Leita í fréttum mbl.is

Dellufjölmiðlar

Ég sé að vatnaskil eru í blaðaútgáfu vestanhafs, því útgáfu Weekly World News hefur verið hætt eftir 28 glæsta sögu geðveikra „frétta“. Í því var aldrei að finna satt orð og dellan gat verið dásamlega fyndin. Samt átti maður erfitt með að verjast þeirri hugsun að einhversstaðar væri til fólk, sem tryði fregnum blaðsins um andlitsbirtingu Elvisar á framandi hnöttum, yfirnáttúrulegar verur á vappinu ásamt geimverum og svo framvegis. Miðað við auglýsingarnar var trúgirni nokkur meðal lesendanna, þar auglýstu nær einvörðungu spámiðlar, stjörnuspekingar og ámóta. Blaðamaðurinn Stan Sinberg skrifar skemmtilega minningargrein um sinn gamla miðil á Salon.

Weekly World News svipaði um margt til hins frábæra Lundúnablaðs Sunday Sport, þar sem blaðamennirnir stærðu sig af því að ekki væri neitt satt í því nema sjónvarpsdagskráin. Meira að segja lungnahlífarnar á fáklæddum fyrirsætum blaðsins væru óekta. Þegar ég var við nám í Lundúnum vaknaði maður stundum um helgar með þynnku beint upp úr Opinberunarbókinni og þá var Sunday Sport tilvalið meðal til þess að leiðrétta fremur þungbúna afstöðu til lífsins.

En auðvitað er til nóg af illa upplýstu og trúgjörnu fólki, nú sem fyrr. Menn þurfa ekki að skoða sölutölunar hjá National Enquirer (sem selst alveg prýðilega hér á Íslandi) til þess að komast að því, því hvað má segja um allt samsæriskenningaliðið, álfaskoðarana eða allan þann fjölda, sem spilar í lottóinu af því að það lagði sig ekki fram í stærðfræði á sínum tíma?

Hér á Íslandi hefur samt ekki komið upp hrein lygapressa af þessu tagi. Þó Séð og heyrt geri út á svipaðan markað er þar ekki að finna slíkar fréttir, þó efast megi um fréttagildi blaðsins á stundum. Um tíma var DV komið á hálari ís, en fór samt ekki alla leið. Sjálfsagt er eina dæmið um hreinar lygafréttir í íslenskum miðlum Gula Pressan, sem Gunnar Smári Egilsson ritstýrði af röggsemi hér á árum áður. Að vísu var það aðeins ein síða í Pressunni og hún gat verið óborganlega fyndin. Á þeim árum gáfu kommarnir út Þjóðviljann eða Vikublaðið undir slagorðinu „Til vinstri — þar sem hjartað slær“, en Gula Pressan valdi sér annað: „Fyrir neðan beltisstað, þar sem það er sárast“.  En það er svo skrýtið að stöku sinnum kom upp missilningur hjá lesendum blaðsins, sem lögðu trúnað við fréttir Gulu Pressunar og býsnuðust mjög. Sem gerist reglulega þegar fréttir The Onion fara á flakk, en dæmi eru um að alvöru fréttamiðlar hafi étið þvæluna upp og birt sem sannar fréttir.

En auðvitað vantar Ísland ekki fjölmiðil, sem skáldar upp ólíkindafréttir. Við eigum alveg nóg með miskilninginn, missagnirnar og mistökin, sem reglulega má finna í þeim, sem fyrir eru.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hef nú stundum á tilfinningunni að allir nútíma fjölmiðlar séu eins og WWN, vel stjórnað af ristjórnarstefnum þannig að allir hljóma svipað og eru eins og hjáróma bergmál af kommúnistablöðunum í Rússlandi, þar var líka mikið úrval fjölmiðla sem allir voru vel inni á flokkslínunni

Mæja Spæja (IP-tala skráð) 25.8.2007 kl. 21:05

2 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Skemmtileg athugasend hjá Mæju og sýnir sögulegan skilning. Hitler og Göbbels lögðu einmitt áherslu á nauðsyn þess (þegar þeir töldu sig vera að skapa evrópusambandið) að halda úti fjölda fjölmiðla, það yrði bara að passa að þeir væru allir eins. Og það sjáum við glögglega í dag. 

Baldur Fjölnisson, 25.8.2007 kl. 23:14

3 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Annars hefði ég aldrei frétt af þessum ruglanda ef ekki hefði  verið fyrir atbeina ruglustrumpa sem greinlega hafa fylgst með honum.  

Baldur Fjölnisson, 26.8.2007 kl. 00:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband