Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Hvaða „við“ eigum lífeyriskerfið?

Helgi í Góu á miklu kúluláni að fagna.

Ég sé að minn kæri Bjarni Harðarson er ánægður með framtak gotterísfurstans Helga Vilhjálmssonar í Góu gagnvart lífeyrissjóðunum. Segir hann hreyfa mikilsverðu máli, sem sé „brask og hálaunastefna lífeyrissjóðakerfisins“. Það má vel vera, enda er Helgi sjálfsagt hvorki ókunnur braski né háum launum.

Mér leikur hins vegar hugur á að vita annað: Í hvaða lífeyrissjóði er Helgi og af hverju reynir hann ekki fyrst að betrumbæta hann áður en hann gengst fyrir því að Jóhanna Sigurðardóttir taki allan lífeyri landsmanna undir sinn náðarfaðm? Og það undir kjörorðunum „Við eigum lífeyrissjóðina!“

Ég á einhver lífeyrisréttindi, en mér dettur ekki í hug að fyrir vikið eigi ég kröfu á aðra lífeyrissjóði líkt og Helgi lætur. Enn síður að með því að setja inn nafn og kennitölu á „undirskriftasöfnun“ Helga á netinu geti ég eða hann eða Jóhanna í nafni þjóðarinnar slegið eign sinni á lífeyriskerfið og látið það haga sér að þörfum mínum, hans eða Jóhönnu.

Þetta er kannski einkennandi fyrir þjóðfélagsumræðuna heima þessi misserin, í upplausninni og umrótinu í kjölfar áfallsins stíga fram allir landsins lukkuriddarar til þess að koma á framfæri sérstökum áhugamálum sínum, gamalkunnum að vísu, en eiga að sögn sérstakt erindi nú. Ég hugsa að þeir keisarar muni flestir reynast klæðaminni en þær dansmeyjar, sem nú liggur mest á að uppræta. Væntanlega til þess að slá skjaldborg um heimilin og koma hjólum atvinnulífsins í gang, svo vitnað sé til vinsælustu flatneskjunnar.


Bjarna Ben til forystu

Bjarni Ben fagnar sigri í prófkjöri

Nú stendur landsfundur Sjálfstæðisflokksins yfir og ég er illa fjarri góðu gamni. Ég skráði mig til setu á honum skömmu upp úr áramótum, þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir boðaði til hans. Svo breyttist allt, stjórnin féll, Geir H. Haarde veiktist, fundinum var frestað og allt hitt. Þar á meðal breyttist það, að ég fluttist til Englands um nokkurra mánaða skeið.

Svo ég missi af landsfundinum. Ég sýti það nokkuð, því ég hafði hlakkað til þess að gera út um Evrópumálin þar eins og að var stefnt. Mín skoðun er sú að Ísland eigi að vera sjálfstætt ríki og leyfa Evrópu að fljóta að sínum feigðarósi. Ég segi mínum ensku vinum hér í Cotswolds að mér finnist að Bretar eigi að gera hið sama og geti máske fengið aðild að EES. Þeirri hugmynd er hvarvetna vel tekið, en Evrópusambandið nýtur lítils fylgis eða aðdáunar hér.

Heima munu flokkssystkin mín líka velja flokknum nýja forystu, en ég hefði líka viljað koma að því vali. Það skiptir verulega miklu máli að þar takist vel til. Sjálfstæðisflokkurinn þarf að endurnýja hugmyndalegt erindi sitt og það verður ekki létt verk, þó hann hafi vissulega á sjálfstæðisstefnunni að byggja. Meira um það síðar.

Hin nýja forysta þarf því að búa yfir hugmyndaauðgi og vel grundvölluðum stjórnmálaskoðunum, því hennar hlutverk verða ekki bara „politics as usual“, eins og það er nefnt hér á Englandi. Við blasir að stjórnmálin þurfa að helgast af hugsjónum en ekki hagsmunum. Að auki verður að teljast líklegt að sjálfstæðismenn verði í stjórnarandstöðu næstu misserin, sem verður hinni nýju forystu nokkur eldskírn og kallar á óumdeilda leiðtogahæfileika, bæði til þess að halda eigin liði saman og berja á vinstriflokkunum (sem nú þykjast allt í einu hafa höndlað sannleikann), en umfram allt til þess að sannfæra þjóðina um að Sjálfstæðisflokkurinn sé traustsins verður. Um það virðast margir hafa efasemdir nú, en það kann að breytast fyrr en varir. Ástandið kann að virðast hábölvað nú, en ekki verður það skárra eftir að rauðgræna stjórnin verður búin að vera við völd í aðra 80 daga til. Hvað þá lengur.

Kristján Þór Júlíusson er snjall stjórnmálamaður og kann sitt fag, en ég held ekki að hann sé rétti maðurinn til þess að taka við Sjálfstæðisflokknum, þétta raðirnar og endurnýja erindi hans. Hans pólitísku hæfileikar liggja einfaldlega á öðrum sviðum.

Bjarni Benediktsson þykir mér hins vegar einsýnt að sé best til þess fallinn að taka við forystu Sjálfstæðisflokksins á þessum erfiðu tímum. Hann hefur þá pólitísku dýpt, sem til þarf, hefur ríka leiðtogahæfileika til að bera og er bæði vígfimur og varkár. Ég sé að sumir vilja meina að hann hafi fæðst með silfurskeið í munni, en ég myndi nú heldur benda á að honum eru stjórnmálin í blóð borin. Það held ég að sé ekki verra þessa dagana. Þvert á móti. Við stöndum frammi fyrir alvarlegum vanda, þá er um að gera að fá alvörugefna menn til forystu.

Samkvæmt skoðanakönnunum vilja nær 60% sjálfstæðismanna að Bjarni verði formaður, en um 36% styðja Kristján Þór. Mér kæmi ekki á óvart þó atkvæðatölur á landsfundi féllu á þann veg. Til allra vina minna og flokksfélaga á landsfundi sendi ég góðar kveðjur og skora á þá að kjósa Bjarna Benediktsson formann Sjálfstæðisflokksins. Það liggur mikið við.


mbl.is Þjóðin fái að skera úr um ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skoðanahannanir og fals í fjölmiðlum

simaver

Mér fannst hún soldið merkileg fréttin um að Guðlaugur Þór Þórðarson hafi ekki einu sinni náð meirihlutafylgi í eigin kosningakerfi, þessari rómuðustu kosningamaskínu landsins. Samkvæmt stuðningsmönnum Gulla eru þeir aðeins að fá jákvæð svör frá 45% þeirra, sem hringt er í. Ekki finnst mér það nú til þess að senda út fréttatilkynningar um.

Í dag átti ég leið í kosningamiðstöð Illuga Gunnarssonar úti á Fiskislóð, en ég styð hann í 1. sætið í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík. Í ljósi „fréttarinnar“ um þessa „könnun“ úthringivers Guðlaugs Þórs spurðist ég fyrir um hvernig svör Illugamenn væru að fá um stuðning í 1. sætið í sínum úthringingum. Það er skemmst frá því að segja að samkvæmt þeirra tölfræði ætla 96% viðmælenda þeirra að kjósa Illuga í fyrsta sætið, 2,7% vilja Geir Hallgrímsson en tveir nefndu Gunnlaug Þór Þórðarson, sem mér vitanlega er ekki í framboði.

Grínlaust þá skil ég ekkert í að fjölmiðlar skuli birta svona „frétt“. Sporðrennir Moggi hvaða þvaðri sem er og endurbirtir gagnrýnislaust? Hér er ljóslega ekki um skoðanakönnun að ræða, heldur einhverja statistík frá símsölufólki, sem engin leið er að staðfesta til eða frá, en er snikkuð til og látin líta út eins og frétt um eitthvað allt annað. Sumsé fals. Eyjan hafði þó fyrir því að birta viðbrögð Illuga og nefndi hina sérkennilegu aðferðafræði í fyrirsögn. Vísir birti hins vegar villandi frétt um að stuðningsmenn Guðlaugs Þórs hafi „látið framkvæma könnun“ líkt og þar hafi hlutlaust könnunarfyrirtæki komið að, en bæði þar og á mbl.is var nefnt svona í framhjáhlaupi að „könnunin“ hafi verið gerð „fyrir stuðningsmenn Guðlaugs Þórs af úthringihóp á vegum framboðs Guðlaugs Þórs“. Sumsé af símaveri hans, sem er miðverkið í kosningamaskínu hans!


mbl.is Stuðningsmenn Guðlaugs segja hann hafa forystu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband