Leita í fréttum mbl.is

Varnarmálin

Það er athyglisvert útspilið í öryggis- og varnarmálum landsins, sem kynnt er í sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Þar skrifar Ólafur Þ. Stephensen, aðstoðarritstjóri, margra síðna hlemm, þar sem norskir embættismenn láta í ljós áhuga á að treysta varnir Íslands verði eftir slíku samstarfi leitað, en taka fram að sjálfir muni Norðmenn ekki eiga frumkvæði að því.

Það var og. Aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins var af tilviljun staddur í Ósló og hitti af ámóta tilviljun einmitt þá menn í norska varnarsamfélaginu, sem aðspurðir sögðu allir, að þeim myndi finnast það skynsamlegt — ef íslensk stjórnvöld skyldu af tilviljun brydda upp á slíku — að tekið yrði upp varnasamstarf milli frændþjóðanna, tvíhliða eða innan vébanda Atlantshafsbandalagsins. Þennan áhuga Norðmanna má að miklu leyti rekja til stóraukinna siglinga risavaxinna gasflutningaskipa frá auðlindum í Barentshafi yfir hina djúpu Íslands ála, en þeir telja að lokun varnastöðvarinnar í Keflavík hafa verið óráð hjá Bandaríkjastjórn og lýsa miklum skilningi á áhyggjum íslenskra stjórnvalda á því hvernig varnahagsmunum landsins verði best borgið.

Út af fyrir sig rímar þetta ágætlega við yfirlýsingar Valgerðar Sverrisdóttur, utanríkisráðherra, um hvernig Íslendingar þurfi í auknum mæli að leita samstarfs við Evrópuþjóðir um varnir landsins. Það er svo annað mál hversu skynsamlegar þær eru. Eða þessi tillaga Norðmanna, sem þeir koma svo lymskulega á framfæri við Morgunblaðið. Nánast af tilviljun.

Raunar er hún sjálfsagt afar skynsamleg út frá norskum hagsmunum. En það er engan veginn sjálfgefið að hún sé vænlegasti kosturinn fyrir Íslendinga.

Áður en lengra er haldið er rétt að geta þess, að ég er svo mikill sjálfstæðismaður (og ekki aðeins í flokkspólitískum skilningi orðsins) og um leið langminnugur íhaldsmaður í aðra röndina, að ég má þó ekki væri nema af sögulegum ástæðum vart til þess hugsa að Norðmenn eða Danir taki að sér varnir Íslands. Aðra þekki ég svo, sem þykir yfirlæti Norðmanna í garð sinna smáu og fáu frænda hér á Sagaøen alveg nóg fyrir, þó Mare norvegica teygi sig ekki frá Norðurheimsskauti suður að Skotlandi og vestur fyrir Grænland.

En það má líka spyrja hvort Norðmenn hafi bolmagn til þess að halda úti trúverðugum varnarviðbúnaði í samstarfi við Íslendinga hér á norðurhjara. Þar í landi — eins og Ólafur minnist á í grein sinni — hefur verið talsverð umræða um að fjárframlög til hersins hafi dregist svo saman, að á mörkunum sé að hann geti sinn varnarskyldum sínum í Noregi, hvað þá er fjær dregur út í haf. En hvað eftirlit og öryggi sjófarenda er aukið samstarf við Norðmenn tvímælalaust til mikilla bóta, enda er sjálfsagt engin þjóð, sem hefur náð að samþætta varnaviðbúnað sinn og borgaralega innviði með jafnskilvirkum hætti.

Magnist viðsjár hins vegar á Norðurhöfum munu Norðmenn vafalaust hafa nóg með sig og sína. Norðmennirnir sögðust enda ekki geta ábyrgst varnir Íslands, þó þeir efldu eftirlit sitt í nágrenninu. Eins má alveg setja fram spurningar um baráttuþrek þeirra og fælingarmátt, jafnvel þó svo þeir vildu skuldbinda sig til þess að koma Íslendingum til aðstoðar á hættutímum umfram það, sem Atlantshafssáttmálinn býður. Norski heraflinn og þá ekki síst flugherinn er að vísu í þann veginn að ganga í gegnum mestu endurnýjun sína í þrjá áratugi, en hún mun taka tíma. Talið er að hún muni taka um tvo áratugi og kosta hátt í tvær billjónir íslenskra króna (segi og skrifa billjónir, ekki milljarða). Fyrstu freigátunni af fimm hátæknifreigátum (nefndum eftir Friðþjófi Nansen) var hleypt af stokkunum árið 2004 og tekin í gagnið í sumar, en að öðru leyti miðast uppbygging flotans að mestu við strandvarnir (sjöundu lengstu strandlengju heims) og kafbátaleit.

Hins vegar hafa Norðmenn verið að fresta ákvörðun um endurnýjun flugflotans um nokkra hríð, F-16 vélar þeirra eru komnar til ára sinna (aðeins 58 eru í notkun af hinum 72, sem upphaflega voru keyptar), en valið um arftakana stendur aðallega milli Eurofighter og F-35 Lightning II, þó Saab Gripen og Dassault Rafaele gætu líka komið til greina. Það val gæti skipt miklu máli í þessu samhengi, því Eurofighter og Gripen rétt ná að fljúga frá flugherstöðinni í Ørland, skammt frá Þrándheimi, og lenda á síðustu dropunum á Egilsstöðum, meðan F-35 Lightning II og Dassault Rafaele ná að athafna sig yfir landinu í um 10-30 mínútur áður en þær þurfa að lenda á Egilstöðum eða í Keflavík. Norski flugherinn á ekki tankvélar til eldneytisgjafar á flugi, hvað þá flugmóðurskip, svo mikið er í húfi að flugvellirnir á Íslandi séu opnir á ögurstundu, sem er alls ekki gefið þó ekki væri nema vegna veðurskilyrða. Þá þyrfti jafnvel langdrægasta vélin, F-35, að snúa til baka nokkru áður en hún kæmi að austurströnd Íslands. Ýmis teikn eru á lofti um að val Norðmanna kunni að velta á því hvaða vél notar mest af norskri tækni og tækjabúnaði og þar koma skammdrægari vélarnar tvær frekar til greina. Öryggi Íslands kynni því að velta á því hvað gömlu F-16 vélarnar endast lengi, því þær eru mun langdrægari en nýju vélarnar og geta hæglega flogið til Íslands á 40 mínútum, háð loftbardaga í kortér og verið komnar heim fyrir kaffi. Norðmenn ráðgera að leggja þeim á næsta áratug.

En ég velti fyrir mér hvort ekki væri nær að reifa málið við aðra granna og bandamenn, sem hafa það fram yfir Norðmenn að eiga herflugvelli í talsvert skemmri fjarlægð frá Íslandi, vera flotaveldi auk þess að hafa á sínum snærum einn öflugasta atvinnuher heims, sem lætur sér fátt fyrir brjósti brenna? Breski herinn er vissulega býsna þaninn þessa dagana, en margt bendir til þess að svo verði ekki öllu lengur. Þeir munu hins vegar — ólíkt því sem Norðmenn hafa nú gert — ekki stinga upp á slíku samstarfi að fyrra bragði og jafnframt munu þeir hafa meiri áhyggjur af kostnaðinum. En væri ekki rétt að hreyfa því?

Því enda þótt það sé alveg hárrétt, sem ítrekað hefur verið bent á undanfarin misseri, að engin bein hernaðarógn steðjar að Íslandi um þessar mundir á sama tíma og við blasa annars konar verkefni á sviði öryggis og eftirlits umhverfis landið, þá þýðir það ekki að menn geti leyft sér að láta varnaviðbúnað lönd og leið. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, bendir á í góðum pistli á heimasíðu sinni, að nú þegar sé verið að stórefla Landhelgisgæsluna í ljósi breyttra aðstæðna og víðfeðmari verkefna. En hann spyr líka hvers vegna Ólafur hafi ekki spurt viðmælendur sína hinnar augljósu og rökréttu spurningar hvort Íslendingar þyrftu e.t.v. að sinna landvörnum sínum sjálfir að einhverju leyti. Eftirlátum ráðherranum lokaorðin:

Norðmennirnir voru ekki spurðir að því, hvort Íslendingar ættu að stofna her, af því að við höfum ekki sjálf burði til að ræða málið hér heima fyrir. Á opinberum vettvangi og meðal stjórnmálamanna hafa umræður um þennan þátt íslenskra varna aldrei komist af flissstiginu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband