Leita í fréttum mbl.is

Til varnar Villa

Það er merkilegt hvernig menn láta eins og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hafi orðið uppvís að einhverri lygi í Orkuveituóperunni, af því að fram kemur í greinargerð frá Bjarna Ármannssyni, stjórnarformanni REI, Hauki Leóssyni, stjórnarformanni Orkuveitu Reykjavíkur og Hjörleifi B. Kvaran, forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, að honum hafi verið kynnt tiltekið minnisblað Bjarna Ármannssonar á „löngum fundi“, sem þeir Haukur og Bjarni héldu með borgarstjóra á heimili hans.

Ástæðan fyrir því að menn líta á þetta sem mikil teikn er sú, að Vilhjálmur hafði sagt í viðtali við Morgunblaðið á sunnudag að sér hefði verið ókunnugt um þennan 20 ára þjónustusamning, sem ég hygg að flestum hafi blöskrað hversu mjög batt hendur Orkuveitunnar. Ekki síður sætti það undrun að hann skyldi ekki hafa verið nefndur einu orði þegar samruni félaganna var kynntur. En nú var því sumsé haldið fram að Villa hefði verið kynntur samningurinn fyrir löngu, löngu áður en samningurinn var tilbúinn. En hvað kynntu þessir herramenn fyrir borgarstjóra á fundinum langa?

Ég veit ekki hvernig þeim mæltist fyrir, en á þessu minnisblaði er rætt um hlutina með allt öðrum hætti en gert var í samningnum, sem nánari grein er gerð fyrir að neðan. Það er talað um að tryggja aðgang að þekkingu og starfsfólki, að notkun vörumerkisins sé heimil og að OR beini verkefnum til REI. Það er svolítið annað en einkaréttur að þekkingu, skuldbinding um að hafa ávallt sérfræðinga tiltæka eftir þörfum og dyntum REI, eða fortakslaus forgangur að öllum verkefnum OR utan landsteinanna. Orðið „einkaréttur“ kemur ekki einu sinni fyrir!

Er unnt að draga aðra ályktun en að þetta almenna orðalag sé til þess fallið að afvegaleiða lesandann? Nema málið hafi síðan breyst svona mikið í meðförum síðan. Það væri ekki í fyrsta sinn, sem æðstu stjórnendur Orkuveitunnar leika slíkan blekkingaleik gagnvart fulltrúum eigenda sinna. Nú hafa þeir verið staðnir að verki með kámugar lúkurnar í fjárhirslum fyrirtækisins, úthlutandi sjálfum sér kauprétti eftir þörfum, og enn leika þeir lausum hala. Menn hafa verið kærðir fyrir tilraun til umboðssvika af minna tilefni.

Ég hef engan veginn verið sáttur við alla framgöngu Vilhjálms í þessu máli öllu og áfellist hann talsvert fyrir að hafa vanrækt eftirlitsskyldu sína sem stjórnarmaður í OR og borgarstjóri. Reynsla hans af feitu köttunum í OR átti að vera honum brýning til þess að trúa þeim ekki sisona, lúslesa allt sem frá þeim kom og telja á sér fingurna eftir handabönd við þá. Hvað þennan einkaréttarsamning áhrærir er hins vegar verið að hafa hann fyrir rangri sök og að mér sýnist af ásettu raði. Menn geta sjálfir reynt að ráða í hvatirnar, sem að baki liggja. En þá ættu þeir að hafa hugfast hverjir hafa mestu að tapa úr því sem komið er. Það er ekki Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.

...................

Samningurinn

Orkuveitan Reykjavíkur (OR) skuldbatt sig samkvæmt þessum 20 ára þjónustusamningi til að veita einvörðungu Reykjavík Energy Invest (REI) sérfræðiþjónustu á vettvangi jarðhita, rannsókna, ýmiss konar áætlanagerðar og markaðsmála. Þá fékk REI m.a. forgangsrétt að öllum erlendum verkefnum sem kunna að falla í skaut Orkuveitunnar á samningstímanum. Leiti einhverjir aðilar til OR varðandi möguleika á hagnýtingu jarðhita til orkuvinnslu, annars staðar en á Íslandi, ber Orkuveitunni að vísa slíkum fyrirspurnum til REI sem síðan hefur 60 daga forgangsrétt til að semja við viðkomandi aðila. OR má svo hirða hratið eða framselja það. Eins skuldbatt OR sig til að hafa sérfræðinga sína tiltæka á grundvelli ársfjórðungslegra áætlana REI, en geri REI breytingar á þeim eru þær samt bindandi fyrir OR. Samningurinn kvað og á um að REI skuli fá öll markaðsgögn OR og beinan aðgang að öllum gögnum „um þekkingu“, sem og upplýsingum á tölvutæku formi, sem tiltæk eru á hverjum tíma. Og auðvitað afnot af vörumerkinu Reykjavík Energy, en þannig er Orkuveitan sjálf þekkt á erlendum vettvangi.

Þessi samningur var undirritaður af þeim kaupréttarköttunum Guðmundi Þóroddssyni og Hjörleifi Kvaran, forstjórum OR og REI.


Bloggfærslur 15. október 2007

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband