17.12.2008 | 13:15
Dagar reiði og pólitísk ábyrgð
Áfallið mikla hefur að vonum verið helsta umhugsunarefni þjóðarinnar undanfarnar vikur. Hvað fór úrskeiðis? Hverjum er um að kenna? Hversu mikið er tjónið? Eru sökudólgarnir enn að störfum? Af hverju brást kerfið? Þarf að stokka það allt upp? Mun þjóðin nokkru sinni rétta úr kútnum? Af hverju skyldi hún bera ábyrgð á afglöpum einkafyrirtækja? Hver er ábyrgð stjórnvalda? Og svo framvegis. Einn og einn hefur jafnvelt velt vöngum yfir því hvernig megi bæta úr því sem komið er og hefja endurreisnina.
Fyrst og fremst hafa menn þó orðið varir við háværa kappræðu, þar sem þátttakendurnir virðast halda að sá vinni, sem er reiðastur. Auðvitað er fólk felmtri slegið. Og reitt. Bálreitt, raunar. Reiðin er hins vegar afleitt vegarnesti á háskaför og minnkar beinlínis líkurnar á því að menn komist heilir á leiðarenda.
Hafa stjórnvöld brugðist? Já, það hafa þau augljóslega gert á fjölmörgum sviðum, bæði á undanförnum árum, ekki síður á misserinu í aðdraganda áfallsins og enn frekar má gagnrýna ýmsar aðgerðir (og aðgerðaleysi) eftir að ósköpin dundu yfir. Það að skipta leifunum af bankakerfinu upp eftir búsetu innistæðueigenda reyndist t.d. vera glapræði þegar nær hefði verið að skipta því upp eftir gjaldmiðlum. Það að láta undan kúgun Evrópusambandsins vegna Icesave-reikninganna kann að reynast þjóðhættulegt ef eftir gengur (og máske er ekki allt komið í ljós þar). Værukærð um lagaleg úrræði vegna efnahagshryðjuverka Gordons Brown og breskra stjórnvalda vekur aðeins frekari spurningar. Eins má vel spyrja af hverju hugmyndin um tafarlaus og einhliða gjaldmiðilsskipti hefur ekki fengið verðskuldaða umfjöllun á sama tíma og stjórnvöld fóru nánast umhugsunarlaust í stórfenglegar erlendar lántökur til þess að reyna að bjarga krónunni upp á von og óvon. Því miður mætti fleira tína til.
Það er því ekki skrýtið þó málsvarar reiðinnar hrópi eftir afsögn ríkisstjórnarinnar, brottekstri helstu embættismanna og þingkosningum. Hins vegar hafa þeir ekki getað bent á það hvað skuli síðan til bragðs taka, sem máske er ekki svo skrýtið í ljósi tengsla helstu hávaðaseggjanna við hina vinstrigrænu grasrót. Sumir þeirra eru þó merkilegt nokk vel tengdir inn í Samfylkinguna og orðræðan fremur mörkuð af innanflokksátökum um komandi forystukreppu þar en áhuga á velfarnaði þjóðarinnar.
Vel er skiljanlegt að margir vilji kjósa á nýjan leik, en hvort það er hyggilegt er önnur saga. Næstu mánuðir eru dýrmætur tími, sem ekki má sóa; það er ástæða fyrir því að kveðið er á um reglulegar kosningar og kjörtímabil; þjóðin er í þvílíku uppnámi að kosningabarátta myndi vafalaust gera illt verra; síðast en ekki síst má draga í efa að kosningaúrslit byggð á andrúmslofti upplausnar og reiði séu vænleg til endurreisnarstarfsins sem bíður okkar. Flatneskjulegt líkingamál um eldsvoða, brennuvarga og slökkviliðsstjóra hefur móðins síðustu vikur, en svo nýgervingunni sé haldið áfram: væri skynsamlegt að efna til klukkutíma skyndiútboðs um hönnun og smíði nýbyggingar meðan maður horfir á gamla húsið fuðra upp?
Bakarar og bölvasmiðir
Auðvitað finnur ríkisstjórnin fyrir þessum þrýstingi. Það eru ekki bara hettuklæddir anarkistar (sem mér heyrist raunar að séu fremur syndíkalistar) sem hafa vantrú á getu hennar til þess að kljást við vandann. Jafnvel innan ríkissjórnarinnar hafa menn fundið að mistökum og vandræðum annarra ráðherra. Þess vegna heyrist manni nú að forystumenn ríkisstjórnarinnar vilji kaupa sér frið með því að hræra í ráðherraliðinu, væntanlega þannig að þjóðinni (eða háværustu vandlæturum hennar) finnist að einhverjir ráðamenn hafi sætt ábyrgð, pólitískri ábyrgð.
Það væri nú gott og blessað ef ábyrgðin var skýr hjá tilteknum ráðherrum. En er það svo? Það er helst um það rætt að í hópi sjálfstæðismanna í ríkisstjórn verði það Björn Bjarnason, sem víki úr stóli dómsmálaráðherra. Dettur einhverjum í hug að það komi áfallinu við? Að hann hafi með störfum sínum á einhvern hátt brugðist, í aðdraganda eða eftir áfall? Nei, það er öðru nær.
Innan Samfylkingarinnar er helst rætt um að það verði Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra og Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra, sem verði látin fara. Af hverju Tóta ætti að víkja veit ég ekki. Fyrir að hafa drepið hvítabjörn í gáleysi? Hugsanlega sjá forystumenn Samfylkingarinnar þó fram á að þurfa að grípa til þeirra ráðstafana í atvinnuuppbyggingu, sem Þórunn myndi aldrei fallast á af umhverfisástæðum, en þá þarf líka að segja það hreint út: að umhverfisstefna Samfylkingarinnar hafi bara verið upp á punt.
Með Björgvin gegnir öðru máli. Hann er bankamálaráðherra, segja menn, og í bankahruni er eðlilegt að hann segi af sér. Ekki að honum hafi orðið á neitt saknæmt eða þannig, heldur sé þetta bara eðli pólitískrar ábyrgðar. Virkilega? Svo ef skip sekkur eða flugvél ferst, þá segir samgönguráðherra af sér?
Nei, svara menn þá, en hann átti að vita alls kyns hluti um ástandið í bankakerfinu og hann átti að grípa tilviðeigandi ráðstafana til þess að afstýra voðanum. Í þeim röksemdum kunna að felast meiri efni. Við fyrstu sýn að minnsta kosti. Nenni menn að skoða málið nánar er hins vegar erfitt að sjá að þau haldi.
Það hefur vissulega komið fram að Björgvin vissi ekki um margvísleg varnaðarorð vegna bankakerfisins, ekki síst þau sem mælt voru úr Seðlabankanum, en af hverju heyrði hann þau ekki? Jú, vegna þess að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, sagði honum ekki frá þeim. Hún sat þá fundi, þar sem greint var frá þessum viðsjám, en kaus að greina ráðherra bankamála ekki frá þeim af einhverjum ótilgreindum ástæðum. Á Björgvin að bera pólitíska ábyrgð á þeim óskiljanlegu ákvörðunum Ingibjargar Sólrúnar?
Nei, það hlýtur hver maður að sjá að í því fælist engin sanngirni, heldur væri þvert á móti verið að dýpka hinum pólitísku syndum í málinu með því að hengja Bjögga fyrir Sollu. Ég efa hins vegar að til þess komi. Léti hún hann víkja úr ríkisstjórn vegna bankahrunsins væri hún um leið að viðurkenna eigin ábyrgð sem óneitanlega er veruleg en neita að axla hana. Ég hugsa að pólitísk sjálfsbjargarviðleitni hennar komi í veg fyrir það.
Ekki þar fyrir, Björgvini hefur ekki gengið allt í haginn í viðskiptaráðuneytinu, gert mistök, yfirsést eitt og annað og það má meira en vel vera að hann hafi átt að vera almennt krítískari í garð fjármálaiðnaðarins en hann var. Mér finnst hann hins vegar farið vaxandi sem stjórnmálamaður á þessum erfiðu tímum, ekki síst í ljósi þess að meintir samherjar hans hafa ekki alltaf verið að hjálpa honum. Ég hef ekki verið sammála öllu því sem hann hefur sagt eða gert (eða ekki sagt og ekki gert), en ég fæ ekki séð að hann hafi neitt gert af öðru en fyllstu heilindum, þvert á það sem sumir hafa gefið til kynna og ýjað að.
Telji forystumenn ríkisstjórnarinnar á annað borð að einhverjir ráðherrar eigi að víkja vegna áfallsins þurfa þeir ekki að leita lengi að viðkomandi. En það væri fráleitt ef þeir veldu bara 1-2 fagráðherra til þess að fórna sem syndahöfrum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 39
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 17
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Æ, hvað það er gott að heyra í fólki með jarðsamband! Þakka þér fyrir pistilinn, Andrés.
Flosi Kristjánsson, 17.12.2008 kl. 14:58
Takk fyrir góðan pistil Andrés.Getur þú uppfrætt mig um skipurit stjórnsýslunnar þegar kemur að því að meta kerfislæga áhættu fjármálakerfisins og bregðast við henni? 1) Hverjir hafa umboð til að gera meira af einhverju, minna af einhverju, byrja á einhverju eða hætt einhverju þegar kemur að því að mæta kerfislægri áhættu?2) Hverjir geta stoppað aðgerðir, sem lagt hefur verið til að viðhafa, til að mæta kerfislægri áhættu3) Hverjir eru áhættuverðir kerfislægrar áhættu miðað við skipurit íslenskrar stjórnsýslu. 4) Nýverið var Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, í Kastljósi. Jónas var inntur eftir regluverki sem verið hafur í smíðum frá árinu 2007 sem hefði getað vari stöðu íslenska ríkisins gagnvart innistæðutryggingu á Icesave reikningum. Smíði regluverksins var ekki á ábyrgð Fjármálaeftirlitsins! Undir hvern heyrir verkið?
Einar Vilhjálmsson (IP-tala skráð) 17.12.2008 kl. 15:26
Margt gott í þessum skrifum. Máltækið um flísina og bjálkann er enn í fullu gildi. ISG ætti fyrst að leysa sjálfa sig frá störfum. Gæti kippt samgönguráðherranum með sér. Mér finnst líka löngu kominn tími á Árna Matt og Einar Guðfinnson.
Sigurður Sveinsson, 17.12.2008 kl. 16:42
Þú segir hér
"Ekki að honum hafi orðið á neitt saknæmt eða þannig, heldur sé þetta bara eðli pólitískrar ábyrgðar. Virkilega? Svo ef skip sekkur eða flugvél ferst, þá segir samgönguráðherra af sér?"
Ef myndlíkingin þín ætti að standast samanburð við það sem gerðist varðandi bankahrunið hérlendis þá væri réttara að segja ...
"svo ef skipafloti Íslands sekkur vegna rangra reglugjafa hja´samgönguráðuneitinu og allar flugvélar íslands farast á einu bretti því að hann lagði niður flugumferðastjórn , þá ætti samgönguráðherra að segja af sér."
Brynjar Jóhannsson, 17.12.2008 kl. 17:39
The Voice of Reason Once Again
-sigm. (IP-tala skráð) 17.12.2008 kl. 22:13
Málsvarar reiðinnar.
God is wrath.
Það er því ekki skrýtið þó málsvarar reiðinnar hrópi eftir afsögn ríkisstjórnarinnar, brottekstri helstu embættismanna og þingkosningum. Hins vegar hafa þeir ekki getað bent á það hvað skuli síðan til bragðs taka, sem máske er ekki svo skrýtið í ljósi tengsla helstu hávaðaseggjanna við hina vinstrigrænu grasrót. Sumir þeirra eru þó merkilegt nokk vel tengdir inn í Samfylkinguna og orðræðan fremur mörkuð af innanflokksátökum um komandi forystukreppu þar en áhuga á velfarnaði þjóðarinnar.
Velfarnaður þjóðarinnar er nákvæmlega ástæðan fyrir því að ég mótmæli þessari ríkisstjórn.
Þetta er málflutningur þeirra sem hugsa aðeins um eitt að halda völdum.
Það sem gerist í lýðræðislegum kosningum er að framm eru settar stefnur flokka.
Stefnur þessara flokka biðu afhroð. Það er ekki hægt að horfa framhjá því.
Og það er ekki rétt að það séu engar lausnir búnar að koma framm.
Þú heldur kannski að ég sé að grínast Andrés, en ég gæti lagt fram peningamálastefnu sem væri líklegri til árangurs en ríkisstjórnin.
Og ég skal sýna þér hana ef þú trúir mér ekki.
Evran einhliða er dollarisation og það gerist ekki nema við óstjórn og spillingu.
Og stefnan er skaðvaldurinn. Og á henni eiga flokkar að taka ábyrgð.
Það virðist ekki vera manndómur hjá þessari ríkisstjórn að viðurkenna að við stefnu hennar er að sakast.
Og ekki koma með einhverjar hagfræðilegar afsakanir á óstjórn og spillingu.
Stjórnvöld sem valda ekki stjórn. Eru ekki stjórnvöld heldur leiksoppar aðstæðna.
Og leiksoppar eru fullir af afsökunum og velta svo ábyrgðinni á aðra.
Þetta er ekki verjandi á nokkurn hátt.
Velfarnaður þjóðarinnar er að koma þessari tvíhöfða stjórn frá eins fljótt og hægt er.
Seðlabankastjóri samþykkir opnun Icesave og leisir þá svo undan allri bindiskildu.
Engann við að sakast þar nei nei nei.
Reiðin hefur sínar ástæður.
Og sérstaklega eru ástæðurnar þær sem ég útlista þarna.
Engin ábyrgð er tekin á stefnu sem olli hrikalegu strandi.
Vilhjálmur Árnason, 18.12.2008 kl. 06:53
Einar: Nú þekki ég skipuritið ekki til hlítar, enda er það sjálfsagt ekki til sem slíkt. Mat á kerfislægri áhættu fjármálakerfa á heima bæði hjá FME og Seðlabanka. FME hefur ekki ýkja mörg tæki til þess að láta til sín taka, en í vopnabúri Seðlabankans er eitthvað eftir, þó þar hafi raunar fækkað í lagernum á umliðnum árum. Ríkisstjórnin getur svo auðvitað (með fulltingi Alþingis) gert sitt af hverju, en mestan part liggur það utan verkahrings hennar. Smíði regluverks á fjármálamarkaði liggur hjá viðskiptaráðuneytinu, en það segir ekki nema hálfa sögu að nefna 2007. Ég held að sú vinna hafi hafist 2005 og skilað sér í breyttum lögum um FME 2006 og þá var hitt eftir. Hjólin í gangverki hins opinbera snúast hægt.
Brynjar: Skip sökkva ekki vegna lélegs regluverks heldur vegna óvarkárni skipstjóra eða útgerða.
Viðar: Þótt mér þyki vænt um Sjálfstæðisflokkinn held ég meira upp á sjálfstæðið en flokkinn.
Kristinn: Sammála, en samt er framkvæmdavaldinu í lófa lagið að skauta hjá því, sbr. áætlanagerð um rammafjárlög umfram kjörtímabil, skuldbindingar sem koma til fullnustu síðar o.s.frv. Þetta er ekki illa meint, en ekki rétt heldur.
Vilhjálmur: Ég er ekki sammála því að stefna flokkanna hafi valdið áfallinu, það er mun flóknara mál, sem sumpart má rekja til utanaðkomandi aðstæðna en einnig til feyskinna stoða hér heima fyrir, regluverks sem ekki hélt í við markaðinn o.s.frv. Segja má að hér hafi orðið allsherjar kerfisbilun, sem fáir komu auga á og fæstir máttu heyra á minnst. Það er efni í aðra færslu og lengri, en hún varðar miklu fleiri en stjórnmálamennina. Þar eru Hæstiréttur, forsetaembættið, fjölmiðlarnir, akademían og fleiri ekki undanskilin, sem gerðu óheiðarlegum fjármálafakírum kleyft að fara sínu fram.
Valda stjórnvöld ekki ástandinu? Nei, það hefur hefur reynst þeim fjarskalega erfitt, en þá má spyrja hvort einhver stjórnvöld hafi getað valdið því. Beggja vegna Atlantsála standa stjórnvöld ráðþrota fyrir aðsteðjandi vanda og hafa þau þó ekki mátt þola sams konar árás erlends ríkis og íslenska fjármálakerfið.
Pundið fellur eins og steinn, en eina ráðið sem Gordon Brown á eftir er að leggjast í peningaprentun til þess að viðhalda bólunni (þó í City séu menn farnir að ræða um IMF-aðstoð). Hans heilagleiki Barry Obama ráðgerir hið sama, þó þar spili roosevelskur hégómi einnig inn í. Seðlabankar víða um heim eru að gefast upp á notkun stýrivaxta (sem eru komnir í núll eða þar um bil) til þess að stjórna framboði á peningamarkaði og ætla að fara í beinar innspýtingaraðgerðir, þar sem seðlaprentvélarnar verða settar á fullt. Það eru fáir sem muna ástandið í Weimar, en það vill kannski einhver kynna sér ástandið á fjármálamarkaði Zimbabwe?
Ætli það allt — líkt og hin hnattræna hlýnun — sé ekki Davíð Oddssyni að kenna?
Andrés Magnússon, 18.12.2008 kl. 08:19
Því fyrr sem íslendingar kasta flokkakerfinu því betra. Í alltof langan tíma hafa hagsmunir flokksins verið settir ofar hagsmunum þjóðarinnar og ástandið í dag er að sjálfsögðu af stórum hluta vegna þessa. Helmingaskiptin skópu jú bankaumhverfið.
Við erum 300.000 ekki 30.000.000.
Það er hægt að einfalda hið pólutíska umhverfi hér á landi svo um munar, t.d með því að kasta flokkakerfinu og spillingunni sem það býður uppá. Kjósa fólk en ekki flokka. Gera Ísland að einu kjördæmi og margt fleira....
...málið er bara að alltof margir einstaklingar horfa á flokkaumhverfið eins og á íþróttir. Það á sér sinn flokk og stendur með honum eins og ég stend með Liverpool. Í gegnum súrt og sætt. Það er virðingarvert að mínu mati þegar íþróttalið á í hlut en ber einungis vott um heimsku þegar kemur að stjórnmálum. Valdasjúkum einstaklingum er gert kleift að sitja og spillingunni að þrífast.
Gestur S. (IP-tala skráð) 18.12.2008 kl. 10:41
Lýðræði er og á að vera í stöðugri þróun. Mér lýst vel á þessa hugmynd um 11 krossa til að dreifa á atkvæðaseðlinum. En mér finnst flokkskerfið meingallað eins og það er og tel að við verðum að breyta einhverju þar.
Oft er það ekki spurning um hvaða skoðun einstaklingur hefur á málefnum eða hvaða menntun, gáfur, hæfileika hann/hún hefur til þess að vera ofarlega á lista flokks. Heldur er það spurning, hve lengi hefur hann/hún hefur verið að vinna fyrir flokkinn. Því kjósum við ekki allltaf besta fólkið á þing.
Ég vil að kjörnir fulltrúar fylgi sannfæringu sinni í málum en séu ekki leiddir áfram af flokksforustunni.
Fyrir mér er flokkakerfið, eins og við þekkjum það, alls ekki forsenda lýðræðis hér í landi.
Gestur S. (IP-tala skráð) 18.12.2008 kl. 16:19
Það er eitt atrið sem þér hefur yfirsést Andrés.
Og það er. Að raunverulegir leiðtogar skýla sér ekki bak við afsakanir.
Raunverulegir leiðtogar leiða þjóðir og ráðuneiti.
Gera sér grein fyrir að þeir eru fyrirmyndir.
Marka skýra stefnu,og framfylgja henni.
Leiða með fordæmi.Og styrk.
Og hafa víðtækt fordæmisgildi út í samfélagið.
Stefna Sjálfstæðisflokks og fyrirrennara var í raun upplausn samfélagslegs hagkerfis.
Einkavæðing leysir upp samfélagsleg verðmæti og stoðir.Og færir inn á hlutabréfamarkaði. (Bankar, auðlindir, og heilbrigðisþjónusta.)
Þessi ósamfélagslega leið hefur beðið afhroð.
Þetta vilja stjórnmálamenn og frjálshyggjumenn ekki viðurkenna að fullu.
En samt sannar stefnan annað.
Einhliða upptaka evru er hrikaleg nauðvörn sem er meira að segja hægt að komast hjá. En mikill þrístingur er innan ríkisstjórnar að taka upp evru og það er mjög skaðlegt fyrir framtíð þessarar þjóðar að mínu mati.
Og ef þú skoðar hvernig umræðan í þjóðfélaginu er leidd á evrubruat sérðu vel hversu skaðleg þessi stefna er sjálfstæði þjóðarinnar.
Stjórnmálamenn hafa víðtæk áhrif á efnahag þjóða.
Hagfæði er ekki eins flókin og þér hefur verið talið trú um og hún er ekki eintómar tölur.
Það eitt að kjósa mundi hafa áhrif á hagkerfið.
Flækjur eru oftast og nánast alltaf notaðar sem afsökun í umræðunni.
Og oftast notaðar til fela raunverulegu ástæðuna.
En siðferðislaus kapitalismi hefur verið ráðandi. Og samfélagsleg umbylting á sér stað í samfélaginu. Komdu með. Slepptu takinu og gerðu það fyrir mig að verja ekki það sem er rangt og siðlaust. Skoðaðu þetta í samhengi sem er frá hjartanu eins og lítið barn og þá munt þú sjá að allt fellur saman í einstökum samhljóm fegurðar og samvinnu. Þegar yfirráðahugmyndum er sleppt þá fer að blika í raunverulegann frjálsann markað.
Það þarf að koma á siðferðisdómstól samhliða þjóðhagsstofnun,sem dæmir siðferði stjórnmálamanna.
Og stjórnendur og eigendur stórfyrirtækja. Þeir þurfa hjálp. Eins og margir.
Og hjálpin felst ekki í niðurlægingu heldur aðhaldi og gagnríni.
Það er töluverð blekking ap hrjá margann Íslendinginn.
Ég er í álvöru að semja stefnumótandi tillögur sem gætu leitt þessa þjóð inn í gríðarlega raunverulega velmegun.
Þeim mun verða fundinn hljómgrunnur á sem víðtækastann hátt og er þessi stefna sett til höfuðs Evrópusambandinu og einkavæðingu á grunnstoðum samfélagsinns.
Ég hef gríðarlega sannfæringu á að við eigum alls ekki að afhenda peningastjórn okkar áfram til evrópu og get rökfært það hagfræðilega til hins ítrasta.
Ég hef ekki haft áhuga á stjórnmálum hingað til en nú stend ég frammi fyrir því að geta ekki horft á þróun mála án þess að láta til mín taka.
Hvernig það verður kemur í ljós.
En fyrst og fremst hefur það verið með skrifum.
Vilhjálmur Árnason, 18.12.2008 kl. 16:42
Án þess að taka tillit til stjórnmálalegra túlkana þinna, þá er ég mjög sammála því sem þú segir um viðbrögð almennings. Mér finnst reiðin vera orðin svo heiftarleg að mér stendur ekki lengur á sama. Mér finnst ofbeldið vera handan við hornið með sínum skelfilegu afleiðingum
Hólmfríður Bjarnadóttir, 28.12.2008 kl. 14:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.