9.6.2007 | 20:28
Setning helgarinnar
Ég er mjög viðkvæmur fyrir klisjuskotnu máli og forðast það eins og pestina.
Egill Helgason útskýrir það í viðtali við Kolbrúnu Bergþórsdóttur í Blaðinu hinn 9.VI.2007, að sér sé lífsins ómögulegt að taka svo til orða að eitthvað stæði sem stafur á bók, eins og málpípur 365 hafa hvað eftir annað fullyrt að hann hafi gert um samningaumleitanir milli hans og Ara Edwald. Það forðist hann eins og sjálfa pestina. Klisjupestina sumsé.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.7.2007 kl. 12:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
9.6.2007 | 15:42
Laun og öfund
Það er nokkuð fjargviðrast þessi dægrin yfir launamálum í Seðlabankanum og það er ekki örgrannt um að það hvarfli að manni að sá mikli áhugi sé lítillega litaður af því hver gegnir stöðu formanns bankastjórnar í kastalanum við Kalkofnsveg. Hvað sem því líður finnst mér nánast sjálfgefið að æðstu yfirmenn hafi hærri laun en undirsátar sínir, bæði í samræmi við ábyrgð en einnig til þess að viðhalda eðlilegri valdauppbyggingu innan fyrirtækis eða stofnunar.
Þess þekkjast auðvitað dæmi að undirmenn séu betur launaðir en yfirboðarar sínir, en það á þó yfirleitt aðeins við um millistjórnendur og eru undantekningartilvik, sem yfirleitt stafa af mjög sérstökum aðstæðum. Ég man t.d. eftir því í netbólunni að góðir forritarar (eða bara forritarar, góðir sem slakir) voru svo fágætir, að margir stjórnendur réðu þá til sín á talsvert hærri launum en þeir sjálfir nutu. Maður heyrir sjaldan af ámóta núorðið. Það gaf enda ekki alltaf góða raun fremur en við ofeldi kálfa og mér skilst að mannauðsfræðingar vari mjög við slíku.
Það þarf hins vegar ekki að hafa nein áhrif út fyrir fyrirtækið eða stofnunina, því slík launastefna snýst aðallega um strúktúrinn innanhúss, þó hvatinn að launahækkunum komi að utan líkt og í tilviki Seðlabankans, sem þarf að keppa við viðskiptabanka og fjármálafyrirtæki um sérfræðinga, en þar tíðkast afar há laun, enda kvartar fjármálageirinn undan manneklu. Hjá viðskiptadeildum háskólanna er hins vegar mikið af upprennandi starfskröftum langt komnir í pípunum, þannig að það lagast vonandi brátt.
Ofurlaun á fjármálamarkaði
Þessi ofurlaun í fjármálaheiminum eru ekki séríslenskt fyrirbæri, þau tíðkast um heim allan. Þau helgast að miklu leyti af því að sérþekking þessi er afar dýrmæt og verðmætaskapandi og væru menn ekki nægilega vel haldnir ykist hættan á því að þeir færu einfaldlega að praktísera í eigin nafni á markaðnum, eins og er raunar mikið um engu að síður. Og svo eru ábatakerfin og kaupréttarákvæðin við, mönnum til enn frekari hvatningar.
En þar kemur einnig annað til. Erlendis er litið á störf af þessu tagi sem a young man's game, því menn brenna harla hratt upp í þessum geira og það er ör nýliðun af áræðnum og kappsömum mönnum, sem þurfa ekki að vera nema hársbreidd betri eða hraðari en hinir lítillega eldri samstarfsmenn til þess að afraksturinn sé milljörðum hærri. Þegar ég var við nám í Lundúnum var mér t.d. boðið starf sem gjaldeyrismiðlari af kunningja, sem hélt að ég kynni eitthvað á peninga fyrst ég væri að læra við London School of Economics. Kaupið var gersamlega klikkað; mér reiknaðist svo til að árslaunin væru meiri ég hafði gert ráð fyrir að þéna um dagana sem blaðamaður. Þegar ég hváði var hins vegar útskýrt fyrir mér að það væri sjálfsagt ekki hægt að finna meira slítandi starf í City, vinnutíminn væri langur og ömurlegur, streitan gífurleg og flestir væru útbrunnir eftir tvö ár. Enginn hefði verið lengur á gólfinu hjá þessu fyrirtæki en fjögur ár. Hefðu menn áhuga á rólegra starfi ættu þeir að reyna við skóla eða stofnanir, en þá væri kaupið líka mun lægra fyrir mun lengri starfsævi. Væri ég ekki til í að leggja hart að mér til þess að geta farið á eftirlaun vel fyrir þrítugt?
Nú hefur maður reyndar ekki séð neitt svipað upp á teningnum hér heima. Maður heyrir af ofurlaunum hjá hinum og þessum snillingum á fjármálamarkaði, en eins hafa þeir margir auðgast með því að spila sjálfir á markaðnum, svona til hliðar (sem aftur kann að vekja aðrar spurningar). En ég hef ekki orðið var við að mönnum sé vikið til hliðar fyrir aldurs sakir fyrr en komið er undir fimmtugt og þá er mönnum einatt kippt út og upp, sumsé færðir ofar í virðingarstigann en hið daglega at minnkað.
Veikt stoðkerfi
Þannig að kannski er hér um aðra hefð að ræða en ytra, sjálfsagt hefur smæð þrælamarkaðarins hér veruleg áhrif og svo má ekki gleyma því, að þrátt fyrir allt er þessi geiri atvinnulífsins vart búinn að slíta barnskónum. Hann hefur að sönnu vaxið gríðarlega hratt og mikill árangur náðst, en umhverfið ekki náð að fylgja á eftir. Gleggsta dæmið um það er að það er nú fyrst, sem menn hafa ákveðið að breyta viðskiptaráðuneytinu úr skrifstofuskúffu í ráðuneyti. Lagalegt umhverfi þessarar starfsemi er á margan hátt frumstætt (og hið sama má svo sem segja um lög um hlutafélög og bókhald) og tilsjón með fjármálastarfsemi mætti vera margfalt betri.
Þar á ég fyrst og fremst við Fjármálaeftirlitið (FME), sem ég tel að sé einfaldlega ekki í stakk búið til þess að halda fjármálastofnunum og eigendum þeirra við efnið og almenningi og lánadrottnum rólegum. Ekki vegna þess að FME sé lélegt, heldur vegna þess að það á sáralítið í þessa jötna, sem íslenskar fjármálastofnanir eru orðnar. Þar veldur þrennt helst:
Í fyrsta lagi eru lagaheimildir FME ekki nægilega skýrar og dómstólar hafa mjög látið fjármálastofnanir og eigendur þeirra njóta vafans, rétt eins og um hefðbundin fyrirtæki í einkaeigu væri að ræða. En svo er ekki. Fjármálafyrirtæki hafa traust almennings á fjármála- og jafnvel efnahagslífi allrar þjóðarinnar í hendi sér. Fari einn banki á hausinn veikjast allir hinir og geta riðað til falls þó allt sé í stakasta lagi hjá þeim. Eins og hræðileg dæmi eru um utan úr heimi. Samskonar skilningsleysi íslenskra dómstóla á sérstöku eðli almenningshlutafélaga hefur bæði veikt stöðu almennra hluthafa og hlutafjármarkaðarins, sem er vanþroskaðri fyrir vikið.
Í öðru lagi hefur FME átt í miklum vandræðum við að haldast á sérfræðingum. Það getur ekki boðið launakjör á við bankana og til þess að bæta gráu ofan á svart hafa bankar og fjármálastofnanir hirt af þeim heimalingana. Fyrir vikið er stofnanaminnið þannig skemmra, þeir sem best þekkja styrk og veikleika FME færast jafnharðan hinu megin borðsins og þannig mætti áfram telja. Að vísu ber að nefna að bankarnir munu hafa haldið að sér höndum hvað ráðningar frá FME áhrærir síðustu misseri, að mér skilst fyrir vinsamleg tilmæli frá Jónasi Fr. Jónssyni forstjóra þess. Rétt er að geta þess að hann hefur eflt stofnunina mikið undanfarið ár, en hefur skort ytri stuðning til þess að gera eftirlitið klárt í þann krappa sjó, sem því er ætlað að sigla.
Í þriðja lagi er afleiðing þessa tvenns, sem er að FME hefur ekki það vægi, sem fjármálamálamarkaðnum er nauðsynlegt. Þegar erfitt er að laða til sín hæfa og reynda starfsmenn bitnar það á vinnubrögðunum og minna mark er á því tekið, bæði af fjármálastofnunum og hinum sem eiga að geta treyst á umsagnir þess. Einstaklingar innan fjármálastofnana (sem margir eru mjög áhættusæknir) kunna því að tefla á tæpara vað en ella, en aðrir markaðsaðilar, ekki síst erlendir, eiga erfiðara með að átta sig á íslenskum fjármálastofnunum, af því að FME er næsta óþekkt stærð í þeirra huga.
Ég hygg að það kunni að vera eitt mikilvægasta verkefni Björgvins G. Sigurðssonar, nýskipaðs viðskiptamálaráðherra, að styrkja FME til mikilla muna. Ég veit að það yrði stóru bönkunum þremur alls ekki á móti skapi. Þeir vilja að sönnu ekki meira reglugerðarfargan eða meira íþyngjandi skýrslugjöf í daglegum rekstri, en eru á hinn bóginn vel tilbúnir til þess að fallast á meiri inngrip FME og samstarf við það, þegar ástæða þykir til, sumsé þegar grunur er uppi um að eitthvað sé að. Að undanförnu hefur það reglulega gerst að erlendar greiningardeildir hafa efast mjög um íslensku bankana og erlendir fjölmiðlar hafa gert því skóna að þeir kunni að tengjast peningaþvætti úr austurvegi eða ámóta. Þetta hafði veruleg áhrif á störf íslenskra fjármálastofnana og hefði getað farið á versta veg. Þar munaði kannski minnu en flestir gera sér grein fyrir. Sterkt, virkt og virt Fjármálaeftirlit hefði getað fyrirbyggt að slíkar efasemdir, og hviksögur, byggðar á þekkingarleysi, kæmust af stað eða að minnsta kosti kveðið þær niður hratt og örugglega með óyggjandi hætti. FME eins og það var þá, var þess engan veginn megnugt og naut ekki þeirrar virðingar eða trúverðugleika sem til þurfti.
Mér finnst vel koma til greina að fjárframlög til FME séu í ríkari mæli veltutengd við umfang fjármálastarfsemi og nauðsynlegt er að gera stofnunina miklu sjálfstæðari. Meðal annars þannig að Fjármálaeftirlitið geti ráðið til sín milljónkrónumenn eftir þörfum í stað þess að vera bundið af opinbera launakerfinu. Um leið væri æskilegt að í ráðningarsamninga þeirra væri bann við starf hjá íslenskum fjármálastofnunum í 5 ár eftir að störfum við FME lýkur.
Öfundin
Ég man ekki eftir því að menn hafi býsnast yfir hlutnum hjá duglegum togarasjómönnum á aflahæstu skipum flotans, þó þar væri oft um ævintýralegar upphæðir að ræða. Þvert á móti var jafnan um það talað af virðingu og aðdáun. Menn eru ekki síður fengsælir á fjármálamarkaðnum í dag, en menn vita að starfið er slítandi og ekki á vísan að róa; duttlungar markaðarins eru ekki minni en duttlungar náttúrunnar. Þess vegna æsa fæstir sig yfir háum launum á þeim vettvangi (þó menn hafi gert athugasemdir við suma kaupréttarsamninga og ekki af ástæðulausu).
Hlutverk Seðlabankans hefur einnig breyst á umliðnum árum, en það er ekki minna mikilvægt en fyrr, öðru nær. Það ríður engu minna á en áður, að Seðlabankinn hafi yfir færustu sérfræðingum að ráða, og sennilegast hefur aldrei verið mikilvægara en nú, að bankastjórnin sé algerlega sjálfstæð og óháð, en í því felst meðal annars að hún þarf að geta horft þráðbeint í augun á stjórnendum annarra banka, stjórnmálamönnum og aðilum vinnumarkaðarins án þess að blikna.
Það er vinsælt að agnúast út í launakjör og eftirlaun æðstu stjórnenda hins opinbera, helst með þeirri afleiðingu að Alþingismenn eru svo illa launaðir að hæfileikaríkt fólk þarf að færa umtalsverðar fjárhagslegar fórnir til þess að gefa sig að þeim veigamiklu störfum fyrir þjóðina. Ekki síst hafa verkalýðsrekendur verið duglegir við reka upp öfundarkvein. Þannig sagði Kristján Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambandsins, í viðtali við RÚV, að undanfarin ár hefði sjálftökuliðið í þjóðfélaginu tekið sér launahækkanir, sem séu langt umfram það, sem verkalýðshreyfingin hafi samið um. Kröfugerð hennar í næstu kjarasamningum myndi væntanlega taka mið af því.
Forysta Starfsgreinasambandsins er að vísu óvenjugalin miðað við það sem gengur og gerist í verkalýðsiðnaðinum, en frá ASÍ heyrðust svipuð sjónarmið. Ég get ekki tekið mark á pípunni í verkalýðsrekendum um laun annarra fyrr en þeir aflétta launaleyndinni af sjálfri sér. Þessi tónn um sjálftökuliðið er því einkar falskur, enda hlýtur Kristjáni Gunnarssyni að vera kunnugt um að þannig var þessi tiltekna launahækkun alls ekki þannig vaxin, ekki fremur en hjá æðstu stjórnendum ríkisins. Og Guðrún Zoëga, formaður kjararáðs, hafði raunar greint frá því að laun seðlabankastjóra hafi sem slík engin áhrif á ákvarðanir um launakjör æðstu embættismanna. Hvers vegna er Kristján þá að hræsna í málinu og tala um að þetta muni hafa áhrif á næstu kröfugerð sína? Kannski hann hafi vakið falskar vonir hjá einhverjum félagsmanna sinna, en þetta er innantómt bull hjá manninum og hann veit það.
Kannski vandinn sé sá, að Íslendingar hafa alltof lengi lagt trúnað við það að launajöfnuður sé markmið í sjálfu sér og engir lengur og meir en íslenskir stjórnmálamenn (og þar er enginn flokkur undanskilinn). Um leið ganga flestir út frá því sem vísu að einhverjir þar til bærir aðilar eigi að véla sérstaklega um það, að enginn beri nú örugglega of mikið úr býtum. Maður heyrir enda oft að menn hafa meiri áhyggjur af því en að einhver búi við of krappan kost. Þau viðhorf má kannski kenna við kreppusósíalisma síðustu aldar, en ég hygg að þar búi að baki mun eldri kennd, sumsé öfund. Af þeirri dauðasynd ætti enginn að láta stjórnast, jafnvel þó einhverjir reyni að klæða hana í búning stjórnmálastefnu.
![]() |
Launahækkun seðlabankastjóra var málamiðlun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Bloggfærslur 9. júní 2007
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (9.10.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 13
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 13
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar