Leita í fréttum mbl.is

Áttavillt í áttunda sinn

Tu-160 Blackjack

Þessi frétt gefur enn tilefni til þess að minna á það  þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og aðrir fulltrúar Kvennaframboðsins í borgarstjórn Reykjavíkur báru fram tillögu um það í lok Kalda stríðsins, að Reykjavík yrði lýst kjarnorkuvopnalaust svæði. Davíð Oddsson, sem þá var borgarstjóri, tók tillögunni vel, en taldi þó að ekki bæri að flana að neinu. Hann myndi því styðja það, að Árbæjarhverfi yrði lýst kjarnorkuvopnalaust svæði til reynslu. Gæfist það vel væri sjálfsagt að lýsa Reykjavík alla kjarnorkuvopnalaust svæði að reynslutímanum loknum. Af einhverjum ástæðum dagaði tillaga Kvennaframboðsins uppi.

Þessi 8. tillaga er þó borin fram á réttum vettvangi. Hins vegar væri glapræði af Íslendingum að samþykkja hana sisona, því hún græfi undan stefnu Atlantshafsbandalagsins um sveigjanleg svör í hernaði, en sú stefna hefur verið leiðarhnoð bandalagsins frá 1967. Samkvæmt henni áskilur bandalagið sér rétt til þess að svara hvers kyns hernaðarógn með þeim hætti, sem það kýs. Að staðbundin árás á eitt bandalagsríkið geti kostað allsherjarárás og tortímingu. Beiting kjarnorkuvopna er þannig ekki háð því að hugsanlegur óvinur beiti þeim fyrst. En þetta er tvístefnugata, því um leið er bandalagið (eða kjarnorkuvígvædd ríki þess: Bandaríkin, Bretland og Frakkland) ekki skuldbundið til þess að svara kjarnorkuárás í sömu mynt. Þessi stefna tók við af fyrri stefnu, sem Eisenhower forseti hafði mótað, og bauð að sérhverri árás yrði mætt með takmarkalausri gagnárás, þar sem kjarnorkuvopn kæmu einkum við sögu.

Annars átta ég mig ekki á því hver tilgangurinn með þessum tillöguflutningi er, ekki snýr hann að vörnum og öryggi landsins. Dettur helst í hug að hér sé hefðbundin sýndarmennska á vinstrikantinum. Hér hafa aldrei nein kjarnorkuvopn verið, nema hugsanlega á leið yfir hafið milli meginlanda Evrópu og Ameríku. Tillagan er að minnsta kosti ekki til þess fallin að styrkja varnasamstarf Íslendinga við aðrar þjóðir, einmitt á sama tíma og varnamálaráðherrann og utanríkisþjónusta hennar er á útopnu við að efla það um allar trissur. Enn athyglisverðara er svo að þessi tillaga skuli lögð fram nú, einmitt þegar Rússar hafa tekið upp á því að nýju að senda flugvélar að íslensku lofthelginni. Í því samhengi er rétt að hafa í huga að meðan Birnirnir svonefndu eru aðallega notaðir í eftirlitsflug eru Blackjack-vélarnar, sem hingað eru einnig sendar, einungis hannaðar sem sprengjuflugvélar. Með kjarnorkuvopn.

Það væri kannski ráð að flutningsmenn spyrðu vini sína austur í Moskvu hvort þeir hyggist virða kjarnorkuvopnaleysi landsins.


mbl.is Frumvarp um kjarnavopnalaust Ísland í 8. sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. febrúar 2008

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband