21.1.2007 | 02:23
Fyrsta forsetaframboðið komið?
Það er fádæmaörlæti, sem hjónin Ingibjörg Kristjánsdóttir og Ólafur Ólafsson í Samskip (sem hér að ofan sjást með syninum Ólafi Orra), sýna með velgerðarsjóði sínum, sem fær einn milljarð króna í vöggugjöf. Áætlað er að árlega verði um 100-150 milljónir króna til ráðstöfunar, en þeim verður varið til þróunaraðstoðar erlendis og til þess að göfga íslenskt mannlíf. Gjafmildi þeirra hjóna er ekki ný af nálinni, en í fyrra gáfu þau 36 milljónir króna til uppbyggingar skóla í Síerra Leóne.
Á næsta ári verður gengið til forsetakosninga á Íslandi, en afar ólíklegt er að herra Ólafur Ragnar Grímsson gefi kost á sér enn á ný, enda hafði hann sjálfur að orði að það væri langur tími fyrir forseta að sitja í sextán ár í embætti, þótt svo að bæði Ásgeir Ásgeirsson og Vigdís Finnbogadóttir hefðu gegnt embætti svo lengi. Sjálfur teldi hann tvö til þrjú kjörtímabil hæfilegri tíma fyrir setu forseta í heimi hraðra breytinga, njóti forseti stuðnings til þeirrar setu í embætti í samræmi við hefð.
Forseti mun þó tæpast greina frá því fyrr en í næsta nýársávarpi, en það breytir ekki hinu, að þegar á þessu ári verður tímabært að velta fyrir sér heppilegum arftaka herra Ólafs Ragnars. Í ljósi reynslunnar finnst mér ósennilegt að fyrrverandi stjórnmálamaður verði mönnum efst í huga og raunar hygg ég að flestir kjósi að gera embættið ópólitískt á ný. Fyrirrennarar herra Ólafs Ragnars lögðu á það allt kapp að halda forsetaembættinu ofan við hið pólitíska dægurþras, en hann kaus hins vegar að sigla nær vindi í þeim efnum, sem ég er ekki viss um að menn telji hafa reynst embættinu eða þjóðinni til heilla. Eins hefur maður heyrt þá gagnrýni víða, að herra Ólafur Ragnar hafi gengið alltof langt í að Séðogheyrtvæða embættið og því kæmi ekki á óvart ef þjóðin kysi að ljá því meiri virðugleikablæ á ný, meira inntak og minna skrúð. Með hefðbundnum fyrirvara um áreiðanleika netkannana kann yfirburðasigur herra Kristjáns Eldjárns í könnun Hrafns Jökulssonar, forseta Hróksins, hér á Moggabloggi um hver hefði reynst besti forsetinn, að gefa vísbendingu um vilja manna í þessum efnum.
Hver væri bestur í þetta starf? Sjálfur myndi ég vitaskuld vera til í að kjósa Hrafn sjálfan í embættið, enda er hann öðrum vanari forsetastörfum. En því er víst ekki að heilsa í bili hvað sem síðar verður og því heldur leitin áfram.
Framtíðarforsetinn þarf að vera á góðum aldri, ekki undir fertugu og helst ekki mikið yfir fimmtugu, því hann þarf að eiga gott starfsþrek í 12-16 ár. Hann þarf að vera vel menntaður og vel máli farinn, einnig á erlendum tungum. Helst þarf hann að eiga sér betri helming, sem helst þarf að vera miklu betri helmingur. Umfram allt þarf hann að hafa áunnið sér virðingu (ef ekki vinsældir), vera glæsilegur á velli og höfðingi í sér. Hann þarf að bera gott skynbragð á málefni líðandi stundar, hafa nasasjón af stjórnmálum, næmt eyra fyrir rödd almennings, skilning á atvinnulífinu og átta sig á því hver er kjarninn í þessu víðfeðma, margþætta og nánast óskiljanlega mengi, sem við nefnum einu nafni Ísland.
En getur verið að fyrsta framboðið sé þegar fram komið? Óli í Samskip þarf varla að leggja fram fleiri sönnunargögn um höfðingskap sinn, hann verður fimmtugur nú á þriðjudag, hefur glæsilega konu sér við hlið og hefur fátt að sanna á þeim vettvangi, sem hann hefur valið sér til þessa, af sömu ástæðum og Alexander mikli (sem grét það helst að hafa ekki fleiri lönd að vinna). Ég fæ ekki séð að hann vanti neitt sérstaklega upp á þá kosti framtíðarforseta, sem að ofan voru taldir. Einhver kynni að nefna að hann væri ekki nógu kunnur kansellíinu, en skorti eitthvað upp á það eru tengsl hans við núverandi forseta með þeim hætti, að hann gæti alltaf slegið á þráðinn og spurt ráða. Auðlegð hans yrði honum ekki fjötur um fót, því hann gæti sem hægast bent á, að einmitt vegna ríkidæmis síns væri hann ekki upp á neinn kominn, enginn þyrfti að óttast að hann yrði einhverjum auðjöfrum háður. Þvert á móti væri hann einn fárra Íslendinga sem gæti horft í augun á þeim öllum og spurt: Hvað með það?
Yrði Ólafur Ólafsson góður forseti? Ég veit það ekki, þekki manninn ekki nema af afspurn. En það væri sjálfsagt tímanna tákn ef ekki löngu tímabært að í forsetaembættið veldist maður úr viðskiptalífinu.
------
Nú er röðin komin að þér, kæri lesandi! Með því að smella á Athugasemdir hér að neðan til hægri er hægt að setja inn eigin athugasemdir og ég skora á þig, að tilnefna þann eða þá, sem þú telur að eigi helst að verða næsti forseti lýðveldisins Íslands.
Gefa einn milljarð króna í velgerðarsjóð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:33 | Facebook
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 37
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 15
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þetta er verðugt uppátæki hjá þér Andrés og ég ætla að leggja til að Álfrún Örnólfsdóttir, leikkona m.m. verði næsta forsetaefni. Hún er verðugur fulltrúi nýrra kynslóða hér á landi. Hún hefur bæði mikinn þokka og greind. Er húmoristi mikill og með djúpa réttlætistilfinningu. Hún uppfyllir algerlega þá ímynd, sem maður vildi sýna þjóð vora í á alþjóðavettvangi. Friðarsinni, en þó ekki öfgafull í neinum skoðunum. Svo er nafnið eitthvað svo jarðnært. Væri fjallkonan af holdi og blóði héti hún Álfrún.
Jón Steinar Ragnarsson, 21.1.2007 kl. 06:31
Þetta er örugglega ágætur maður. En finnst þér Elton John uppátækið ekki vera svolítið "Séðogheyrtlegt"?
Álfrún Örnólfsdóttir? Er hún ekki full ung til að verða forseti? Stjórnarskráin kveður nú á um 35 ára aldur og Álfrún á nokkur ár í það. En þokka og greind hefur hún vissulega.
Gummi Halldórs (IP-tala skráð) 21.1.2007 kl. 11:41
Segist þekkja óla partýkall af afspurn segiru og henta vel til forseta ?
1.
Mikill er dugnaður hans....hann átti lítið fyrir 5 árum þessi öðlingur.
2.
Síðan hringdi finnur viðskiptaráðherra í hann sem nennti ekki lengur að
ráðherrast og vildi taka þátt í einkavæðingu eigin ríkisstjórnar.....
3.
Þeir félagar taka lán og kaupa búbbann.....ekki þarf að rifja þá sögu upp fyrir
manni á viðskiptablaðinu....
4.
Síðan er VÍS tekið úr einkavæðingu Landsbankans og selt á um 8 milljarða og
ekki fá margir að bjóða í....þeir félagar kaupa og selja 3 árum seinna á 28
milljarða.
5.
Síðan var Icelandair tekið....og svo loks komnir með stóran hlut í straum
Burðarás....ásamt ýmsum fleirum smáverkum.
6.
10% af þessari gjöf rann svo til að borga elton john að syngja í 1 klst...sem
og bubba, bó og mat og drykk og tugi iðnaðarmanna sem voru fengnir til að
breyta skemmunni í höfninni í partýhús.....eða cirka 100 millur.
7.
Eignir Óla Partýkalls nema vel yfir 100 milljörðum og allt gert á innan við
5árum.....með finni ráðherra.
Og allt var þetta nú gert af elju og dugnaði þar sem þrotlaus vinna með 2
hendur tómar frá upphafi hafa skilað honum í ríkusta hóp íslands...
en viðskiptablaðið hefur einmitt verið svo býsna "duglegt" að fjalla um uppgang
þessarar grúppu sem í dag ræður yfir meira fé en flestar grúppur á íslandi sé
allt til tekið.....ætli eignir þessara manna sé ekki með best varðveittu leyndarmálum landsins í dag ?
PS: Spurning samt að kanna aðeins hug kollega þíns þarna sem skrifaði eitraðan
pistil um daginn á netið um þennan aðila en tók niður stuttu seinna af
einhverjum ástæðum.
PPS: Og rétt er það - þessi öðlingur gaf um 30 milljonir til afríku um daginn
og fékk heila opnu í lit í Mogganum...mætti í island í dag og kastljósið sem og
alla hina miðlana með konu og barn. það verður að plögga svona höfðingsskap
sem er af hinu góða (þó svo óneitanlega hefði verið smart að eyða 30 milljónum
í partýið og 100 millur til afríku but hey....partý time kostar sitt í dag !)
hlakka til að sjá fleiri lofgreinar í viðskiptablaðinu´,
Kv.
JS
JS (IP-tala skráð) 21.1.2007 kl. 11:49
Það er kannski komið tími á að líta í kringum sig eftir forsetakandidat, það er alla vega skemmtilegt. En vonandi verður aldrei sá tími á Íslandi að forsetaembættið sé í aurum metið. Hversu ánægð sem við erum með það að auðugt fólk gefi fé til góðgerðarmála og hversu ánægð sem við erum með að það gefi fé fremur til þarfra þróunarmála og uppbyggingu á menningu á Íslandi þá er það ekki borgun inn í kosningasjóð fyrir forsetaembættið
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 21.1.2007 kl. 12:50
Ég ætla ekki að taka Ólaf til kostanna frekar, benti bara á að hann uppfyllti hin almennu skilyrði, sem kjósendur virðast gera til forseta. Eins og dæmin sanna geta þeir einnig reynst býsna fyrirgefandi.
En ég vona að hingað berist fleiri uppástungur um forsetaframbjóðendur. Álfrún er ótal kostum prýdd, það þekki ég, en hún er ekki komin á aldur eins og bent er á að ofan. Rétt eins og Ómar er orðinn of gamall, svo annað dæmi úr skemmtanabransanum sé tekið.
Andrés Magnússon, 21.1.2007 kl. 13:46
Burtséð frá því, hvort Ómar Ragnarsson yrði góður forseti, verð ég að gera athugasemd við að hann sé orðinn "of gamall".
Aldur er hugarástand, einkum ef líkamleg heilsa er góð. Mannkynið er að eldast og það þýðir að við eigum að hætta að senda fólk í sjálfkrafa úreldingu á sjötugsaldri.
Hrafn Jökulsson, 21.1.2007 kl. 14:29
Ég leyfi mér að tilnefna Ragnar Aðalsteinsson lögmann og baráttumann fyrir mannréttindum hverskonar. Vissulega er hann eldri en sá aldur sem þú nefnir en ég er ekki sammála því að hafa efri mörkin svon lág. Ég yrði stoltur ef íslenska þjóðin kysi Ragnar sem forseta.
Sigfús Þ. Sigmundsson, 21.1.2007 kl. 14:49
Varðandi aldurinn, þá finnst mér forsetar alveg mega verða gamlir, en við skulum ekki gleyma því að þetta er lýjandi starf. Hefðin hefur hins vegar boðið að forsetar sitja jafnan í 12-16 ár. Þeir Ómar og Ragnar eru báðir afar sprækir menn og á vorum tímum endist fólk mun lengur en gerðist áður fyrr. En væri hægt að ætlast til þess að Ómar sinnti starfinu af fullum krafti 82 ára gamall? Eða Ragnar 88 ára? Hitt er svo annað mál, eins og Hrafn bendir á, að við eigum vitaskuld ekki að afskrifa fólk einungis fyrir aldurs sakir. Af því tilefni birti ég í heild sinni leiðara, sem ég skrifaði í Blaðið um svipað efni.
Andrés Magnússon, 21.1.2007 kl. 15:10
Ragnar er vissulega í efri mörkunum en ég tel það ekki vera neinn fasta að forsetar sitji í 12 ár. Þeir geta unnið Íslandi mikið gagn á 8 árum eða færri.
En ég vil koma með aðra tilnefningu víst við erum byrjuð á þessu: Herdís Þorgeirsdóttir lagaprófessor á Bifröst.
Sigfús Þ. Sigmundsson, 21.1.2007 kl. 15:42
P.S. Herdís er á besta aldri og hefur alla þá kosti sem þú telur upp. Held að þjóðin ætti að geta sameinast um báða þessa kandídata sem ég nefni.
Sigfús Þ. Sigmundsson, 21.1.2007 kl. 15:46
Álfrún er fædd 1981og er því og er því 27 ára. Mér finnst að það megi hugsa út fyrir umslagið hérna og gleyma þeirri stöðluðu ímynd,sem menn hafa um þjóðarleiðtoga; trénaða kalla lausa við alþýðleik.
Þóð okkar er ung og nýjungagjörn og stærir sig af ferskleika og óspjallaðri náttúru. Betri samnefna gæti ég vart hugsað mér fyrir þau gildi.
Hér er svo innsín í Cúrrigúlið hennar:
Álfrún Helga Örnólfsdóttir leikkona lauk 5. stigi í píanóleik og tónfræði frá Tónmenntaskóla Reykjavíkur 1997, útskrifaðist úr Listdansskóla Íslands í klassískum- og nútímaballett árið 2000 og útskrifaðist úr Webber Douglas Academy of Dramatic Art í London 2003.
Jón Steinar Ragnarsson, 21.1.2007 kl. 16:30
Ég legg til að forsetaembættið verði lagt niður.
Guðm. (IP-tala skráð) 21.1.2007 kl. 21:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.