8.9.2007 | 13:35
Stöð 2 og samsærið mikla
Í gærkvöldi var ég í Kastljósi Ríkissjónvarpsins hjá Þóru Arnórsdóttur til þess að fara yfir fréttir vikunnar ásamt Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur, stöllu minni, sem nú er milli bæja í fjölmiðlahreppnum. Þar var meðal annars tæpt á uppsögn hennar á fréttastofu Stöðvar 2.
Ég lagði meðal annars það orð í belg, að mér þætti fjölmiðlaumfjöllunin um uppsögn hennar hafa verið furðumikil, á sama tíma og uppsögn 64 starfsmanna Icelandair hefði lítið rými fengið.
Þá var því til svarað að ef til vill gegndi öðru máli þarna um, þarna hefði verið einhverjar pólitískar vélar á ferð. Ég verð að játa að ég þekki málið ekki til hlítar, en mér heyrðist á Þóru Kristínu, að þarna hefði verið um vinnustaðapólitík að ræða, sem er allt annar handleggur en pólitískar atvinnuofsóknir eða hefndaraðgerðir, líkt og sumir gáfu til kynna þegar uppsögnin spurðist út.
Á fjölmiðlum þurfa ritstjórar að skipa liði sínu með ýmsum hætti og taka tillit til alls kyns sjónarmiða. Ekki síst á það við um sjónvarpsmiðlana, sem eru öðrum þræði í skemmtanabransanum. Slíkar ákvarðanir eru byggðar á smekk og tilfinningu, sem engin leið er að deila um af neinu viti.
Hin faglegu sjónarmið
Það tíðkast mjög þessi árin að svokölluð fagleg sjónarmið eigi að ráða á öllum sviðum. Ekki síst er skírskotað til þeirra þegar mannaráðningar eru annars vegar, en þær virðast hafa orðið mun viðkvæmari með árunum, ekki endilega vegna þess að réttlætistilfinning manna bjóði það, heldur kannski ekki síður vegna þess að fólk virðist í auknum mæli líta á sérhverja höfnun í lífinu sem endanlegan og óréttmætan dóm yfir persónu sinni. Hins vegar man ég nú ekki eftir því að það hafi nokkurn tíman verið skýrt til hlítar við hvað er átt með orðaleppnum faglegu.
Með hinni faglegu orðræðu er hins vegar gefið til kynna, að unnt sé að leggja menn við eina tiltekna mælistiku til þess að reikna út mannkosti hans. Rétt eins og það nægi að safna saman einhverri tiltekinni tölfræði úr lífshlaupi manna, slá hana inn í Excel og nota einhverja glæsilega formúlu til þess að finna út lokaeinkunn hvers og eins. En auðvitað er það ekki hægt; maðurinn er óendanlega fjölbreytt skepna og því má eins reyna að deila í hann með óendanleikanum eða núlli. Með álíka skynsamlegum niðurstöðum.
Við höfum horft upp á það undanfarin ár hvernig gengur að leggja slíkt mat á menn. Þær rannsóknir hafa líka áhrif á niðurstöðuna, rétt eins og skammtafræðin kennir okkur. Fólk fer að haga sínu faglega lífi til þess að líta betur út á pappírnum, en verður fráleitt hæfara fyrir vikið.
Auðvitað má finna atvinnugreinar, þar sem faglegar mælistikur má leggja á störf manna, fyrst og fremst í greinum þar sem auðvelt er að mæla afköst og ástæðulaust að taka tillit til annarra þátta. En þær eru fáar og fer fækkandi. Að mínu viti er fjölmiðlun alveg sérstaklega galin atvinnugrein til þess að stunda þessar faglegu mælingar. Í blaðamannastétt hafa þrifist alls kyns kynlegir kvistir, sem sumir hverjir hefðu tæpast verið umbornir á öðrum vinnustöðum. Fjölmiðlar eru enda óvenjulegir vinnustaðir; þversagnakenndar verksmiðjur þar sem skapandi fólk stendur við færiböndin. Það þarf að hafa nasasjón af öllu milli himins og jarðar og geta fyrirvaralaust gengið í öll verk. Um leið eru menn tilbúnir til þess að líta hjá alvarlegum göllum meðan kostirnir vega þyngra þegar á reynir.
Það er unnt að mennta sig í blaðamennsku og læra góð og rétt vinnubrögð, en ágætiseinkunn úr slíkum skóla er engin trygging fyrir því að menn reynist góðir blaðamenn. Starfsaldur eða afköst eru ekki heldur áreiðanlegur mælikvarði í þeim efnum. Hvað þá blaðamannaverðlaun, eins og dæmin sanna!
Pólitík hvað?
En í þessarri umræðu allri skildi ég aldrei almennilega hvað menn voru að fara með þessum ásökunum í garð Steingríms Ólafssonar, að pólitík væri rót uppsagnar Þóru Kristínar. Það hafði enda enginn fyrir því að skýra það út. En tesan var eitthvað á þá leið, að fyrst Steingrímur værir framsóknarmaður, sem meira að segja hefði unnið fyrir Halldór Ásgrímsson í forsætisráðuneytinu, þá hlyti sérhver ákvörðun hans að vera af pólitískum rótum runninn. Einmitt.
Auðvitað er það ekki nóg, að pólitísk afstaða Steingríms sé þekkt, svo álykta megi að allar hans ákvarðanir stýrist af henni. Umræddar ákvarðanir verða þá að hafa einhverja pólitíska vídd til þess að slíkt sé til umræðu (nema menn telji að hann taki mjólk í kaffið til þess að sýna samstöðu með Guðna Ágústssyni og kúabændum).
Haldi menn því fram að það hafi verið flokkspólitísk ákvörðun hjá honum að segja Þóru Kristínu upp þurfa þeir jafnframt að útskýra hvað Framsóknarflokkurinn eigi að græða á uppsögn hennar eða hvað hún eigi að hafa gert á hans hluta.
Þá ættu menn að fara varlega, því með slíkum ásökunum eru þeir í raun að gefa í skyn að Þóra Kristín hafi ekki gætt hlutleysis í fréttaflutningi sínum, að hún hafi dregið pólitískan taum, verið framsóknarmönnum sérlega mótdræg eða ámóta. Eru dæmi slíks?
Eða Halldór Ásgrímsson að hafa fyrirskipað sínum gamla undirmanni að láta nú sverfa til stáls gegn dóttur Sigríðar Jóhannesdóttur, fyrrverandi þingmanns Samfylkingar og Alþýðubandalags, af því honum fannst Sigríður alltaf hafa horft hálfillilega til sín í þinginu hér í den?
Nei, ætli framsóknarmenn hafi ekki að einhverju þarfara að huga til þess að ná sér á strik á ný. Það starf mun eiga sér stað innan flokks þeirra og á Alþingi. Steingrímur hugsar vafalaust hlýlega til flokkssytskina sinna, en ég hef engin merki séð um það að fréttastofu Stöðvar 2 hafi verið í neinu beitt fyrir vagn Framsóknarflokksins.
Það má vel hafa þá skoðun, að Steingrímur hafi gert mistök með því að segja upp þrautreyndum fréttamanni eins og Þóru Kristínu, en þá er það fréttastofan, sem sýpur seyðið af því, og Steingrímur sjálfur áður en yfir lýkur, ef trúverðugleiki fréttastofunnar bíður varanlegan hnekki af. Eins og dæmin sanna lifa flestir fréttamenn Stöðvar 2 fréttastjóra sína af í starfi. Það kemur þá bara í ljós. En að láta eins og það sé reginhneyksli, pólitískt samsæri og óbærilegt áfall fyrir íslenska fjölmiðlun er bara bull.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.9.2007 kl. 14:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Bloggfærslur 8. september 2007
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (9.10.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 13
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 13
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar