir engu máli í hinu stóra samhengi hlutanna, hvort óskað er eftir aðildarviðræðum mánuðinum fyrr eða seinna. Jafnvel þó svo þingsályktunin væri felld nú mætti hvenær sem er leggja hana fram aftur. Ríkisstjórnin gæti þess vegna — hefði hún þor til — hafið aðildarviðræður upp á eigin spýtur, það er ekkert sem segir að hún þurfi að leita heimildar þingsins til þess, aðeins að hugsanlegan samning yrði að bera undir það. Og þjóðina ef marka má pólitísk fyrirheit allra flokka.

Það er hins vegar nú eða aldrei að stöðva Icesave-uppgjafarsamningana.

Óþarfi er að rekja hvernig ríkisstjórnin hefur hrakist úr hverju víginu í annað í þeim efnum, þar sem ósannindi og óheiðarleiki, mistök og heimska, fyrirhyggjuleysi og forlagatrú virðast hafa ráðið ferðinni. Sérfræðingar hins opinbera og í einkageiranum eru enn að upplýsa um ótrúlega vankanta á samningnum og hinni pólitísku samfélagsumræðu er langt í frá lokið. Allt, sem fram hefur komið (og það er alveg örugglega ekki allt!), bendir til þess að Íslendingar eigi hugsanlega ekki að bera þennan skuldaklafa yfirleitt, eigi altjent ekki að bera hann einir og að einstaklega óhönduglega hafi tekist til um samningsgerðina.

Þess vegna á ekki og má ekki staðfesa Icesave-uppgjafarsamning ríkisstjórnarinnar, sem gæti hæglega haft hræðilegar afleiðingar fyrir land og þjóð.

Því átta þau Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari sig á og þess vegna hafa þau gripið til þessa ráðs, sem þeim er greinilega óljúft. Hafi þau þökk fyrir, frekar en skammir Staksteina. Sárni þeim þær skammir geta þau minnst þess að Morgunblaðið telur engan aðgöngumiða inn í ESB of dýran, jafnvel ekki þjóðargjaldþrot og landauðn.


Blekkingar á blekkingar ofan

Voru þau að blekkja eða vissu þau ekki betur?

Þarf frekari sannanir fyrir fullkomnum óheilindum ríkisstjórnarinnar í Icesave-málinu?

Hér skýtur upp kollinum skýrsla með allt öðrum áherslum en kynntar hafa verið, en eins og svo mörgu öðru var henni stungið undir stól. Þessa álits Mishcon de Reya (nafn stofunnar er misritað í fréttinni)  er hvorki getið í greinargerð Icesave-frumvarpsins né fylgdi það með í gögnum málsins. Samt taldi stjórnin sér sæmandi að skreyta sig með nafni skýrsluhöfunda!

Þessi vinnubrögð eru með ólíkindum. Frá einni af virtustu lögmannsstofum í Lundúnum kemur álit, sem svo óheppilega vill til að gengur gegn samningsmarkmiðum Breta, Hollendinga og Samfylkingarinnar og þá er það látið hverfa. Ekki fyrir mistök, því sú staðreynd að stofunnar er getið í greinargerðinni sýnir glögglega að ríkisstjórnarflokkarnir báðir þekktu til þess. Nei, henni var vísvitandi komið undan.

Er nema von þó spurt sé í hvers þágu samninganefndin og ríkisstjórnin hafi unnið? Ekki í Íslands þágu, svo mikið er víst. Samningsmarkmið Samfylkingarinnar hafa ávallt verið skýr og byggjast á ímyndun þeirra um að þessu verði megi kaupa hraðferð inn í Evrópusambandið, þó það þýði örbirgð lands og þjóðar. En hvað í skollanum gengur vinstrigrænum eiginlega til? Eru þeir virkilega svona miklir einfeldningar? Þeir ættu að hæðast meira að gáfnafari forsætisráðherrans.

Þetta er allt á sömu bók lært. Allt frá því Steingrímur J. Sigfússon talaði um þá „glæsilegu“ niðurstöðu, sem félagi Svavar Getsson væri að ná, til þess er samningsdrögin voru kynnt. Sú kynning reyndist meira og minna röng, jafnvel um það fáa, sem íslenska samningsnefndin virtist hafa haft til málanna að leggja. Einfaldir hlutir á borð við hvenær íslenskar eignir yrðu losaðar á Englandi eða hvernig vaxtakjörin væru hugsuð. Allt var það ríkisstjórnarrötunum framandi.

Eða það hélt maður. Nú er maður farinn að velta því fyrir sér hvort þau Steingrímur og Jóhanna Sigurðardóttir hafi máske vitað betur allan tímann, en ákveðið að blekkja þjóðina. Gleymum ekki því að Steingrímur var spurður í þinginu um það hvernig samningaviðræðurnar gengu og hann laug blákalt að það væri nú eiginlega ekkert að gerast í því nema svona „könnunarþreifingar“. Þá var verið að ganga frá ósköpunum!

Höfum einnig hugfast að upphaflega ætlaði ríkisstjórnin ekki einu sinni að leggja sjálf samningsdrögin fyrir Alþingi, hvað þá meir. Þingið átti veskú að samþykkja hann og opnasta tékka veraldarsögunnar án nokkurrar vitneskju, umfram fullvissu þeirra skötuhjúa um að samningurinn væri obboslea góður. Það var ekki nema fyrir nokkra harðfylgni hluta þingheims, sem fallist var með semingi á að sýna þinginu samningstillöguna og þá átti helst að skilja þjóðina eftir út undan. Leyndin var sögð að kröfu erlendra viðsemjenda, en þó Steingrímur hafi kallað stöku mann inn á kontór (er hann þá Rauða krumlan?) til þess að sýna þeim tölvupóst er átti að styðja þá fullyrðingu, þá var ekkert handfast um það í honum. Eða samningstillögunni.

Hvað má þá segja um hringlandann með gögnin? Steingrímur sagði að það yrði hvert snifsi birt, nema það sem væri ströngum trúnaði bundið eða fundargerðir. Nú eru fundargerðirnar raunar höfuðgagn í málinu, svo unnt sé að leggja mat á samningsforsendur, sókn, eftirgjöf og málamiðlun, en nei, um það getum við ekkert vitað. Og svo eru auðvitað leyniskjölin sem þingmenn mega aðeins skoða í lokuðu herbergi. Látum það þó vera, því Steingrímur varð auðvitað uppvís að því að leggja ekki einu sinni fram það, sem hann þó sagðist ætla að gera. Þegar eftir var gengið viðurkenndi hann að eitthvað hefði orðið eftir og að úr því yrði bætt. Sem hann sagðist svo hafa gert með því að leggja fram einhverjar þrjár nótur. Þá kemst aftur upp að enn vantar í bunkann! Og nú þessi falda skýrsla! Hvenær mun allt komast upp á yfirborðið?!

Hér í hafa verið svo miklar blekkingar og svik, að þingmenn geta ekki með góðri samvisku samþykkt Icesave-samninginn. Þó ekki væri nema vegna þess að þeir vita ekki hvort þeir viti allt, sem þeir þurfa að vita. Ríkisstjórnin hefur svo margsinnis orðið uppvís að lygum og rangfærslum, leyndarhyggju og pukri, að engin leið er að taka hana trúanlega um neitt í þessu máli.

Þá er órætt um sjálfa samningstillöguna. Hérlendir lögfræðingar segja að hún sé illa gerð, beinlínis gölluð að sumu leyti. Sumt sé þar skilið eftir í lausu lofti og geti haft verulega aukinn kostnað í för með sér, nær örugglega af athugunarleysi! Eru þessi vinnubrögð verjandi? Og eitt enn: Af hverju hefur engum dottið í hug að spyrjast fyrir um fyrri reynslu samningarnefndarmanna af alþjóðlegri samningsgerð? Nógu er svarið stutt.

Þessum samningi verður að hrinda. Það er skylda þingsins.


mbl.is Óvíst um ábyrgð á Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband