Leita í fréttum mbl.is

Jobbi frændi biðst forláts

Jakob Frímann Magnússon.

Það mætti halda að það væri að koma prófkjör, svo ótt og títt sem Jakob Frímann Magnússon, frændi minn og tónlistarmaður, kveður sér hljóðs á síðum blaðanna um þessar mundir. Hann skrifar afsökunarbeiðni í Morgunblaðið í dag til handa Gísla Marteini Baldurssyni vegna þeirra orða, sem Össur Skarphéðinsson lét falla í hans garð í alræmdri bloggfærslu á dögunum. Að sögn rennur honum blóðið til skyldunnar þar sem þeir Össur báðir hafi notið þeirrar gæfu að meðtaka kristilegt hugarþel á kné síra Friðriks Friðrikssonar, upphafsmanns KFUM á Íslandi. Kappið hafi hins vegar borið bróður Össur ofurliði.

Af því að ég er gamall KFUM-maður finnst mér þetta fallega gert hjá bróður Jakobi. En af því að ég er einnig gamall skógarmaður — líkt og þeir eru nefndir er dvalist hafa í Vatnaskógi — finnst mér rétt að minnast á annað þessu tengt. Í Vatnaskógi hefur alla tíð verið mikið lagt upp úr því að venja drengi af þeim ljóta ósið að bölva. „Ekki blóta!“ gall við úr öllum áttum ef einhverjum varð það á. Íþróttaiðkun var snar þáttur í Vatnaskógi og þar gilti þetta líka. Blót inni á velli kostaði fríspark. Innan vítateigs kostaði það víti. Ég þarf ekki að orðlengja það að maður vandist hratt og örugglega af því að blóta í Vatnaskógi. Össur mætti rifja það upp.

Hitt er annað mál að Össur hefur alla tíð verið blendinn í trúnni, enda ólst hann að hluta upp inni á gafli hjá mínum góðu grönnum í Aðventkirkjunni. Ég fæ ekki betur séð en að Jobbi frændi sé líka orðinn blendinn í sinni trú:

Í þeim ljúfa vangadansi sem við bróðir Össur stígum við íhaldið um þessar mundir, í sölum bæði ríkis og borgar, hljótum við að framvegis að temja okkur betra íhald, þ.e. að læra að halda betur í okkur, a.m.k. á meðan dansinn er stiginn.

Það var og. Ég áttaði mig ekki á því að Jakob ætti aðild að dansinum. Var hann ekki í efsta sæti á framboðslista Íslandshreyfingarinnar í Suðvesturkjördæmi í kosningunum síðasta vor? Af þessum orðum er ekki annað að sjá en að hann sé kominn „heim“ til Samfylkingarinnar aftur. Eða fór hann kannski aldrei?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

"Áfram Kristsmenn, Krossmenn, Kóngsmenn erum vér" sungum við KFUM menn einum rómi í gamla daga á Amtmannsstígnum.

Júlíus Valsson, 23.2.2008 kl. 12:33

2 identicon

Össur stígur vikivakann í sölum Alþingis en Jakob ærlegur stígur hann í borginni. Og báðir ganga þeir á Guðs vegum. Þeir eru því allir vinir, Össur, Jakob ærlegur, Guð og Gísli Marteinn. Sá er vinur sem til vamms segir og eftir því sem skammirnar eru meiri, því meiri er vináttan.

Menn skamma hundspottin sín oft og iðulega en enginn er meiri vinur mannsins en einmitt hundurinn og það hvarflar ekki að honum að taka skammirnar óstinnt upp.

Steini Briem (IP-tala skráð) 23.2.2008 kl. 13:17

3 Smámynd: Magnús V. Skúlason

Það má geta þess að eftir að hóf störf sem foringi í Vatnaskógi 17 ára gamall, þá hef ég ekki blótað síðan og það er enn dæmd aukaspyrna í „Svínadalsdeildinni“ ef menn blóta á vellinum og jafnvel veitt áminning ef þurfa þykir!

Magnús V. Skúlason, 25.2.2008 kl. 10:29

4 identicon

Jakob F. Magnusson situr med Gisla Marteini og co i nefndum borgarinnar ad beidni borgarstjorans Olafs F.Magnussonar, Thannig er tilkominn vangadans jfm og os i solum baedi rikis og borgar :)

Jakob Frimann Magnusson (IP-tala skráð) 25.2.2008 kl. 15:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband