Leita í fréttum mbl.is

Grímur tvær

Ég las skemmtilegt viðtal Hávars Sigurjónssonar við Benedikt Erlingsson, leikara, í síðustu Lesbók. Þar sagði hann m.a.:

Ég horfi stundum á einhvern hollívúddþátt í sjónvarpinu og verð djúpt snortinn af honum og finnst hann eiga við mig brýnt erindi. Svo fer ég í Þjóðleikhúsið og horfi á eitthvað sem lagðir hafa verið í miklir norrænir peningar og samískir danshöfundar hafa fórnað húsi og fjölskyldu til að gera að veruleika. Og mér finnst ég hafa farið hreina erindisleysu. Kannski er þetta partur af moldviðrinu. Það er ekki lengur allt sem sýnist. Mér finnst ég t.d. hafa upplifað á þorrablóti úti á landi meiri og sterkari leiklist en á stóra sviði Borgarleikhússins. Þarna eiga sér stað sterkari tjáskipti og það er meira rafmagn í loftinu og leiklistin er eins og heilandi hönd sem gerir alla glaða. Ef ég ætti að veita verðlaun fyrir annað hvort þá myndi þorrablótið fá Grímuna frá mér.

Þetta minnir mig á orðaskipti þeirra Einars Benediktssonar og Guðmundar Kambans í Kaupmannahöfn, sem Jakob F. Ásgeirsson skráði eftir meistara Kristjáni Albertssyni í bókinni Margs er að minnast. Kristján hafði tekið sér það fyrir hendur að leiða þessa tvo vini sína saman, en fundurinn varð ekki sérlega árangursríkur; kergja var í Kamban yfir blankheitum, óréttlæti heimsins og því skilningsleysi, sem honum fannst hann mæta sem leikritaskáld, og Einar hóf samtalið á því að biðjast afsökunar á því að hann væri um stundarsakir í bindindi:

„Hafið þér nokkurn áhuga á leikritaskáldskap?“ spurði Kamban Einar Benediktsson og auðheyrt að svo fannst honum ekki vera.
Einar svaraði: „Það hafa víst fáir Íslendingar eytt fleiri kvöldum í leikhúsum en ég.“
Þá sagi Kamban: „Ég hef svo háar hugmyndir um hlutverk leikhúsanna að ég fer nær aldrei á leiksýningar, því flest af því sem þar er sýnt er svo lítils virði.“

Benni lýsir gerólíkri afstöðu og vafalaust heilbrigðari. Bæði fyrir sig og áhorfendur. Hann áttar sig líka á því að leikhúsið getur verið með ótal mörgu sniði:

Leikhúsið er byssa og í það er sett kúlan sem er verk höfundarins, og púðrið eru leikararnir og sá sem miðar er leikstjórinn en það er leikhússtjórinn sem tekur í gikkinn því hann ákveður hvenær hleypt skuli af. Og stundum er miðað á höfuð áhorfandans, stundum hjartað en svo eru líka til leikhús sem miða á kynfæri áhorfandans. Það er eitt í Kópavogi.

....................

Annars er sérstök ástæða til þess að mæla með fyrrgreindri bók þeirra Jakobs og Kristjáns, sem fá má í nýútkominni kilju. Hún er bráðskemmtileg og fróðleg, enda var Kristján þriggja alda maður, hann fæddist í Fróðafriði 19. aldar, upplifði hvernig heimurinn breyttist í stríðinu mikla og enn frekar í Seinni heimsstyrjöldinni, því hann bjó í Þýskalandi þegar það braust út, dvaldi þar til 1943 og var síðan í Kaupmannahöfn til stríðsloka. Því var ekki fyrr lokið en Kalda stríðið skall á og þar var Kristján þátttakandi, bæði fyrir Íslands hönd á alþjóðavettvangi og ekki síður fyrir eigin hönd og frjálsrar hugsunar í hinni hörðu hugmyndabaráttu áratuganna, sem á eftir sigldu.

Kristján hafði ótrúlegt minni og gat farið orðrétt með ræður, sem hann hafði heyrt einu sinni, endur fyrir löngu. Ísland hefur sjálfsagt ekki átt annan eins heimsborgara fyrr og síðar, hann var víðförull, höfðingjadjarfur og forvitinn menningarjöfur, sem hitti ótrúlegasta fólk á lífsleiðinni og náði trúnaði þeirra flestra. Má nefna Matthías Jochumsson og Þorstein Erlingsson, Konrad Adenauer og Maxím Gorkí. Sjálfur lýsir hann líkast til öldunum sínum þremur best þegar hann minnist á það undur þegar hann 13 ára frétti af því afreki Louis Blériot að fljúga með naumindum yfir Ermarsund þar sem það er styst, en aðeins 50 árum síðar sat hann skemmtilegan kvöldverð með Neil Armstrong og félögum, sem flogið höfðu til Tungslins án verulegra vandkvæða.

Firðirnir og fiskurinn

Samgöngur á Vesturlandi eru allar aðrar en þær voru fyrir aðeins nokkrum árum, að maður tali ekki um hvernig ástandið var fyrir um tveimur áratugum, þegar Mýrarnar voru eitt svað hvert vor og Vestfirðir varla fyrir aðra en áhugamenn um torfæruakstur. Maður sér líka hvað samgöngurnar hafa bætt lífsgæðin mikið, ekki aðeins hvað atvinnulífið áhrærir heldur sálarlífið líkað. En síðan hefur svo margt fleira breyst. Það er t.d. ekki að sjá að Stykkishólmur hafi orðið fyrir þeim áföllum, sem margir bjuggust við þegar útgerðin þar lagðist nánast af. Grundarfjörður og Ólafsvík eru vísast viðkvæmari fyrir niðurskurði á fiskveiðiheimildum, en þó sér maður að það eru ýmsir atvinnumöguleikar aðrir í þeim blómlegu byggðum.

Hér á Vestfjörðum eru aðstæður hins vegar með allt öðrum hætti. Hér stendur og fellur öll byggð með fiskinum. Ferðamennska er vissulega orðin ágæt búbót á sumrin, en það er langur vegur frá því að hún eða aðrar atvinnugreinar skáki sjávarútveginum. Flutningur á opinberum störfum eða ámóta aðgerðir verða aldrei annað en lélegir plástrar hér vestra. Fyrir nú utan það, að ég minnist þess ekki að nokkurs staðar í heiminum hafi útbelgingur hins opinbera verið atvinnulífinu til blessunar. Og finnst mönnum virkilega ekki fullreynt á byggðastefnuna?

Það má vel vera rétt, að skera þurfi niður fiskveiðiheimildir með afgerandi hætti, eins og nú er rætt. En það má líka taka undir það, að fiskifræðin er engan vegin skotheld fræðigrein, hún er full af óþekktum stærðum og samhengi; vitneskja mannanna er jafnvel minni en í veðurfræði og við þekkjum öll hversu nákvæmar spár veðurfræðinga eru til 2-3 daga, hvað þá vikna. Með fullri virðingu fyrir Hafrannsóknastofnun eru fræðimennirnir þar ekki handhafar stórasannleika í þessum efnum og það má ekki síst rekja til þess að þar hafa menn fengið að reisa sér fílabeinsturn óáreittir. Af hverju rekur Háskóli Íslands ekki öfluga sjávarrannsóknastofnun, þó ekki væri nema til þess að veita Hafró eðlilega fræðilega samkeppni? Eða Landsamband íslenskra útvegsmanna? Það myndi auðvitað ekki tryggja hagfelldari niðurstöður, en það myndi færa okkur nákvæmari niðurstöður og örari þróun fræðanna.

Nú ríður hins vegar á að bregðast við með réttum hætti og við höfum ekki betri gögn að styðjast við en þau, sem Hafró tilreiðir oss. Niðurskurður á aflaheimildum virðist því óumflýjanlegur. Ísland býr til allrar hamingju við mesta hagsældarskeið í sögu þjóðarinnar, þannig að það er borð fyrir báru. En mismikið. Á Flateyri blasa við erfiðleikar eftir að Kambur lagði niður starfsemi sína og þó hin nýstofnaða Oddatá með sínar djúpu rætur á Flateyri kunni að milda skellinn er ljóst að starfsemin verður með miklu minna sniði en verið hefur. Á Ísafirði hefur rækjuvinnslu Miðfells verið hætt ótímabundið og víðar á kjálkanum eru menn uggandi yfir atvinnuástandinu.

Í athugun Hagfræðistofnunar kemur fram að Vestfirðir eru sá landshluti, sem síst þolir slíkar búsifjar. Að mínu viti er það ekki ofmælt. Vestfirðir mega ekki við neinni röskun á þessu sviði, því þar er að nánast engu öðru að hverfa, sem gagn er af. Landnytjar eru af skornum skammti, þjónustugreinar hafa þar frekar dregist saman en hitt ef Ísafjörður er undanskilinn, stóriðju er þar nær engin von nema kannski hugmyndir um olíuhreinsunarstöð, sem ég hygg að menn þurfi nú að taka til gaumgæfilegrar og alvarlegrar skoðunar. Tímar sértækra aðgerða eru til alrar hamingju löngu liðnir, enda gáfust þær aldrei vel, en ég hygg að það væri hreint glapræði ef ekki yrði tekið sérstakt tillit til sérstöðu Vestfjarða þegar kemur að sjávarútvegi. Þar eru mönnum aðrar bjargir bannaðir og það er beinlínis ömurlegt að hugsa til þess að byggðirnar hér vesluðust upp með Gullkistuna hér beint fyrir utan.

Á faraldsfæti

Fjölskyldan af hamingjuheimilinu við Ingólfsstræti lagði land undir fót sem fyrr segir, en við höfum einbeitt okkur að Vesturlandi og Vestfjörðum og sjáum heldur betur ekki eftir því. Ég hef ferðast um þessar slóðir áður, en samt hef ég verið að sjá ótal margt nýtt og náttúruundrin blasa hvarvetna við. Ég var líka svo lánsamur að fá lánaðan mikinn eðaljeppa fyrir ferðina, Toyota Landcruiser af fínustu gerð, með 5 lítra V8 benzínorkuveri undir húddinu og öllum hugsanlegum þægindum að innan. Það gerir ferðina vitaskuld miklu þægilegri og öruggari heldur en ef við hefðum verið að flengjast þetta á fjölskyldubílnum (án þess að ég sé neitt að lasta VW Passatinn okkar). Þess vegna skil ég ekki hvað minn góði kunningi, Sverrir Jakobsson, er að agnúast út í jeppana og kallar þá „þjóðfélagsmein“. Öðru nær, jepparnir veita öryggi, frelsi og ánægju, sem við hefðum ella orðið af.

Ég má til með að minnast á aksturslagið á vegunum. Það ber ekki á öðru en að áróður undanfarinna vikna hafi borið mikinn árangur, því á gervallri ferð okkar höfum við aðeins tvisvar séð til ökumanna, sem aka hraðar en góðu hófi gegndi. En þá má líka minnast á að áróðurinn gegn hraðakstri er meira en lítið villandi. Hraður akstur einn og sér þarf ekki að vera hættulegur, bjóði aðstæður. Gallinn er sá, að aðstæður eru nær alls staðar með þeim hætti að ökumenn mega hafa sig alla við og svigrúm fyrir mistök er nær ekkert.

