2.1.2008 | 19:25
Einræðustjórnmál
Herra Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, lýsti því yfir í nýársávarpi sínu að væri það vilji Íslendinga, að hann bæri áfram ábyrgð á forsetaembættinu, væri hann fús að axla hana. Um leið kvaðst hann vita af eigin reynslu að enginn gæti innt þann starfa vel af hendi, nema hann nyti trausts meðal þjóðarinnar. Í leiðinni skoraði hann á þjóð sína að setja sparnað í öndvegi, gera aðhald og nýtni að aðalsmerki.
Það er gleðiefni að forseti skuli loks hafa tekið af skarið um framtíðaráform sín. Hitt er annað mál, að forsetinn hefði mátt lýsa nánar fyrir þjóð sinni hvað veldur sinnaskiptum hans. Í aðdraganda forsetakosninga 1996 sagði herra Ólafur Ragnar það skoðun sína að 16 ár væri fulllangur tími í embætti fyrir forseta; sjálfur teldi hann tvö kjörtímabil, í mesta lagi þrjú, hæfilegri tíma fyrir setu forseta í heimi hraðra breytinga, nyti hann stuðnings til þeirrar setu.
Í ljósi mikillar áherslu forsetans á traust þjóðarinnar á embættinu og stuðnings hennar við þann, sem því gegnir, er rétt að rifja upp niðurstöður síðustu forsetakosninga. Í landi þar sem kjörsókn í almennum kosningum er að jafnaði um 85% dröttuðust aðeins tæplega 63% á kjörstað, en herra Ólafur Ragnar fékk ekki nema liðlega 42% atkvæða kosningabærra manna. 58% sátu ýmist heima, skiluðu auðu eða kusu tvo frambjóðendur aðra, annan ókunnan en hinn kunnan að endemum. Þetta gerðist án þess að nokkur sérstök hreyfing hafi beitt sér fyrir því, heldur tók 122.891 kjósandi þá ákvörðun með sjálfum sér, en forsetinn sat áfram á Bessatöðum í krafti 90.662 atkvæða. Voru þau úrslit til marks um traust og stuðning þjóðarinnar?
Ekki verður séð forsetinn hafi nýtt kjörtímabilið, sem nú er að líða, til þess að brúa þessa gjá milli forsetaembættisins og þjóðarinnar. Þvert á móti hefur hirðvæðing embættisins náð nýjum hæðum og engu er líkara en forsetanum þyki á stundum nánast óþægilegt að þurfa að umgangast ótínda alþýðuna. Svo rammt hefur að þessu kveðið, að forsetinn sendi henni tóninn í viðtali, sem náðist við hann á erlendri grundu síðastliðið haust, og sagði að hún yrði veskú að gera það upp við sig hvers konar forseta hún eiginlega vildi, dándimann eins og sig eða einhvern rustíkus til heimabrúks.
Á opinberum vettvangi hefur þetta ákall forsetans eftir umræðu um eðli og inntak embættisins ekki verið fyrirferðarmikið og með yfirlýsingu sinni nú hefur forsetinn nánast útilokað að hún nái nokkru flugi. Hversu fúsir, sem menn eru til þess að ræða forsetaembættið, er hætt við að þeir kinoki sér við þá umræðu úr þessu af ótta við að slíkt verði túlkað sem sérstök gagnrýni á núverandi forseta eða inngrip í kosningabaráttuna. Þetta tvennt er að mestu óskylt, þó varla verði hjá því litið að herra Ólafur Ragnar hefur leynt og ljóst reynt að breyta embættinu að sínu höfði.
Að mörgu leyti hefur þeim áherslum forsetans verið fagnað í viðskiptalífinu. Hann hefur gengið mun lengra en forverar sínir í því að kynna Ísland og íslenskt atvinnulíf erlendis, þá kosti sem bjóðast hér á landi og ekki síður hefur hann lagt sig í líma við að greiða götu íslenskra athafnamanna erlendis. Það framlag skyldi ekki vanmeta, sérstaklega í þeim löndum þar sem stjórnvöld hafa enn öll tögl og hagldir í atvinnu- og þjóðlífi.
Sú elja herra Ólafs Ragnars hefur aftur á móti kallað á ýmsa gagnrýni. Sumir hafa sagt það ósiðlegt að notfæra sér slíkt stjórnarfar til þess að koma íslenskum árum fyrir borð og þannig sé verið að arðræna alþýðu þriðja heimsins með hinum eða þessum hættinum. Aðrir átelja að forsetinn sé nánast vikapiltur íslenskra auðmanna. Persónuleg vinátta hans við suma þeirra og náið samneyti hefur vakið ýmsar spurningar, eins og hvort það sé við hæfi að forseti lýðveldisins og fjölskylda hans þiggi far með einkaþotum sömu manna og hann keppist við að mæra við erlenda kollega sína. Hinna sömu og hafa verið fjárhagslegir bakhjarlar kosningabaráttu hans. Þeim spurningum er enn ósvarað fjórum árum síðar. Ætli þeim verði svarað nú?
Það er tæpast mikil hætta á því, enda gaf forsetinn það út að hann myndi bara ekkert tjá sig um farþágu sína. Slík svör hafa menn þurft að gera sér að góðu áður þegar óþægileg mál ber á góma og embættið hikar ekki við að skýla sér bak við uppskáldaða öryggishagsmuni til þess að verjast svara. En samt hvetur forsetinn til umræðu, þó hann virðist ekki vilja taka þátt í henni sjálfur. Sem er þeim mun einkennilegra, þegar haft er í huga að eftir sneypukosninguna 2004 talaði herra Ólafur Ragnar digurbarkalega um að nú hefði hann fengið skýrt umboð frá þjóðinni (eða a.m.k. þessum 30,91% þjóðarinnar, sem kusu hann) til þess að fylgja eftir ýmsum megináherslum, er hann hafði kynnt á blaðamannafundi. Þar á meðal var að hann myndi taka virkan þátt í samræðum þjóðarinnar um framtíð hennar og mikilvæg verkefni án þess að taka þátt í flokkspólitískri umræðu eða karpi á vettvangi stjórnmálanna. Nú er umdeilanlegt hvort hann hafi efnt seinni liðinn með fullnægjandi hætti, en fyrrihlutann vanrækir hann fullkomlega, því forsetinn hefur aðeins áhuga á einræðum, ekki samræðum.
Hins vegar þarf það ekki að vera þannig. Eftir að forsetinn kallaði eftir umræðunni urðu nokkrir til þess að svara kallinu. Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður vinstrigrænna, gerði það t.d. tæpitungulaust á heimasíðu sinni. Birgir Ármannsson, þingmaður sjálfstæðismanna og forseti Allsherjarnefndar, ræddi þetta við Katrínu Jakobsdóttur, þingmann og varaformann vinstrigrænna, í viðtali á Rás 2 í haust, og þau voru furðusammála um þau úrlausnarefni, sem blöstu viðþegar forsetaembættið væri annars vegar. Nú rétt fyrir áramót ræddu þau Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisfllokksins, og Svandís Svavarsdóttir, oddviti vinstrigrænna í Ráðhúsi Reykjavíkur, mál þessi á síðum Fréttablaðsins og var töluverður samhljómur með þeim þó hvort syngi með sínu nefi. Eins hafa ýmsir bloggarar, sem fylgja frjálslyndum eða Framsóknarflokknum að málum bent á eitt og annað, sem betur mætti fara við búskapinn á Bessastöðum. Ég heyri suma Samfylkingarmenn tala á svipaðan veg, en ég man í svipinn ekki eftir neinum, sem hefur látið það út úr sér á opinberum vettvangi.
Má ekki ljóst vera af þeim viðbrögðum, að stjórnmálamenn eru þess albúnir að brjóta málefni þessi til mergjar? Þeir eru varla einir um að hafa skoðun á málinu; ætli það megi ekki finna einn og einn almúgamann, sem gerir það líka.
Eins og fyrr er rakið hefur herra Ólafur Ragnar breytt embættinu verulega fá því að hann náði fyrst kjöri árið 1996. Ekki síst á það við um ákvörðun hans árið 2004 um að synja fjölmiðlalögunum staðfestingar, en þar tók herra Ólafur Ragnar einn (vonar maður) þá ákvörðun að gerbreyta eðli embættisins, ásýnd og umgjörð og uppskar algert fágæti í lýðræðisríkjum: völd án ábyrgðar.
Alveg burtséð frá skoðunum manna á þeim gerningi og lögmæti hans og alveg burtséð frá því hvar menn standa í afstöðu sinni til breytinga á embættinu, þá hljóta menn að vera á einu máli um að ótækt sé að forsetinn standi einn í slíkum stórræðum. Skoðanakannanir, undirskriftarsafnanir, álit forseta á almenningsáliti, hugdettur hans eða ámóta geta ekki verið grundvöllur slíkra breytinga á æðsta embætti ríkisins og stjórnskipan landsins.
Almenningur þarf að svara ákalli forsetans um opna og lýðræðislega umræðu um eðli embættisins og framtíð, en þá þarf forsetinn líka að gegna eigin kalli og taka þátt í umræðunni. Í því samhengi þarf hann ekki að óttast að þátttaka sín teljist óviðeigandi, því hann hefur gefið kost á sér og orð hans munu skoðast í því ljósi: Að þar hljómi auðmjúk orð frambjóðanda í leit að samræðu við þjóð sína, en ekki einræða óskeikuls og ósnertanlegs þjóðhöfðingja.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Bloggfærslur 2. janúar 2008
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.10.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 406307
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 12
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar