Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Á ég að gæta bróður míns?

Mér var bent á það að í helgarblaði DV mætti finna klausu um undirritaðan í Sandkorni, sem sjá má hér til hliðar. Nú ber að horfa til þess að DV fjallar jafnan um stjórnmál af einstakri vanþekkingu, þannig að oft verður úr prýðilegt skemmtiefni fyrir áhugamenn um stjórnmál, en þessi klausa er svo grautarleg, að hún er ekki aðhlátursefni. Ekki einu sinni þegar rausið um talíbana Gísla Marteins Baldurssonar hefst og meintan klofning, sem „óneitanlega hlýtur að skrifast á Björn Bjarnason".

Líkast til er það Sigurjón Magnús Egilsson, fyrrverandi ritstjóri á Blaðinu, sem þarna heldur á penna; að minnsta kosti er höfundur með Björn Bjarnason á heilanum og telur það mikilvægt að tilgreina að ég sé fyrrverandi blaðamaður á Blaðinu, líkt og það sé hápunktur ferils míns að hafa unnið með honum! En ég er sumsé blaðamaður á Viðskiptablaðinu.

En það er nú ekki aðalmálið, heldur hitt að höfundur segir mig „hafa fallið í þá gryfju að fjalla ekki hlutlaust um uppákomur í borginni“, en það rekur hann til bróðernis míns, enda eigi ég að hafa vandlega gætt hagsmuna Kjartans Magnússonar, bróður míns og borgarfulltrúa, í ræðu og riti.

Nú er skemmst frá því að segja, að ég hef alls engar fréttir skrifað af orrahríðinni á vettvangi borgarinnar. Á hinn bóginn hef ég skrifað talsvert um REI-málið í Viðskiptablaðið og á blogga mína, bæði á Moggabloggi og á Eyjunni, og jafnvel rætt þessi mál stuttlega í Kastljósi Ríkisútvarpsins. Allt hefur það hins vegar verið annað hvort undir nafni eða í þar til gerðum skoðanadálkum; sumt í nokkrum hálfkæringi annað í rammri alvöru. Þar hef ég ekki hikað við að benda á skálkana í Orkuveitunni, vandræði Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, mysumaðka Björns Inga Hrafnssonar og hvernig Svandís Svavarsdóttir virðist hafa selt sálu sína næsthæstbjóðandi. En á Kjartan bróður eða einhverja sérstaka hagsmuni hans í þessum málum öllum hef ég ekki minnst.

Að njóta eða gjalda bróðernis
Það kemur sjálfsagt engum á óvart — nema hinum djúphyglu stjórnmálaskýrendum DV — að skrif mín og málflutningur bera keim af lífsviðhorfum mínum, sem sumir segja að séu nokkuð til hægri við miðju. Öfugt við flesta blaða- og fréttamenn nú orðið hef ég aldrei dregið dul á stjórnmálaskoðanir mínar eða þá staðreynd, að ég er félagi í Sjálfstæðisflokknum. Ég fæst enda að mestum hluta við skoðanaskrif, þannig að það kemur hreint ekki að sök að hafa grundvallaðar skoðanir. Mér finnst fullkomlega ástæðulaust að gera mér upp hlutleysi, það er enginn hlutlaus nema hóran.

Ég veit ekki hvað sandpárari DV á við um að ég hafi gætt hagsmuna Kjartans bróður míns í ræðu og riti. Auðvitað legg ég allt hið besta til hans; ekki aðeins af því að hann er bróðir minn, heldur af því að mér finnst hann grandvar og réttsýnn maður, duglegur og fylginn sér, einmitt þeirrar gerðar, sem á að sitja í borgarstjórn.

Hvað mín margvíslegu skrif varðar hefur Kjartan þó til þessa aðeins goldið bróðernisins en ekki notið. Vegna þess að hann er bróðir minn hef ég aldrei kunnað við að skrifa staf um hann eða hans verk, eins og það er rík ástæða til þess að meta hvort tveggja. Ég veit líka að honum hafa ekki alltaf líkað öll mín skrif og stundum beinlínis haft af þeim ama, því ég get verið vígreifur á ritvellinum og þá álykta sumir sem svo að ég hljóti að vera að enduróma eitthvað frá honum og kenna honum svo um. Í sumum tilvikum hefur fólk kosið að misskilja það á þann veg. Þeir, sem þekkja okkur bræður báða, vita betur.

Ég á að gæta bróður míns, hvað sem bróðurþelinu á DV líður. Ég ætla nú samt — að þessum línum rituðum — að láta það vera að vera að úttala mig um hann í umfjöllun um stjórnmál. Það væri ekki aðeins kjánalegt að reyna eitthvað slíkt, heldur ósanngjarnt. Bæði gagnvart lesendum og honum.


Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband