Leita í fréttum mbl.is

Bræðrabönd og þjóðhollusta

Fyrri færsla um svipmót kratanna fékk mig til þess að hugsa aðeins lengra um tengsl hinna alþjóðasinnuðu jafnaðarmanna. Sumsé hvort þau geti verið nánari en þjóðhollustan ætti að leyfa.

Ég verð að játa að mér hefur alltaf þótt alþjóðahyggjan hjá krötunum eilítið hlægileg og stundum skuggaleg. Það er bara hlægilegt þegar Samfylkingarmenn og vinstrigrænir (kratar og kommar) fara að reyna að eigna sér einhverja kosningasigra meintra bræðra- eða systraflokka úti í heimi og telja það þá jafnan til marks um eigið ágæti í íslenskri pólitík. En merkilegt nokk vill aldrei nokkur maður taka alþjóðlega ósigra á vinstrivængnum til sín.

Hitt finnst mér skuggalegra, þegar erlendir stjórnmálaflokkar reyna að hafa bein áhrif á kosningar hér heima. Sú saga er löng og merkileg og hefur talsvert verið rakin í fræðasamfélaginu og í alþýðegri útgáfu á bókum, sem jafnan hafa selst ágætlega. Varðaði kommana og Rússagullið er mest að græða á Kommúnistahreyfinginunni á Íslandi 1921-1934, bók Þórs Whitehead frá 1979, Liðsmönnum Moskvu, bók Árna Snævarrs og Vals Ingimundarsonar frá 1992, og Moskvulínunni, bók Arnórs Hannibalssonar frá 2000. Sama ár kom út Kæru félagar eftir Jón Ólafsson, sem einnig er fróðleg.

Spartverjarnir, kommúnistar, sósíalistar, allaballar eða hvað þeir kölluðu sig þann áratuginn voru þó engan veginn einir um að njóta „aðstoðar“ alþjóðasambanda eða þiggja línuna að utan, þó þeirra starfi hafi ávallt verið landráðakenndari. Í eldgamla daga voru kratarnir ekki að fela sambandið við félagana í Kaupmannahöfn, þó þeir hafi að vísu fljótt áttað sig á því að best væri að hafa sem fæst orð um fjárstuðninginn. Ég held að það sé rétt hjá mér að sagnfræðingurinn Þorleifur Friðriksson sé einn um að hafa rannsakað þau mál að einhverju marki, en doktrsritgerð hans við háskólann í Lundi fjallaði einmitt um tengsl norrænna sósíaldemókrata við íslenska verkalýðshreyfingu frá 1916-1956, en hún og Alþýðuflokkurinn voru greinar af sama meiði á þeim tíma. Ritgerðin bar undirfyrirsögnina „Alþjóðahyggja eða íhlutun?“ en Íslendingar þekkja efni hennar sjálfsagt best af bók hans, Gullnu flugunni, sem út kom 1987.

Eitt helsta leiðarhnoð jafnaðarstefnunnar er alþjóðahyggjan og því fannst góðum krötum ekkert að því að viðhalda afar nánu sambandi við skoðanasystkin í öðrum löndum og þá aðallega á Norðurlöndum. Því má ekki heldur gleyma að pan-skandínavisminn var mörgum ofarlega í huga á þessum árum og langt eftir síðustu öld.

En það hlýtur að hafa reynt á þessa herra í Alþýðuflokknum eftir að Sambandslögin runnu út árið 1943 og krafan um tafarlaust sjálfstæði Íslands varð æ háværari. Þá tóku forystumenn í Alþýðuflokknum við línunni frá bræðraflokknum í Kaupmannahöfn (fyrir milligöngu bræðraflokksins í Stokkhólmi) og lögðust gegn því að Íslendingar lýstu yfir sjálfstæði. Þeir kölluðu sig lögskilnaðarmenn og höfðuðu einkum til þess að Íslendingar ættu ekki að gera slíkt meðan Danmörk væri hernumin; það lýsti litlu drenglyndi.

Lögskilnaðarmenn lögðu það meira að segja á sig að gleyma því að árið 1942 hafði Alþýðuflokkurinn staðið að tillögu um sjálfstæði Íslands ásamt öllum flokkum öðrum, enda hafði hann samþykkt fjölmargar ályktanir þar að lútandi. Enn erfiðara hefur sjálfsagt verið fyrir þá að gleyma því að vorið 1943 lagði flokkurinn það til, að lýðveldi yrði þegar stofnað hinn 17. júní það ár. En það tókst og um haustið 1943 var því öllu gleymt og Alþýðublaðinu var kúvent til þess að berjast af alefli gegn því að Íslendingar lýstu yfir sjálfstæði. Sama blaði of hafði stært sig af því skömmu áður, að Alþýðuflokkurinn hafi helst viljað stofna lýðveldi 1941! Erfiðast hlýtur þó að hafa verið að líta hjá því að helstu forystumenn flokksins og ráðherrar hans, þeir Stefán Jóhann Stefánsson, formaður, og Haraldur Guðmundsson, báðir hinir mætustu menn, höfðu báðir undirritað tillögu stjórnarskrárnefndar um lýðveldisstofnun hinn 17. júní 1944. Framganga Alþýðublaðsins í þessu máli var líkast til mesta niðurlæging þess annars ágæta blaðs og hreint með ólíkindum hvernig forysta Alþýðuflokksins lét allt í einu og reyndi að spilla órofa samstöðu þjóðarinnar um sjálfstæðismálið.

Eitt er þó fyndið — svona eftir á að hyggja — í því. Alþýðublaðið gagnrýndi mjög samstöðu allra annarra stjórnmálaflokka í málinu, því hvað sjálfstæðið varðaði komst ekki hnífurinn á milli Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og kommúnista. Var grín gert að þeim ólíklegu bólfélögum og hvað skyldi nú Alþýðublaðið hafa kallað þá einu nafni? Nema Samfylkinguna!!

Sjálfstæðissinnar, sem í þessu máli voru nefndir hraðskilnaðarmenn, bentu á hinn bóginn á það að þegar árið 1918 hefði verið gert ráð fyrir að sambandslögin rynnu út árið 1943, öllum hafi verið ljóst hvert næsta skref yrði og Íslendingar raunar marggreint Dönum frá því, löngu áður en ófriðarskýin hrönnuðust upp yfir meginlandinu. Íslendingar hefðu tekið við nær öllum sínum málefnum við fullveldið, en þurft að taka við hinum fáu, sem Danir önnuðust, við hernám ríkjanna beggja hinn 9. og 10. maí 1940. Í því samhengi var vitaskuld og bent á það, að sambandslagasamningurinn hefði fallið úr gildi vegna vanefnda Dana á honum, en þeir áttu að annast landvarnir Íslands.

Sjónarmið lögskilnaðarmanna hlutu auðvitað engan hljómgrunn á Íslandi, eins og þeir hafa líkast til gert sér grein fyrir frá upphafi. En þeir létu sig hafa það að fylgja línunni að utan. Var það merkilegri breytni en hjá íslenskum kommúnistum, sem hóruðust eftir því sem dólgurinn í Kreml fyrirskipaði?

------- 

Það hefur minna borið á þessu undanfarna áratugi, enda ekki jafnmikið í húfi. En það er þó vert að minna á samstarf stjórnmálaflokka á vettvangi fjöl- eða yfirþjóðlegra þinga. Þar er einmitt mest eining og flokksagi hjá jafnaðarmönnum allra landa, hvort heldur er litið til Evrópuþingsins eða Norðurlandaráðs. Það er því alveg í lagi að spyrja hvort viðeigandi sé hjá Samfylkingunni að flytja inn þær Monu Sahlin frá Svíþjóð og Helle Thorning-Schmidt frá Danmörku, ljóslega í því skyni að hafa áhrif á kosningar til íslenska þjóðþingsins.

Ég fyrir mína parta kann ekki við slíka alþjóðahyggju og finnast þessi afskipti norræna jafnaðarmanna af íslenskum innanríkismálum og hinu viðkvæma gangverki lýðræðisins ólíðandi.

Einhverjir kunna jafnframt að spyrja hvort það hafi verið helber tilviljun að Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs og leiðtoga jafnaðarmanna þar í landi hafi ekki verið boðið með þeim stöllum, en hugsanlega hefur það skipt máli, að hann er við stjórnvölinn í ríki utan Evrópusambandsins og hafði nýlega sagt að innganga Noregs í það væri óhugsandi í fyrirsjánlegri framtíð. Er hann þó mikill Evrópusinni. Illugi Gunnarsson minntist á þetta í nýlegri grein í Fréttablaðinu, en ég man ekki eftir að aðrir hafi tæpt á þessu máli.

Líkast til svara einhverjir þessu á þann veg, að allt í lagi sé að fá góða gesti að garði og ekki um frekleg afskipti þeirra Monu og Helle af íslenskum innanríkismálum að ræða. En hvað er viðkvæmara í þeim efnum en kosningar? Taka má annað dæmi: Ætli það hefði ekki heyrst hljóð úr horni ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði boðið Margréti Thatcher að koma til þess að stappa stálinu í sitt fólk mánuði fyrir kosningarnar 1987, þegar Albert Guðmundsson gerði harðasta hríð að flokknum?

...............

Myndin að ofan sýnir Magnús Hafliðason, bónda á Hrauni í Grindavík, með bjarghring af Hans Hedtoft, sem rak á fjörur hans í október 1959. Níu mánuðum áður hafði skipið siglt á ísjaka og sokkið suður af Hvarfi í jómfrúarferðinni 31. janúar 1958, en 95 fórust. Þessi mynd Ólafs K. Magnússonar heitins, míns gamla samstarfsmanns, vakti mikla athygli í Danmörku, enda birtist hún yfir þvera forsíðu Berlingske Tidende og víðar. Ég hef hana hér vegna þess að skipið hét eftir leiðtoga danskra jafnaðarmanna, Hans Hedtoft, sem lést í blóma lífsins árið 1955. Hann var aðalhvatamaður þess að Íslendingar létu vera að lýsa yfir sjálfstæði, en þjóðin hafnaði þeim tilmælum þó alþjóðasinnarnir létu til leiðast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Auðun Gíslason

Það væri gott að þú færir jafn gaumgæfilega ofaní samband þíns eigin flokks við stjórnvöld í BNA. Já, og undirlægjuháttinn gagnvart Bandarískri utanríkisstefnu bæði fyrr og síðar. Hvernig málgagn flokksins og flokkurinn hefur sí og æ varið óhæfuverk Bandaríkjamanna í Asíu og Suður-Ameríku. Já, og ekki má gleyma síðustu afrekum ykkar ástkæra leiðtoga Davíðs!

Auðun Gíslason, 21.4.2007 kl. 02:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband