Leita í fréttum mbl.is

Í upphafi skyldi endinn skoða

Ég var að glugga í blöðin frá í morgun, svona til þess að sópa upp það, sem ég skildi eftir í morgun. Þá rak ég augun í grein eftir Mörð Árnason. Við eigum ýmislegt saman að sælda, þó sjálfsagt verðum við trauðla sammála í pólitík. Frekar en feður okkar, sem voru miklir vinir þrátt fyrir djúpstæðan pólitískan ágreining og það í Kalda stríðinu. En við Mörður getum alltaf verið sammála um KR, oft (en ekki alltaf) um íslenskt mál og það hefur jafnvel komið fyrir að við getum deilt skoðun á stöku þjóðþrifamáli. Og svo á hann það til að vera skemmtilegur.

Grein Marðar fjallaði um jafnréttisfrumvarpið svo nefnda, sem Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, boðaði að yrði lagt fram á næsta þingi. Í greininni (sem enn er ekki að finna á vefsetri Marðar, en birtist þar vafalaust innan skamms) var hann að skamma stjórnarþingmenn og þá sérstaklega flokkssystkin mín á þingi fyrir að hafa komið í veg fyrir að frumvarpið hefði verið lagt fram fyrir þinglok. Rakti svo einhverjar kenningar um það allt saman.

Mörður lét þó ekki þar við sitja, heldur taldi hann upp nokkrar greinar frumvarpsdraganna, sem honum fundust alveg sérstaklega frábærar. Ég fjallaði aðeins um drögin þegar þau voru kynnt, en þau þóttu mér alveg einstaklega galin í veigamiklum atriðum, vanhugsuð og hættuleg.

Hinn ágæti 7. þingmaður Suður-Reykjavíkur minnti mig hins vegar á að þar var að finna miklu meiri dellu, en ég komst yfir að gagnrýna á sínum tíma. Eins og að öllum vinnustöðum með fleiri en 25 starfsmenn beri að gera reglulegar jafnréttisáætlanir. Líkt og sjá má á myndinni að ofan er starfsmaður Gúmmívinnustofunnar í Skipholti næsta ráðvilltur svona gersamlega jafnréttisáætlunarlaus. En úr því vill Mörður bæta með reglulegum hætti. Það kallar væntanlega á nýja og ferska eftirlitsskrifstofu hins opinbera til þess að ganga úr skugga um að hin 807 fyrirtæki landsins, sem hafa fleiri en 25 starfsmenn að jafnaði, skili inn reglulegum jafnréttisáætlunum, að eitthvað sé í þær varið, að þær séu í samræmi við anda og orð laganna, að starfsmönnum séu kynntar þær með viðunandi hætti og fyrirtækin uppfylli önnur þar að lútandi ákvæði þessara íþyngjandi laga.

En ég hnaut um annað í grein Marðar, sem ég hafði ekki tekið eftir áður. Sumsé ákvæði frumvarpsdraganna um að með sérhverju „stjórnarfrumvarpi sem ráðherra leggur fram á Alþingi skal fylgja umsögn þar sem efni frumvarpsins er metið með tilliti til jafnréttissjónarmiða.“ Með öðrum orðum er lagt til að ekkert stjórnarfrumvarp sé tækt til meðferðar á Alþingi án þess að það hafi fyrst fengið jafnréttisvottun.

Lötum þingmönnum finnst kannski gott að hafa slíkar vottanir við höndina og hundinginn ég efast ekki um að innan ekki of margra ára verði ótal vottorð önnur áskilin með frumvörpum: umsögn út frá mögulegum umhverfisáhrifum, lýðheilsusjónarmiðum, menningaráhrifum og alls kyns öðrum mögulegum og ómögulegum áhyggjustöðlum dagsins. Nú eru fæst lög samin á löggjafarþinginu en draumurinn felst sjálfsagt í því að þingheimur þurfi ekki að taka afstöðu til neins nema vottorða skriffinnanna. Hinna sömu og skrifuðu þau.

Það er hins vegar svo merkilegt, að það er sjaldnast kynnt í umræðu um frumvörp hvað þau kunni að kosta. Væri ekki nær að kveða á um það að ekkert frumvarp megi leggja fram án þess að reiknaður hafi verið út kostnaðurinn sem af því hlýst; bæði fyrir ríkissjóð og einstaka skattborgara, en ekki síður þá sem bera þurfa kostnað er hlýst af ákvæðum laganna? Ætli þingmenn myndu ekki hugsa sig betur um og vér kjósendur gefa þeim betur auga?

Mér dettur líka í hug, að nýafstaðnar kosningar í Hafnarfirði hefðu farið á annan veg ef kjósendum hefði verið gerð grein fyrir fjárhagslegum afleiðingum þeirra kosta, sem í boði voru.

Eins og ég hef oft minnt á hér sem annars staðar eru markmið — göfug sem jarðbundin — ekki gild röksemd fyrir lagasetningu eða stjórnarstefnu ein og sér. Það eru afleiðingarnar, sem máli skipta. Að því mætti oftar gæta við löggjöfina. Rétt eins og frumvarpsdrögin að jafnréttislögum verða ekki frábær fyrir það eitt að vera kennd við jafnrétti.


Bloggfærslur 5. apríl 2007

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband