17.11.2006 | 00:48
Íslenskudagurinn
Dagur íslenskrar tungu er nýliðinn. Jafnvel nafngiftin felur í sér þá upphafningu, sem ég held að reynist málinu síst til framdráttar. Eða finnst einhverjum (sem ekki drekkur reglulega te í Norræna húsinu, gengur í fótlaga skóm eða heldur að hann sé skáld) uppskrúfað orðfar aðlaðandi? Mér heyrðist raunar í útvarpsviðtali við Njörð P. Njarðvík, hinn nýbakaða handhafa Jónasarbikarsins í íslensku innanhúss, að hann væri fremur á því.
Ekki er það betra stofnanamálið, sem furðumargir virðast ímynda sér að geri texta á einhvern hátt virðulegri, nú eða faglegri eða bara eitthvað annað en ótínd alþýðan notar í fánýti sínu dags daglega. Þeir skriffinnar lifa í veröld þar sem fólk fer á bifreiðum í söluturna til þess að leigja myndbönd, en hér á Íslandi látum við okkur bíla, sjoppur og spólur duga. Ef maður fyndi óhugnaðinn aðeins í rituðu máli hjá opinberum starfsmönnum væri ástandið kannski þolandi, en einkageirinn fylgdi illu heilli eftir og nú verð ég æ oftar var við þetta hrognamál hjá Jóni og Gunnu, sem maður hefði haldið að væri ekki í smithættu. Það notar ósköpin ekki hversdags, en ég tek eftir því þegar önnur hver sjónvarpsstöðin stingur hljóðnema upp í aumingja fólkið til þess að spyrja frétta eða álits. Þá setja margir sig í einhverjar stellingar, fara að tala um aðila og ferli frekar en fólk og aðferðir.
Alla mína ævi hef ég þurft að hlusta á fólk, sem hefur haft áhyggjur af hnignun íslenskunnar, en samt verð ég nú ekki var við annað en að flest fólk geti talað hana skammlaust þegar á þarf að halda. Sérstaklega þegar það skammast (sem er kannski ástæðan fyrir því hve mörgum finnst Steingrímur J. Sigfússon bera af öðrum þingmönnum í málnotkun að ég segi ekki málflutningi!). Í fyrrnefndu viðtali nefndi Njörður, að hann hefði einna mestar áhyggjur af skeytingarleysi um málið. Ég held hann hafi rangt fyrir sér, flestir sem ég þekki og hitti hafa áhuga á málinu og er sæmilega umhugað um að tala gott mál. En kannski letin komi við sögu, menn nenna ekki alltaf að vanda sig. Kannski það sé skeytingarleysi eða vanræksla.
Eitt tíndi Njörður þó til, sem ég var honum hjartanlega sammála um, en það var að orðaforði hefði jafnt og þétt rýrnað á undanförnum áratugum. Hann rakti það helst til þess að menn læsu ekki jafnmikið og áður og það held ég að sé líka hárrétt hjá honum. En ég ætla ekki að kenna síbyljunni, erlendu sjónvarpsefni eða tölvuleikjum um. Þarna hefur menntakerfið nefnilega brugðist í einu og öllu. Hvað þurfa grunnskólabörn að lesa margar bækur á skólagöngu sinni? Alvörubækur ekki námsbækur á kjarnyrtri og góðri íslensku? Ætli þær séu ekki 3-4 alls og þá ekki fyrr en undir lok grunnskóla. Í stað þess, að kenna börnum málið með því að lesa, skrifa og tala, er dýrmætustu námsárunum gereytt í málfræði, setningafræði og ámóta ömurð. Er einhver viðvarandi skortur á málfræðingum, sem mér er ókunnugt um?
Menn tala varla um íslenskuna án þess að minnast á aðsteðjandi hættur og þá er enskan vinsælasti ógnvaldurinn. Ég hef raunar alltaf verið fremur efins um þá tilgátu og held að hættulegasta málmengunin komi enn frá dönsku eða skandinavísku. Vissulega sletta menn mikið á ensku, en þær slettur eru alltaf augljósir aðskotahlutir, norrænu áhrifin eru hins vegar lymskulegri og leynast betur, enda skyldleikinn miklu meiri. Ensku áhrifin eru hins vegar að aukast og sérstaklega á það við skriffinnamálið, sem ég vék að orðum að ofan, en það ber óneitanlega sterkan keim lélegra þýðinga úr ensku. Nafnorðastíllinn er sjálfsagt að mestu þaðan kominn líka.
En eitt til má nefna illt um enskuna og það þar sem síst skyldi. Einar skáld Benediktsson kvaðst skilja, að orð væri á Íslandi til um allt, sem væri hugsað á jörðu, en auðvitað var það ofmælt. Upp á síðkastið hafa hins vegar margir reynt að gera þetta að sannindum með því að smíða orð um sérhvert hugtak og hlut. Þar eru fremstar í flokki íðyrðanefndir, málstöðvar og þess háttar þing, en enskan sem er hið alþjóðlega tungumál tækni og vísinda er ljóslega fyrirmyndin. En þetta starf er einatt á miklum misskilningi byggt, misskilningi á eðli málsins. Oddur biskup Einarsson hafði áttað sig betur á þessu í Íslandslýsingu sinni í upphafi 17. aldar:
Ekki var heldur ætlunin að fjölyrða um auðgi og frjósemi þessarar tungu, svo auðvelt sem er að sýna fram á það, því einu og sama orðtakinu eða orðatiltækinu má í íslensku umbreyta með margvíslegu móti, og er það ekki síst á færi þeirra, sem handgengnir eru hinni fornu smekkvísi í máli, sem næg verksummerki sjást um í handritum. Er þetta að þakka geysilegum fjölda samheita og undraverðri fjölbreytni í óeiginlegum merkingum orða og talshátta, svo að ef tekið er nákvæmt tillit til orð- og setningarskipunar, verður mál vort alls ekki talið óheflað eða losaralegt.
Þorsteinn heitinn Gylfason, sem var afbragðsþýðandi og íslenskumaður auk alls hins, sem honum var til lista lagt, kunni einnig á þessu skil. Sumsé að íslenskan þarf ekki orð um hvern hlut, því merking orðanna felst ekki síður í samhengi þeirra. Þannig gefum við þeim merkingu eftir þörfum fremur en að þurfa að eiga eitt og einstakt orð yfir sérhvern hlut og hugtak. Kaffibolli breytist þannig í öskubolla með því einu að drepið sé í sígarettu í honum. Allir skilja orðið, en ætli nokkrum detti í hug að senda seðil um það til Orðabókar Háskólans?
Þess vegna finnst mér merkilegt að Námsgagnastofnun gengst fyrir samkeppni um nýyrðasmíð, þar sem auglýst er eftir íslenskum orðum yfir tíu ensk hugtök, sem talsvert er slett hér. Ég fæ ekki séð að nokkurt þeirra feli í sér merkingu, sem ekki er þegar til orð yfir á íslensku, sum eru þegar í notkun, önnur eru yfirfærðrar merkingar en myndu hæglega skiljast. Að neðan gef ég dæmi í samræmi við forskrift Námsgagnastofnunar, en það er svo sem skemmtilegt að stofnunin gefur engar skýringar á orðunum umfram samhengið!
casual Hann var í mjög hversdags fatnaði
crossover Músíkin hans er flakk milli popps og rokks
date Ég var að hitta hana lengi
fusion Á hótelinu er samsuðu-eldhús
nick Ég sendi þér nefnið mitt á MSN
outlet Ég fór í lagerbúð í Bandaríkjunum
skate Við skautuðum á Ingólfstorgi í gær
surf Ég þvældist um á Netinu í gær
trendsetter Hún er mikill hvatamaður í tískunni
wannabe Hann er uppskafnings-rokkstjarna
Hitt er svo annað mál hvort nokkurt ofangreindra orða nái fótfestu í daglegu máli, enda eru flestar sletturnar á jaðrinum fyrir. Flestir kjósa að nota sletturnar frekar íslensk orð til þess að gefa til kynna að þeir séu sér á parti, tiltekinnar kynslóðar eða ámóta. Og er það ekki allt í lagi? Þegar ég var unglingur tíðkuðust alls kyns orð, sem fáir myndu nota núna kinnroðalaust. En við vildum einmitt temja okkur annað tungutak en við áttum að venjast af foreldrum okkar og kennurum. Plus ça change og allt það.
Njörður P. Njarðvík fær verðlaun Jónasar Hallgrímssonar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Menning og listir | Breytt 24.11.2006 kl. 03:49 | Facebook
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 39
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 17
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Vandaður pistill.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 17.11.2006 kl. 11:02
Andrés ... það leigir held ég enginn spólur lengur - bara dívídí
Kristján G. Arngrímsson, 18.11.2006 kl. 21:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.