Leita í fréttum mbl.is

Það er stórt orð einelti

Ég hef lítillega fylgst með krytunum í kringum Q-bar, enda bý ég við Ingólfsstræti og þar að auki áhugamaður um skemmtanalíf í Miðbænum. Er raunar fyrrverandi atvinnumaður á þeim vettvangi, því ég var meðal eigenda Kaffibarsins um hríð og þekki vel þann núning, sem getur orðið milli veitingastaða og íbúa.

Erna Valdís Valdimarsdóttir gekk við hér á heimilinu um liðna helgi og bauð okkur að skrifa undir mótmæli sín, en við afþökkuðum það reyndar; við höfum ekki ama af Q-bar umfram aðra veitingastaði hér í bænum.

Auðvitað er erilsamt hér í nágrenninu um helgar: hróp og vondur söngur, ill umgengni og annað það álag, sem fylgir skemmtanalífinu. Mér var hins vegar fullkunnugt um það þegar ég flutti í Miðbæinn og þarf að sýna því umburðarlyndi. Allir staðir hafa sína kosti og ókosti og mér finnast kostirnir veigameiri en ókostirnir. Einhverjir eru á öðru máli og þess vegna búa þeir annars staðar. Þannig virkar þetta nú, svona almennt, en það þýðir ekki að fólk eigi bara að láta hvað sem er yfir sig ganga hér í Miðbænum, að veitingamenn geti farið sínu fram án ábyrgðar og yppt öxlum þegar nágrannarnir ærast.

Ég skil þess vegna afstöðu Ernu mætavel, hún býr fast við Q-bar og hefur verulegt ónæði af, sem ekki hefur minnkað eftir að reykingabannið var sett á. Það veldur auknu rápi, pallurinn fyrir utan er stappfullur af fólki, en þar að auki er talsvert rennerí frá staðnum yfir í port þarna bak við, en það er við bakdyrnar hjá Ernu. Þar sinna gestirnir alls kyns erindum.

Ekki síst er þó ónæðið af völdum hávaða frá Q-bar, en hann hefur aukist til muna frá fyrri tíð. Meðan Ari í Ögri var rekinn þarna var þar afdrep peysukomma og misupprennandi skálda, þar sem Leonard Cohen hljómaði ekki ýkja hátt. Þegar Q-bar var settur á laggirnar var því aldeilis breytt, nýtt hljómflutningskerfi sett upp og beinlínis gumað af því að nú „yrði allt sett í botn“. Síðan hefur dunað þar HNRG og Eurotrash tónlist á fullu blasti fram undir morgun, sem er í takt við eðli staðarins.

Mér finnst það því harla léleg vörn hjá Ragnari Ólafi Magnússyni, sem á helming í Q-bar og sjá má á myndinni að ofan, að bera það upp á Ernu, að andófi hennar valdi fordómar gegn samkynhneigðum. Í vorri pólitísku réttrúnaðarkirkju eru það harla alvarlegar ásakanir, sem þyrfti þá að rökstyðja með greinarbetri hætti en Ragnar gerir. Q-bar er ljóslega sá veitingastaður, sem mestu ónæði veldur fyrir Ernu, og fráleitt að kalla það einelti, þó hún dirfist að benda á það hvaðan mestur hávaðinn komi inn á heimili sitt. Fram á morgun.


mbl.is Telur um einelti að ræða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er, ef satt er, ósmekkleg leið eigenda yil að afla sér samúðar. Sama aðferð og sumar einstæðar mæður nota ef þær standa sig ekki í vinnu og er sagt upp störfum.

Þá er ekki verið að reka ónothæft starfsfólk, heldur einstæða móður og atvinnurekandinn því um leið orðinn vondur maður.

í Þjóðfélagi rétttrúnaðar er þessi leið afar áhrifamikil og því í fullri notkun.

Vilhjálmur borgarstjóri er líklega besta dæmið um mann sem hleypur stöðugt eftir einhverjum svona tilfinningum undarlega þenkjandi fólks.

Hann er líka besta dæmið um hvað fólk getur í raun orðið hlægilegt við þessa iðju.

Guðmundur Sigurðsson (IP-tala skráð) 26.8.2007 kl. 12:51

2 Smámynd: Andrés Magnússon

HNRG (oftast skrifað Hi-NRG) er eins konar skammstöfun fyrir „High Energy“, sem þýða mætti sem kraftdiskó eða ámóta. Forveri teknósins með sterk tengsl við klúbbamenningu samkynhneigðra. Sjá Wikipediu.

Andrés Magnússon, 27.8.2007 kl. 10:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband