Leita í fréttum mbl.is

Sögufölsun Samfylkingar

REI-listinn

Ég var líkt og endranær á laugardagsmorgnum að hlusta á Vikulokin í Ríkisútvarpinu, þar sem Hallgrímur Thorsteinsson ræðir fréttir vikunnar við tilfallandi spekinga. Ég nenni nú ekki að fara í alla umræðuna þar, hún var upp og ofan eins og gengur. Borgarstjórnarmálin bárust vitaskuld í tal og sýndist sitt hverjum. Þá gerðist það enn einu sinni að fulltrúar Samfylkingarinnar, að þessu sinni borgarfulltrúinn Sigrún Elsa Smáradóttir og þingmaðurinn (og varaformaður Samfylkingarinnar) Ágúst Ólafur Ágústsson, héldu fram sígildri sögufölsun Samfylkingarinnar um meirihlutamyndanir í Reykjavík á þessu kjörtímabili.

Sögufölsunin felst í þeim fullyrðingum að núverandi meirihluti hafi á einhvern hátt verið myndaður með klækjum, prettum og óheilindum, ólíkt öðrum meirihlutum. Sem hliðarrök er jafnan tiltekið að Ólafur F. Magnússon hafi einhvernveginn minna umboð í borgarstjórn en aðrir, sem vitaskuld er firra: Hann er réttkjörinn og er ekki sá borgarfulltrúanna, sem fæst atkvæði hefur að baki sér. Eins að þessi meirihluti sé alveg sérstaklega veikur með aðeins eins manns meirihluta.

Ágúst Ólafur og Sigrún Elsa voru enn við þetta heygarðshornið og sagði að sjálfstæðismenn hefðu myndað núverandi meirihluta með því að „pikka út einn mann yfir í sinn hóp“ úr REI-listanum og að í því fælust sérstök óheilindi. Sigrún Elsa hélt svo áfram (og talaði líkt og hún hafi verið þátttakandi samstarfinu fyrir hönd framsóknarmanna) og sagði að Björn Ingi Hrafnsson hafi hins vegar hrökklast úr meirihlutasamstarfi við sjálfstæðismenn vegna málefna einvörðungu og þannig hafi REI-listinn orðið til. Þarna liggur fölsunin.

Mönnum er hollt að rifja upp þeirra eigin orð, Björns Inga og Dags B. Eggertssonar, þegar þeir lýstu aðdraganda myndunar REI-listans á blaðamannafundi í beinni útsendingu af Tjarnarbakkanum við Iðnó. Þar kom ekkert fram um málefni, enda entust REI-listanum ekki 100 dagar til þess að berja saman málefnaskrá sína. En í máli Björns Inga kom fram að hann hafi verið heill í sínu samstarfi við sjálfstæðismenn, hann verið að reyna að ná málamiðlun um ágreining í borgarstjórnarflokknum og ekki átt von á öðru en að úr leystist. Þegar að símtal barst. Það var Dagur B. Eggertsson, sem vildi hitta hann og rauf þannig viðræðuferli þáverandi meirihlutaflokka.

Það var sumsé Dagur, sem átti frumkvæðið, og klækina, prettina og óheilindin má því rekja lóðbeint til Samfylkingarinnar. Efist menn um það geta þeir velt því fyrir sér að hann var áður búinn að „pikka út einn mann“ annan til þess að leggja drög að þessum klækjastjórnmálum. Hann hafði sumsé talað við fyrrnefndan Ólaf F. Magnússon, sem þá var í leyfi úr borgarstjórn, og tryggt sér stuðning hans við hinn nýja, ómyndaða meirihluta. Þessu lýsti Dagur sjálfur og talaði um að Ólafur væri í raun „guðfaðir“ nýja meirihlutans! Málefni hvað?

Ekki að það skipti öllu máli, þessar meirihlutamyndanir allar voru bara „politics as usual“. En það segir sitt um pólitísk heilindi Samfylkingarinnar í borgarstjórn að hún getur ekki sagt satt um nokkurn hlut í þessu samhengi, heldur getur hún ekki annað en að leggja á sig langa króka hvað eftir annað til þess að segja ósatt og halla réttu máli.


Hvalir, shmalir...

Það er ekki öll heimsbyggðin gapandi vegna hvalveiða. Andfætlingur imprar á mikilvægari áhyggjuefnum en hvölum: kvölum.

Sem minnir mig á annað. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra (en ekki Einar K. Guðfinnsson matvælaráðherra?!) var stödd á leiðtogafundi FAO, Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna, um daginn. Líkt og Robert Mugabe, sem af einhverjum óskiljanlegum ástæðum virðist enn vera við völd í Zimbabve. Skyldi hún hafa rætt við hann um þessi mál? Í ljósi áhuga utanríkisráðherra á aðildarviðræðum við Afríkusambandið væri annað undarlegt.


Bloggfærslur 14. júní 2008

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband