Leita í fréttum mbl.is

Tala dýrsins

Í nýjasta tölublaði tímaritsins Ísafoldar er grein, sem mér skilst að fjalli um hagi dansmeyja á skemmtistaðnum og menningarsetrinu Goldfinger í Kópavogi. Ég hef ekki séð greinina og get því ekki fjallað um hana, en samkvæmt tilkynningu frá Birtíngi, útgáfufélagi Ísafoldar, er aðstæðum þeirra líkt við mansal. Aðalsölupunkturinn felst þó í myndbirtingu af staðnum, þar sem Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, er í aðalhlutverki, en með honum á myndinni eru — að mér skilst — tvær dansmeyjar af staðnum. Er svo gefið til kynna að Ásgeir Þór Davíðsson, staðarhaldari á Goldfinger, kunni að hafa notið kunningskapar við Gunnar í samskiptum sínum við bæinn. Ég ítreka að þessi lýsing er byggð á frásögnum en ekki af lestri greinarinnar.

Á vef Mannlífs, þar sem títt má finna ýmsan orðróm, var greininni lýst svo hinn 30. maí í færslu númer 661: 

Nektardansmeyjar og bæjarstjóri
Nektardansmeyjar á súlustaðnum Goldfinger upplýsa í Ísafold sem dreift verður á morgun að erlendir dansarar hafi sætt meðferð sem einna helst líkist mansali. Stúlkunum var jafnvel óheimilt að fara frjálsar ferða sinna. Í tímaritinu er einnig sagt frá tengslum Gunnars I. Birgissonar, bæjarstjóra í Kópavogi, og því að hann hafi verið tíður gestur á staðnum. Því til sönnunar er birt mynd af honum með tveimur dansmeyjum. Mikill titringur er þegar vegna málsins og hafa áhrifamenn reynt að stöðva birtingu greinarinnar…

Samkvæmt þessu er ekki verið að skafa utan af hlutunum. Sérstaklega á það auðvitað við um ásakanir um mansal, sem er grafalvarlegt mál. Mansal er ekkert annað en þrældómur, sem á síðustu árum hefur hlotið nýja aukamerkingu sem kynlífsánauð og þá er auðvitað verið að gefa í skyn að sitthvað fleira eigi sér stað en súludans. Nú veit ég auðvitað ekki hvað er nákvæmlega átt við þegar sagt er að „Stúlkunum [hafi verið] jafnvel óheimilt að fara frjálsar ferða sinna“, en ég minnist þess þó að þegar mest var rætt um nektardansstaði hér fyrir nokkrum árum og mjög var látið að því liggja af andstæðingum þeirra, að þar væri stundað vændi, þá brugðust eigendur staðanna við með því að samningsbinda útgöngubann dansmeyjanna um nætur til þess að fyrirbyggja slíkar aukabúgreinar. Þá var gerður góður rómur að því siðvæðingarátaki.

En sölukrókur greinarinnar er sem fyrr segir myndbirtingin af Gunnari. Nú kann að vera að sú myndbirting eigi erindi við lesendur til stuðnings meginefni greinarinnar, en að óséðu á ég erfitt með að verjast þeirri hugsun að með henni sé verið að gera út á bælda gægjuhneigð fremur en annað. Mannlíf segir að „áhrifamenn [hafi] reynt að stöðva birtingu greinarinnar“ og er það merkilegt ef satt reynist, en hvers vegna í dauðanum er þá ekki upplýst hverjir þessir áhrifamenn eru?

Mér er raunar sagt að eigendur útgáfunnar hafi lýst óánægju sinni með greinarbirtinguna fyrir dreifingu, svo kannski er átt við þá, en ritstjórinn Reynir Traustason mun ekki hafa gefið eftir ritstjórnarlegt sjálfstæði sitt. Það má svo til gamans geta þess að sumir eigendanna eru ekki fullkomlega ókunnir þeim geira, sem um ræðir, og áttu hagsmuna að gæta í Óðali á sínum tíma.

En birtingin virðist hafa farið fyrir brjóstið á fleirum. Í gærkvöldi birtist nefnilega annar orðrómur á vef Mannlífs, ekki með meiri tæpitungu en sá fyrri. Þar stóð:

Verslunarkeðja með mansali
Verslanakeðjan Kaupás tók í dag nýjasta hefti tímaritsins Ísafoldar fyrirvaralaust úr sölu án þess að gefa skýringar. Í Ísafold er fjallað um meint mansal og niðurlægingu kvenna á súlustaðnum Goldfinger í Kópavogi og tengsl Gunnars I. Birgissonar bæjarstjóra við staðinn. Birt er mynd af bæjarstjóranum illa til reika með dansmeyjum. Ein þeirra lýsir því að bæjarstjórinn hafi áreitt hana. Jón Helgi Guðmundsson, forstjóri Kaupáss, er aðaleigandi Byko-veldisins sem hefur höpfuðstöðvar í Kópavogi og vinskapur er milli hans og bæjarstjórans. Einsýnt er að Jón Helgi standi fyrir því að Ísafold en hann sýndi þann fádæma ruddaskap að skella á Elínu Ragnarsdóttur, framkvæmdastjóra Birtíngs, þegar hún leitaði í símtali skýringa á því að Ísafold var fjarlægt úr hillum verslanana síðdegis í dag. Því hefur ekki fengist skýring á því hvers vegna Jón Helgi er því svo andsnúinn að fjallað sé um mansal opinberlega…

Þarna er auðvitað gengið skrefinu lengra og sagt að Jón Helgi Guðmundsson í Byko sé ruddi, sem vilji með einhverjum hætti bera blak af mansali. Og þar af leiðandi aðhylist Kaupáss-keðjan mansal. Síðan er ýjað að því að kunningsskapur við bæjarstjórann jafngildi sekt um eitthvað. Hvílík röksemdafærsla og endemis della! Enn og aftur skal ítrekað að ég hef ekki lesið greinina, en samkvæmt fyrri Mannlífs-færslunni var þar lýst „meðferð sem einna helst líkist mansali“ en í seinni færslunni er því slegið föstu að greinin fjalli um „meint mansal“ eins og þar sé um augljóst brot að ræða, sem aðeins eigi eftir að fara sína leið í dómskerfinu.

Sjálfsagt hafa einhverjir „áhrifamenn“ haft samband, því skömmu eftir að færslan kom á vefinn var hún fjarlægð. En samt ekki fullkomlega. Hún lifir enn í kerfinu hjá þeim og má finna hér og ber vitaskuld færslunúmerið 666.

Svo leið nóttin en í býtið í morgun, um hálfsjöleytið sýnist mér, kom svo enn ein færslan, nokkuð samstofna þeirri horfnu. Þar hefur aðeins verið dregið úr, en nú er í fyrirsögn staðhæft að Kaupáss hylmi yfir með mansali! Gengur eitthvað á?

Í færslu númer 667 er enn hamrað á því að „þungavigtarmenn“hafi reynt að stöðva útgáfuna. Af hverju er Mannlíf að hylma yfir með þeim með því að láta þá njóta nafnleysis? Það er óskiljanlegt, nema það sé aðeins getgátur eða tilbúningur til þess að auka söluna.  Eins kemur fram að til séu fleiri myndir af Gunnari „undir svipuðum kringumstæðum“ og hvað skyldi það nú þýða? Væru þær fréttnæmar hefðu þær vitaskuld verið birtar, en það að nefna það eitt að þær séu til í pokahorninu ber keim af einhverju allt öðru en eðlilegri fjölmiðlun.

Það á vafalaust fleira eftir að koma upp í þessu máli og ég hef sterklega á tilfinningunni að það verði engum hlutaðeigandi til sóma, hvorki umfjöllunarefnum, heimildarmönnum, blaðamönnum né útgefendum. Þá stendur aðeins eftir sæmd lesenda.

.......................

Viðbót, færð inn kl. 13.22.

Reynir Traustason, ritstjóri Ísafoldar, hringdi í mig og við áttum ágætt samtal. Hann fullvissaði mig um það, að engin samsæri hefðu legið að baki horfnu færslunni. Hann hafi fyrir rataskap á tölvur gloprað henni burt og ekki verið jafnfundvís og ég á hana. Þess vegna hafi hann í morgunsárið skrifað færsluna aftur eftir minni og það skýri muninn á þeim. Ég trúi honum alveg.

Hann sagði mér einnig að starfsmenn Birtíngs myndu stilla sér upp fyrir utan verslanir Kaupáss og selja Ísafold þar í lausasölu, enda hefði hún jafnan verið söluhæsta tímaritið í þeim.


Sjómannadagurinn

Sjómannadagurinn er á sunnudag. Þessi grundvallaratvinnuvegur þjóðarinnar er að sönnu ekki jafnumfangsmikill og áður, sérstaklega ekki þegar litið er til hversu margir starfa við sjávarútveg, en á hinn bóginn stendur greinin í heild sinni með blóma og færir björg í þjóðarbú með miklu minni fyrirhöfn en áður. Þar valda meðal annars gríðarlegar tækniframfarir á öllum sviðum sjósóknar, en einnig verður ekki hjá því litið að það fiskveiðistjórnunarkerfi, sem við búum við, hefur reynst afar farsælt, bæði fyrir fisk og fiskimenn.

Ég get alveg játað það, að ég hef aldrei fellt mig við hvernig staðið var að tilurð kvótakerfisins og hending eða happdrætti í Hæstarétti varð til þess að útgerðarmenn fengu þar mikil réttindi í hendur með hætti sem margir telja ósanngjarnan. Í því samhengi er einnig rét að hafa í huga að til kerfisins var stofnað sem bráðabirgðakerfis og engum dat í hug að það yrði varanlegt. Á hinn bóginn var það á sína vísu mikið gæfuspor að koma á eignarrétti í greininni, en þannig höfum við Íslendingar sloppið við að miðin yrðu fyrir „harmleik almenningsins“, því menn ganga af meiru hirðuleysi um það, sem allir eiga (enginn á) en hitt þar sem þeir eiga beinna hagsmuna að gæta. Þess vegna get ég fellt mig við kvótakerfið, en nú orðið hafa nær allir kvótahafar orðið sér úti um kvótann með kaupum í góðri trú. Frá því verður ekki snúið án gífurlegs herkostnaðar fyrir þjóðarbúið allt.

En um leið eiga sér stað óþolandi atburðir eins og Flateyringar vöknuðu við á dögunum og nú reynir á hina nýju ríkisstjórn, þó fyrst og síðast verði það auðvitað Önfirðingar sjálfir, sem hafa gæfu sína í hendi sér. Ég vona af heilu hjarta að þar rætist skjótt úr, enda er á Vestfjörðum að finna dugnaðarfólk sem lætur ekki deigan síga þó á móti blási í eiginlegri sem óeiginlegri merkingu.

Í minningunni skein sól ávallt í heiði á sjómannadeginum. Þegar ég var lítill fór pabbi með mig í langar gönguferðir og á sjómannadag lá leiðin niður að Reykjavíkurhöfn, þar sem jafnan var múgur og margmenni. Skipin voru fánum prýdd, hreystimenni kepptu í stakkasundi og kappróðri, en mest spennandi þótti mér þó koddaslagurinn á ránni, þar sem annar keppandinn að minnsta kosti steyptist að lokum í sjóinn með miklum gusugangi. Þetta var mikill hátíðardagur.

Hann fékk aðra þýðingu fyrir mér á unglingsárunum þegar ég fór sjálfur á sjó (sem ég held að hafi verið mér lífsins hollasti skóli). Þá var það brýningin í öryggismálum sjómanna, sem hæst bar, og þó Ægir og Rán beri enn sín skelfilegu nöfn með rentu er ástandið með allt öðrum hætti en var, þegar menn litu nánast á mannskaða á sjó sem þolanlegar fórnir. En það er fleira, sem Sjómannadagsráð hefur áorkað og þar má helst telja ótrúlega elju og framsýni frumkvöðlanna við að reisa dvalarheimili fyrir aldraða og slitna sjómenn. Þeir töldu að í þeim efnum væri nær að treysta á sjálfa sig en hið opinbera. Af því má enn draga lærdóm í dag.

Ég vinn niðri við höfnina, í Slipphúsinu nánar til tekið, og þaðan hef ég útsýni yfir gömlu höfnina og slippinn. Sit aðeins kippkorn þar frá, sem Magnús Magnússon langafi minn hafði skrifstofur útgerðar sinnar um og upp úr aldamótum, en hann var jafnan kenndur við Alliance. Sjálfur var hann harðduglegur sjómaður, sem fór að stunda sjóinn á barnsaldri, var varla fermdur þegar hann var orðinn formaður á bát, tók síðar stýrimannapróf og kenndi í gamla Stýrimannaskólanum við Öldugötu. Um leið gaf hann sig að menntun og menningu, hafði ægifagra rithönd og skrifaði fullkomna spegilskrift af gamni sínu, hann var sigursæll í skautahlaupi hér á Tjörninni og var meðal stofnenda ÍR. Ætli það megi ekki kalla hann 20. aldar renaissance-mann?

Nú eru uppi hugmyndir um að reisa bryggjuhverfi þarna við höfnina og hið fyrsta sem borgaryfirvöldum hugkvæmdist, til þess að gera það að veruleika, var að flytja slippana burtu. En af hverju fylla þau þá ekki bara upp í höfnina? Ég held einmitt að það, sem gæði höfnina lífi, sé atvinnulífið og náin snerting við það. Skipin í slippnum gnæva eins og skúlptúrar á stöllum sínum og hamarshögg og logsuðuurg minna á að gangverk atvinnulífsins er undirstaða hins, að menn geti rölt um bryggjuhverfið og sötrað espresso — sem farmenn fluttu hingað á norðurhjara — í friði og spekt. Er nokkur ástæða til þess að hrófla við þeirri nálægð okkar borgarbúa við hafið og hetjur þess?

Til hamingju með daginn sjómenn!


Bloggfærslur 1. júní 2007

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband