19.5.2007 | 15:34
Hvað á barnið heita?
Hér áður fyrr á árum fengu ríkisstjórnir gjarnan nafngiftir, en yfirleitt voru þau nú frekar valin af kerskni en öðru. Oft var þar vísað til hástemmdra yfirlýsinga um stefnu þeirra, eðli og inntak. Þannig heyra menn kannski ekki lengur í gegnum nið sögunnar þann hæðnistón, sem jafnan fylgdi Stjórn hinna vinnandi stétta (1934-39). Þá þótti nokkrum tíðindum sæta að Alþýðuflokkurinn á mölinni og Framsóknarflokkurinn í moldinni gætu starfað saman og málgögn flokkanna tönnluðust á samstarf hinna vinnandi stétta í aðdraganda stjórnarmyndunar, þar sem bændur og verkamenn tækju höndum saman gegn iðjuleysingjum, bröskurum og slæpingjum, eins og þorri Reykvíkinga var nefndur af þeim, en guðfaðirinn var vitaskuld Hriflu-skrímslið, þó þeir Hermann Jónasson og Eysteinn Jónsson boluðu honum blessunarlega frá landstjórninni. Ráðherrarnir, sem skipuðu stjórnina þóttu á hinn bóginn ekki beinlínis salt jarðarinnar eða fulltrúar alþýðunnar og því festist nafnið. Snorri vissi hvað hann söng um oflofið.
Alveg eins voru fyrirheitin hent á lofti þegar Nýsköpunarstjórnin fékk sitt nafn og Viðreisnin sömuleiðis, en það vildi þeim til happs að nöfnin voru ekki neikvæð og áður en yfir lauk gátu viðkomandi stjórnarflokkar haldið því fram með góðri samvisku, að þær hefðu borið nafn með rentu. Stefanía og Ólafía voru nefndar eftir forsætisráðherrunum Stefáni Jóhanni Stefánssyni og Ólafi Jóhannessyni, en það var nú ekki í neinu sérstöku virðingarskyni.
En svo hafa ekki allar ríkisstjórnir fengið nöfn af þessu tagi. Sú ríkisstjórn, sem nú er senn á förum, eignaðist þannig ekkert viðurnefnið og hefði maður þó haldið að einhver hefðu fundist tilefnin. Hið sama átti við um ríkisstjórn sömu flokka undir forsæti Geirs Hallgrímssonar. Sumir reyndu eitthvað fyrir sér í þeim efnum, en allt var það fremur kreistingslegt og ekkert þeirra festist. Stöku stjórnir hafa svo hlotið fjarskahlutlaus nöfn: Þjóðstjórnin á styrjaldarárunum lýsti eðli hennar næsta vel og Viðeyjarstjórn Davíðs Oddssonar og Jóns Baldvins Hannibalssonar vísaði fyrst og fremst til fundarstaðarins, þar sem hún var mynduð, þó mörgum hafi þótt sniðugt að í nafninu fólst hljóðlíkingarvísun til Viðreisnarstjórnar sömu flokka.
Skipta nöfn máli?
Til forna þótti mönnum nöfn skipta miklu máli. Þannig var hið raunverulega nafn Rómar strangleynilegt, svo óvinir hennar gætu ekki notfært sér þá vitneskju með galdri eða ámóta til þess að sigrast á henni. Það þekkir enginn nú. Eins er rík hefð fyrir því meðal kristinna og annarra trúarbragða að nefna þann vonda ekki réttu nafni af ótta við að auka honum mátt eða jafnvel kalla hann til sín. Sjálft nafn Guðs gyðinga og kristinna manna er að líkindum ekki þekkt lengur, þó einhverjar launhelgar finnist, sem þykjast búa yfir því. Hann fyrirbauð enda í boðorði að það væri lagt við hégóma. Gyðingar forðast enn þann dag í dag að nefna hann nema með auknefnum og jafnvel þau eru vandmeðfarin, jafnt á hebresku sem öðrum tungum. Í texta skrifa trúaðir gyðingar þannig yfirleitt G*ð þurfi þeir að víkja að honum.
Menn þurfa þó ekki að seilast svo langt til þess að átta sig á því að nafngiftir skipta máli. Ekki er langt síðan menn rökræddu það hvort N1 væri gott nafn og frumlegt á benzínstöðvar, reglulega er boðið til samkeppni um ný nöfn á fyrirtæki, hús og hvaðeina og á góðum dögum hlæja Íslendingar og mæra Eirík rauða Þorvaldsson sem föður almannatengsla fyrir að hafa gefið Grænlandi það nafn.
Í persónulega lífinu þekkja það svo flestir hvílíkur vandi er að velja börnum nafn. Foreldrar hafa ýmsar aðferðir og markmið við það val, en enginn gefur það út í loftið að óathuguðu máli. Það eiga allir menn sameiginlegt óháð menningu. Óhætt virðist því að slá föstu að í hugum fólks skipta nöfn verulegu máli.
Baugsstjórn eða hvað?
Þetta er orðið pólitískt þrætuepli vegna hinnar ómynduðu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, sem líklegt verður að teljast að verði mynduð á næstu dögum. Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, og ýmis flokkssystkin hans hamra á því að hún verði réttnefnd Baugsstjórn og vísa þar til þess, að Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs, hafi í kosningabæklingi Samfylkingarinnar, sem dulbúinn var sem sérútgáfa DV (sem er réttnefndur Baugsmiðill), lagt á það mikla áherslu að af stjórnarsamstarfi þessara tveggja flokka yrði. Í því samhengi er einnig minnst á þá taug, sem verið hefur milli Baugs og forystu Samfylkingarinnar, en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var á sínum tíma óþreytandi við að taka upp hanskann fyrir auðhringinn og naut þeirra tengsla á ýmsan hátt. Haldi menn að það sé allt í fortíðinni geta þeir velt fyrir sér hvaðan Samfylkingin fékk sínar 30.000 rauðu rósir í kosningabaráttunni um daginn og við hvaða verði.
Hitt er svo annað mál hvort að sú staðreynd, að þetta ríkisstjórnarmynstur sé Baugi þekkilegast, þýði að stjórnin yrði á einhvern hátt á hans vegum, þó einstakir eða einstakur ráðherra hennar væri kannski hollari Baugi en hollt væri. Á það má minna að í skoðanakönnunum meðal annars á þessari síðu! hefur komið fram, að margir telja þetta samstarf ákjósanlegast. Sá áhugi er meiri í atvinnulífinu en meðal almennings, eins og fram kom í könnun Miðlunar fyrir Viðskiptablaðið, sem gerð var meðal stjórnenda í einkageiranum, og hefur komið enn sterkar í ljós síðustu daga í viðbrögðum markaðarins.
Nei, að því leyti er nafngiftin enn innistæðulaus, þó pólitískir andstæðingar flokkanna hafi gaman af að nudda þeim upp úr henni, enda sárnar stjórnarflokkunum in spe það báðum verulega, af sitt hvorri ástæðunni. Hins vegar bíður maður málefnasamnings ríkisstjórnarinnar með eftirvæntingu. Verður þar eitthvað að finna til þess að treysta íslenskt atvinnuumhverfi og fjármálalíf, auka ábyrgð og þar fram eftir götum? Í því samhengi hlýtur maður sérstaklega að líta eftir hlutum eins og ábyrgð stjórnenda gagnvart almenningshlutafélögum, upplýsingaskyldu þeirra og stjórnarmanna, hlutverks og styrks Fjármálaeftirlitsins, yfirtökuskyldu og þannig mætti áfram telja. Af ávöxtunum skulið þér þekkja þá.
Hvaða nöfn eru þá tiltæk fyrir þessa ríkisstjórn, ef um semst? Vinur minn stakk upp á Kaffibætisbandalaginu, en mér finnst það nú fulllangtseilst. Ég sá einhversstaðar Geirrún og Geirbjörg, en það er kreistingur, sem engin hætta er á að festist. En hvernig ríkisstjórn verður þetta? Báðir flokkar hafa þokast nær miðju undanfarna mánuði og ég hygg að þeir muni nálgast hvor annan enn meira í ríkisstjórn. Þar verður sjálfsagt lögð meiri áhersla á fagleg vinnubrögð en pólitíska stefnufestu og ekki kæmi mér á óvart þó pólitískur rétttrúnaður næði nýjum hæðum. Ríkisvæðing stjórnmálaflokkanna á vafalaust enn eftir að aukast og á þingi sitja nánast tómir atvinnustjórnmálamenn, mengaðir af póst-módernískum viðhorfum til lífsins og verkefna sinna.
Í því samhengi leyfi ég mér því að leggja það til að hin nýja ríkisstjórn verði kölluð Stjórn hinna talandi stétta.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.5.2007 kl. 01:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Bloggfærslur 19. maí 2007
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (9.10.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 14
- Frá upphafi: 406310
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 14
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar