14.1.2008 | 03:02
Dellumakarí í Silfrinu
Ég var að horfa á Silfur Egils nú áðan og þar kom ýmislegt forvitnilegt fram. Nefni nokkur dæmi:
Álfheiður Ingadóttur, þingmaður vinstrigrænna, vitnaði í tvo aðra stjórnmálamenn. Annars vegar Halldór Blöndal, fyrrverandi forseta Alþingis, sem hefði játað það í pistli í Morgunblaðinu í dag að hafa aulast til þess í forsetatíð sinni að fallast á flutning hússins að Vonarstræti 12 bak við Herkastalann, nú teldi hann óhjákvæmilegt að endurskoða þá ákvörðun vegna þess, sem væri að gerast við Laugaveg. Lofaði hún svo Halldór fyrir það að vera annan tveggja stjórnmálamanna, sem hefðu séð að sér og játað mistök. Hinn væri Árni Þór Sigurðsson, samflokksmaður hennar. Já, má vera og enginn efast um að þeir Halldór og Árni Þór eru ærlegir stjórnmálamenn.
En hversu mikils virði eru slíkar játningar? Ég man líka eftir iðrunartárum Árna Þórs, Dags B. Eggertssonar, upprennandi leiðangursstjóra, og fleiri R-listamanna þegar á daginn kom að Hringbrautarflutningurinn var algert heimskuklúður frá upphafi til enda. Við erum hins vegar enn að bíða eftir yfirbótinni og á henni bólar ekki. Hún kom ekki hjá R-listanum og það hefur ekki heyrst múkk um hana hjá REI-listanum. Vegfarendur mega hins vegar enn þola þennan óþolandi umferðartappa, sem myndast daglega þar sem hin flutta Hringbraut slengist inn á gamla bútinn milli Snorrabrautar og Lönguhlíðar.
Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sá alkunni hófsemdarmaður í málflutningi, sem nú er í samstarfi við samviskulausa síbrotamenn og mexíkóskan bófaflokk eins og hann komst að orði um Sjálfstæðisflokkinn síðastliðið vor, hafði ýmislegt til málanna að leggja. Sérstaklega hvað varðaði leiðara Morgunblaðsins um vinnubrögð vegna skipunar í embætti héraðsdómar. Árni Páll var beinlínis miður sín yfir þessu öllu saman og kallar hann þó ekki allt ömmu sína:
Mér finnst leiðarahöfundurinn hafa verið í alveg ótrúlegri skógarferð. Mér fannst sérstaklega ómaklegt núna í vikunni hvernig hann í leiðara fór að vega að starfsheiðri og faglegum heiðri Péturs Kr. Hafstein og dómnefndar um hæfi dómarefna, sem er algerlega með þeim hætti að maður átti ekki til orð yfir þeirri framgöngu.
Að vísu tókst Árna Páli að lokum að finna allnokkur orð um hana, en um hvað er hann eiginlega að tala? Það má lesa umrædda forystugrein Morgunblaðsins hér en í henni er alls ekki að finna neinar þær ávirðingar, sem Árni Páll þykist hafa lesið þar. Í forystugreininni er sagt að nefndin hafi farið út fyrir valdsvið sitt og raunar seilst til valda. Ég er sammála þeirri greiningu, en jafnvel þó svo ég væri það ekki, þætti mér það alveg gild skoðun og umræðunnar virði. Hinn vammlausi og heilagi Árni Páll vill hins vegar ekki einu sinni ræða það og telur það ganga guðlasti næst að efast um óskeikulleik Péturs Kr. Hafstein. Hvaða della er þetta?
Dellan átti þó eftir að verða meiri í þættinum og enn var það Morgunblaðið, sem var til umfjöllunar. Að þessu sinni var það Reykjavíkurbréf fyrri helgar, sem hafði vakið hugsuðina til umhugsunar, en þar hafði verið fjallað sérstaklega um stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og færð rök fyrir því að forystu Sjálfstæðisflokksins hafi orðið á veruleg skyssa með því að efna til þess samstarfs. Fastir lesendur mínir þekkja vafalaust svipað stef úr þessum penna og það hefur svo sem mátt heyra og sjá víðar, enda þarf ekki mikla nasasjón af refskák stjórnmálanna til þess að átta sig á afleiknum.
Flestir hafa nefnt til hið augljósa, að Geir H. Haarde hafi skorið Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur niður úr þeirri snöru, sem hún hafði sjálf snúið sér, en án þess vinarbragðs væru hennar pólitísku dagar sjálfsagt taldir. En þá líta þeir hjá hinu, að með því margefldi Geir einnig erindi Samfylkingarinnar, sem er eini raunhæfi keppinautur Sjálfstæðisflokksins um hina víðfeðmu miðju íslenskra stjórnmála eftir að Framsóknarflokkurinn lagðist banaleguna.
Morgunblaðinu hefur orðið það á að benda á þetta og uppskar það m.a. að forsætisráðherra varði rými í að mótmæla þeim aðfinnslum í áramótagrein sinni í blaðinu. Sem sýnir að hann tekur þær ásakanir alvarlega, þó hann vilji ekki gangast við réttmæti þeirra og svari þeim með einhverjum flatneskjum um að hann sýti það ekki að hafa blásið lífi í hnignandi stjórnmálahreyfingu og ýmsa forystumenn hennar, sem ella hefðu horfið af hinu pólitíska sjónarsvið, enda líti hann ekki á það sem sitt meginhlutverk sem forystumaður í stjórnmálum sé að koma öðrum stjórnmálaforingjum fyrir pólitískt kattarnef
Nei, auðvitað er það ekki meginhlutverk neins stjórnmálamanns að gera úti um pólitíska framtíð keppinauta sinna, það verður hver og einn stjórnmálamaður að gera fyrir sig. En markmið hvers stjórnmálamanns hlýtur að vera að sannfæra kjósendur um ágæti sitt, stefnumála sinna og grundvallarskoðana og fái hann til þess umboð að gera sitt ýtrasta til þess að hrinda téðum stefnumálunum í framkvæmd og greiða götu grundvallarskoðana þeirra, sem kjósendur hans samsömuðu sig með. Liggur það ekki í augum uppi? Um leið hlýtur hann að forðast það að ýta undir framgang annara stjórnmálaskoðana og sérstaklega þeirra, sem líklegastar eru til þess að verða til spillingar eigin hugsjónum eða Þrándur í Götu.
Kannski þarna sér fundinn munurinn á pólitíkusi og stjórnmálaleiðtoga. Pólitíkusinn býður sig bara fram til þess að fá að vera með í leiðangrinum og þykist jafngóður og hver annar til þess að leysa aðsteðjandi vanda á leiðinni. Og getur jafnvel verið það. Stjórnmálaleiðtoginn veit hins vegar hvert leiðin liggur og til hvers hún er farin. Þá velur hann ekki þá samferðamenn, sem líklegastir eru til þess að afvegaleiða hann, tína af honum fylgið eða yfirgefa á ögurstundu.
Þess vegna var sannarlega athyglisvert að hlýða á viðhorf þeirra pólitíkusa, sem voru gestir Egils að þessu sinni, þeirra Álfheiðar Ingadóttur, Árna Páls Árnasonar, Björns Inga Hrafnssonar og Ragnheiðar E. Árnadóttur. Þeim þóttu það firn mikil að Morgunblaðið hvetti til langtímamarkmiða í stjórnmálum og að stjórnmálamenn hugsuðu lengra en einn leik í einu. Þetta var augljóslega hugsjónalaust fólk, allt með tölu. Viðfangsefni dagsins eru tæk til pólitískrar afstöðu sem flokkarnir eiga þá væntanlega að taka fyrirsjáanlega og andstæða afstöðu til en hugsjónir og langtímahagsmunir gilda einu. Það er þá gott að vita það.
Þá má hins vegar velta fyrir sér til hvers er verið að kjósa þetta lið til fjögurra ára. Eða til hvers er yfir höfuð verið að kjósa stjórnmálamenn til valda. Ef þetta streð allt snýst aðeins um einhver minniháttarúrlausnarefni dagsins, má þá ekki allt eins eftirláta þau grandvörum embættismönnum, sem vinna samkvæmt faglegum ferlum (eins og við erum fullvissuð um að þeir geri allir)? Þarf eitthvert fulltrúaþing til þess? Við gætum þá bara tekið upp sæmilega upplýst einveldi og krýnt einhvern huggulegan, vel menntaðan mann til þess að stýra ríkinu, gjarnan með doktorspróf. Gott ef við eigum ekki einn slíkan!
Nei, auðvitað er því ekki þannig farið. En við vitum þá hvert erindi ofagreindra í stjórnmálum er: ekkert.
Á sinn hátt má segja að það sé jafnframt vandi ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna í hnotskurn, að erindi þeirra í stjórnmálum er fjarskalega óljóst. Treystir einhver sér til þess að tilgreina hver eru höfuðmarkmið ríkisstjórnarinnar umfram almennt suð um að hún vilji elska sitt land, auðga sitt land, efla þess dáð og styrkja þess hag? Jafnvel eftir að hafa lesið stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er það ekki létt verk. Ekki einu sinni um stórpólitískustu mál samtímans. Enn síður þegar hlýtt er á forystumenn stjórnarflokkanna, sem tala af stakri kurteisi í kross í flestum málum, en sjaldnast þannig að hönd sé á festandi.
Ekki minnkaði dellan þegar Grétar Mar Jónsson gekk í salinn til þess að ræða kvótakerfið í ljósi þess álits, sem meirihluti Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna lét frá sér um daginn. Hann tönnlaðist á því að nú væri Íslendingum ekki stætt á því að fjalla frekar um málið fyrst nefndin hefði mótað álit sitt. Rétt eins og málið hefði aldrei verið rætt hér af neinu gagni. Að rökræða undanfarinna 24 ára skipti engu fyrir áliti þessara herra. Meira um það síðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Bloggfærslur 14. janúar 2008
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.10.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 406307
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 12
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar