16.3.2007 | 12:10
Framsókn refsað í Gallup-könnun
Það er að koma ný könnun frá Gallup, sem gerð er fyrir Morgunblaðið og RÚV. Farið er að kvisast út hvernig hún er í laginu, en stóru tíðindin munu vera þau að Sjálfstæðisflokkurinn mun hafa bætt talsvert við sig, en Framsóknarflokkurinn tapað verulega. Hafði framsóknarmaddaman þó ekki úr háum söðli að detta. Mér skilist að aðrir flokkar væru á svipuðu róli og verið hefur.
Samkvæmt því er óhætt að fullyrða að þetta vanhugsaða upphlaup framsóknarmanna, þar sem þeir ætluðu að nota stjórnarskrána sem hverja aðra dulu, hefur ekki orðið þeim til álitsauka hjá nokkrum manni. Sá skaði kann að reynast langvinnur, því þessi dæmalausa framganga snýst um grunneðli flokksins og forystu hans. Hingað til hafa framsóknarmenn jafnan lagt áherslu á öfgaleysi, hófsemi og ábyrgð. Hvert verður kosningaslagorðið núna? Rugludallurinn í hafinu?
Hvað klikkaði?
Það hafa margir velt fyrir sér hvernig þetta mál varð til úr engu, þandist út á augabragði, var öllum hrein ráðgáta meðan það varði, en féll svo jafnskjótt saman aftur og varð að nánast engu. Minnir raunar frekar á kosmólógískar kenningar um alheiminn en pólitískt dægurrugl.
Mínar heimildir svo ég noti orðfæri heilagrar Agnesar herma að þetta hafi ekki verið djúphugsað plott úr iðrum Framsóknarflokksins. Fremur að forysta framsóknarmanna hafi ætlað að nota það sem miðlungi stóra bombu á flokksþingi sínu til þess að undirstrika sjálfstæði flokksins gagnvart Sjálfstæðisflokknum. Guðni Ágústsson hafi hins vegar lyft eilítið meira undir það en efni stóðu, en Siv Friðleifsdóttir, hinn tilvonandi fyrrverandi heilbrigðisráðherra og 5. þingmaður Suðvesturkjördæmis, hafi svo sprengt málið upp úr öllu samhengi með stjórnarslitahótun sinni. Það mun þó ekki hafa verið einkaframtak, flokksforystan hafði rætt þá imprun.
Hins vegar lítur út fyrir að framsóknarmenn hafi engan veginn hugsað málið til enda og ég er ekki frá því að þeir hafi ekki valið sér þennan ásteytingarstein af nægilegri kostgæfni. Þarna var allt of mikið undir: sjálf stjórnarskráin, eðli eignar- og atvinnuréttar, að ógleymdri sjávarútvegsstefnunni og því öllu. Þá voru þeir svo steinheppnir eða hitt þó heldur, að vangaveltur um olíuleit í íslenskri lögsögu komu upp í miðju þófinu, sem fengu jafnvel hörðustu framsóknarmenn til þess að játa, að hugsanlega þyrfti stjórnarskrárákvæðið að vera aðeins öðru vísi. Svo sættust menn á að tala ekki meir um það að sinni, nóg væri ruglið samt.
Höfuðvandi framsóknarmanna var þó frá upphafi sá, að hugur fylgdi ekki máli; þeir meintu ekkert sérstakt með þessu umfram það að slá nokkrar pólitískar keilur í kringum flokksþingið sitt og fá nokkrum sekúndum meira í fréttatímunum. Þeim krossbrá því þegar stjórnmálin fóru allt í einu öll að snúast um þetta eina mál. Fyrst hugðu þeir sér gott til glóðarinnar, eins og sjá mátti á bloggkór framsóknarmanna. Ekki leið þó á löngu áður en á þá runnu tvær grímur. Fyrst varð þeim ljóst að innan Sjálfstæðisflokksins voru raddir ég á eina þeirra sem töldu sjálfsagt og eðlilegt að slíta stjórnarsamstarfinu kysi Framsókn að leggja áherslu á þetta mál sitt; það væri frágangssök. En síðan tóku vísir menn í þeirra röðum, ekki síst lögfræðingar, að hvísla um það að þetta væri eiginlega ekki hægt.
Út á við létu þeir sig hins vegar ekki, en það var samt um seinan, því það hafði komist upp um strákinn Tuma. Þeir voru ekki og höfðu aldrei verið reiðubúnir til þess að rölta suður á Bessastaði til þess að bera vanda sinn upp við stjórnmálafræðiprófessorinn, sem þar býr. Það er gömul saga og ný, að hótanir eru einskis virði nema menn séu reiðubúnir að efna þær. Hugsanlega áttaði Geir H. Haarde sig of seint á því að ekkert bjó að baki og gaf of mikið eftir. Til allrar hamingju var lögfræðitríóið, sem nefnt var í fyrri færslu, með á nótunum og lék vel af fingrum fram í kakófóníunni á þingi.
Með kjökri fremur en hvelli
Hins vegar kom það öllum á óvart hversu hratt og fullkomlega framsóknarmenn gáfu eftir þegar stungið var upp á þeirri lausn, sem ofan á varð. Þeir báðu ekki um neitt í staðinn, heldur lúffuðu algerlega og án nokkurrar útleiðar til þess að bjarga andlitinu, þó ekki væri annað.
Framsóknarflokkurinn á mikið og erfitt starf fyrir höndum til þess að byggja upp trúverðugleika sinn eftir þetta fíaskó og var hann þó í þröngri stöðu fyrir. Framsóknarmönnum lætur pólitískur refskapur af þessu tagi ekki vel og þarf að hlú að grunninntaki sínu, þó sumum finnist það soldið sveitó og gamaldags. Umfram allt er forysta flokksins á skilorði og hún getur ekki beðið lengi eftir ósigur í vor til þess að hliðra til fyrir nýjum og ferskum mönnum.
........................
Ath. Þessi færsla var skrifuð í nokkrum bútum, sem duttu inn einn af öðrum, jafnharðan og þeir voru skrifaðir á Segafredo við Lækjartorg. Biðst forláts ef það hefur truflað menn við lesturinn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:24 | Facebook
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 39
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 17
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.