Leita í fréttum mbl.is

Vefur og vanræksla Valgerðar

Hinn góði ritstjóri á Eyjunni, Pétur Gunnarsson, bloggaði á föstudag um fréttir af stöðu Ratsjárstofnunar og gerði sér upp nokkra undrun yfir því hvernig Bjarni Benediktsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, ætti að vera að hnýta í Geir H. Haarde, forsætisráðherra. Bjarni hefur látið í ljós efasemdir um hvernig hefur verið haldið á málefnum stofnunarinnar í aðdraganda þess, að Íslendingar taki að öllu leyti við rekstri hennar og kostnaði við það, alltof margir þræðir séu lausir um hver verkefni hennar séu, í hvers þágu og svo framvegis. Sérstaklega í ljósi þess að Bandaríkjamenn telja sig ekki þurfa á merkjum frá íslenska ratsjárkerfinu að halda lengur. Lætur Pétur eins og að með þessu hljóti Bjarni að vera að agnúast út í Geir, þar sem hann hafi „tekið forræði samninga við Bandaríkin með sér úr utanríkisráðuneytinu yfir í forsætisráðuneytið“ á sínum tíma.

Þetta er einkennileg skoðun hjá Pétri fyrir margra hluta sakir. Og ekki verður hún minna rannsóknarefni í ljósi þess að pólitískt átrúnaðargoð hans, Valgerður Sverrisdóttir, hafði nákvæmlega sama boðskap að flytja heimsbyggðinni í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins á laugardag. Það er vitaskuld ótrúleg tilviljun, sem kann að valda byltingu í líkindastærðfræði, en við skulum líta á spunann og hvers konar vefur varð úr.

Í fyrsta lagi er óskiljanlegt að greindur maður eins og Pétur skuli ímynda sér að vegna þess að Geir hafi haldið áfram að annast samningaviðræðurnar við Bandaríkjamenn (m.a. vegna þess að Valgerður, arftaki hans í utanríkisráðuneytinu, treysti sér ekki til þess), eigi hann þaðan í frá að bera ábyrgð á öllum þar að lútandi málaflokkum. Eins og Pétur víkur raunar sjálfur að kynnti Geir niðurstöðu viðræðnanna hinn 26. september í fyrra og þar með lauk aðkomu hans að málinu. Allan þann tíma hafði utanríkisráðuneytið vitaskuld farið með forræði Ratsjárstofnunar, flugumsjónar á Keflavíkurflugvelli, Leifsstöðvar og alls þess annars, sem á grundvelli fortíðarfyrirkomulags um varnarstöðina á Miðnesheiði, var haft til umsýslu í utanríkisráðuneytinu. Þannig var það fyrir viðræðurnar, á meðan þeim stóð og eftir þær. Eða heldur Pétur virkilega að Geir hafi flutt forræði Fríhafnarinnar í KEF með sér yfir forsætisráðuneytið?

Í öðru lagi er vandalaust að átta sig á því að utanríkisráðuneytið bar fulla og algera ábyrgð á afdrifum íslenska loftvarna- og ratsjárkerfisins. Á því lék enginn vafi, eins og best má sjá á því að utanríkisráðuneytið, en ekki forsætisráðuneytið eða nokkurt annað stjórnvald, átti í viðræðum við bandarísk yfirvöld um framtíð þess á fundum í Brussel og Reykjavík, eins og fréttatilkynningar voru sendar út frá utanríkisráðuneytinu um hinn 23. febrúar og 11. maí

Í þriðja lagi er fróðlegt að bera þessa skoðun Péturs saman við skrif hans um þessi málefni í janúar síðastliðnum. Þá kepptist hann við að lofsyngja Valgerði Sverrisdóttur, þáverandi utanríkisráðherra, fyrir það að hafa innleitt glasnost í íslensk utanríkismál, hvorki meira né minna, með því að aflétta leynd af viðaukum gamla varnasamningsins frá 1951, en leyndina sagði hún bera keim af karllægu pukri í reykfylltum bakherbergjum. Bæði henni og Pétri láðist hins vegar að nefna, að ákvörðunin um afléttingu leyndarinnar var tekin í utanríkisráðherratíð Geirs H. Haardes (sem er karlmaður en reykir held ég ekki), en hins vegar var beðið með að fylgja henni eftir uns málið hafði farið sína leið í bandarísku stjórnsýslunni. Þrátt fyrir áskorun undirritaðs var leynd ekki aflétt af málaskrá ráðuneytisins til þess að upplýsa um hvernig ákvarðanatökunni var háttað og með því lauk glasnostinu frá Lómatjörn.

Pétur dró þó aðeins í land síðastliðinn vetur með fullyrðingar sínar um að forsætisráðherra hefði forræði um allt það, sem að varnarsamningnum lyti. Hann bætti við færslu sína:

Það er ofsagt hér að ofan að formleg samskipti hafi verið á höndum forsætisráðuneytisins - vitaskuld ber utanríkisráðherra stjórnskipulega ábyrgð á þessum málum en ekki forsætisráðherra.

Nú virðist Pétur hafa gleymt því öllu.

En hann veit betur og margnefnd skoðun hans er því í fjórða lagi athyglisverð fyrir þær sakir að hann er að reyna að drepa á dreif þeirri staðreynd að ábyrgðina á þessum vandræðum með Ratsjárstofnun nú hvílir á herðum skjólstæðings hans, frú Valgerðar Glasnost Sverrisdóttur, varaformanns Framsóknarflokksins. Frá því að Geir H. Haarde kynnti samkomulagið við Bandaríkjamenn (í félagi við Jón Sigurðsson, þáverandi formann Framsóknarflokksins og arftaka Valgerðar í Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu) í Þjóðmenningarhúsinu hinn 26. september 2006, sat Valgerður í stóli utanríkisráðherra í 240 daga, að því er virðist án þess að hirða hið minnsta um hvert stefndi með Ratsjárstofnun, þó undirsátar hennar funduðu um það með fulltrúum Bandaríkjastjórnar, en það var í maí 2006, sem varnarliðið hætti að fylgjast með merkjum frá Ratsjárstofnun. Hún vissi vel um þá stöðu og haft var eftir henni í fjölmiðlum í september síðastliðnum að þarna væri brýnt úrlausnarefni. Hún gerði bara ekkert til þess að leysa það.

Ég er enginn sérstakur aðdáandi núverandi utanríkisráðherra eða verkefnavals hennar, en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur aðeins setið 80 daga í embætti og þó hún hafi sjálfsagt mátt leggja meiri áherslu á að ráða úr framtíð Ratsjárstofnunar, væri afar ósanngjarnt að leggja sökina að hennar dyrum. Sökina ber fyrst og fremst Valgerður Sverrisdóttir, átrúnaðargoð Péturs, sem hafði setið 103 daga í ráðuneytinu þegar nýja samkomulagið var kynnt og vanrækti það svo í 240 daga til viðbótar að grípa til viðeigandi ráðstafana. Værukærð og vanræksla Valgerðar  í kjölfar samningsins var ekki einsdæmi eins og alþjóð varð ljóst í nóvember síðastliðnum þegar milljónatjón varð í íbúðarhúsum á Keflavíkurflugvelli vegna fyrirhyggjuleysis hins nýja húsvarðar. Það var dæmigert.

Í fimmta lagi gaf Pétur til kynna að vandræði stofnunarinnar nú megi rekja til þess að sjálfstæðismenn hafi ekki viljað afgreiða frumvarpsdrög Valgerðar Sverrisdóttur um nýja lagaumgjörð Ratsjárstofnunar úr ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili. Það þarf eindreginn brotavilja til þess að setja málin fram með þeim hætti. Valgerður vildi binda þetta lén við utanríkisráðuneytið fyrir fullt og fast, hafa allt óbreytt og tryggja þannig lífsviðurværi Ólafs Arnar Haraldssonar, forstjóra Ratsjárstofnunar (og fyrrverandi þingmanns Framsóknarflokksins), þó engin ástæða væri til þess lengur að Ratsjárstofnun heyrði undir utanríkisráðuneytið fremur en umhverfisráðuneytið, svo annað ámóta fráleitt dæmi sé tekið. Eðlilegast væri vitaskuld að hún hefði verið flutt undir dómsmálaráðuneytið sem hluti af öryggiskerfum landsins, nú eða undir samgönguráðuneytið og þá væntanlega sem undirstofnun Flugmálastjórnar eða hluti Flugstoða. Það var engin tregða af hálfu sjálfstæðismanna til þess að samþykkja nýjan lagagrundvöll Ratsjárstofnunar, heldur það fyrirkomulag, sem framsóknarmenn kusu, en það miðaðist ekki við ytri þarfir eða hagsmuni þjóðarinnar. Það helgaðist annars vegar af valdahagsmunum ráðuneytisins, sem engan spón vildi missa úr sínum aski, og hins vegar valdahagsmunum Framsóknarflokksins.

Það segir kannski mesta sögu um málið að Valgerður Sverrisdóttir fékkst ekki til þess að lýsa þessu sögulega frumvarpi frá síðasta vetri, sem aldrei varð, í hádegisfréttunum í dag og bar fyrir sig nauðsynlegri leynd! Hvar var glasnostið þá, Pétur? En auðvitað stenst það ekki, fremur en annað í málflutningi framsóknarmanna, að leynifrumvarp Valgerðar hefði skipt sköpum, enda var þá engan veginn ljóst hvaða verkefnum Ratsjárstofnun skyldi sinna. Tómt mál væri að tala um að Alþingi hefði getað ákveðið það einhliða með lögum: viðræður við Bandaríkjamenn höfðu ekki einu sinni hafist þegar hún fór að bauka þetta, hvað þá að utanríkisráðuneytið hefði myndað sér einhverja afstöðu. Það blasir við að þetta tal um leynifrumvarp Valgerðar er hreinn fyrirsláttur; aumkunarvert yfirklór til þess að reyna klína ráðaleysi, vanrækslu og embættisafglöpum Valgerðar Sverrisdóttur á aðra.

Í sjötta lagi er með ólíkindum að framsóknarmenn af öllum skuli kjósa að færa vanda vegna Ratsjárstofnunar sérstaklega í tal, alveg burtséð frá trassaskap Valgerðar í embætti og öldungis óbreyttri starfsemi stofnunarinnar og kostnaði, þrátt fyrir gerbreytt umhverfi. Það er sjálfsagt að rifja upp sögu stofnunarinnar, sem er samofin flokksgæðingaharmsögu Framsóknarflokksins og beinlínis á mörkum hins löglega. Mönnum hefur blöskrað hroki Ólafs Arnar Haraldssonar, forstjóra Ratsjárstofnunar, en hann hefur látið eins og málefni stofnunarinnar komi öðrum hreint ekki við og síst almenningi, sem fær að borga brúsann. Að ekki sé minnst á framgöngu Gunnlaugs M. Sigmundssonar, sem einnig er fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins. Þegar hann var framkvæmdastjóri Þróunarfélags Íslands keypti hann liðlega fjórðungs eignarhlut í Kögun, en hún fékk einkarétt til þess að annast rekstur og viðhald hugbúnaðar fyrir ratsjárkerfið. Þetta sætti miklu ámæli á sínum tíma en það breytti engu um orðinn hlut. Og allt í boði og skjóli Framsóknarflokksins. 

Í sjöunda lagi snerist lokaliðurinn í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 26. september 2006 um, að gerðar yrðu ráðstafanir til að lesa úr öllum merkjum frá ratsjárstofnun, sem þýðingu hefðu varðandi eftirlit með flugvélum í lofthelgi Íslands. Við núverandi aðstæður er augjóst að eftirlit með þessum merkjum ætti annars vegar að vera hjá flugumferðarstjórn og hins vegar þeim, sem manna vaktstöðina við Skógarhlíð. Flóknara þarf það nú ekki að vera. Ég þekki lítillega til umræðu um varna- og öryggismál innan Sjálfstæðisflokksins og kannast ekki við að þar hafi verið minnsti ágreiningur um þessi mál, en vilji frú Valgerður og lærisveinn hennar liggja sjálfstæðismönnum á hálsi fyrir að hafa viljað átta sig á því, hvert skyldi vera raunverulegt verkefni Ratsjárstofnunar eftir brottför varnarliðsins, þau um það. En þá er líka rétt að rifja það upp að það var Valgerði sérstakt kappsmál, að engu yrði breytt um starfshætti innan utanríkisráðuneytisins og stofnana á þess vegum fyrir kosningarnar í maí og var engu líkara en að þáverandi utanríkisráðherra vildi ekki horfast í augu við breyttar aðstæður og nýtt hlutverk, þótt varnarliðið væri farið.

Í áttunda lagi virðist framsóknarmafían enn vilja loka augunum fyrir veruleikanum, annars vegar til þess að verja vígi gæðinganna og hins vegar til þess að dylja vanrækslu og vitleysu Valgerðar í utanríkisráðuneytinu. Í næstu viku hefjast heræfingar hér á landi, sem meðal annars fela sér sér flug orrustuþota.  Þá hefst einhver söngur um að Ratsjárstofnun sé varaskeifa í þeim og þess vegna sé afar mikilvægt að starfsemi hennar verði bara áfram eins og verið hefur. Það er vitaskuld tómt píp, Ratsjárstofnun er engin varaskeifa, hvorki við slíkar æfingar né ef til hernaðar kæmi. Bandaríkjamenn koma einfaldlega með allt sitt með sér og eru ekki að púkka upp á íslenska ratsjárkerfið fremur en hið grænlenska. Eftir að varnarliðið hvarf héðan varð Ratsjárstofnun þeim einskis virði, bandarískur herafli notar aðra, nýrri og fullkomnari tækni til að fylgjast með flugumferð. Þjóðhyggjumennirnir í Framsóknarflokknum telja NORAD sjálfsagt ekki standast hinni þjóðlegu Ratsjárstofnun sinna manna snúning og því skal hvað sem tautar og raula halda öllu í horfinu á kostnað skattgreiðenda svo Ólafur Örn týni ekki gullskeifunni varaskeifunni sinni.

Látið er í veðri vaka, að merki frá Ratsjárstofnun hér hafi gildi fyrir evrópskt eftirlitskerfi Atlantshafsbandalagsins, en er það svo? Með hvaða hætti? Á þá að miðla upplýsingum héðan beint til Evrópu? Hvert? Hvaða orrustuþotum verður stjórnað í gegnum kerfið? Ef nota á kerfið með stjórnstöð fyrir orrustuþotur eða eldflaugakerfi, þarf væntanlega að setja lög um heimildir fyrir starfsmenn íslenska ríkisins til að sinna hernaðarlegum störfum. Kannski eitthvað slíkt hafi verið að finna í hinu fræga leynifrumvarpi Valgerðar. Maður verður að vona að hún eða Pétur treysti sér til þess að svara því. Þó ekki væri nema fyrir glasnostið.

Í níunda lagi var ratsjárkerfið sett upp á sínum tíma til þess að styrkja varnaviðbúnað hér vegna vaxandi spennu á Norður-Atlantshafi undir lok Kalda stríðsins. Sú spenna er löngu horfin, ratsjárkerfið gegnir engu hlutverki hvað varðar varna- og öryggishagsmuni Íslands og ný tækni hefur leyst það af hólmi þegar á þarf að halda. Er réttlætanlegt að íslenskir skattborgarar borgi milljarð á ári, svo gömlum framsóknarþingmanni haldist á þægilegri innivinnu?

Í tíunda lagi situr höfuðspurningin enn eftir: Af hverju er starfsemi af þessu tagi á vegum utanríkisráðuneytisins? Hvar í ósköpunum er þannig staðið að málum? Valgerði þóttu það óþægilegar spurningar þá og hún virðist enn vita skömmina upp á sig, þó hún virðist ekki kunna að skammast sín. Nema náttúrlega hún hafi étið þetta allt beint upp eftir Pétri. Auðvitað á utanríkisráðuneytið ekkert með að vera að vasast í þessu öllu, eins og ég hef áður ritað um; það samræmist ekki hlutverki þess að vera varnamálaráðuneyti í hjáverkum. Í krafti gamla varnasamningsins við Bandaríkin — annað ríki með herafla hér á landi — þótti eðlilegast að utanríkisráðuneytið færi með þau mál, sem tengdust varnastöðinni, en um leið og bandaríski fáninn var dreginn niður hinsta sinni á Keflavíkurflugvelli, þraut allar forsendur þess. Nú er enda verið að vinda ofan af því og færa hina ýmsu starfsemi til viðeigandi ráðuneyta, fyrst og fremst dómsmálaráðuneytis, samgönguráðuneytis og fjármálaráðuneytis, en ekki er útilokað að eitthvað af henni verið einkavætt. Eftir stendur þó furðan, að hin sérstöku öryggissvæði á vellinum verða áfram á vegum utanríkisráðuneytisins og það mun áfram þykjast vera varnamálaráðuneyti. Væri nær að gagnrýna forsætisráðherra fyrir að gera ekki breytingar á því fráleita fyrirkomulagi, en stefnulausir tilburðir utanríkisráðuneytisins við að leita varnasamstarfs út um allar trissur er við það að gera landið að athlægi á alþjóðavettvangi.

Forsætisráðherra á síðasta orðið um verkaskiptingu innan stjórnarráðsins, en hefur ekki tekið af skarið um breytingu á þessari tilhögun. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, lýsti skoðunum sínum á því hvernig honum þætti skynsamlegast að skipa þessum málum í erindi hinn 29. mars síðastliðinn, sem öllum áhugamönnum um öryggis- og varnamál er hollt að lesa. Þar lýsti hann einnig þeim ráðstöfunum, sem gerðar hefðu verið, og það er einkar fróðlegt að bera saman hversu misjafnlega þau Björn og Valgerður nýttu tíma sinn eftir að samkomulagið við Bandaríkjamenn var kynnt. Þar kann að vera fundin rót þess ágreinings, sem Valgerður og Pétur básúna nú að sé fyrir hendi og sé ástæðan fyrir óefnum Ratsjárstofnunar. Sumsé að þeim sjónarmiðum hefði verið lýst af sjálfstæðismönnum að gera þyrfti frekari breytingar á stjórnarráðinu, en forsætisráðherra látið það vera.

En það er enginn ágreiningur eða deilur innan Sjálfstæðisflokksins um þessi mál, heldur kaus forsætisráðherra að auðsýna ráðherra samstarfsflokks tillitssemi, ráðherra, sem hélt dauðahaldi í úrelta verkaskiptingu innan stjórnarráðsins til að verja ímyndaða framsóknarhagsmuni án hins minnsta tillits til öryggishagmuna, enda hafði Valgerður ekkert vit á þeim, þó ekki skorti belginginn. Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var mynduð var mikil áhersla lögð á hraðar hendur. Þrátt fyrir áhuga á að aðskilja öryggis- og varnarmál frá utanríkisráðuneytinu (líkt og ýmsir aðrir málaflokkar voru færðir milli ráðuneyta) var það látið eiga sig, til þess að það yrði ekki túlkað formanni Samfylkingarinnar til minnkunnar. Áherslan á þann málaflokk var enda engin; í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar var alls að finna eina setningu um hann:

Ríkisstjórnin mun fylgja markaðri stefnu í öryggis- og varnarmálum og koma á fót samráðsvettvangi stjórnmálaflokkanna um öryggismál. 

Þar kann tækifæri að hafa glatast fyrir persónulegar og pólitískar ástæður, sem vitaskuld ættu í fullkomnum heimi ekki að ganga fyrir þjóðaröryggishagsmunum. Á hinn bóginn sýnist manni að Ingibjörg Sólrún hafi afar takmarkaðan áhuga á öryggis- og varnarmálum, að hennar áherslur í embætti muni liggja á öðrum sviðum. Það kann því vel að vera að henni sé það að meinalausu, þó málaflokknum verði sinnt annars staðar. Enginn skyldi þó velkjast í vafa um það að ráðuneytismenn munu vinna að því öllum árum að halda í varnarmálin, enda mæla opinberir starfsmenn mátt sinn í deildarstjórum og milljörðum á fjárlögum, en líkt og við flest vilja þeir fremur vaxa en visna. Það er góður prófsteinn á pólitíska mannkosti ráðherra hvort þeir láta ráðuneytið vinna fyrir sig og þjóðina eða öfugt: að þeir og þjóðin séu spenntir fyrir vagn ráðuneytisins.

Ég skal játa að ég hef meiri trú á staðfestu Ingibjargar Sólrúnar í þeim efnum en Valgerðar Sverrisdóttur, en hvaða samanburður er það? Mér þótti Valgerður ekki merkilegur utanríkisráðherra og þessi nýlega spunaþvæla hennar, sem að ofan er rakin, varð ekki til þess að auka álit mitt á henni, hvaða hvatir sem að baki kunna að liggja.

Mæli þarft eða þegi! 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Veistu það í raun að ratsjárkerfið sé óþarft? Bandaríkjamenn koma með AWACS með sér en eiga aðeins 32 slíkar vélar. Það eru samtals 60 í höndum NATO. Þessar vélar hafa ekki endalaust flugþol og mér sýnist það langt því frá augljóst að ratsjárkerfið auðveldi ekki beitingu orrustuþotna hér, verði þess þörf. Af einhverjum ástæðum héldu Bandaríkjamenn því gangandi á meðan þeir höfðu hér umsvif.

Hinsvegar má spyrja sig að því hvort að árátta íslenskra stjórnmálamanna (í öllum flokkum sem vilja varnir) fyrir orrustuþotum sé ekki sprottin af vanþekkingu. Varnir landsins verða ekki tryggðar með orrustuþotum í háloftunum og engu öðru.

Við höfum engan viðbúnað á jörðu niðri, ekki einu sinni til þess að tryggja fluttningavélum frá bandalagsþjóðum aðgengi að landinu á hættutímum.

Bandaríkjamenn gáfu Íslendingum bækur um varnarmál þegar herinn fór. Það voru vafalaust fólgin skilaboð í því. Er ekki kominn tími til þess að fá álit einhverra með einhvern skilning á tæknilegum atriðum hernaðar? Það er til slatti af íslendingum með liðsforingjapróf frá ýmsum löndum, af hverju eru eintómir lögfræðingar, hagfræðingar, sagnfræðingar o.s.frv að ræða þessi mál? 

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 12.8.2007 kl. 12:45

2 Smámynd: Júlíus Sigurþórsson

Burtséð frá því hvort við Íslendingar höfum áhuga á að vita hverjir séu að fljúga um lofthelgi landsins, hvort það sé ekki nauðsynlegt að sjá allar flugvélar, borgaralegar eða hernaðarlega, hvort sem þær sendi frá sér staðsetningu og auðkenni (sem t.d. rússnesku vélarnar gera ekki) út frá flugöryggissjónamiði. Né heldur nísku fólks hér sem tímir ekki að reka þetta kerfi.

Þá held ég að það myndi gera stöðu Íslands innan NATO mjög einkennilega ef við tækjum um það ákvörðun að slökkva á og hætta að nota þetta kerfi sem Mannvirkjasjóður NATO borgaði fyrir í topp og setti upp á sinn kostnað.

Hvernig ættum við að útskýra það fyrir bandalagsþjóðum okkar í NATO og þessir peningar sem þau vörði okkur til stuðnings verða ekki nýttir og tækin séu bara brotajárn uppi á fjöllum.

Er ekki staða okkar innan bandalagsins nógu veik fyrir, þó við séum ekki að velta svona hlutum fyrir okkur. Sérstaklega þar sem margt annað mikilvægt bíði þess að vera rætt.

Hans: því miður eru þeir Íslendingar sem hafa fengið liðsforingjamenntun erlendis, sennilegast allir af lægri stigum og því nýtist sú menntun takmarkað. Það er nú þannig hjá herjum annara þjóða að "erlendir" liðsforingjar fá ekki að fara hátt innan stjórnunarkerfis herja og því er ekki um að ræða aðgengi að þeirri menntum sem við þörfnumst að því leiti. Ef til væri Íslenskir liðsforingjar innan Íslensks "hers" eða sambærilegrar stofnunar, þá gætu viðkomandi fengið framhaldsþjálfun gegnum NATO, en þar sem ekki er einusinni lagagrundvöllur fyrir slíku, þá er ennþá langt í land til þess að svo verði mögulegt.

Júlíus Sigurþórsson, 12.8.2007 kl. 13:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband