Leita í fréttum mbl.is

Dagar reiði og pólitísk ábyrgð

Bankamálaráðherrann skýrir málin.

Áfallið mikla hefur að vonum verið helsta umhugsunarefni þjóðarinnar undanfarnar vikur. Hvað fór úrskeiðis? Hverjum er um að kenna? Hversu mikið er tjónið? Eru sökudólgarnir enn að störfum? Af hverju brást kerfið? Þarf að stokka það allt upp? Mun þjóðin nokkru sinni rétta úr kútnum? Af hverju skyldi hún bera ábyrgð á afglöpum einkafyrirtækja? Hver er ábyrgð stjórnvalda? Og svo framvegis. Einn og einn hefur jafnvelt velt vöngum yfir því hvernig megi bæta úr því sem komið er og hefja endurreisnina.

Fyrst og fremst hafa menn þó orðið varir við háværa kappræðu, þar sem þátttakendurnir virðast halda að sá vinni, sem er reiðastur. Auðvitað er fólk felmtri slegið. Og reitt. Bálreitt, raunar. Reiðin er hins vegar afleitt vegarnesti á háskaför og minnkar beinlínis líkurnar á því að menn komist heilir á leiðarenda.

Hafa stjórnvöld brugðist? Já, það hafa þau augljóslega gert á fjölmörgum sviðum, bæði á undanförnum árum, ekki síður á misserinu í aðdraganda áfallsins og enn frekar má gagnrýna ýmsar aðgerðir (og aðgerðaleysi) eftir að ósköpin dundu yfir. Það að skipta leifunum af bankakerfinu upp eftir búsetu innistæðueigenda reyndist t.d. vera glapræði þegar nær hefði verið að skipta því upp eftir gjaldmiðlum. Það að láta undan kúgun Evrópusambandsins vegna Icesave-reikninganna kann að reynast þjóðhættulegt ef eftir gengur (og máske er ekki allt komið í ljós þar). Værukærð um lagaleg úrræði vegna efnahagshryðjuverka Gordons Brown og breskra stjórnvalda vekur aðeins frekari spurningar. Eins má vel spyrja af hverju hugmyndin um tafarlaus og einhliða gjaldmiðilsskipti hefur ekki fengið verðskuldaða umfjöllun á sama tíma og stjórnvöld fóru nánast umhugsunarlaust í stórfenglegar erlendar lántökur til þess að reyna að bjarga krónunni upp á von og óvon. Því miður mætti fleira tína til.

Það er því ekki skrýtið þó málsvarar reiðinnar hrópi eftir afsögn ríkisstjórnarinnar, brottekstri helstu embættismanna og þingkosningum. Hins vegar hafa þeir ekki getað bent á það hvað skuli síðan til bragðs taka, sem máske er ekki svo skrýtið í ljósi tengsla helstu hávaðaseggjanna við hina vinstrigrænu grasrót. Sumir þeirra eru þó merkilegt nokk vel tengdir inn í Samfylkinguna og orðræðan fremur mörkuð af innanflokksátökum um komandi forystukreppu þar en áhuga á velfarnaði þjóðarinnar.

Vel er skiljanlegt að margir vilji kjósa á nýjan leik, en hvort það er hyggilegt er önnur saga. Næstu mánuðir eru dýrmætur tími, sem ekki má sóa; það er ástæða fyrir því að kveðið er á um reglulegar kosningar og kjörtímabil; þjóðin er í þvílíku uppnámi að kosningabarátta myndi vafalaust gera illt verra; síðast en ekki síst má draga í efa að kosningaúrslit byggð á andrúmslofti upplausnar og reiði séu vænleg til endurreisnarstarfsins sem bíður okkar. Flatneskjulegt líkingamál um eldsvoða, brennuvarga og slökkviliðsstjóra hefur móðins síðustu vikur, en svo nýgervingunni sé haldið áfram: væri skynsamlegt að efna til klukkutíma skyndiútboðs um hönnun og smíði nýbyggingar meðan maður horfir á gamla húsið fuðra upp?

Bakarar og bölvasmiðir
Auðvitað finnur ríkisstjórnin fyrir þessum þrýstingi. Það eru ekki bara hettuklæddir anarkistar (sem mér heyrist raunar að séu fremur syndíkalistar) sem hafa vantrú á getu hennar til þess að kljást við vandann. Jafnvel innan ríkissjórnarinnar hafa menn fundið að mistökum og vandræðum annarra ráðherra. Þess vegna heyrist manni nú að forystumenn ríkisstjórnarinnar vilji kaupa sér frið með því að hræra í ráðherraliðinu, væntanlega þannig að þjóðinni (eða háværustu vandlæturum hennar) finnist að einhverjir ráðamenn hafi sætt ábyrgð, pólitískri ábyrgð.

Það væri nú gott og blessað ef ábyrgðin var skýr hjá tilteknum ráðherrum. En er það svo? Það er helst um það rætt að í hópi sjálfstæðismanna í ríkisstjórn verði það Björn Bjarnason, sem víki úr stóli dómsmálaráðherra. Dettur einhverjum í hug að það komi áfallinu við? Að hann hafi með störfum sínum á einhvern hátt brugðist, í aðdraganda eða eftir áfall? Nei, það er öðru nær.

Innan Samfylkingarinnar er helst rætt um að það verði Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra og Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra, sem verði látin fara. Af hverju Tóta ætti að víkja veit ég ekki. Fyrir að hafa drepið hvítabjörn í gáleysi? Hugsanlega sjá forystumenn Samfylkingarinnar þó fram á að þurfa að grípa til þeirra ráðstafana í atvinnuuppbyggingu, sem Þórunn myndi aldrei fallast á af umhverfisástæðum, en þá þarf líka að segja það hreint út: að umhverfisstefna Samfylkingarinnar hafi bara verið upp á punt.

Með Björgvin gegnir öðru máli. Hann er bankamálaráðherra, segja menn, og í bankahruni er eðlilegt að hann segi af sér. Ekki að honum hafi orðið á neitt saknæmt eða þannig, heldur sé þetta bara eðli pólitískrar ábyrgðar. Virkilega? Svo ef skip sekkur eða flugvél ferst, þá segir samgönguráðherra af sér?

Nei, svara menn þá, en hann átti að vita alls kyns hluti um ástandið í bankakerfinu og hann átti að grípa tilviðeigandi ráðstafana til þess að afstýra voðanum. Í þeim röksemdum kunna að felast meiri efni. Við fyrstu sýn að minnsta kosti. Nenni menn að skoða málið nánar er hins vegar erfitt að sjá að þau haldi.

Það hefur vissulega komið fram að Björgvin vissi ekki um margvísleg varnaðarorð vegna bankakerfisins, ekki síst þau sem mælt voru úr Seðlabankanum, en af hverju heyrði hann þau ekki? Jú, vegna þess að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, sagði honum ekki frá þeim. Hún sat þá fundi, þar sem greint var frá þessum viðsjám, en kaus að greina ráðherra bankamála ekki frá þeim af einhverjum ótilgreindum ástæðum. Á Björgvin að bera pólitíska ábyrgð á þeim óskiljanlegu ákvörðunum Ingibjargar Sólrúnar?

Nei, það hlýtur hver maður að sjá að í því fælist engin sanngirni, heldur væri þvert á móti verið að dýpka hinum pólitísku syndum í málinu með því að hengja Bjögga fyrir Sollu. Ég efa hins vegar að til þess komi. Léti hún hann víkja úr ríkisstjórn vegna bankahrunsins væri hún um leið að viðurkenna eigin ábyrgð — sem óneitanlega er veruleg — en neita að axla hana. Ég hugsa að pólitísk sjálfsbjargarviðleitni hennar komi í veg fyrir það.

Ekki þar fyrir, Björgvini hefur ekki gengið allt í haginn í viðskiptaráðuneytinu, gert mistök, yfirsést eitt og annað og það má meira en vel vera að hann hafi átt að vera almennt krítískari í garð fjármálaiðnaðarins en hann var. Mér finnst hann hins vegar farið vaxandi sem stjórnmálamaður á þessum erfiðu tímum, ekki síst í ljósi þess að meintir samherjar hans hafa ekki alltaf verið að hjálpa honum. Ég hef ekki verið sammála öllu því sem hann hefur sagt eða gert (eða ekki sagt og ekki gert), en ég fæ ekki séð að hann hafi neitt gert af öðru en fyllstu heilindum, þvert á það sem sumir hafa gefið til kynna og ýjað að.

Telji forystumenn ríkisstjórnarinnar á annað borð að einhverjir ráðherrar eigi að víkja vegna áfallsins þurfa þeir ekki að leita lengi að viðkomandi. En það væri fráleitt ef þeir veldu bara 1-2 fagráðherra til þess að fórna sem syndahöfrum. 


Bloggfærslur 17. desember 2008

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband