Leita í fréttum mbl.is

Frelsið í Fréttablaðinu

Í Fréttablaðinu á sunnudag má lesa forystugrein eftir Kristínu Evu Þórhallsdóttur þar sem hún fjallar um fortakslaust reykingabann á veitinga- og skemmtistöðum undir fyrirsögninni „Aukið frelsi eða frelsissvipting?“ Niðurstaða leiðarans er sú að það þurfi stundum að víkja af leið frelsisins til þess að tryggja fólki frelsi. Þessi orwellska þversögn minnir mann á Víetnam-stríðið, þegar bandarískur herforingi útskýrði að menn sínir hefðu neyðst til þess að brenna þorp til grunna til þess að bjarga því frá kommúnismanum.

Frelsi tvö
Kristín Eva hefur mál sitt á því að útskýra, að hér takist á frelsi tvö: annars vegar frelsi veitingamanna til þess að ráða því hvernig aðstæður þeir vilja bjóða í von um að fylla salarkynni sín og hins vegar frelsi fólks til þess að geta fengið sér mat, kaffisopa eða áfengi án þess að þurfa að þola reykjarmengun. Síðan kemur eitthvert dæmalaust þvaður um neikvætt frelsi og jákvætt, sem höfundur kann greinilega engin skil á, en misskilningurinn er settur fram sem einhver grundvallarlögmál heimspekinnar!

Í stuttu máli heldur hún að frelsi manna til þess að reykja flokkist undir það að vera neikvætt frelsi, af því að það leiðir til ávanabindingar sem sé auðvitað voða neikvætt. Síðan gleymir hún reyndar að skilgreina jákvætt frelsi með sama hætti, en lesandanum skilst að vegna þess að það sé jákvætt að aðrir gestir og starfsmenn verði ekki fyrir heilufarsskaða af völdum reykjar sé það hin sortin. Er svona heimska boðleg í forystugrein útbreiddasta dagblaðs þjóðarinnar?

Það hefur gengdarlaus gnótt verið rituð um neikvætt frelsi og jákvætt. Menn geta lesið sér til gagns um neikvætt frelsi hjá John Locke, Gottfried Wilhelm Leibniz, Thomas Hobbes og Adam Smith, en um hið jákvæða fremur hjá Hegel, Rousseau og Marx. Menn geta svo velt því fyrir sér hvor hópurinn hafi orðið mannkyni til meiri blessunar. Til ofureinföldunar má orða muninn á þessum tveimur greinum frelsis svo: Neikvætt frelsi er frelsi frá áþján, en jákvætt frelsi er frelsi til tiltekinna gæða eða réttinda. Hið neikvæða frelsi er jafnan tengt frelsi einstaklingsins, en hið jákvæða oftast frelsi heildarinnar eða hópa. Um þetta flutti Sir Isaiah Berlin lærðan fyrirlestur í Oxford árið 1958, Two Concepts of Liberty, sem einnig hefur komið út á bók. Ég mæli með Liberty: Incorporating Four Essays on Liberty; ekki síst fyrir leiðarahóp Fréttablaðsins. Það er alveg ljóst hvort frelsið Sir Isaiah telur mikilvægara.

Svo má auðvitað deila um það hvort jákvætt frelsi sé frelsi í venjulegum skilningi. Getur frelsið átt við annað en einstaklinginn og frelsi hans undan oki annara? Rétt er að hafa í huga að orðið frelsi á í eðli sínu við hið neikvæða frelsi einstaklingsins. Orðsifjafræðin kennir okkur að orðið „frjáls“ sé dregið af „frí-háls“, sumsé maður, sem ekki er hlekkjaður um hálsinn, ekki þræll. Andyrði orðsins „frelsi“ er helsi, sem þýðir hálsfjötrar, og þá geta menn rakið afganginn sjálfir. Orðið sjálft er auðvitað miklu eldra heimspekilegum vangaveltum um eðli hugtaksins, en skýr merkingin vafðist ljóslega ekki fyrir áum okkar þó ekki hafi þeir lesið Hobbes. Hitt sakaði örugglega ekki heldur að þeir höfðu ekki Fréttablaðið að rugla í sér.

Ofbeldi hvað?
Hins vegar þarf ekki að fara út í svo lærða gagnrýni á þessa forystugrein Fréttablaðsins. Um leið og maður les eftirfarandi setningu í henni er rökvillan ljós.

Vel er hægt að færa fyrir því rök að með því að hleypa tóbaksreyk út í andrúmsloftið sé verið að beita aðra ofbeldi. Enginn á rétt á því að beita aðra manneskju ofbeldi í skjóli eignarréttar síns eða frelsis.

Eru einhver dæmi þess að menn hafi verið neyddir til þess, beittir frelsissviptingu, til þess að húka inni á veitinga- eða skemmtistað þannig að þeir komist ekki hjá því að anda að sér reyk úr öðrum? Auðvitað ekki (en hins vegar eru þess nokkur dæmi að mönnum sé með handafli meinað að vera inni á þeim af ýmsum ástæðum). Mönnum er fullkomlega frjálst að vera annars staðar en á skemmtistöðum, reyklausum sem reykfylltum. Allt tal um ofbeldi í þessu samhengi er því marklaus þvæla. Rétt eins og reykingafólk hefur til þessa sneitt hjá reyklausum stöðum, ætti reyklausu fólki, sem ekki vill vera nálægt reyk, að vera vandalaust að sneiða hjá reykingastöðum. Fólk, sem ekki reykir, en fer samt sem áður á reykstaði, er greinilega til í að leggja það á sig, þó því sé vonandi fullkunnugt um óhollustu reykinga og óþægindi, sem þeim fylgja. Rétt eins og fólk með góðan tónlistarsmekk getur hugsað sér að þola lyftutónlist fremur en að klífa stiga.

Er minna val betra?
Eins og fólk þekkir eru veitinga- og skemmtistaðir afskaplega mismunandi. Á einum er gert út á írska þjóðlagatónlist, en annar höfðar til íþróttaáhugamanna, sá næsti leikur gamla rokktónlist og enn einn sérhæfir sig í ódýrum bjór. Sumir miða við að gera hinum breiða fjölda til hæfis, aðrir þjóna þörfum jaðarhópa. Þetta er dásemd markaðarins í hnotskurn, eftirspurnin er margbreytileg en framboðið nægilega fjölbreytt til þess að flestir finni eitthvað við sitt hæfi. Þar á meðal voru reyklausir staðir. Sumir þeirra hafa blómstrað, en hið sama má auðvitað segja um marga reykstaðina fornu. En reyklausu staðirnir spruttu ekki upp eins og gorkúlur, líkt og ætla mætti ef eftirspurnin væri víðtæk og reyklausir litu á reykingar sem frágangssök. Hefði maður þó haldið að þar væri viðskiptatækifæri í lagi. Ég átta mig ekki alveg á því hvers vegna því er þannig farið, nema náttúrlega að það fólk, sem á annað borð hefur sérstaka ánægju af því að sækja barina, er sennilega meiri nautnaseggir en hinir og því líklegra til þess að reykja en ella.

Af þeirri ástæðu tók ég aldrei mark á neinum skoðanakönnunum, sem Lýðheilsustofnun pantaði, um að svo og svo stór hluti þjóðarinnar væri hlynntur reykbanni á veitinga- og skemmtistöðum. Ég hefði tekið meira mark á könnunum, þar sem úrtakið hefði verið fólk sem stundar slíka staði, en á endanum er aðeins mark takandi á einni könnun: hvað fólk velur sér sjálft í þessum efnum. En þar sem áður var val milli reyklausra staða og reykingastaða er nú ekkert val lengur sakir löðboðs. Í vali felst vald, eins og Guðlaugur Þór Þórðarson, nýskipaður heilbrigðisráðherra, benti á í viðtali við mig í föstudagsblaði Viðskiptablaðsins. Með því að taka fyrir valið hefur löggjafinn svipt borgarana valdi: því valdi sem felst í vali þeirra á veitinga- og skemmtistöðum. Það gladdi mig því að heyra að Guðlaugur Þór útilokaði ekki endurskoðun þessara ólaga, en hann taldi rétt að fá af þeim einhverja reynslu fyrst. Gott hjá honum.

En hvað um starfsfólkið og rétt þess? Auðvitað væri veitingamönnum í lófa lagið að ráða aðeins fólk, sem reykir, eða er til í að ráða sig upp á þau býti að vinna í andrúmslofti, sem vísast er ekki hið heisusamlegasta í bænum. Starfsfólk á börum þarf enda að sætta sig við alls kyns áreiti frá drukknu fólki, aukna ofbeldisáhættu, hávaða, megnan mannaþef og þungt loft, þó ekki sé tóbaksreyknum fyrir að fara. Rétt eins og starfsfólk á smurstöðvum þarf að sætta sig við sóðaskap, lögregluþjónar vita að þeir geta hæglega orðið fyrir barðinu á ofbeldismönnum, hafnarverkamenn leggja sig í áhættu við flutninga á sprengiefnum og heilsuspillandi efnum, það þykir bara svo og svo fínt að vera í öskunni, það fer ekki vel með lungu eða heila neins að rústberja og lakka tankadekk í skipum, klóakshreinsunarmenn eru ekki öfundsverðir og svo framvegis ad nauseam. Staðreynd málsins er nefnilega sú að fólk er til í að leggja ótrúlegustu hluti á sig í lífinu, bæði innan veggja heimilis og í vinnu. Svo framarlega, sem það telur ávinninginn eða umbunina dýrmætari.

Lágkúra í leiðara
Seinni helmingi forystugreinar Fréttablaðsins ver Kristín Eva til þess að taka dæmi til samanburðar og þar kemur hún upp um sig sem „tröll“ í þeim skilningi, sem við netverjar þekkjum mætavel af Usenet og hinum ýmsu spjallborðum. Hún minnist að vísu ekki á Hitler, sem jafnan er öruggasta merkið um tröllsskap, en það er kannski ekki skrýtið vegna þess að hann var einnig ötull og lítt umburðarlyndur andstæðingur reykinga. Nei, hún líkir andstæðingum hins fortakslausa reykingabanns við barnaníðinga!

Hún dregur þar fram frægt mál vestanhafs, þar sem ACLU tóku fyrir dómstólum málstað málfrelsis samtakanna NAMBLA, sem berjast fyrir því að karlar og drengir megi njótast refsilaust. Inn í málið dregur hún „öfga frjálshyggjumanninn Bill O'Reilly“, sem hefur nú hingað til talist íhaldsmaður í flestum skilningi og tók einmitt þann pólinn í þessu máli og fannst málfrelsið verða að víkja fyrir „frelsi barna til að verða ekki fyrir kynferðislegu ofbeldi“ eins og Kristín Eva útskýrir. Nú verður raunar ekki annað séð en að Kristín Eva og Fréttablaðið taki sér stöðu með O'Reilly gegn málfrelsinu, en hún telur það víst að ekki sé „hægt að verja hvað sem er í nafni frelsis“.

Þarna fellur hún í eigin gildru rökleysu og ógrundvallaðra fullyrðinga. ACLU voru ekki að verja hvað sem er. Samtökin voru að verja málfrelsið og ekkert annað. Þau voru ekki að taka afstöðu til, hvað þá með, baráttumála NAMBLA, heldur aðeins réttar þeirra til þess að flytja mál sitt. Alveg eins og ACLU hafa barist fyrir málfrelsi nazista, andstyggðarmálflutningi Westboro Babtist Church og tjáningarfrelsi vegna fleiri ógeðfelldra málsstaða. Með því eru ACLU engan veginn að taka undir málflutninginn heldur aðeins frelsið til þess að láta hann í ljósi. Rétt eins og Voltaire forðum. Þau tóku enda dyggilegan þátt í mannréttindabaráttu svertingja í Bandaríkjunum, börðust mjög gegn gyðingaandúð og birtingarmyndum hennar þar vestra og eiga mestan stuðning hjá borgaralegum vinstrisinnum á bandaríska vísu, aðallega á austurströndinni.

Til varnar vondum skoðunum
Punkturinn við málfrelsisákvæði í stjórnarskrá og lögum er nefnilega sá, að þau eru sett þar til varnar óvinsælum og umdeildum skoðunum, jafnvel röngum og heimskulegum. Almælt tíðindi og viðteknar skoðanir þarfnast engra slíkra varna.

Alveg á sama hátt tryggjum við margs konar grundvallarréttindi önnur í stjórnarskrá, lögum og jafnvel alþjóðasamningum. Auðvitað má finna dæmi um það hvernig takmarka þurfi þau réttindi á ýmsan hátt, en fyrir því þurfa þá að vera afar sterk og knýjandi rök, sem meðal annars þurfa að sýna fram á að ella sé brýnum hagsmunum stefnt í bráðan og öruggan voða. Um leið þarf að vera sýnt, að ekki sé hægt að girða fyrir hættuna með öðrum og vægari hætti. Sú meðalhófsregla er raunar rauður þráður í allri löggjöf réttarríkisins, að ekki sé gengið þumlungi lengra en nauðsynlegt er og að löggjöfin sé ekki meira íþyngjandi en nauðsyn ber til.

Hvað reykingabannið áhrærir er þar skautað glannalega framhjá öllum þessum sjónarmiðum. Þar er í fyrsta lagi gengið á eignarrétt veitingamanna til þess að haga rekstri sínum og nýtingu eigna sinna með öðrum hætti en þeim sjálfum sýnist. Í öðru lagi er í hávegum hafður réttur fólks, sem þarf ekki að vera þar frekar en það vill, því er frjálst að vera annars staðar, meðan eðlilegur og lögmætur áhugi reykingafólks til þess að hittast og ástunda ósið sinn er í engu virtur. Í þriðja lagi er allt meðalhóf látið lönd og leið, þannig að veitingamenn mega ekki koma sér upp sérstökum reyksölum eða öðru ámóta fyrirkomulagi þannig að bæði reykjandi og reyklausir geti við unað.

Lágmarkskröfur til leiðara og siðleysi
Um þetta allt má vel deila og lengi, en þá er lágmarkskrafa að menn viti um hvað þeir eru að tala, falli ekki í eigin rökgildrur og forðist lágkúru eins og að líkja andmælendum sínum við barnaníðinga. Þá kröfu hlýtur að mega gera til blaðs eins og Fréttablaðsins, sem manni sýnist að taki sjálft sig alvarlega og vilji að aðrir geri það líka. Síðan getum við skeggrætt um jákvætt frelsi og neikvætt og komist að niðurstöðu, niðurstöðu sem byggjandi er á og gefur ekki fordæmi um það að frelsið sé afgangsstærð og eignarrétturinn aðeins helgur þegar það hentar stjórnvöldum og áhugamönnum um félagsverkfræði.

Til allrar hamingju á Kristín Eva Þórhallsdóttir ekki síðasta orðið um þessi mál á leiðarasíðu Fréttablaðsins, því við hliðina á skrifar Illugi Gunnarsson, minn góði vinur og 3. þingmaður Suður-Reykjavíkur, einnig um reykingabannið og það af mun meiri skynsemi. Ég mæli eindregið með greininni, því hann skrifar hana af hófsemi og í talsvert styttra máli en ég hér (sem kannski er fullseint fyrir lesandann að vita hingað kominn!) En í lok greinarinnar fjallar hann um hinn siðferðislega þátt málsins og hann gerir það svo vel og skýrt, að ég vildi óska þess að ég hefði skrifað það. Því mig minnir endilega að ég hafi hugsað eitthvað á svipaða lund. Látum Illuga eftir lokaorðin, sem allir áhugamenn um stjórnmál og stjórnlög ættu að tileinka sér:

[…] ef stjórnmála- og embættismenn ætla með bönnum að koma í veg fyrir alla siðferðislega ámælisverða hegðan eða tryggja að við förum okkur ekki að voða, þá er verið að afsiða þjóðfélagið og gera hvert og eitt okkar ábyrgðarlaust. Siðferði hvers og eins okkar felst til dæmis í því að þurfa að velja og hafna, gera okkur grein fyrir því hverjar afleiðingar gerða okkar eru. Ef búið er að ákveða fyrir okkur hvað sé rétt og hvað sé rangt og allt rangt er bannað með lögum þá er siðferðið orðið ríkisvætt og þjóðfélagið nánast siðlaust. Þessar hugleiðingar leiða ekki til þeirrar niðurstöðu að allt eigi að leyfa, en það á að beita ríkisvaldinu af mikilli hófsemi, það á að gæta meðalhófs og það á að leyfa fólki að lifa lífi sínu eins og því sjálfu hentar, ábyrgðin á að vera fólksins, ekki ríkisins. 

 


Bloggfærslur 4. júní 2007

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband