Leita í fréttum mbl.is

Hattar, herrar og perrar

Um kvöldmatarleytið lenti ég í skemmtilegri umræðu á Café Victor um framgöngu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, borgarstjóra, í eldsvoðanum við Lækjartorg í gær. Nafn fyrrverandi kollega hans, Rudy Giuliani, bar á góma, en mönnum fannst Villi hafa verið aðeins of hazarderaður miðað við tilefnið. Sérstaklega var gerð athugasemd við múnderinguna, en Villi var í samfestingi með hjálm og gleraugu.

Auðvitað hefði Villi ekki getað verið að þvælast um aðgerðasvæði slökkviliðsins í jakkafötunum, en stjórnmálamenn taka alltaf áhættu þegar þeir fara í búninga. Þannig reyndi aumingja Mike Dukakis að herða á karlmennskuímynd sinni í kosningabaráttunni 1988 með því að græja myndatöku af sér í skriðdreka með hjálm og allt. Sú mynd (sjá að ofan) gerði endanlega út af við drauma hans, því þorra fólks fannst þetta aðeins hlægileg sýndarmennska.

Það þarf þó ekki sýndarmennsku til þess að menn fari flatt á röngum höfuðfötum. Kanadíski stjórnmálamaðurinn Gilles Duceppe, sem einnig má sjá hér að ofan, heimsótti matvælaverksmiðju í kosningabaráttu árið 1997 og setti upp hárnet eins og lög gera ráð fyrir. Og það var tekin mynd af manni fólksins, eins og til var ætlast. Allt eftir bókinni sumsé. En myndin kostaði Duceppe kosninguna.

Þetta þarf þó ekki að fara svona. Íslenska þjóðin kímdi þegar hún sá Davíð Oddsson í frystihúsagalla og Guðni Ágústsson hefur sést í ámóta herklæðum, en þeir eru sjálfsagt báðir nógu skrýtnir fyrir til þess að þola slíkt. Davíð gerði meira að segja grín að því sjálfur, enda ríkur kostur í fari hans að taka sjálfan sig hæfilega alvarlega þó hann tæki störf sín og embætti mjög alvarlega. Í kosningabaráttunni 1991 fór hann til dæmis vestur á firði og var vitaskuld leiddur inn í tandurhreint hátæknifrystihús og þurfti því að fara í hlífðarföt og höfuðprýðina varð hann að hylja með hárneti. Þegar hann gekk hjá nokkrum innfæddum slordrottningum heyrði hann eina þeirra segja við þá næstu: „Hún er örugglega pólsk, þessi nýja!“

Ég held að það séu góð ráð að gefa pólitíkusum, að þeir eigi að sneiða hjá öllu búningablæti. Umfram allt eiga þeir að forðast hatta, því þeir eru helst til þess fallnir að gera stjórnmálamenn fígúrulega og þeir mega sjaldnast við miklu í þeim efnum.

Þetta kann þó að breytast ef höfuðföt komast í almenna tísku á ný. Sú kynslóð, sem vandist á að bera Stüssy-húfur, kann að hafa greitt götuna, en maður sér eilítið meira af höttum nú en fyrr. En stjórnmálamenn verða örugglega hinir síðustu, sem geta leyft sér að bera hatta athugasemdalaust.

Sem er út af fyrir sig merkilegt þegar haft er í huga að orðið „herra“, sem er sama orð og „harri“ (konungur), þýðir upphaflega hattur eða „maðurinn með hattinn“. Tignin fylgdi höfuðfatinu, hvort sem um ræddi hjálm eða krúnu. Nú á dögum er nánast óþekkt að kjörnir leiðtogar sjáist öðru vísi en berhöfðaðir. Ætli Helmut Schmidt hafi ekki verið sá síðasti, en hann gekk oft með kaskeiti til þess að undirstrika Hamborgar-uppruna sinn.

Talandi um herra les ég hjá Denna, að lærð deila sé um það í Vestmannaeyjum hvort Árni Johnsen hafi rætt um starfsmenn Vegagerðarinnar sem perra eða herra! Árni hefur séð sig knúinn til þess að svara þessum ásökunum Ómars Garðarssonar, ritstjóra Frétta, sem ég skil nú ekki alveg hvernig eru til komnar. Jafnvel þó Ómar kunni að vera heyrnasljór eða Árni hljóðvilltur má ljóst vera að meiningar um siðferði starfsmanna Vegagerðarinnar í einkalífinu geta ekki komið málinu við.

Hitt er svo athyglisvert, að íslenskan er sjálfsagt eina málið í víðri veröld þar sem menn ávarpa aðra eða tala um þá sem herra til þess að niðra þá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Held að borgarstjórinn okkar sé alltaf sami Villi án gleraugna, í búning, með hatt, eða e-h annað.  Geri aðrir betur!

Helga (IP-tala skráð) 20.4.2007 kl. 02:55

2 Smámynd: Hlynur Jón Michelsen

Höfuðföt opinberar og gerir menn að því sem þeir eru.

Hlynur Jón Michelsen, 20.4.2007 kl. 13:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband