14.9.2007 | 04:39
Fasisminn og afstæðishyggjan í Femínistalandi
Það er með ólíkindum að lesa um fjörlega umræðu á póstlista femínista, sem Pétur Gunnarsson vekur athygli á, þar sem meint málsmetandi fólk er að taka upp hanskann fyrir eitthvað, sem það nefnir pólitískt íslam og fagnar að sé í sókn.
Nú er í gangi stórsókn heimsvaldasinna gegn múslimalöndum undir yfirskriftinni stríð gegn hryðjuverkum. Það er ekki tilviljun; af því þetta eru olíuauðug lönd og í öðru lagi af því pólitískt íslam er í sókn og er um þessar mundir öflugasta skipulega aflið gegn yfirgangi heimsvaldasinna (og á lítið skylt við hryðjuverk). Nauðug eða viljum þurfum við að taka afstöðu í því stríði. Ef vestrænir femínistar taka ekki skýra afstöðu gegn heimsvaldastefnunni lenda þeir óhjákvæmilega í gíslingu hjá henni.
Þórarinn Hjartarson.
Hið pólitíska íslam er ekkert annað en fasismi, hvort sem menn nenna að brjóta hinn hugmyndafræðilega vaðal til mergjar eða horfa til sögulegrar þróunar íslamismans allt frá Amin Al-Husseini til vorra daga.
Með orðinu fasismi á ég við alræðiskerfi þar sem mannréttindi og lýðræðishefðir eru að engu hafðar í nafni hins almáttuga kerfis, hvort sem markmiðin snúast um baráttu stétta, kynþátta eða trúarbragða. Nú eða kynjanna. Íslamisminn, hið pólitíska íslam hæfir þeirri skilgreiningu algerlega.
Nú grunar mig að þessum óvæntu málsvörum fasismans renni blóðið til skyldunnar aðallega vegna ímugusts á hinni meintu en óljósu heimsvaldastefnu Vesturlanda, sem Þórarinn Hjartarson víkur að. En þeim væri þá kannski hollt að kynna sér viðhorf íslamistanna vina sinna (eða óvina óvina sinna), því barátta þeirra er fyrst og fremst fyrir endurreisn kalífdómsins, sem á að ríkja yfir öllu því svæði, sem múslimar hafa einhverju sinni ráðið, og að lokum heimsbyggðinni allri. Það er nú heimsvaldastefna í lagi!
Íslamisminn kýs vitaskuld að ná þessum markmiðum með sem minnstri fyrirhöfn ef unnt er, en dregur enga dul á að það skuli gert með sverði ef ekki vill betur. Það væri því fróðlegt ef friðarpáfinn Þórarinn Hjartarson, formaður Norðurlandsdeildar Samtaka hernaðarandstæðinga, deildi með okkur skoðunum sínum á markmiðum hins pólitíska íslams við að leggja af veraldlegt lýðræði í Tyrklandi, að lögfesta sharía (lögbók íslams) meðal múslíma á Vesturlöndum þannig að hún verði landslögum æðri eða að endurheimta hinn serkneska hluta Spánar, svo fátt eitt sé nefnt. Skyldi hann telja þeim leyfilegt að beita hervaldi eða öðru ofbeldi til þess að ná þeim markmiðum? Eða fórnarlömbunum leyfilegt að verja sig?
Póstmódernísk nálgun á póstlista
Enn galnara er þó þegar Sóley Tómasdóttir, ritari Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, lætur sig hafa það að afsaka kynbundnar limlestingar vegna þess að ríkjandi hugmyndafræði samfélagsins leyfði þær. Póstmódernisminn og afstæðishyggjan er svo alger þegar umræðan en ekki efnið er aðalatriðið og augljóst að henni finnst verra að einhverjir aðrir en innvígðir og innmúraðir femínistar skuli ræða um þessi mál. Tekur reyndar fram að öðrum þræði sé það sjálfsagt slæmt!
Þetta er áhugaverð umræða. Dáldið sérstakt að karlar, sem alla jafna hafa ekki mikinn áhuga fyrir femínisma skuli taka eftir baráttu þessara kvenna og sjálfsagt er það bæði gott og slæmt.
Svo heldur hún áfram að tönnlast á því að það sé umgjörð umræðunnar sem öllu skipti:
Það hlýtur að vera lykilatriði svo umræðan sé konum í hag og heimsvaldastefnunni síður, að ræða um stöðu kvenna út frá samfélögum og hugmyndakerfum þeirra. [ ] Lykillinn að almennilegri umfjöllun um þetta mál sem önnur hlýtur að vera sá að fjölga konum í áhrifastöðum á fjölmiðlum. Karllæg sýn á heiminn er allt of dómínerandi.
Jájá, the Medium is the Massage og allt það. Lykilsetningin í þessu orðagjálfri er hins vegar sú, að ræða verði um stöðu kvenna út frá samfélögum og hugmyndakerfum þeirra. Var það virkilega?! Er sumsé allt þetta tal hennar um kvenréttindi og hvernig hún vill breyta heiminum algerlega háð umhverfinu og ríkjandi viðhorfum? Að kvenréttindin séu alveg frábær, nema náttúrlega í feðraveldum steinaldartrúarbragða? Að mannréttindi séu ekki algild réttindi allra manna (og konur eru líka menn), heldur mismunandi eftir því hvar og með hverjum fólk elur manninn? Þvílík endemis della!
Mannréttindi eru ekki afstæð
Mannréttindi eru einmitt algild. Þau eru sjálfsögð og ófrávíkjanleg réttindi manna, algerlega burtséð frá ætt, uppruna, trúarbrögðum, kynferði, kynhneigð, háralit eða tónlistarsmekk ef því er að skipta. Þau byggjast á því að mannleg reisn í heild sinni hvíli á því, að allir menn njóti ófrávíkjanlegs réttar til lífs, frelsis og ýmissa gæða annarra. Að viðurkennt sé, að hver maður sé jafnborinn til virðingar og réttinda, er eigi verði af honum tekin, en það sé undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum, eins og segir í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Þar segir ennfremur að séu mannréttindi fyrir borð borin og lítilsvirt, hafi slíkt í för með sér siðlausar athafnir, er ofbjóði samvisku mannkynsins, enda sé æðsta markmið almennings um heim allan að skapa veröld, þar sem menn fái notið málfrelsis, trúfrelsis og óttaleysis um einkalíf og afkomu.
Það er því alveg með ólíkindum að hér á landi fyrirfinnist fólk, sem vill að það sé tekið alvarlega í opinberri umræðu og lætur eins og það eitt standi í fylkingarbrjósti mannréttinda, en heldur því svo fram kinnroðalaust, að einhverjir menningarheimar eða afkimar njóti réttinda eða griða, sem gangi framar mannréttindum. Ætli Sóley mæli fyrir hönd vinstrigræna um þessi mál?
Fordómar og firring
Þessi afstaða hefur þó jafnvel enn alvarlegri blæ en vikið er að að ofan. Með henni er nefnilega tekið undir þau sjónarmið að tiltekin tegund fólks eigi réttindi sín undir því en ekki algildum mannréttindum. Er það þingmannaleið frá kynþáttahyggju eða kynþáttafordómum?
Þrælahaldarar fyrri tíma reyndu að réttlæta athæfi sitt með því að þrælarnir væru tæpast menn, í besta falli börn meðal manna, sem þeir væru að aumka sig yfir og reyna að koma til einhvers þroska. Hver er munurinn á þeim málflutningi og að halda því fram, að um stöðu og réttindi kvenna einhverstaðar í svörtustu Afríku verði ekki rætt nema út frá samfélögum og hugmyndakerfum þeirra? Má ekki réttlæta hvaða viðbjóð sem er á þeim forsendum?
Gamalkunnug stef
Þessi orðræða er ekki ný af nálinni. Bandung-kynslóðin kynnti þessa hugmynd í nafni baráttu gegn heimsvaldastefnu og hún var meira að segja innleidd í ýmsum stofnunum Sameinuðu þjóðanna um tíma. Þar gengu vitaskuld fremstir einræðisherrar vanþroskaheimsins, sem vildu hafa blóðböð sín og mannfyrirlitningu í friði og allt í nafni sérstakrar menningar og einstakra aðstæðna í landi sínu. Þessi söngur hljómar enn, bæði í Arabaheiminum og sums staðar í Afríku, en einnig í löndum á borð við Búrma og Kína. Og nú hljómar hjáróma bakrödd Sóleyjar Tómasdóttur við þann falska kúgunarbrag.
Um allt þetta hefur verið rætt og ritað í nokkru máli á undanförnum árum, en aðallega þó í tengslum við fjölmenningarsamfélagið eða innflytjendavanda (eftir því hvernig menn eru stemmdir í þeirri deilu). Ég leyfi mér hins vegar að benda á framúrskarandi bók um þessi efni, sem gefin var út fyrir 20 árum og því ómenguð af tilfinningablandinni deilu dagsins, en um leið næsta laus við umræðuhefð eftirstríðsáranna. Hún er eftir franska heimspekinginn Alain Finkielkraut og bar nafnið Dauði hugsunarinnar eða La Défaite de la pensée. Ég mæli óhikað með ensku þýðingu bókarinnar, sem fá má á Amazon fyrir um 1.700 krónur.
Femínismi á villigötum
Ég hef aldrei hrifist af femínisma fremur en annarri hugmyndafræði, enda er hugmyndafræði helst til þess fallin að binda menn á klafa kreddu. Hvað þá þegar sjálfskipaðir hugmyndafræðingar eins og Sóley leiða menn á villigötur eða hreinar ógöngur eins og að ofan er greint. Mér er meira að segja meira í nöp við femínisma en marga hugmyndafræði aðra, vegna þess hún miðast við að sækja tilteknum hópi óljós réttindi í stað þess að berjast einfaldlega fyrir mannréttindum allra, óháð því hverrar gerðar maðurinn er að öðru leyti eða í hvaða aðstæður hann hefur ratað. Eins og ég hef áður ritað um tel ég ljóst að þau réttindi þurfi nauðsynlega að vera neikvæð, það er að segja að réttindin feli í sér frelsi frá áþján annarra, en gef hins vegar lítið fyrir hin jákvæðu réttindi, sem jafnan snúast um réttinn til tiltekinna gæða. Hin fyrrnefndu snúa jafnan að einstaklingnum en hin síðarnefndu oftast að hópum. Hópar þurfa engin slík réttindi ef einstaklingarnir njóta hinna og þau eru beinlínis skaðleg, því jákvæð réttindi verða trauðla veitt án þess að vera öðrum íþyngjandi, hvort heldur er hópum eða einstaklingum.
En ég skil afstöðu femínista, sem álíta að konur séu órétti beittar sakir kynferðis síns og því verði þeir að snúa vörn í sókn. Gangi þeim allt í haginn. Það þýðir hins vegar ekki að ég sé eða þurfi að vera sammála öllum greiningum þeirra og lausnum. Og enn síður að ég eða nokkur annar allra síst konur af því að þær séu konur þurfi að gangast undir ok hins pólitíska rétttrúnaðar femínismans, sem er sjálfum sér verstur með því að ganga út frá því að allar konur hljóti að hugsa eins af því að þær eru konur og því megi og eigi að líta á þær sem hóp með eina rödd. Það er nefnilega fasismi líka.
....................
Umræða um umræðu um umræðu
Fyrst maður er fallinn í þá gryfju eftiráhyggjumannanna (póstmódernistanna), að ræða umræðuna til þrautar, er rétt að maður haldi áfram. Ég sé að Sóley hefur áttað sig á því að hún hefur eina ferðina enn verið opinskárri en málstað hennar er framdráttar. Hún telur alvarlegast að sér sé gerð upp vörn fyrir umskurð kvenna og segir að sér sé ekkert fjær, þó hún hafi tekið vörn gerendanna, þar sem þeir væru aðeins fórnarlömb samfélagsins. En hver er þá ábyrgð samfélagsins? Og hvernig er unnt að láta það sæta ábyrgð? Þessi afstaða Sóleyjar er siðlaus með öllu, því með henni eru einstaklingar ævinlega firrtir ábyrgð á gerðum sínum, svo framarlega sem samfélagið lætur athæfið óátalið eða stuðlar að því. Mér hefur skilist á femínistum að það hafi átt við um heimilisofbeldi hér fyrr á árum. Var ábyrgðin á ósköpunum aðeins samfélagsins en ekki hrottanna?
Að öðru leyti telur Sóley sig ekki þurfa að skýra mál sitt frekar og stendur því að líkindum við annað í málflutningi sínum, sem ég tel þó ekki minna alvarlegt eins og fram kom eins og tveimur km ofar í þessari færslu. En mér þykir einnig athyglisverð sú vörn, sem Katrín Anna Guðmundsdóttir, fyrrverandi talskona Femínistafélagsins, setur fram fyrir Sóleyju og raunar sjálft tjáningarfrelsið. Hún er ekki síður en Sóley upptekin af umgjörð umræðunnar og gagnrýnir það að einhverjir skuli dirfast að vitna í orð, sem látin eru falla á lokuðum póstlista. Nú má vissulega taka undir það, að það er ófyrirgefanleg ókurteisi að vitna í einkabréf án leyfis, jafnvel þó maður sé að vitna í skrif sjálfs sín til annars! En póstlisti femínista er hreint ekki einkabréf, eins og Katrín Anna gefur til kynna, heldur póstdreifingarlisti, sem mér skilst að hundruð manna eða þúsundir séu áskrifendur að. Orðsendingar á honum eru ekki innan sérstakra vébanda, þó reglur listans kveði á um að ekki megi birta hann annars staðar. Það má t.d. höfða mál vegna ærumeiðinga á honum og eins hygg ég að dómstólar myndu fallast á að birting úr honum, líkt og Pétur Gunnarsson, Egill Helgason og nú ég höfum leyft okkur, falli innan skilgreiningar á sanngjarnri tilvitnun (e. fair use) í fréttaflutningi eða lýðræðislegri umræðu.
Katrín Anna segir að póstlistinn hafi þennan skilmála til þess að mynda umræðuvettvang, þar sem fólk þorir að tjá skoðanir sínar án ótta við eftirmál utan vallar. Það sjónarmið er gott og gilt, þar sem það á við, en mér finnst það þó hæpið þegar um er að ræða póstlista, þar sem engar takmarkanir eru á þátttöku að skilmálunum undanskildum og bréfriturum er ljóst að verulegur fjöldi manna, sem þeir kunna að öðru leyti lítil skil á, fær orðsendingarnar undir nafni umsvifalaust. Þar fyrir utan er eitthvað sérstaklega galið að halda því fram, að þetta geti orðið til þess að Sóley hætti að þora að tjá skoðanir sínar. Ætli það finnist óttalausari manneskja á Íslandi hvað það varðar? Þess utan er Sóley stjórnmálamaður, sem gegnir trúnaðarstörfum fyrir flokk sinn og Reykvíkinga, og því eiga orð hennar um hvaðeina, annað en einkamálefni, brýnt erindi við almenning.
Þá finnst mér skörin færast upp á bekkinn þegar Katrín Anna heldur því fram að umfjöllun þessi sé tilraun til að þagga niður í einni konu. Femínista. Já, femínista, eins og það sé til refsiþyngingar. Í umfjöllun Péturs og Egils (mín skrif voru ekki kominn út í ljósvakann þegar Katrín Anna skrifaði) var vakin athygli á orðum hennar og skoðunum, sem augljóst er af viðbrögðunum, að mörgum þykja athyglisverð, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Hver lét orðin falla skipti líka máli og því var frá því greint, en þeir voru engan veginn að hjóla í manninn. Egill átti síðan auðvitað sérstakt tilefni til þess að tjá sig um málið, þar sem Sóley hafði séð ástæðu til þess að víkja orðum að honum (að Agli fjarstöddum).
Þetta þykir mér því harla fáfengileg málsvörn. En það er kannski umhugsunarvert, að aðalatriðið er sem fyrr umgjörð umræðunnar fremur en efni hennar. Lýsir það miklu trausti á málstaðnum? Eða hitt, að fólk sem hefur stigið sérstaklega fram á svið þjóðmálaumræðu til þess að hrinda hugsjónum sínum í framkvæmd og breyta heiminum, skuli vilja halda því skýrt aðgreindu, sem það heldur fram á opinberum vettvangi og hinu, sem liggja þarf í þagnargildi og aðeins má ræða í eigin hóp eiðsvarinna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:41 | Facebook
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 39
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 17
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Í upphafsinnlegginu kemur fram að þar skrifar maður sem er ekki áskrifandi að póstlistanum. Hvort hann er yfirlýstur femínisti veit ég heldur ekki.
Annars voru miklu fleiri heldur en Sóley sem tjáðu sig um þetta mál og þarna komu ýmis áhugaverð sjónarmið fram. Vissirðu það?
Hildur (IP-tala skráð) 14.9.2007 kl. 09:41
Nei, ekki var mér nú kunnugt um að Þórarinn væri ekki
áskrifandi að póstlistanum. Sem bendir jafnframt til þess að vettvangurinn sé ekki jafnlokaður og helgt vé og Katrín Anna vildi vera láta. Hitt vissi ég að margir fleiri hefðu haft sig í frammi, en hafði aðeins annarra orð fyrir því og sá þau orðaskipti ekki umfram það, sem Pétur vitnaði í, enda sjálfur hvorki femínisti né áskrifandi. Ég efa ekki að þar hafi margvísleg athyglisverð sjónarmið komið fram, líkt og Pétur raunar vitnar til. En það er þessi dæmalausa vitleysa Sóleyjar, sem ég hnaut um og varð mér tilefni þessa bálks. Auðvitað er maður vanur ýmsu rausi í netheimum, sem maður leiðir þá bara hjá sér. En það á ekki að láta stjórnmálamenn komast um með þess háttar, allra síst þegar um beinlínis skaðlegar skoðanir er að ræða.
Andrés Magnússon, 14.9.2007 kl. 09:56
Femínistapóstlistinn er lokaður vettvangur og það er bannað að birta pósta þaðan án leyfis höfunda. Standi maður fyrir utan hann er hægt að senda til hans -en maður verður að vera skráður til að geta lesið póstana. Reyndar er það ekki bara í reglum póstlistans að það megi ekki vitna í hann nema með leyfi -maður hefði haldið að það væri almenn kurteisi!
Hildur (IP-tala skráð) 14.9.2007 kl. 10:23
Ég rakti það að ofan hvers vegna ég teldi mér vel stætt á að vitna til orða nafntogaðs fólk, sem tekið hefur sér stöðu í opinberri umræðu. Jafnvel þó svo að það hafi talið að þau færu ekki lengra og kannski sérstaklega vegna þess að þau hafa talið að svo væri, því það má vel segja að upp um þau hafi komist. Þau Þórarinn og Sóley eru bæði í stjórnmálastarfi, hvort með sínu lagi, og þegar þau opna hug sinn með þessum hætti er full ástæða til þess að vekja athygli á því. Beinlínis nauðsynlegt.
Andrés Magnússon, 14.9.2007 kl. 18:23
Það er mjög sérkennilegur barnaskapur að halda að stjórnmálamaður (eða -kona) geti tjáð á póstlista sem er með mörg hundrað lesendur án þess að það verði hugsanlega vitnað í ummælin í fjölmiðlum, sérstaklega ef ummælin eru fréttnæm! Reyndar finnst mér það bera vott um ákveðna vanvirðingu við lýðræðislegri umræðu að halda að fjölmiðlamenn (Andrés, Pétur og Egill eru allir "fjölmiðlamenn") megi ekki fjalla nema um sum ummæli sums fólks, og þurfi að fara og fá skriflegt leyfi til þess að vitna í ummæli.
Það sem stjórnmálamenn segja í einkabréfum og eða við tveggja manna tal má auðvitað fá að vera þeirra einkamál - en þegar opinberar persónur tjá sig opinberlega um málefni sem varða okkur öll, höfum við öll, líka ég sem er ekki áskrifandi að þessum póstlista, fullan rétt á að fylgjast með og tjá okkur um það.
Að lokum, ég verð seint ásakaður um að vera málsvari núverandi valdhafa í Washington eða "heimsvaldastefnu" þeirra og "olíustríðs" í Írak, en ég er hjartanlega sammála Andrési: Það er "vinstrimönnum" og "femínustum" á borð við Sóleyju Tómasdóttur til háborinnar og ævarandi skammar að hafa tekið upp hanskann fyrir pólítískt Íslam. Fólk sem ann frelsi, jafnrétti og mannréttinum hlýtur að berjast gegn ÖLLUM pólítískum bókstafstrúarhreyfingum, hvort sem þær byggja á biblíunni eða kóraninum.
FreedomFries, 14.9.2007 kl. 21:02
Þökk skaltu hafa, Andrés, fyrir að nota rétt hugtök.
Í vinahópi mínum eru nokkrir múslimar sem ég leyfi mér að fullyrða að myndu taka undir allt sem þú segir um Islamista hér að ofan.
Það er hins vegar leitt ef "vinstri menn" verða allir settir undir þann hatt að vera stuðningsmenn Islamista vegna orða örfárra manna og kvenna sem hugsanlega (vonandi) hafa ekki kynnt sér málin nægilega vel.
Maður berst ekki gegn heimsvaldastefnu A með því að styðja heimsvaldastefnu B.
Það kallast einfaldlega að pissa í skóinn sinn.
Annars tek ég bara undir það sem frelsiskartaflan segir.
Baldur McQueen (IP-tala skráð) 14.9.2007 kl. 23:40
Djöfull er þessi Laissez faire vitgrannur. Ég benti góðfúslega á að í þessum umræðum heðfðu ýmis fleiri sjónarmið komið fram heldur en ofangreind.
Heldur hann að ofangreindar tilvitnanir séu "málstaður femínista"? En við hverju býst maður af manni sem bloggar á slóðinni capitalist.blog.is...?
Hildur (IP-tala skráð) 15.9.2007 kl. 14:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.