8.9.2007 | 13:35
Stöð 2 og samsærið mikla
Í gærkvöldi var ég í Kastljósi Ríkissjónvarpsins hjá Þóru Arnórsdóttur til þess að fara yfir fréttir vikunnar ásamt Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur, stöllu minni, sem nú er milli bæja í fjölmiðlahreppnum. Þar var meðal annars tæpt á uppsögn hennar á fréttastofu Stöðvar 2.
Ég lagði meðal annars það orð í belg, að mér þætti fjölmiðlaumfjöllunin um uppsögn hennar hafa verið furðumikil, á sama tíma og uppsögn 64 starfsmanna Icelandair hefði lítið rými fengið.
Þá var því til svarað að ef til vill gegndi öðru máli þarna um, þarna hefði verið einhverjar pólitískar vélar á ferð. Ég verð að játa að ég þekki málið ekki til hlítar, en mér heyrðist á Þóru Kristínu, að þarna hefði verið um vinnustaðapólitík að ræða, sem er allt annar handleggur en pólitískar atvinnuofsóknir eða hefndaraðgerðir, líkt og sumir gáfu til kynna þegar uppsögnin spurðist út.
Á fjölmiðlum þurfa ritstjórar að skipa liði sínu með ýmsum hætti og taka tillit til alls kyns sjónarmiða. Ekki síst á það við um sjónvarpsmiðlana, sem eru öðrum þræði í skemmtanabransanum. Slíkar ákvarðanir eru byggðar á smekk og tilfinningu, sem engin leið er að deila um af neinu viti.
Hin faglegu sjónarmið
Það tíðkast mjög þessi árin að svokölluð fagleg sjónarmið eigi að ráða á öllum sviðum. Ekki síst er skírskotað til þeirra þegar mannaráðningar eru annars vegar, en þær virðast hafa orðið mun viðkvæmari með árunum, ekki endilega vegna þess að réttlætistilfinning manna bjóði það, heldur kannski ekki síður vegna þess að fólk virðist í auknum mæli líta á sérhverja höfnun í lífinu sem endanlegan og óréttmætan dóm yfir persónu sinni. Hins vegar man ég nú ekki eftir því að það hafi nokkurn tíman verið skýrt til hlítar við hvað er átt með orðaleppnum faglegu.
Með hinni faglegu orðræðu er hins vegar gefið til kynna, að unnt sé að leggja menn við eina tiltekna mælistiku til þess að reikna út mannkosti hans. Rétt eins og það nægi að safna saman einhverri tiltekinni tölfræði úr lífshlaupi manna, slá hana inn í Excel og nota einhverja glæsilega formúlu til þess að finna út lokaeinkunn hvers og eins. En auðvitað er það ekki hægt; maðurinn er óendanlega fjölbreytt skepna og því má eins reyna að deila í hann með óendanleikanum eða núlli. Með álíka skynsamlegum niðurstöðum.
Við höfum horft upp á það undanfarin ár hvernig gengur að leggja slíkt mat á menn. Þær rannsóknir hafa líka áhrif á niðurstöðuna, rétt eins og skammtafræðin kennir okkur. Fólk fer að haga sínu faglega lífi til þess að líta betur út á pappírnum, en verður fráleitt hæfara fyrir vikið.
Auðvitað má finna atvinnugreinar, þar sem faglegar mælistikur má leggja á störf manna, fyrst og fremst í greinum þar sem auðvelt er að mæla afköst og ástæðulaust að taka tillit til annarra þátta. En þær eru fáar og fer fækkandi. Að mínu viti er fjölmiðlun alveg sérstaklega galin atvinnugrein til þess að stunda þessar faglegu mælingar. Í blaðamannastétt hafa þrifist alls kyns kynlegir kvistir, sem sumir hverjir hefðu tæpast verið umbornir á öðrum vinnustöðum. Fjölmiðlar eru enda óvenjulegir vinnustaðir; þversagnakenndar verksmiðjur þar sem skapandi fólk stendur við færiböndin. Það þarf að hafa nasasjón af öllu milli himins og jarðar og geta fyrirvaralaust gengið í öll verk. Um leið eru menn tilbúnir til þess að líta hjá alvarlegum göllum meðan kostirnir vega þyngra þegar á reynir.
Það er unnt að mennta sig í blaðamennsku og læra góð og rétt vinnubrögð, en ágætiseinkunn úr slíkum skóla er engin trygging fyrir því að menn reynist góðir blaðamenn. Starfsaldur eða afköst eru ekki heldur áreiðanlegur mælikvarði í þeim efnum. Hvað þá blaðamannaverðlaun, eins og dæmin sanna!
Pólitík hvað?
En í þessarri umræðu allri skildi ég aldrei almennilega hvað menn voru að fara með þessum ásökunum í garð Steingríms Ólafssonar, að pólitík væri rót uppsagnar Þóru Kristínar. Það hafði enda enginn fyrir því að skýra það út. En tesan var eitthvað á þá leið, að fyrst Steingrímur værir framsóknarmaður, sem meira að segja hefði unnið fyrir Halldór Ásgrímsson í forsætisráðuneytinu, þá hlyti sérhver ákvörðun hans að vera af pólitískum rótum runninn. Einmitt.
Auðvitað er það ekki nóg, að pólitísk afstaða Steingríms sé þekkt, svo álykta megi að allar hans ákvarðanir stýrist af henni. Umræddar ákvarðanir verða þá að hafa einhverja pólitíska vídd til þess að slíkt sé til umræðu (nema menn telji að hann taki mjólk í kaffið til þess að sýna samstöðu með Guðna Ágústssyni og kúabændum).
Haldi menn því fram að það hafi verið flokkspólitísk ákvörðun hjá honum að segja Þóru Kristínu upp þurfa þeir jafnframt að útskýra hvað Framsóknarflokkurinn eigi að græða á uppsögn hennar eða hvað hún eigi að hafa gert á hans hluta.
Þá ættu menn að fara varlega, því með slíkum ásökunum eru þeir í raun að gefa í skyn að Þóra Kristín hafi ekki gætt hlutleysis í fréttaflutningi sínum, að hún hafi dregið pólitískan taum, verið framsóknarmönnum sérlega mótdræg eða ámóta. Eru dæmi slíks?
Eða Halldór Ásgrímsson að hafa fyrirskipað sínum gamla undirmanni að láta nú sverfa til stáls gegn dóttur Sigríðar Jóhannesdóttur, fyrrverandi þingmanns Samfylkingar og Alþýðubandalags, af því honum fannst Sigríður alltaf hafa horft hálfillilega til sín í þinginu hér í den?
Nei, ætli framsóknarmenn hafi ekki að einhverju þarfara að huga til þess að ná sér á strik á ný. Það starf mun eiga sér stað innan flokks þeirra og á Alþingi. Steingrímur hugsar vafalaust hlýlega til flokkssytskina sinna, en ég hef engin merki séð um það að fréttastofu Stöðvar 2 hafi verið í neinu beitt fyrir vagn Framsóknarflokksins.
Það má vel hafa þá skoðun, að Steingrímur hafi gert mistök með því að segja upp þrautreyndum fréttamanni eins og Þóru Kristínu, en þá er það fréttastofan, sem sýpur seyðið af því, og Steingrímur sjálfur áður en yfir lýkur, ef trúverðugleiki fréttastofunnar bíður varanlegan hnekki af. Eins og dæmin sanna lifa flestir fréttamenn Stöðvar 2 fréttastjóra sína af í starfi. Það kemur þá bara í ljós. En að láta eins og það sé reginhneyksli, pólitískt samsæri og óbærilegt áfall fyrir íslenska fjölmiðlun er bara bull.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.9.2007 kl. 14:41 | Facebook
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 39
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 17
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll Andrés!
Þú skrifar slíkar ritgerðir á þessu Moggabloggi, að þótt kitli að lesa skoðanir þínar, endist ég alla vega ekki til þess að pæla gegn um allan þennan texta. Minna má gagn gera! Værirðu ekki til í að meitla mál þitt svo sem um 75%? 65% gæti etv. dugað.
M.kv.
Herbert Guðmundsson, 8.9.2007 kl. 14:06
Blessaður Andrés!
Já, þessir langhundar þínir eru til háborinnar skammar og lýsir ótrúlegu tillitsleysi að bjóða eymingjans netverjum upp á svona mikið lesefni í einu ;)
Annars held ég að þú sért á villigötum ef þú metur mikilvægi frétta eftir því hversu mikil umfjöllunin er hverju sinni. Sum mál eru í eðli sínu flóknari og krefjast meiri umfjöllunar þó þau séu kannski léttvægari en önnur. Ég efast um að menn meti það svo að uppsögn Þóru Kristínar sé í sjálfu sér merkilegri eða mikilvægari en uppsögn 64 starfsmanna Icelandair þó menn hafi meira gaman að því að velta henni fyrir sér.
Varðandi Denna... eins ágætur og hann getur verið, þá hygg ég að menn telji sig geta nefnt dæmi þar sem taumur Framsóknarmanna hefur verið dreginn á óskammfeilinn hátt og hallærislegan. T.d. þegar tendadóttir Jónínu Bjartmarz var boðuð sérstaklega í viðtal í Íslandi í dag til að svara spurningunni: Kom Jónína NOKKUÐ að afgreiðslu máls þíns hvað varðar íslenskan ríkisborgararétt þinn og fyrirgreiðslu? Ef Denni telur sig ekki geta umborið gagnrýni síns fólks hvað slík dæmi varðar má leiða að því rök að uppsögn Þóru Kristínar hafi ekki verið á faglegum nótum. En hvað veit ég? Hitt er að hárrétt er að erfitt getur reynst leggja mælistiku á það hvað gerir blaðamann góðan og eðlilegt að þeir sem koma nýjir að stjórnun hverju sinni vilji skipa í lið sitt eins og þeim þykir henta.
Bestu kveðjur,
Jakob
Jakob Bjarnar (IP-tala skráð) 8.9.2007 kl. 14:51
Sæll frændi!
Ég læt langhundana liggja milli hluta. Ég endist amk. til þess að lesa þá. Ofuríhaldssamar skoðanir læt ég sömuleiðis óátaldar, enda hafa þær þennan merkilega sjarma öfganna, sem alltaf heillar mig. En kjarni málsins er þessi: Mér finnst Þóra Kristín góður fréttamaður. Og ég kann EKKI að meta þá ákvörðun yfirmanna beggja sjónvarpsstöðvanna, að láta hárgreiðslu, tannstæði og lágan aldur ráða því hver er ráðinn til starfa við fréttir og fréttatengda þætti. Enda er vanþekkingin og reynsluleysið, já og getuleysið yfirþyrmandi.
Og hana nú!
Sigurður G. Tómasson, 8.9.2007 kl. 20:44
Andrés, þú ert 5 stjörnu penni og ég er þessari skoðun þinni varðandi þessa uppsögn alveg sammála.
Það hlýtur að liggja þarna að baki einhvert faglegt mat SEM má vera hverjum sem um það vill hugsa ljóst að Steingrímur getur ekki bara skellt fram í fjölmiðla, þannig vinnur enginn yfirmaður með viti, þrátt fyrir að um fréttamann sé að ræða.
Ég hef aðeins kynnst ,,Denna" og hann hefur alltaf komið mér fyrir sjónir sem heiðarlegur og hreinn og beinn gaur, kannski er það ekki þannig en þetta er bara mín tilfinning. Þóru fréttakonu þekki ég ekki nema ég heyrði að hún hefði verið ,,uppalin" á RÚV og farið þaðan yfir á Stöð 2.
Ég hef verið í rekstri síðan "92 og stundum þurft að segja fólki upp. Eitt áttu allir þessir einstaklingar sameiginlegt að út á við töluðu þeir allir um að það væri eitthvað að hjá:
- samstarfsfólkinu
- mér
- kaupinu
- vinnutímanum
- reglunum
S.s. allt annað en eigin alvarlegu mistök í starfi og NEI ég ætla hvorki að nefna nöfn né dæmi, það er á milli mín og þeirra.
Ég man þó eftir einni stúlku sem fór miklu offari og ætlaði að kæra mig ofl ofl fyrir óréttmæta uppsögn. Hún fór í félagið og þeir hringdu í mig. Ég sagði þeim nákvæmlega hvað hafði gerst (s.s. mína hlið málsins) og svarið var ,,nú já ég skil, þetta vinnusamband hefur greinilega ekki gengið upp". Heyrði aldrei meira af málinu.
Kv. Sigurjón Sigurðsson
Sigurjón Sigurðsson, 8.9.2007 kl. 23:56
Kæru lesendur!
Æ, nei, ég nenni ekki að stytta mál mitt. Mér finnst einmitt ágætt að fá útrás hér á bloggnum, þar sem ég þarf ekki að þola sams konar lengdartakmarkanir og í prentmiðlunum. Það er eiginlega enginn annar vettvangur fyrir „essayja“ á Íslandi, þó að ofangreindar vangaveltur geti tæpast flokkast undir það. Hins vegar gætu hin „faglegu“ sjónarmið verið efni í slíkan pistil. Sjáum til, en hér kemur miðlungi langt svar!
Auðvitað er það rétt hjá Jakobi Bjarnari Grétarssyni að mikilvægi frétta er ekki alltaf mælt í dálksentimetrum eða útsendum sekúndum, en almennt er það samt ágæt viðmiðun. Ég get ekki varist þeirri hugsun, að margumtöluð sjálfhverfa fjölmiðlamanna hafi haft þar áhrif á. Dylgjur um pólitískar vélar voru svo til þess að ýta undir hana enn frekar, en það var eins og menn hefðu steingleymt því að framsóknarmenn eru komnir í stjórnarandstöðu og hafa engin vígi að verja í stjórnarráðinu lengur. Fyrir nú utan hitt, að enginn steig skrefið til fulls og útskýrði samsæriskenninguna, hvað þá að hún hafi verið rökstudd.
Þetta viðtal við Señorita Lucia Celeste Molina Sierra Bjartmarz var óneitanlega eilítið sérstakt og tekið í nokkurri vinsemd. En þá verður líka að hafa aðrar kringumstæður í huga.
Skúbbið nokkurn keim af kosningabombu og eins og við Jakob þekkjum báðir, eftir langan feril í fjölmiðlum, ber að nálgast slíkar freistingar af ýtrustu varúð. Jafnvel þó fullkomlega ljóst sé að efni séu í slíkum ábendingum, þarf að hafa í huga í hvaða tilgangi þær eru gefnar. Fjölmiðlar þurfa að varast að láta einhvern notfæra sér sig í pólitískum hráskinnaleik kortéri fyrir kosningar, því það getur jafngilt tilræði við lýðræðið.
Á umræddum tímapunkti lágu málavextir engan veginn allir fyrir, skammur tími til kosninga og nánast vonlaust fyrir Jónínu Bjartmarz að koma nokkrum vörnum við, jafnvel þó svo hún hefði haft öldungis hreinan skjöld. Hjá einhverjum — ekki aðeins framsóknarmönnum — kynni því að hafa örlað á þeirri hugsun, að sanngjarnt væri að líta á málið frá hennar bæjardyrum. Umfram allt var augljóst að fengur var að viðtali við hina upprennandi tengdadóttur umhverfisráðherra. Og eins og við Jakob vitum báðir, þarf við slíkar aðstæður stundum að heita tilteknum vettlingatökum til þess að tryggja sér viðtalið. Ég gæti vel trúað að það hafi átt við í þessu tilviki.
Allt þetta afsakar hins vegar ekki að spyrill spyrji leiðandi spurningar, eins og Jakob vitnar til.
Sigurður G. Tómasson, frændi minn, telur að hér sé á ferðinni enn ein birtingarmynd æskudýrkunar og ég held að hann hafi nokkuð til síns máls um það, en þar geldur sjónvarpið fyrrgreinds skyldleika við skemmtanabransann. Rétt eins og yfirþyrmandi hressleikinn á flestum útvarpsstöðvunum. (Þó ekki á Útvarpi Sögu!)
Sigurjón Sigurðsson kemur svo með athyglisverða ábendingu um vinnustaði og mannlegt eðli. Ætli við þekkjum það ekki flest, að þegar vel gengur þökkum við það eigin dugnaði og hæfileikum, en þegar miður fer rekjum við það einatt til ytri aðstæðna og óheppni. En síðan er líka hægt að vera rangur maður á röngum tíma, án þess að til komi „fagleg“ sjónarmið eða pólitík. Spyrjið bara Eið Smára.
Andrés Magnússon, 9.9.2007 kl. 04:02
Þetta var mjög athyglisverður pistill hjá þér Andrés. Hann fékk mig a.m.k. til að hugsa aðeins. Ég vil snupra frummælanda athugasemda. Ef menn nenna ekki að lesa allan textan, eiga þeir ekki að opna umræðu um hann á nokkurn hátt!
Endilega haltu áfram á sömu braut. Ég get stutt þig í því...
Sigurjón, 9.9.2007 kl. 05:19
Íslendingar eru ekki svo margir. Maður þekkir mann.......................og annan.
Bergur Thorberg, 9.9.2007 kl. 16:04
Ég hef unun af að lesa pistla þina Andrés. Vel skrifaðir, logískir og kórrétt stafsettir. Fyrir utan það hve glöggur þú ert á hinar hliðarnar sem menn ekki ræða því þeir horfa bara framan á kubbinn en velta honum ekki við.
Svo er svo dásamlega gaman að lesa pistla greindra sem eru vel að sér og einkar vel lesnir. Ég hélt í gamla daga að þú værir bölvaður kjáni. En þá varstu nú bara 15-16 ára. Vel hefur úr þér ræst og líklega hefurðu fengið lunga þess besta frá þeim Áslaugu og Magnúsi.
En ég, menn sem ekki þekkja mig því betur, halda mig enn meiri kjána. Þessi hreinskilni mín fer alveg með mig einn daginn. Ergo
Þóra Kristín er snjöll fréttakona sem hverjum fréttastjóra ætti að vera akkur og sæmd af að hafa í áhöfninni, enda er hún Vestfirðingur. Hins vegar held ég að Denna hafi bara alls ekki líkað við hana, enda er hún þeirrar gerðar að menn í stíl við Steingr.ÓL líkar illa við sjáfstæðar, sterkar ambisius konur.
Þóra er hörð, metnaðarfull, femínisti hrein og bein með ofurskammt af réttlætiskennd.Og svo er hún stór, bæði að utan og innan. Fólk með þá kosti eða galla, einkum af karlkyninu er sjaldnast hrifið af orkumiklum gáfuðum konum. Þeir verða bæði óöruggir og hræddir. Oft eru konur af Þóru gerð ekki metnar af verðleikum og eru oftar en ekki mikið öfundaðar auk þess að þurfa að sæta illu umtali sem engin innistæða er fyrir.
Og þar með hefurðu þetta skjalfast Andrés minn. Ef þú er ekki sammála mér spurðu þá þína fallegu Hödd, þinn ljúfa ektamaka. Veit að hún er sammála mér og bið að heila henni um leið.
Ég er orðin svo gömul í hettunni að ég vel að vera bara sæt og góð en vil um leið að fyrir mér sé borin sú virðing sem mér ber. Ég daðra við stráka á öllum aldri; Þóra myndi held ég aldrei leggjast svo lágt enda það yngri en ég að alvarleikinn er mikilvægur. Ég kýs að hlæja stríða djóka hneyksla og skemmta mér í vinnu. Og niðurstaðan er: engin spurning, betra að taka þessu öllu með tilhlýðilegum virðuleika og sleppa ekki alvarleikanum. Pólitískar fréttir eru alvarleikinn uppmálaður enda alltaf verið að svíkja kjósendur og það þarf að þjarma að þessum skrattakollum.
Þóra Kristín hefur þann háttinn á, ég og kannski þú notum aðrar aðferðir án þess að mat verði lagt á árangurinn.
Og svo má alls ekki gantast mikið í strákunum nema þeir séu skoðunarbræður. Denna og Þóru Krisínu gæti aldrei komið vel saman, svo ólík eru þau að öllu leyti hvar sem á er litið. Lífsskoðanir þeirra er á skjön og ég get ekki hve oft sem ég loka augunum séð þau fyrir mér sem kunningja, vinnufélaga svo ekki sé talað um vini; af og frá.
Þóra er eðlakona í gegn, Stendur hún frænkunni langtum framar í flestu. En eigi að síður hefur okkur frænkum báðum verið sagt upp á þessu árinu; þýðir það ekki að aðeins þeir bestu eru reknir? Ekki sé ég annað í ljósi síðustu atburða. Og fyrirgefðu svo mína langloku; hefði gott af því að fara á Frettabl. aftur og æfa mig í að skrifa knappt.
Lifðu svo heill og haltu áfrm að skrifa langlokur; það er svona tilfinning sem grípur mig þegar ég opna síðuna þina , svipuð og þegar ég fæ þykka bók í hendurnar; tilhlökkun.
Forvitna blaðakonan, 15.9.2007 kl. 16:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.