Leita í fréttum mbl.is

Leyniþjónusta femínista

Nýtt frumvarp til jafnréttislaga, sem rætt var í næstu færslu á undan, innifelur fleira í sér en afnám launaleyndar. Það er ekki allt gott. Sumt nánast illt og enn vafasamara en launaleyndarákvæðið. Þó frumvarpið sé í lengra lagi, 23 síður, gætu frelsisunnandi menn varið tíma sínum verr en að lesa það yfir og taka til andmæla.

Það þarf ekki að lesa lengi til þess að finna afar sérkennilegt ákvæði, sem ég skil eiginlega ekki í að hafi ekki vakið almenna úlfúð í samfélaginu. Kannski menn hafi verið of uppteknir af stjórnarskrárleikriti Framsóknarflokksins eða yfirliði félagsmálaráðherra. Í 4. grein þess má finna eftirfarandi:

Jafnréttisstofa getur krafið einstök fyrirtæki, opinberar stofnanir, félagasamtök og aðra þá sem upplýst geta um mál um allar upplýsingar og öll gögn sem nauðsynleg þykja vegna sérstakra verkefna stofunnar og athugunar hennar á einstökum málum. Skulu umbeðnar upplýsingar og gögn afhent Jafnréttisstofu innan hæfilegs frests sem stofan veitir. Jafnréttistofu er heimilt að leggja dagsektir á þá aðila, sem ekki veita upplýsingar eða þau gögn sem krafist er, þar til úr hefur verið bætt

Valdheimildirnar í þessari klásúlu er óskiljanlega víðtækar og takmarkalausar. Samkvæmt henni er einfaldlega ekki unnt að áfrýja kröfum Jafnréttisstofu um upplýsingagjöf um hvaðeina, sem hana fýsir að vita. Eins og sjá má eru ekki heldur neinar hömlur á umfangi fyrirspurnanna og ekki er gert ráð fyrir neinni lýðræðislegri tilsjón með þessari gagnsöfnun, umfram almennt forræði félagsmálaráðherra.

Hér er gengið miklum mun lengra en nokkrum datt í hug að leggja til málanna þegar hugmyndir um greiningarstarfsemi lögreglu og þjóðaröryggi voru til umræðu. Hér er lagt er til að stofnun, sem gert er ráð fyrir að njóti óvenjumikils sjálfstæðis og sjálfdæmis, geti pínt hvern sem er til sagna að viðlögðum dagsektum og án nokkurra úrræða fórnarlambanna. Hvernig skyldi standa á því að enginn rekur upp gól nú?

Það má finna að mörgu öðru í frumvarpsdrögunum, sem engan veginn samræmist góðri lýðræðishefð eða reglum réttarríkisins. Ég nenni ekki að rekja fleira um það að sinni, en bendi á hreint ágæta bloggfærslu Viggós H. Viggósonar um málið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hef alltaf litið á mig sem konu sem réði mér og mínum gjörðum sjálf. Ég hef alltaf gert það, kyn mitt hefur aldrei nokkurn tíma staðið í vegi fyrir því.  Þetta er bara einhvern veginn komið út í eitthvað allt annað dæmi. Við eigum að vera harðar og femínískar, megum ekki fýla klám, megum ekki vilja "fórna" einhverju fyrir börn okkar eða maka. Ég skil þetta bara ekki alveg. 

Það ræðir aldrei neinn um það að skólarnir eru síður að virka fyrir stráka, það er öllum sama um það!!    

Þessi umræða öll er að taka á sig einhverja súrrealíska mynd sem ég er ósátt við og finnst asnaleg og lítillækkandi fyrir jafnréttishugtakið, hugsandi konur sem og aðra.

Drífa M. (IP-tala skráð) 10.3.2007 kl. 18:15

2 Smámynd: Haukur Nikulásson

Sammála og kvitta. Þessi mál er því miður á villigötum.

Samfylkingin og Vinstri græn eru harðir femínistaflokkar, Villi og Geir eru farnir líka að smjaðra fyrir femínistum með ályktunum gegn því að dónar komi til landsins og Framsóknarflokkurinn lætur bændurna beinlínis reka dónana út úr húsi í nafni femínisma.

Það er kannski þörf á sérstökum forhertum karlaflokki til að koma á betra jafnvægi. Er hann nokkuð á leiðinni?

Haukur Nikulásson, 11.3.2007 kl. 00:51

3 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Burtu með alla LEYND! ...leynd vinnur GEGN lýðræði algerlega óháð kvk,kk,hk!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 11.3.2007 kl. 11:39

4 identicon

Er þetta furðufrumvarp ekki stjórnarfrumvarp? Það hlýtur að hafa verið rætt í þingflokki sjálfstæðismanna áður en það var lagt fyrir þingið. Hvað var þetta ágæta fólk í Sjálfstæðisflokknum að hugsa? Veit það nokkur? Er ekki sannleikurinn sá, að sé hægt að hengja hugtökin "jafnrétti" og "mannréttindi" við einhverja bölvaða delluhugmynd, þá er hún keypt gagnrýnislaust af þingmönnum. Enginn vill vera á móti jafnrétti og mannréttindum, eða hvað? 

Gústaf Níelsson (IP-tala skráð) 12.3.2007 kl. 22:49

5 Smámynd: Andrés Magnússon

Frumvarpið hefur ekki enn verið lagt fram, heldur boðaði félagsmálaráðherra að það yrði lagt fram á næsta þingi. Sem sjálfsagt er rétt athugað hjá honum, hvaða ríkisstjórn sem þá situr. Mér heyrðist hann vera kampakátur með það, en vonandi á frumvarpið nú eftir að taka einhverjum breytingum við aðfinnslur réttsýnna manna. Ég óttast nú samt að þær breytingar verði engan veginn nægar og eftir sitji lagabastarður, sem enn nagi rætur réttarríkisins.

En af hverju ert þú ekki að blogga hér, Gústi? Skora á þig að gera það og býð fram aðstoð mína, ef þetta er eitthvað að vefjast fyrir þér.

Andrés Magnússon, 14.3.2007 kl. 00:11

6 Smámynd: Sigurjón Sveinsson

Það sem er skemmtilega kaldhæðið í þessu er að það er Hæstaréttardómari sem var formaður (eða á maður að gerast femíniskur og segja forkona?) þeirrar nefndar hverrar niðurstöður voru fyrirmynd frumvarpsins.

Þetta frumvarp sýnir það svart á hvítu að fyrir sumum helgar tilgangurinn meðalið. Og að leiðin til helvítis er lögð með góðum ásetningi.

Sigurjón Sveinsson, 14.3.2007 kl. 12:06

7 identicon

Sæll Andrés. Margir hafa komið að máli við mig og hvatt mig til að halda úti eigin bloggi. Ég hef færst undan og talið það of tímafrekt. En kannski að ég láti verða að því, þótt ekki væri nema í aðdraganda kosninga

Gústaf Níelsson (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 20:07

8 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

bíddu Sigurjón ...hvað meinar þú?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 16.3.2007 kl. 00:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband