Leita í fréttum mbl.is

Aldursmörk á Alþingi

Í athugasemdum við fyrri færslu um forsetaframboð hefur nokkur umræða spunnist um heppilegan aldur manna í embætti. Af því tilefni endurbirti ég hér forystugrein, sem ég skrifaði í Blaðið hinn 22. ágúst 2006.  

Á sínum tíma var Ásgeiri Ásgeirssyni, síðar forseta lýðveldisins, borið það á brýn í kosningabaráttu, að hann væri fullungur til þess að setjast á þing, þó hann væri örugglega efnilegasti maður. Ásgeir svaraði þessu á þann veg að hann treysti því að þessi sinn ágalli myndi eldast af honum.

Í annarri kosningabaráttu nokkru síðar var aldur Ronalds Reagan, Bandaríkjaforseta sem þá sóttist eftir endurkjöri, gerður að umtalsefni í sjónvarpskappræðu. Reagan svaraði því til að hann vildi heyja heiðarlega kosningabaráttu og myndi því ekki gera sér mat úr æsku og reynsluleysi andstæðings síns. Jafnvel mótherjinn, hinn 56 ára gamli fyrrverandi varaforseti Walter Mondale, hló með salnum að þessu svari Reagans.

Af orðræðu sumra stjórnmálamanna og stjórnmálaskýrenda að undanförnu má ráða að margir telji að tími sé kominn til kynslóðaskipta í íslenskum stjórnmálum og að sú krafa kunni að skipta sköpum í kosningunum. En er það endilega svo?

Fáir efast um að kynslóðaskipti hafi orðið í Sjálfstæðisflokknum þegar Geir H. Haarde tók við formennsku af Davíð Oddssyni, en virðast þá gleyma því að Geir er aðeins þremur árum yngri en fyrirennari sinn og hefur setið einu kjörtímabili lengur á þingi. Stuðningsmenn Sivjar Friðleifsdóttur töluðu mikið um kynslóðaskipti í öðru orðinu en um tveggja áratuga pólitískan feril hennar í hinu, en hún atti kappi við nýgræðing í stjórnmálabaráttu, sem virtist helst hafa unnið það sér til óhelgi að hafa lifað lengur.

Þegar litið er yfir ganginn til stjórnarandstöðuleiðtoganna Guðjóns Arnar Kristjánssonar, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Steingríms J. Sigfússonar verður ekki séð að kynslóðaskiptin eigi þar frekar upp á pallborðið. Þau Ingibjörg og Steingrímur eru á sextugsaldri og hafi verið í pólitík um aldarfjórðungsskeið, en Guðjón er meira að segja kominn á sjötugsaldur, er heilla 62 ára og hefur verið litlu skemur í pólitík en fyrrnefnd stallsystkin hans. Efast nokkur um erindi þeirra í íslenskum stjórnmálum á þeim forsendum?

Þegar kjósendur taka stjórnmálamenn til kostanna dettur vonandi engum í hug að láta kynferði, litarhátt eða trúarbrögð þeirra vefjast fyrir sér. Aldur á þar ekki heldur að hafa áhrif. Það sem máli skiptir eru afstaða og mannkostir þeirra sem bjóða sig fram til starfa í þágu þjóðarinnar. Hún hefur ekki efni á að afþakka reynslu, vísdóm og varfærni þeirra, sem eldri eru, fremur en að hafna hugmyndaauðgi, dugnaði og djörfung hinna yngri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband