Leita í fréttum mbl.is

Hveitibrauðsdagarnir að baki

Í dag er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar 100 daga gömul og þar með telst hveitibrauðsdögum hennar lokið. Sagt er að í stjórnmálum verði nýjum valdhöfum að verða vel úr verki þessa fyrstu 100 daga, því það sé þá, sem einhver von sé til þess að hrinda nýjum hugmyndum í framkvæmd. Afgangurinn af kjörtímabilinu fari í að sinna daglegri húsvörslu og slökkva elda. En svo má líka minna á að þessi hugmynd um 100 örlagadaga í pólitík má rekja aftur til ársins 1815, en þá liðu einmitt 100 dagar frá því að Napóleon rauf útlegð sína á Elbu þar til þeir von Blücher, Vilhjálmur prins af Óraníu og hertoginn af Wellington réðu niðurlögum herja Frakka í Waterloo, sem Abba gerði ódauðlegt hér um árið.

Það væri því ekki úr vegi að staldra við á þessum tímamótum og líta yfir farinn veg. Það veldur þó vanda, að pólitíkin hefur ekki verið fyrirferðarmikil síðan ríkisstjórnin tók við völdum, þingið í sumarleyfi, fá knýjandi mál hafa komið upp og afrekaskráin eftir því stutt. Jafnvel stórmál eins og niðurskurður þorskveiðiheimilda reyndist ekki hafa neina pólitíska vídd, en það er helst að sláttur á sumum ráðherrum Samfylkingar hafi vakið athygli. Það er kannski helst núna, sem opinber ágreiningur innan stjórnarinnar er að koma upp á yfirborðið, um vatnalögin!

Að því leytinu er vart hægt að taka störf stjórnarinnar til kostanna enn. Hins vegar vill svo til að Capacent Gallup var að birta niðurstöður skoðanakönnunar um fylgi flokkanna. Það er langur vegur frá því að í þeim felist nokkur stórtíðindi, en það má vel reyna að lesa eitthvað í þau og horfa eilítið fram á veginn, það styttist í þingsetningu og maður heyrir á þingmönnunum niðri í bæ, að þá er marga farið að klæja í fingurna. Ég hef nú reyndar ekki heyrt í nema þremur þeirra um þessa skoðanakönnun og þeir voru allir stjórnarliðar. Þeir voru á einu máli um að könnunin sýndi að stjórnarandstaðan ætti sér engrar viðreisnar von og nefndu svo ýmis dæmi um hvernig hún væri að veslast upp. Það má vera rétt athugað, en af því leiðir ekki sjálfkrafa, að allt sé í himnalagi á stjórnarheimilinu.

Mér finnst að vísu hæpið að halda því fram að fylgi við ríkisstjórnina sé að dala, líkt og gert er í fyrirsögn á mbl.is, þó það fari úr 83% í 80% á sama tíma og samanlagt fylgi stjórnarflokkanna er um 69%. Án þess að hafa séð tölur um úrtak, heimtur og skekkjumörk myndi ég láta mér nægja að segja fylgið á svipuðu róli.

Nú er það altítt hér á landi, sem víðast hvar í vestrænum lýðræðisríkjum, að nýmyndaðar ríkisstjórnir njóta mikils velvilja fyrsta kastið. Það er líka athyglisvert að þegar menn eru spurðir að því hvað þeir kusu í síðustu kosningum er eins og minni margra bili; ef marka mætti þær niðurstöður hefðu ríkisstjórnarflokkarnir átt að vinna mun glæsilegri kosningasigra, en raunin var þegar talið var úr kjörkössunum. Þrátt fyrir það allt held ég að það hljóti að vera harla fátítt, að nokkur ríkisstjórn njóti stuðnings fjögurra af hverjum fimm kjósendum, nema á stríðstímum eða við álíka óvenjulegar aðstæður. Í því samhengi er rétt að hafa í huga að þó ríkisstjórnarmeirihlutinn sé afar ríflegur (43 þingmenn af 63 eða 68,25% þingheims), þá fengu stjórnarflokkarnir „ekki nema“ 63,4% atkvæða í kosningunum í vor. Umframstuðningurinn nú nemur því liðlega 17%. Ætli það verði ekki skálað í kampavíni á næsta ríkisstjórnarfundi?

Hins vegar gæti forysta Sjálfstæðisflokksins velt því fyrir sér hvers vegna fylgi flokksins dalar úr 45% í 42%, sem miðað við fyrri fylgni er ábending um að það myndi reynast í kringum 38% í kjörklefum. Það er erfitt að benda á eitthvað sérstakt, sem gerst hefur milli þessara kannana, sem gæti skýrt þá rénun. Auðvitað má vera að þetta sé innan allra vikmarka, sveiflurnar hjá flokknum hafa áður verið svipaðar og meiri án þess að sérstök tilefni hafi legið í augum uppi. Mér koma þó í hug þrjár mögulegar skýringar.

  • Sú fyrsta er að nokkrar blikur eru uppi í efnahagslífinu og fleiri en áður óttast að góðærinu kunni að vera að ljúka, erlendur lánsfjárskortur kann að hafa áhrif hér, vanskil eru að aukast í fyrsta skipti í sex ár, væntingar um næstu misseri eru minni en lengi hefur verið og svo má áfram telja. Þó í því felist kannski ekki mikil sanngirni, kann sá kvíði um efnahagsmálin helst að bitna á Sjálfstæðisflokknum, hann hefur hagstjórnina alla í sínum höndum og hið undralanga góðæri verið honum tengt. Dvíni það er ekki óeðlilegt að einhverjir spyrji hvort flokknum sé að förlast. — Þessu að mestu ótengt má svo benda á umræðu liðinna vikna um Grímseyjarferjuna, sem auðvitað varð Sjálfstæðisflokknum ekki til álitsauka, hún var sérstaklega tengd fyrrverandi samgönguráðherra hans, klúðrið átti sér stað á síðustu vakt flokksins í stjórnarráðinu og viðbrögðin við umræðunni nú voru ekkert sérstaklega traustvekjandi.

  • Önnur skýringin kann að vera sú, að sjálfstæðismenn hafa sáralítið haft sig í frammi á hveitibrauðsdögum hinnar nýju ríkisstjórnar (og afsakið innskotið, en hvað varð um hina gagnmerku umrræðu um Bleikjuna, Þingvallastjórnina, Baugsstjórnina og allt það?). Auðvitað hafa þeir margir nýtt þetta dýrðlega sumar til þess að safna orku eftir snarpa kosningabaráttu og ekki haft mörg tilefni til þess að vera að sprikla mikið á hinu pólitíska sviði. Á sama tíma hafa flestir ráðherrar Samfylkingarinnar haft sig töluvert í frammi, þó sumpart beri tilburðirnir helst keim af kátum kúm á vori eftir langa vetrarveru í fjósi. Sumir telja að þetta lagist í haust þegar þing kemur saman, en ég er ekki viss. Stjórnunarstíll forsætisráðherra er afar lágstemmdur og svipmótið er fremur í ætt við það, sem menn hafa átt að venjast úr embættismannakerfinu en pólitíkinni. Mér kæmi ekki fullkomlega á óvart þó einhverjir dustuðu rykið af spurningunni „Hvar er Geir?“, sem nokkuð bar á í fyrra.

  • Þriðja skýringin er sú, sem Morgunblaðið hefur verið að ýja að upp á síðkastið og ekki síst í Staksteinum föstudagsblaðsins, sem lesa má í heild sinni hér að neðan. Hún er sú að mörgum sjálfstæðismönnum lítist hreint ekki á blikuna hvað varðar samstarfið við Samfylkinguna. Þeim þykir ýmsum nóg um tilburði sumra ráðherra hennar. Ég heyri ýmsa gegna sjálfstæðismenn lýsa áhyggjum sínum af því að flokkur þeirra sýni samstarfsflokknum allt of mikið eftirlæti og sumir þeirra segja jafnvel að miðjusókn flokksins ætli engan enda að taki og hann endi vinstra megin við miðju áður en kjörtímabilið er hálfnað. Það finnst mér djúpt tekið í árinni, en í þeirri gagnrýni felst sannleikskorn og hún lýsir raunverulegum áhyggjum gegnheilla flokksmanna. Það eitt og sér ætti að vera áhyggjuefni fyrir flokksforystuna, þó ekki geti þessi 3% „dýfa“ valdið henni andvökunáttum. En í því samhengi er hins vegar vert að horfa til þess hversu margir yfirlýstir sjálfstæðismenn hafa verið óragir við að hjóla í borgarstjórann í Reykjavík á opinberum vettvangi upp á síðkastið. Sjálfsagt er þeim í raun og sann uppsigað við tiltekin ummæli hans eða ákvarðanir, en ég á erfitt með að verjast þeirri hugsun, að einhverjir þeirra séu aðallega að hafa í hótunum við Albaníu.

Sem fyrr segir er öldungis ástæðulaust fyrir flokksforystu Sjálfstæðisflokksins að rjúka upp til handa og fóta þó fylgi Sjálfstæðisflokksins hreyfist 3% til eða frá. En það er vert að gefa því gaum ef óánægja kraumar meðal harðkjarnans svo snemma á kjörtímabilinu. Eins ef það er almennt túlkað sem áhuga- eða erindisleysi þegar lítið fer fyrir ráðherraliði flokksins. Það er síðan rétt, sem vakið er máls á í fyrrnefndum Staksteinum, að gengi Sjálfstæðisflokksins er ekki í pólitísku tómarúmi, þó ég telji fullsnemmt að rekja fléttur á borð við þær, sem lesa má að neðan. En hitt er dagljóst að framganga margra ráðherra Samfylkingarinnar undanfarna 100 daga hefur ekki orðið til þess að treysta stjórnarsamstarfið eða auka trúnað milli stjórnarflokkanna. Var hann þó ekki ærinn fyrir.

 

Staksteinar Morgunblaðsins, föstudaginn 31. ágúst, 2007. 

Ólund hér og þar

Það má finna í ýmsum hornum Sjálfstæðisflokksins, að nú þegar nýjabrumið er farið af samstarfinu við Samfylkinguna þykir sjálfstæðismönnum það samstarf ekki sérlega skemmtilegt. Sumir þeirra telja að talsmáti bæði formanns Samfylkingar og ýmissa annarra forystumanna flokksins sé ögrandi gagnvart Sjálfstæðisflokknum.

Sjálfstæðismenn eru byrjaðir að finna að Samfylkingin getur orðið erfiður samstarfsaðili.

Framsóknarmenn finna þennan pirring innan Sjálfstæðisflokksins og þykjast sjá hann langar leiðir. Þess vegna er nú að vakna aukin bjartsýni innan Framsóknarflokksins um að þeir komist í ríkisstjórn á þessu kjörtímabili. Þeir telja að Samfylkingin leiti að heppilegu máli til að kljúfa stjórnarsamstarfið á og stöðva við umræður um gjaldmiðilinn. Eigum við að halda krónunni eða taka upp annan gjaldmiðil?

Í ljósi þess hvernig framsóknarmenn tala er ekki hægt að útiloka að þeir heyri svona raddir innan Samfylkingar.

Vandi bæði Samfylkingar og framsóknarmanna er sá að þriðji samstarfsflokkurinn sem þeir sjá fyrir sér í slíkri ríkisstjórn, Vinstri grænir, eru ekki ginnkeyptir fyrir gjaldmiðilsskiptum.

Hins vegar mundi aðild Vinstri grænna að ríkisstjórn leysa þann flokk úr þeirri tilvistarkreppu sem hann er í og jafnvel framlengja pólitískt líf Steingríms J. Sigfússonar.

Geir H. Haarde verður að gæta að sér.


mbl.is Stuðningur við ríkisstjórnina dalar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

og ég sem hélt að þeir væru búnir að vera í 109 daga sumarfríi!

Kjartan Pétur Sigurðsson, 2.9.2007 kl. 00:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband