27.6.2008 | 11:02
Lærdómar sögunnar
Síðastliðinn sunnudag varð Steingrímur Hermannsson, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir því að verða áttræður og af því tilefni var boðað til málþings um foringjann. Hann vann sér til frægðar að verða þrisvar forsætisráðherra og nafn hans mun lengi uppi fyrir að segja það skýrt í stefnuræðu sinni árið 1988 að eitt meginatriðið í stefnu ríkisstjórnar hans væri að hverfa frá almennt viðurkenndum, vestrænum aðferðum við stjórn efnahagsmála. Hér á landi giltu einhver önnur efnahagslögmál.
Afleiðingar hagfræðikenninga Steingríms þekkja menn mætavel. Undir hans stjórn komst verðbólgan í 37% árið 1985, en með óvinsælum aðgerðum tókst honum þó að þoka henni niður í 20-30%. Ekki leið þó á löngu þar til í stefndi að ríkisstjórnin missti öll tök á hagstjórninni. Árið 1989 fundust til allrar hamingju menn utan hennar, utan stjórnmálanna raunar, sem þóttust eygja leið út út ógöngunum og tóku frumkvæðið í þeim efnum, vegna þess að ríkisstjórnin var vonlaus.
Þeir sköpuðu þjóðarsátt.
Til þessa hefur ekki mikið verið um það deilt hvernig þjóðarsáttin varð til og hvernig úr henni vannst. Auðvitað kom ríkisstjórnin að þjóðarsáttinni. Ýmsar aðgerðir henni tengdar voru á forræði hins opinbera. En hún áttu þar ekkert frumkvæði, heldur stóð frammi fyrir orðnum hlut og lét til leiðast. Þeir, sem muna þessa tíma eða nenna að rýna í samtímaheimildir, vita hins vegar að ríkisstjórnin var hreint ekkert áhugasöm um þessa tilraun og því má jafnvel halda fram að stjórnin hafi nánast klúðrað henni. Allt fór það þó vel að lokum.
Þess vegna kom mörgum á óvart að á fyrrnefndu málþingi til heiðurs Steingrími steig herra Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, á stokk og lýsti þessum þætti lýðveldissögunnar með nokkuð öðrum hætti en menn hafa átt að venjast. Aðalstef ræðu forsetans (fyrir utan almennt hól um feril afmælisbarnsins), var sú frumlega tilgáta að þjóðarsáttin hafi verið smíð þáverandi ríkisstjórnar, en vegna göfuglyndis og stjórnvisku Steingríms hafi hann leyft aðilum vinnumarkaðarins að eiga heiðurinn. Þessi tilgáta er hrein firra. Það var öllum ljóst hvernig í þessum málum lá þá, sagnfræðingar hafa um þau fjallað síðan og einhverjir stjórnmálafræðingar víst líka. Guðmundur Magnússon sagnfræðingur, sem ritaði bókina Frá kreppu til þjóðarsáttar (2004), greinir frá því á bloggi sínu að hann hafi í rannsóknarskyni rætt við stjórnmálamenn, embættismenn og forystumenn á vinnumarkaði á tíma þjóðarsáttar:
Niðurstaðan var afdráttarlaus og kom ekki óvart. Allt frumkvæði að samningunum, gerð þeirra og eftirfylgni var verk stéttarsamtakanna. Ríkisstjórnin var í hlutverki þiggjanda í því ferli öllu.
Nú er tilgangur forsetans með þessum tilbrigðum við söguna svo sem öllum ljós.
Herra Ólafur Ragnar var fjármálaráðherra í þessari sömu ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar þegar þjóðarsáttarsamningarnir voru gerðir í febrúar 1990. Hann var því aðeins öðrum þræði að skjalla Steingrím Hermannsson; fyrst og fremst var hann að baða sjálfan sig í dýrðarljóma þjóðarsáttarinnar. Fullkomlega óverðskuldað. Og þó.
Gleymum ekki því að herra Ólafur Ragnar var sjálfsagt óvinsælasti fjármálaráðherra Íslandssögunnar. Sem slíkur átti hann drjúgan þátt í því með Steingrími að í þvílíkt óefni var komið, að aðilar vinnumarkaðarins sáu sig knúna til þess að fella áratugalangar deilur, taka höndum saman og gera það, sem ríkisstjórnin var fullkomlega vanmáttug til. En við hyllum ekki brennuvarginn fyrir lykilhlutverk hans í hetjudáð slökkviliðsins.
Við þetta er staldrað vegna þess að við þurfum að gæta þess að sagan sé ekki afbökuð og fölsuð. Þó ekki væri nema til þess að mönnum sé unnt af læra af henni, því vanræki menn það eru þeir dæmdir til þess að endurtaka hana. Einkum þó mistökin. En það er líka eitthvað einstaklega aumt við það að reyna að eigna sér heiður með þessum hætti og um leið láta eins og hinir raunverulegu frumkvöðlar hafi fyrir náð Steingríms leyfst að eiga heiðurinn. Hvað er forsetinn að gefa í skyn um þá?
Hvaða lærdóma getum við dregið af þjóðarsáttinni? Ég átti þess kost að ræða við Einar Odd Kristjánsson á liðnu sumri, skömmu áður en hann varð bráðkvaddur. Þá þegar voru nýjar blikur á lofti í efnahagsmálunum, niðurskurður fiskveiðiheimilda blasti við og alþjóðlegir lánsfjármarkaðir farnir að nötra. Hann lagði ofuráherslu á að verðbólgunni mætti ekki hleypa af stað aftur. Nánast allt væri betra. En ef hún nú léti kræla á sér, þá mætti alls ekki gera illt verra með því að hefja á ný víxldans kaupgjalds og verðlags. Á sá lærdómur ekki erindi í dag?
Einar Oddur var ekki stærilátur maður og hann lét sér í léttu rúmi liggja þó einhverjir væru að reyna að eigna sér þjóðarsáttina eftir á. Þeim líður betur að muna þetta svona, sagði hann. Máske, en þar með er ekki sagt að við eigum að líða þeim það. Þó ekki væri nema til þess að geta dregið rétta lærdóma af réttri sögu.
......................
Grein þessi birtist upphaflega í Viðskiptablaðinu 26. VI. 2008.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:52 | Facebook
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 39
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 17
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þetta er mjög þörf áminning og góð upprifjun hjá Andrési og Guðmundi Magnússyni reyndar líka. Sá sem þetta komment sendir kom svolítið að þessum málum í gegn um tiltekin samtök á vinnumarkaði og getur staðfest það sem Andrés segir hér að ofan. Við erum ansi mörg af minni kynslóð - þótt okkur fari ört fækkandi um þessar mundir - sem vitum betur og erum ósátt við svona sagnfræðifalsanir á Kremlarvísu.
Ellismellur (IP-tala skráð) 27.6.2008 kl. 11:42
Mergurinn málsins er þessi. Ærustuld á ekki að líða.Farmannageip og skrumsögur í afmælisræðum ekki heldur.Sérhver skrökvís jarðvöðull og mörður á að vera varkár. Annars hnoða öðlingar sannleikanum ofan í hann.
Róbert Trausti Árnason (IP-tala skráð) 27.6.2008 kl. 15:31
Eru til einhver dæmi um grófari sögufalsanir hér á landi en þetta hjá Hr. Ólafi?
Er næsta stig að skipta út hausunum á myndinni. Var það ekki tíðkað í Sovétríknunum sálugu.
Landfari, 27.6.2008 kl. 16:46
Sæll Andrés
Frábær pistill hjá þér eins og allt sem þú skrifar.
Mér finnst samt sem áður - og ég er búinn að vera sjálfstæðismaður í 30 ár - okkar flokkur vera svo lítið svipaðrar skoðunar í dag, þ.e.a.s. að við séum eitthvað "spes" í öllu tilliti og kannski erum við það?
Við erum búnir að koma upp hér landi svona nokkurskonar Monopoly efnahagskerfi. Á þessu Íslandopoly fer maður hring eftir hring og lendir í ýmsum ævintýrum. Maður lendir á reitnum "Íslenskur viðskiptabanki" og borgar 18% yfirdráttarvexti (í öðrum löndum lentu menn í fangelsi fyrir slíka okurvexti), síðan lendir maður á reitnum "Borgaðu tvöfalt matvælaverð miðað við annars staðar í Evrópu", Þá heldur maður að heppnin hljóti nú að fara að vera með manni, en þá lendir maður aftur í að draga spjald "40% gengisfall og bílalánið þitt hækkar um 700.000 krónur"!
Kannski hafði Steingímur bara á réttu að standa?
Guðbjörn Guðbjörnsson, 27.6.2008 kl. 21:35
Því má svo bæta við að mér skilst að þrír stjórnmálamenn hafi tjáð sig í Morgunblaðinu fyrir skömmu og lofað síðustu vinstristjórn fyrir að hafa átt heiðurinn að þjóðarsáttinni. Þetta munu hafa verið þeir Steingrímur J. Sigfússon, Jón Baldvin Hannibalsson og Guðni Ágústsson. Þeir tveir fyrrnefndu voru jú ráðherrar í þessari stjórn og eru því líkt og Ólafur Ragnar að klappa sér sjálfum á bakið með skrifum sínum, óverðskuldað að sjálfsögðu. Guðni hefur síðan lengi verið leiðtogi svokallaðs Steingrímsarms í Framsóknarflokknum eins og þekkt er.
Hjörtur J. Guðmundsson, 28.6.2008 kl. 09:14
Guðbjörn:
Það er svo sannarlega rétt hjá þér að það þarf að laga ýmsilegt í okkar efnahagsmálum. En það er þó svo engan veginn bundið við okkur. Um allan heim eru menn að glíma við mikil efnahagsvandamál og jafnvel mun verri en okkar eins og alkunna er. Víða innan Evrópusambandsins er húsnæðisverð að hrynja, bæði innan evrusvæðisins svo sem á Spáni og á Írlandi en einnig í Bretlandi sem ekki er með evruna. Sama er að segja t.a.m. um Bandaríkin. Laun eru óvíða hærri en hér á landi og það er leitun að ríkjum þar sem atvinnuleysi hefur verið minna en hér á landi. Í Evrópusambandinu hefur víða verið viðvarandi fjöldaatvinnuleysi um árabil og jafnvel lengur en það, hátt í 10% og stundum farið yfir það. Atvinnuleysi ungs fólks í Frakklandi er t.d. um 20%. Og svona mætti halda áfram.
Hjörtur J. Guðmundsson, 28.6.2008 kl. 09:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.