Leita í fréttum mbl.is

Til upprifjunar

Um daginn var útgáfu 24 stunda hætt enda gömlu erkióvinirnir Morgunblaðið og Fréttablaðið við það að ganga í það heilaga og ófært að hafa elju annars þeirra áfram í húsinu. Af þeim sökum er Morgunblaðið sneisafullt af blaðamönnum þessa dagana, þó mig gruni að þeim muni nokkuð fækka í dag. Hvort af hjónabandinu verður er svo annað mál, samkeppnisyfirvöld eiga eftir að blessa það áður en það verður gilt. Kannski ég leggi orð í belg um það síðar.

Í tilefni af endalokum 24 stunda fór að gramsa í skrifum mínum fyrir Blaðið, sem seinna varð 24 stundir, en þar annaðist ég einkum skoðanaskrif ýmis. Þar fann ég m.a. eftirfarandi forystugrein, sem þar birtist 29. ágúst 2006:

Traust og siðferði

Undraskjótur vöxtur íslensks viðskipta- og fjármálalífs hefur verið þjóðfélaginu öllu mikil lyftistöng, en á sama tíma hefur það valdið ýmsum áhyggjum, einmitt vegna þess hve hratt þessar breytingar hafa orðið. Lím samfélagsins er traust manna á meðal og hið sama á við um viðskiptalífið, en á það kann að hafa hallað. Í hinu nýja íslenska hagkerfi eru leikreglurnar ekki öllum ljósar, skjótfenginn gróði sumra hefur valdið öðrum uggi í brjósti og gegnsæi á markaði er hér einatt fremur gruggugt.

Starfsemi banka og fjármálafyrirtækja hefur til dæmis þanist svo hratt út að Fjármálaeftirlitið hefur ekki fylgt henni eftir og draga má í efa að það hafi styrk til þess að veita nauðsynlegt aðhald. Fjármálaeftirlitið getur þannig ekki á nokkurn hátt keppt við bankana um bestu sérfræðingana á því sviði og bestu starfsmennirnir, sem þar eru þjálfaðir innan dyra, eru keyptir út af þeim sem þeir eiga að vera að fylgjast með. Er það eðlilegt eða heilbrigt fyrir íslenskt fjármálalíf?

Á sama hátt má efast um það að Kauphöllin hafi afl og efni til þess að fylgjast nógsamlega með fyrirtækjum, sem þar eru skráð á markað. Almenningshlutafélög eiga að vera háð afar ströngum reglum, svo allur almenningur geti treyst því, að hann hafi jafngreiðan aðgang að upplýsingum um stöðu þeirra og sérfræðingar fagfjárfesta eða innherjar. Á dögunum bar það hins vegar við, að öllum að óvörum og án nokkurra afkomuviðvarana, tilkynnti ein af máttarstoðum íslensks viðskiptalífs um að 1.500 milljóna króna tap, þvert ofan í allar væntingar. Algert aðgerðaleysi Kauphallarinnar bendir til þess að hún sé ekki í stakk búin til þess að halda reglu í sínum húsum.

Undanfarna mánuði hafa dómstólar ítrekað komist að þeirri niðurstöðu að stjórnendur almenningshlutafélaga megi sækja sér fé að láni í sjóði þeirra, nota það til þess að kaupa eignir, sem þeir selja svo aftur til fyrirtækisins með hagnaði án þess að eigendurnir, hluthafarnir, verði nokkurs vísari en hagnaður þeirra verður minni en ella fyrir vikið. Þetta telja dómstólarnir að séu venjuleg viðskipti og ósaknæm. Verður því trúað að slíkur trúnaðarbrestur milli stjórnenda og eigenda fyrirtækja sé viðtekin venja í íslensku viðskiptalífi?

Ef íslenskt viðskiptalíf á að dafna og þroskast verður það að njóta trausts, bæði á markaði og í samfélaginu öllu, en það vinnst ekki ef uppi eru ríkar efasemdir um viðskiptasiðferðið. Eins og fyrrgreind dæmi sýna er langur vegur frá að það gerist af sjálfu sér eða fyrir tilstilli veikburða stofnana, sem kunna að vera háðar málsaðilum. Löggjafinn þarf að skakka leikinn.

En það gerði hann nú ekki. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Já, það vöruðu margir góðir hægri menn við þessu, það er rétt. Hvað með aðgerðahliðina? Hér talar hægri maður en ekki vinstri! Hvað höfum aðgerða megin til að verja okkur með, fyrir utan Baugsmálið og fjölmiðlamálið?

Hvar voru Seðlabankinn, Fjármálaeftirlitið og fjármálaráðuneytið? Ég treysti þessum mönnum aldrei og var t.d. með minn séreignasparnað hjá Allianz!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 31.10.2008 kl. 09:03

2 identicon

Það að skilja veskið eftir á borðinu þýðir ekki að þjófurinn megi taka úr því aurinn.

Frelsið er mitt að hafa og sannarlega þess að misnota sem svo kýs með að fara - en þá þarf líka að taka í lurginn.

Hér kusu nokkrir að misnota frelsi sitt en þeir, sem reyndu að skakka leikinn, voru púaðið niður - og afleiðingarnar fyrir þetta litla land - ja við erum rétt að byrja að gera okkur grein fyrir þeim.

Verði okkur að góðu !

Viðskrifarinn (IP-tala skráð) 31.10.2008 kl. 10:15

3 Smámynd: Andrés Magnússon

Tilefni leiðarans var ekki Baugsmálið, en mér þótti rétt að nefna það mál, enda höfðu bæði stig dómskerfisins sýnt eindreginn vilja til þess að líta í hina áttina þegar þessir óviðjafnanlegu útrásarsnillingar áttu í hlut. Þá mátti ekkert og enginn trufla, eins og aðrir röktu í Borgarnesi, Bessastöðum og víðar.

Menn hafa talað um að hinar og þessar stofnanir samfélagsins séu rúnar trausti eftir ósköpin, en menn virðast ekki hafa kunnað við að nefna dómstólana einnig í því samhengi. Sumir jafnvel nefnt að í rannsókn á aðdraganda málsins eigi Hæstiréttur að gegna lykilhlutverki. Heyr á endemi! Hann dansaði líka í Hruna. Ber jafnvel mesta skömm fyrir vikið.

— — —

Guðbjörn spyr um aðgerðirnar. Um þær vitum við sáralítið, enda liggur mikill hluti starfsemi Fjármálaeftirlits og Seðlabanka í kyrrþei, eðli máls samkvæmt. FME var löngum veikburða og fyrrverandi forstöðumaður þess mótaði afar sterka hefð um að aðhafast helst aldrei neitt, vegna þess að lagaheimildirnar væru óskýrar. Þann óskýrleika mátti þó helst rekja til þess að hann vildi aldrei reyna á þær. FME var að vísu styrkt nokkuð fyrir um tveimur árum og gerði tilraun til þess að skakka leikinn í kringum yfirtökuna á Sparisjóði Hafnarfjarðar, en þá brá svo við að dómstólar slógu á fingurna á eftirlitinu og gerðu það meira og minna afturreka. — Um þetta mætti fjalla í lengra máli, sjáum til með það.

Andrés Magnússon, 31.10.2008 kl. 10:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband