Leita í fréttum mbl.is

Meira um hugmyndaauðgi þingmanna og ráðstöfun skattfjár

Í athugasemd við næstu færslu á undan segir Þröstur Þórsson hdl.:

2. mgr. 30. gr. þingskaparlaga hljóðar svo

"Mæli nefnd með samþykkt lagafrumvarps eða þingsályktunartillögu skal hún láta prenta með áliti sínu áætlun um þann kostnað sem hún telur ný lög eða ályktun hafa í för með sér fyrir ríkissjóð."

Fjasið um að ekki sé fjallað um kostnað af frumvörpum á því ekki rétt á sér.  Þetta eiga menn að vita sem fylgjast með þingstörfum.

Þeir, sem fylgjast með þingstörfum, vita að það gerist nær aldrei að nefndaráliti fylgi slík kostnaðaráætlun, hvað sem kveðið er á um í þingsköpum. Hins vegar fylgja stjórnarfrumvörpum jafnan umsagnir frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Komi upp efi í nefndinni um áreiðanleika þeirra er unnt að geta hans, en ég man ekki dæmi þess og fylgist þó sjálfsagt nánar með þinginu en nokkrum manni er hollt.

Í þessu samhengi má líka minna á að samkvæmt lögum um opinberar eftirlitsreglur nr. 27/1999, er kveðið á um það í 3. gr. að „Þegar eftirlitsreglur eru samdar eða stofnað er til opinbers eftirlits skal viðkomandi stjórnvald meta þörf fyrir eftirlit, gildi þess og kostnað þjóðfélagsins af því. Slíkt mat getur m.a. falist í […] mati á kostnaði opinberra aðila, fyrirtækja og einstaklinga.“ Þessu er aldrei sinnt að fyrra bragði, en sumar þingnefndir hafi stundum gengið eftir því með misjöfnum árangri.

Það gildir þó einu hvort fjárlagaskrifstofan hnoði saman kostnaðaráætlun í umsögn sinni, því slíkar áætlanir eru langt í frá nákvæmar í umsögnunum og raunar alræmdar fyrir ónákvæmni. Ömurlegasta dæmið er líkast til fæðingarorlofsruglið, sem þverpólitísk samstaða náðist um á þingi árið 2000. (Í hvert sinn sem slík samstaða næst á þingi er nánast öruggt að þar sé á ferðinni samsæri gegn kjósendum og/eða skattborgurum.) Með gildistöku laganna átti kostnaður ríkissjóðs við fæðingarorlof að aukast um 1,5 milljarða króna á ári, samkvæmt áætlun fremstu spekinga fjármálaráðuneytis Geirs H. Haarde. Kostnaðaraukningin varð hins vegar  4,2 milljarðar króna!

Um flest stjórnarfrumvörp er hins vegar látið nægja að segja að kostnaðurinn sé óverulegur, innan fjárheimilda viðkomandi ráðuneyta eða þess háttar. En ætli það safnist nú ekki saman þegar saman kemur? Ætli það þurfi ekki einhver að borga á endanum?

Það er fullt tilefni til þess að kostnaðaráætlanir séu ýtarlegri en nú tíðkast og fylgi öllum frumvörpum. Um leið ætti að geta þess hvaða kostnaður hlýst af frumvörpum fyrir aðra en ríkissjóð, því jafnótrúlega og sumum þingmönnum kann að virðast það, þá hafa velflest frumvörpin afleiðingar þó þeir finni ekki fyrir þeim.

Enn frekar er þó ástæða til þess, þegar tiltekin málefni eru borin undir kjósendur beint, að þeim sé gerð grein fyrir kostnaðinum, sem af kann að hljótast. Beinum sem óbeinum. Annars getum við allt eins kosið okkur brauð og leika alla daga.

Hér er ég enn kominn að kunnuglegu stefi í athugasemdum mínum á þessum stað. Sumsé, að það dugi ekki að horfa bláeygur og brosmildur á uppgefin markmið fyrir tilteknum fyrirætlunum og líta á markmiðin sem rök fyrir áætlanagerðinni. Það eru þau ekki, fremur en að tilgangur helgi hvaða meðöl sem er. Menn þurfa að líta á afleiðingarnar fyrir hverri ráðagerð; spyrja hvort líklegt sé að markmiðin náist með þeim ráðum, spyrja hvort unnt sé að ná þeim með öðrum, einfaldari og kostnaðarminni aðgerðum, spyrja hverjar aðrar afleiðingar kunni að verða, hvort komast megi hjá þeim eða vinda ofan ef allt fer á versta veg.

Það er ekki út í bláinn að slá slíka varnagla, því menn mættu hafa hugfast að ein umdeildasta löggjöf lýðveldisins, kvótalögin, hafði allt aðrar og víðtækari afleiðingar en að var stefnt. Það spáði enginn fyrir um þær, en þær voru þó fyrirsjáanlegar. Héðan af verður ekki undið ofan af þeim hvað sem öllum stjórnarskrárbreytingartillögum líður.

Það hafa ekki ómerkari foringjar en Jesús Kristur og Karl Marx hamrað á því að stefna eða athafnir skuli ekki dæmd af markmiðum viðkomandi heldur afleiðingum. Maðurinn er breyskur og sér ekki alla hluti fyrir. En hann getur reynt að glöggva sig á mögulegum afleiðingum gjörða sinna og umfram allt gætt þess að ganga eins skammt fram í hverju máli og unnt er, þó ekki væri nema til þess að lágmarka mögulegan skaða. Þetta á vitaskuld ekki síst við þegar um ræðir ákvarðanir, sem snerta aðra, og alveg sérstaklega þegar til umræðu eru ákvarðanir, sem teknar eru fyrir aðra og á þeirra kostnað.

Af nútímamönnum hafa sjálfsagt fáir skrifað skýrar um þetta en bandaríski heimspekingurinn og hagfræðingurinn Thomas Sowell, þó Karl Popper hafi ekki fjallað af minni skynsemi um svipuð efni. Bók Sowells Knowledge and Decisions ætti þannig að vera skyldulesning öllum þeim, sem svo mikið sem gætu hugsað sér að fara á þing. Upphaf hennar slær tóninn: „Hugmyndir eru hvarvetna, en þekking er fágæt.“ Sowell heldur því fram að þekking sé ekki ókeypis gæði og að hún — eða skortur á henni — hafi mælanlegan kostnað í för með sér. Markaðshagkerfið (og markaðurinn er ekkert annað en þekkingarkerfi) hagnýti þekkingu með beinni og betri hætti en önnur. Gott og vel, þetta er ekki ýkja umdeilt nú orðið. En það er margvíslegur vandi á ferð, sem margir telja að markaðshagkerfið leysi ekki með viðunandi hætti og stjórnmálamenn hafa jafnan ráð undir rifi hverju til þess að leysa hann allan. Gott ef þeir finna ekki vanda í félagi við „fagaðila“ þar sem enginn vissi að neitt væri að áður! Sowell rekur hvernig sú greining er oft á tíðum röng eða á misskilningi byggð (hér mætti skrifa langt mál um opin kerfi og lokuð), en ver þó meira máli í að sýna hvernig „lausnirna“ skapa einatt meiri vanda en fyrir var. Ekki síst vegna þess að í stjórnmálum skiptir oft meira máli hver tekur ákvarðanirnar en hvað er ákveðið. En nóg um það, það er engin leið að gera grein fyrir þessu meistaraverki Sowells í stuttu máli, hvað þá að mér auðnist að skrifa jafnskýrt og fyrirhafnarlaust og hann.


Bloggfærslur 6. apríl 2007

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband