2.1.2008 | 19:25
Einræðustjórnmál
Herra Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, lýsti því yfir í nýársávarpi sínu að væri það vilji Íslendinga, að hann bæri áfram ábyrgð á forsetaembættinu, væri hann fús að axla hana. Um leið kvaðst hann vita af eigin reynslu að enginn gæti innt þann starfa vel af hendi, nema hann nyti trausts meðal þjóðarinnar. Í leiðinni skoraði hann á þjóð sína að setja sparnað í öndvegi, gera aðhald og nýtni að aðalsmerki.
Það er gleðiefni að forseti skuli loks hafa tekið af skarið um framtíðaráform sín. Hitt er annað mál, að forsetinn hefði mátt lýsa nánar fyrir þjóð sinni hvað veldur sinnaskiptum hans. Í aðdraganda forsetakosninga 1996 sagði herra Ólafur Ragnar það skoðun sína að 16 ár væri fulllangur tími í embætti fyrir forseta; sjálfur teldi hann tvö kjörtímabil, í mesta lagi þrjú, hæfilegri tíma fyrir setu forseta í heimi hraðra breytinga, nyti hann stuðnings til þeirrar setu.
Í ljósi mikillar áherslu forsetans á traust þjóðarinnar á embættinu og stuðnings hennar við þann, sem því gegnir, er rétt að rifja upp niðurstöður síðustu forsetakosninga. Í landi þar sem kjörsókn í almennum kosningum er að jafnaði um 85% dröttuðust aðeins tæplega 63% á kjörstað, en herra Ólafur Ragnar fékk ekki nema liðlega 42% atkvæða kosningabærra manna. 58% sátu ýmist heima, skiluðu auðu eða kusu tvo frambjóðendur aðra, annan ókunnan en hinn kunnan að endemum. Þetta gerðist án þess að nokkur sérstök hreyfing hafi beitt sér fyrir því, heldur tók 122.891 kjósandi þá ákvörðun með sjálfum sér, en forsetinn sat áfram á Bessatöðum í krafti 90.662 atkvæða. Voru þau úrslit til marks um traust og stuðning þjóðarinnar?
Ekki verður séð forsetinn hafi nýtt kjörtímabilið, sem nú er að líða, til þess að brúa þessa gjá milli forsetaembættisins og þjóðarinnar. Þvert á móti hefur hirðvæðing embættisins náð nýjum hæðum og engu er líkara en forsetanum þyki á stundum nánast óþægilegt að þurfa að umgangast ótínda alþýðuna. Svo rammt hefur að þessu kveðið, að forsetinn sendi henni tóninn í viðtali, sem náðist við hann á erlendri grundu síðastliðið haust, og sagði að hún yrði veskú að gera það upp við sig hvers konar forseta hún eiginlega vildi, dándimann eins og sig eða einhvern rustíkus til heimabrúks.
Á opinberum vettvangi hefur þetta ákall forsetans eftir umræðu um eðli og inntak embættisins ekki verið fyrirferðarmikið og með yfirlýsingu sinni nú hefur forsetinn nánast útilokað að hún nái nokkru flugi. Hversu fúsir, sem menn eru til þess að ræða forsetaembættið, er hætt við að þeir kinoki sér við þá umræðu úr þessu af ótta við að slíkt verði túlkað sem sérstök gagnrýni á núverandi forseta eða inngrip í kosningabaráttuna. Þetta tvennt er að mestu óskylt, þó varla verði hjá því litið að herra Ólafur Ragnar hefur leynt og ljóst reynt að breyta embættinu að sínu höfði.
Að mörgu leyti hefur þeim áherslum forsetans verið fagnað í viðskiptalífinu. Hann hefur gengið mun lengra en forverar sínir í því að kynna Ísland og íslenskt atvinnulíf erlendis, þá kosti sem bjóðast hér á landi og ekki síður hefur hann lagt sig í líma við að greiða götu íslenskra athafnamanna erlendis. Það framlag skyldi ekki vanmeta, sérstaklega í þeim löndum þar sem stjórnvöld hafa enn öll tögl og hagldir í atvinnu- og þjóðlífi.
Sú elja herra Ólafs Ragnars hefur aftur á móti kallað á ýmsa gagnrýni. Sumir hafa sagt það ósiðlegt að notfæra sér slíkt stjórnarfar til þess að koma íslenskum árum fyrir borð og þannig sé verið að arðræna alþýðu þriðja heimsins með hinum eða þessum hættinum. Aðrir átelja að forsetinn sé nánast vikapiltur íslenskra auðmanna. Persónuleg vinátta hans við suma þeirra og náið samneyti hefur vakið ýmsar spurningar, eins og hvort það sé við hæfi að forseti lýðveldisins og fjölskylda hans þiggi far með einkaþotum sömu manna og hann keppist við að mæra við erlenda kollega sína. Hinna sömu og hafa verið fjárhagslegir bakhjarlar kosningabaráttu hans. Þeim spurningum er enn ósvarað fjórum árum síðar. Ætli þeim verði svarað nú?
Það er tæpast mikil hætta á því, enda gaf forsetinn það út að hann myndi bara ekkert tjá sig um farþágu sína. Slík svör hafa menn þurft að gera sér að góðu áður þegar óþægileg mál ber á góma og embættið hikar ekki við að skýla sér bak við uppskáldaða öryggishagsmuni til þess að verjast svara. En samt hvetur forsetinn til umræðu, þó hann virðist ekki vilja taka þátt í henni sjálfur. Sem er þeim mun einkennilegra, þegar haft er í huga að eftir sneypukosninguna 2004 talaði herra Ólafur Ragnar digurbarkalega um að nú hefði hann fengið skýrt umboð frá þjóðinni (eða a.m.k. þessum 30,91% þjóðarinnar, sem kusu hann) til þess að fylgja eftir ýmsum megináherslum, er hann hafði kynnt á blaðamannafundi. Þar á meðal var að hann myndi taka virkan þátt í samræðum þjóðarinnar um framtíð hennar og mikilvæg verkefni án þess að taka þátt í flokkspólitískri umræðu eða karpi á vettvangi stjórnmálanna. Nú er umdeilanlegt hvort hann hafi efnt seinni liðinn með fullnægjandi hætti, en fyrrihlutann vanrækir hann fullkomlega, því forsetinn hefur aðeins áhuga á einræðum, ekki samræðum.
Hins vegar þarf það ekki að vera þannig. Eftir að forsetinn kallaði eftir umræðunni urðu nokkrir til þess að svara kallinu. Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður vinstrigrænna, gerði það t.d. tæpitungulaust á heimasíðu sinni. Birgir Ármannsson, þingmaður sjálfstæðismanna og forseti Allsherjarnefndar, ræddi þetta við Katrínu Jakobsdóttur, þingmann og varaformann vinstrigrænna, í viðtali á Rás 2 í haust, og þau voru furðusammála um þau úrlausnarefni, sem blöstu viðþegar forsetaembættið væri annars vegar. Nú rétt fyrir áramót ræddu þau Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisfllokksins, og Svandís Svavarsdóttir, oddviti vinstrigrænna í Ráðhúsi Reykjavíkur, mál þessi á síðum Fréttablaðsins og var töluverður samhljómur með þeim þó hvort syngi með sínu nefi. Eins hafa ýmsir bloggarar, sem fylgja frjálslyndum eða Framsóknarflokknum að málum bent á eitt og annað, sem betur mætti fara við búskapinn á Bessastöðum. Ég heyri suma Samfylkingarmenn tala á svipaðan veg, en ég man í svipinn ekki eftir neinum, sem hefur látið það út úr sér á opinberum vettvangi.
Má ekki ljóst vera af þeim viðbrögðum, að stjórnmálamenn eru þess albúnir að brjóta málefni þessi til mergjar? Þeir eru varla einir um að hafa skoðun á málinu; ætli það megi ekki finna einn og einn almúgamann, sem gerir það líka.
Eins og fyrr er rakið hefur herra Ólafur Ragnar breytt embættinu verulega fá því að hann náði fyrst kjöri árið 1996. Ekki síst á það við um ákvörðun hans árið 2004 um að synja fjölmiðlalögunum staðfestingar, en þar tók herra Ólafur Ragnar einn (vonar maður) þá ákvörðun að gerbreyta eðli embættisins, ásýnd og umgjörð og uppskar algert fágæti í lýðræðisríkjum: völd án ábyrgðar.
Alveg burtséð frá skoðunum manna á þeim gerningi og lögmæti hans og alveg burtséð frá því hvar menn standa í afstöðu sinni til breytinga á embættinu, þá hljóta menn að vera á einu máli um að ótækt sé að forsetinn standi einn í slíkum stórræðum. Skoðanakannanir, undirskriftarsafnanir, álit forseta á almenningsáliti, hugdettur hans eða ámóta geta ekki verið grundvöllur slíkra breytinga á æðsta embætti ríkisins og stjórnskipan landsins.
Almenningur þarf að svara ákalli forsetans um opna og lýðræðislega umræðu um eðli embættisins og framtíð, en þá þarf forsetinn líka að gegna eigin kalli og taka þátt í umræðunni. Í því samhengi þarf hann ekki að óttast að þátttaka sín teljist óviðeigandi, því hann hefur gefið kost á sér og orð hans munu skoðast í því ljósi: Að þar hljómi auðmjúk orð frambjóðanda í leit að samræðu við þjóð sína, en ekki einræða óskeikuls og ósnertanlegs þjóðhöfðingja.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:42 | Facebook
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.1.): 93
- Sl. sólarhring: 93
- Sl. viku: 107
- Frá upphafi: 405920
Annað
- Innlit í dag: 50
- Innlit sl. viku: 64
- Gestir í dag: 50
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Æ ég er kominn með nóg af Ólafi,hvernig væri að fá "venjulegan "vel frambærilegan mann sem er með góða með sér.Þar á ég við Þórarinn Eldjárn?
magga (IP-tala skráð) 2.1.2008 kl. 20:14
Stórgóð og vel skrifuð grein, mér finnst nú að það verði að gefa honum prik fyrir að hafa komið embættinu í þá stöðu, að það megi ræða um og gagnrýna forsetan. Ég var alveg búinn að fá upp í kok af þessari endemis mærðarrullu sýnkt og heilagt um Vigdísi Finnbogadóttur og Kristján Eldjárn, bæði hinar mestu ágætis og sómamanneskjur,en ekki samt hafin yfir gagnrýni.
Ari Guðmar Hallgrímsson, 2.1.2008 kl. 22:30
Virkilega góð grein Andrés!
Hjörtur J. Guðmundsson, 3.1.2008 kl. 00:53
Mikið óskaplega hlýtur að fara í taugarnar á ykkur hægri mönnum að sjá fram á að Ólafur stefni á eitt kjörtímabil enn. Þetta er ágæt tölfræði sem þú setur fram ég vil bæta nokkrum punktum við til að setja hana í samhengi.
Þegar Ólafur var kjörinn fyrst 1996 fékk hann 35,11% atkvæðishlutfall af kjósendum á kjörskrá. Þegar hann var svo endurkjörinn 2004 fékk hann 42,45% atkvæðishlutfall af kjósendum á kjörskrá, sem sagt bætti við sig. Til samanburðar fékk Vigdís 30,46% af kjörskránni til að kjósa sig 1980 og var það aðeins 19,11% þjóðarinnar sem þér hlýtur að þykja afskaplega léttvægt gegn 30,91% Ólafs 2004. Svo þegar aðeins 72% dröttuðust á kjörstað 1988 fékk Vigdís um 67% atkvæðishlutfall af kjörskrá eða 46,93% af þjóðinni allri. Sem sagt Vigdís naut aðeins 16% meiri stuðnings þjóðarinnar í umhverfi þar sem embættið var nánast heilagt miðað við hversu umrætt það er í dag vegna ferskra vinda Ólafs og hans síðustu mælingu 2004. Það verður að sjálfsögðu að taka með í reikninginn að Vigdís átti í höggi við aðeins einn keppinaut en Ólafur tvo síðast. Geri ég fastlega ráð fyrir að lendi hann á móti einum muni hann fara í fylgi ca. 67% atkvæðenda á kjörskrá eins og Vigdís 1988. Þess má jafnframt geta að þegar Kristján Eldjárn var kosinn 1968 fékk hann fylgi aðeins 33,56% þjóðarinnar, litlu meira en Ólafur nú. Það varst þú sem byrjaðir þennan samanburð, ekki ég. (Allar tölur fengnar frá Hagstofunni).
Það sem Ólafur sagði fyrir kosningar 1996 um tvö til þrjú kjörtímabil sagði hann að sjálfsögðu sem frambjóðandi og er eðlilegt að þetta sjónarmið sé tekið til endurskoðunar eftir því sem forsetanum vex ásmegin og nýtur reynslu sinnar í starfi. Og ekki síst þegar hann bætir við sig fylgi atkvæðisbærra manna milli kosninga. Hlýtur hann að túlka það sem áframhaldandi ákall um þjónustu hans.
Ég veit ekki betur en að Ólafur hafi gengið ágætlega að skapa umræðu um forsetaembættið en viðbrögðin við áskoruninni frá því í haust voru lítil sem engin og hygg ég að þess vegna hafi hann beðið með yfirlýsinguna um framboð þar til nú. Hann var einfaldlega albúinn að taka þátt í umræðunni en boltinn var ekki gripinn á lofti.
Neitunin gagnvart fjölmiðlalögunum 2004 var náttúrlega bara partur af hans starfi, að fara yfir og samþykkja eða hafna lögum eins og stjórnarskrá segir að forseti eigi að gera. Vigdís ku hafa íhugað að hafna EES-samningnum þannig embættið gegnir sama hlutverki og áður.Og þetta með ábyrgðarlaust vald er náttúrulega þvættingur. Auðvitað ber hann pólitíska ábyrgð gagnvart þjóðinni sem getur hafnað honum í kosningum vegna gjörða hans, og eins með þjóðaratkvæðagreiðslu hvenær sem er ef 3/4 Alþingis fara fram á slíka skv. 11.gr. stjórnarskrárinnar.
Allt hnútukastið í þessari grein ber vitni um gremju hægrimanna yfir að hafa aldrei getað "eignað" sér þetta embætti, þrátt fyrir stuðning Sjálfstæðisflokks og Morgunblaðs við tiltekna frambjóðendur í gegnum tíðina og mannfæð og varnarleysi að því er virðist gagnvart vinsældum Ólafs. Skoða ég grein þína Andrés í þessu ljósi.
Steini Bjarna, 3.1.2008 kl. 03:17
Þegar hann hafnaði lögunum 2004, kom það sér best fyrir ákveðin viðskipta jöfur hér á landi. Hann hafði beitt blöðum og tímaritum fyrir sig óspart.
Síðan líður og bíður. Og sjá Forseti vor er besti vinur og félagi þessa viðkomandi Viðskipta jöfurs. Forsetanum er skutlað til útlanda honum að kostnaðar lausu.
Ég leyfi mér að efast um Forseti vor sé ó hlutdrægur í ákveðnum málum gagnvart ákveðnum mönnum og konum í samfélaginu.
Fannar frá Rifi, 3.1.2008 kl. 10:12
Steini Bjarna ber saman úrslit forsetakosninganna 1996 og 2004, til þess að finna þægilegan samanburð. Og svo gerir hann lítið úr yfirburðasigri frú Vigdísar í kosningunum 1988, á Sigrúnu Þorsteinsdóttur og skautar fram hjá auðu seðlunum í kosningunum 2004, en þau voru það mörg að einhverjir raunsæismenn hefðu kallað það kjaftshögg.
Gunnar Th. Gunnarsson, 4.1.2008 kl. 00:42
Afhverju mega menn ekki skipta um skoðun? Þó að Ólafur hafi einhverntíma sagt að forseti ætti ekki að sitja nema svo og svo lengi, hlýtur maðurinn að mega halda annað í dag.
Einkennilegt hvað hægri sinnaðir einstaklingar skuli alltaf þurfa að hanga á gömlum skoðunum eins og hundar á roði. Þið rísið alltaf geltandi upp á afturlappirnar þegar menn gefa í skyn aðra skoðun en þeir höfðu á unglingsárunum.
Fólk verður að fá að breyta skoðunum sínum eftir aðstæðum hverju sinni - það á ekki að vera eitthvað kappsmál að halda alltaf í gamlar og úreltar skoðanir.
Einar S.G. (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 16:51
Þýskt spakmæli segir "það er sama hvernig maður snýr sér, rassinn er alltaf aftaná".
Einhver Steini Bjarna, sem er að öllum líkindum að dæmi í hópi aðdáenda herra ÓRG, virðist ekki hafa áttað sig á þessum sannindum.
Þegar litið er til forsetakosninganna 2004 er ekki hægt að bera þær saman við neinar aðrar kosningar en 1988. Vigdís hlaut ekki neitt afgerandi fylgi þegar hún var fyrst kjörin en 1988 gerast nokkur undur: Vonlaus frambjóðandi býður sig fram gegn henni og 72,8% fólks á kjörskrá mætir á kjörstað og uþb 93% þeirra kjósa Vigdísi. Eitthvað um 2% seðla voru auðir og ógildir. Þetta má líklega túlka sem svo að þó Vigdís hafi ekki verið draumaforseti allra kjósenda þá hafi þeim mislíkað að e-r jólasveinn væri að bjóða sig fram gegn henni.
Árið 2004 er staðan þessi : Meira og minna vonlausir frambjóðendur (kannski aðallega meira) bjóða sig fram gegn sitjandi forseta. Kjörsókn er 63% og herra ÓRG hlýtur stuðning 42,5% þeirra sem eru á kjörskrá. Það sem einnig var dæmalaust við niðurstöður þessara kosninga var hinn mikli fjöldi auðra atkvæðaseðla. Þessu er ekki hægt að snúa sig frá, fremur en staðsetningu sitjandans á mannslíkamanum.
Hólmgeir Guðmundsson, 4.1.2008 kl. 19:49
Það sem stuðaði mig helst við lestur greinar Andrésar var þessi setning :"...eftir sneypukosninguna 2004 talaði herra Ólafur Ragnar digurbarkalega um að nú hefði hann fengið skýrt umboð frá þjóðinni (eða a.m.k. þessum 30,91% þjóðarinnar, sem kusu hann)...
Andrés kýs að taka með í reikninginn fólk sem er ekki á kjörskrá allt niður í ómálga börn, til að gera sem minnst úr forsetanum. Þannig að ég fór á stúfana til að kanna hversu mikinn raunstuðning þjóðarinnar allrar fyrrverandi forsetar höfðu. Og þetta kom í ljós, svo langt sem það náði. Vigdís sat 8 ár í embætti með einungis 19.11% þjóðarinnar allrar á bakvið og efaðist enginn um að hún hefði skýrt umboð. Nema kannski Andrés sem finnst þetta sjálfsagt afskaplega klént hjá henni. Svo er talað um að þegar rúm 72% sem Andrési finnst sjálfsagt lítil tala "drattast" á kjörstað 1988 hafi Vigdís unnið glæsilegan sigur, með u.þ.b. 93% atkvæða. Vigdís fékk s.s. um 67% stuðning atkvæðisbærra manna, en þá má allt eins segja að hætti Andrésar að heill þriðjungur hafi setið heima, skilað auðu eða kosið hinn frambjóðandann. Úr þessum kosningum fékk Vigdís stuðning tæpra 47% þjóðarinnar allrar. Vigdís er s.s. með hæsta og lægsta gildi. Og svo koma Ólafur Ragnar og Kristján Eldjárn þarna mitt á milli með 30-33%. Þannig að Ólafur er í ágætum félagsskap með sín rúm 30% þjóðarinnar, málgra sem ómálgra, það þarf bara að setja svona tölur í samhengi til að skilja hvað um er rætt.
Auðu seðlana í kosningunum 2004 má rekja til þess að forsetinn var nýbúinn að ganga í gegnum sína mestu eldskírn með því að neita fjölmiðlalögunum og má rekja flesta auða seðla til tapsárra sjálfstæðismanna með buxurnar á hælunum eftir að hafa hopað úr hverju víginu í annað uns allt varð undan að láta og ríkisstjórninni sjálfri var með naumindum bjargað. Ekki óeðlilegt að hægrimenn hafi fengið útrás með þessum hætti, að skila auðu eftir slíka útreið. Forsetinn fékk góða kosningu með rúm 85%.
Steini Bjarna, 5.1.2008 kl. 13:42
Rúm 85 % ? Jájá, ef litið er framhjá þeim tugþúsundum kjósenda sem gerðu sér ferð á kjörstað til þess að skila auðu. Í raun fékk hann 67% greiddra atkvæða, samanborið við 93% Vigdísar.
Hólmgeir Guðmundsson, 5.1.2008 kl. 18:42
Það er vandlifað í þessum heimi.
ég hef gaman af pistlunum hér, en finnst miður þegar menn snúa eða hagræða reikningsdæmunum svona, þá missir maður áhugann á lestrinum.
mér þætti meira varið í að menn setji fram sína skoðun - og beita sanngirni í reikningsaðferðum. Það skerpir bara andann og væri skrifara bara til góðs held ég.
hef þó, að ég held, aldrei kosið forseta... og ekki heldur kostið þann sem fór yfir um þegar einhverjum lögum var hafnað.. (að mig minnir).
Baldvin Kristjánsson, 7.1.2008 kl. 18:03
Þessi 67% greiddra atkvæða sem Ólafur fékk 2004 teljast mjög góður og traustur stuðningur kjósenda í vestrænu lýðræðisríki þar sem munur er gjarnan minni, milli forsetaframbjóðenda í Evrópu og t.d. Ameríku. Svo að Ólafur getur vel við unað með sitt trausta bakland.
Steini Bjarna, 24.1.2008 kl. 04:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.