Sökin á slysum í umferðinni liggur auðvitað áfram hjá ökumönnum, sem ber að aka í samræmi við aðstæður, en það er ekki hægt að líta hjá því að víða er vegakerfið stórhættulegt, merkingar lélegar og tilviljanakenndar, vegrið sjaldséðari en hvítir hrafnar og þar fram eftir götum. Gleggsta sögu segir þó Reykjanesbrautin, þar sem engin dauðaslys hafa orðið eftir tvöföldun og lýsingu hennar. Vegakerfið og umferðarlöggjöfin miðast við fyrri tíma, þegar bílar voru miklu færri og lakari en nú. Það má hæglega aka ódýrustu fólksbílum á 130 km hraða án þess að meiri hætta stafi af en á 90 km hraða bjóði aðstæður það. Það gera þær ekki og að því mætti Kristján L. Möller huga.

Þó mér hafi virst flestir virða hraðatakmarkanir er ekki þar með sagt, að aksturlagið hafi allt verið til fyrirmyndar. Þar skera ökumenn með tjaldvagna sig sérstaklega úr. Þeir eru margir á bílum, sem eru á mörkum þess að valda vögnunum með nægilegu öryggi, en ég veit ekki til þess að lögregla hafi nokkurt eftirlit með slíku. Vagnarnir eru auk þess oft nokkru breiðari en bílarnir, en það er eins og ökumennirnir hafi steingleymt því og blússa því áfram á sínum venjulega stað á veginum, meðan vagninn skagar inn á gagnstæða akrein, svo öðrum stafar hætta af.

En þrátt fyrir slíkar kvartanir stendur upp úr hið mikla ferðafrelsi, sem tæknin og samgöngubæturnar hafa fært okkur. Það er ekki nema um öld síðan flest fólk fór varla yfir í næstu sókn alla ævi, nema líf lægi við. Og ekki nema um áratugur síðan enginn fór akandi um Vestfirði af gamni sínu. Nú er öldin önnur og þau lífsgæði skipta miklu, bæði fyrir heimamenn og okkur gestina.

Frí á fríi

Ég hef ekkert bloggað að undanförnu, aðallega vegna þess að ég hef verið að njóta sumarleyfis í þessari miklu blíðu undanfarnar vikur, en við höfum lagst í ferðalög hér innan lands. Síðan skal ég líka játa, að ég hef öðrum þræði verið að forðast það að hólfa niður líf mitt í bloggheimum. Ég þekktist boð um að hreiðra um mig á Eyjunni, en ég vil ekki hætta að blogga á Moggablogginu (þó ekki væri nema til þess að skaprauna Stebba Páls). Ég hugsa að ég reyni að skipa því þannig að á Eyjunni fjalli ég fyrst og fremst um fréttir og atburði líðandi stundar, en á Mogga stingi ég fremur niður penna um annað það er fangar hugann. Sjáum til.

Bloggskrifin velta líka á því hvernig manni endist tími og andagift, því sannast sagna er maður oft býsna tæmdur eftir hin daglegu skrif í Viðskiptablaðið. Þar fyrir utan er mér síðan fremur illa við það að skrifa ókeypis, því það er af skrifum, sem ég og fjölskyldan höfum lífsviðurværið. Mín heittelskaða eiginkona umber bloggið sem sérkennilegt áhugamál bóndans, en ég veit að henni gremst sá tímaþjófur stundum. En kannski maður selji bara auglýsingar á síðuna og græði milljónir. Og kannski ekki.

En hér sit ég í yndislegu veðri vestur á fjörðum, á stéttinni hjá Langa Manga á Ísafirði nánar tiltekið, svala mér á einum ísköldum og drekk í mig götulífið hér um leið og ég bergi á Netinu þráðlaust. Ég verð að minnast á það að hjá Langa Manga er kaffið sko ekkert slor heldur, með því betra á landinu.

..................

Biðst forláts á því að útlitið á Eyju-bloggnum mínum er ekki upp á marga fiska og viðmótið enskuskotið. Laga það er ég kem úr fríinu.


Bloggfærslur 4. júlí 2007

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband