26.1.2009 | 18:33
Forseti á villigötum
Það var gaman að hlýða á forseta lýðveldisins, herra Ólaf Ragnar Grímsson, áðan þar sem hann kynnti áherslur sínar við lausn stjórnarkreppunnar. Sjálfsöryggi hans mátti vel merkja á því hversu oft hann endurtók það, sem hann hafði að segja. Og ef einhver efaðist um hver er aðalkallinn á Íslandi, þá vefst það ekki lengur fyrir honum hver er skoðun herra Ólafs á því. Gaman að hógværðin og sjálfsgagnrýnin, sem hann hét þjóðinni í nýársávarpi sínu, skuli hafa enst í heila 25 daga. Það er nýtt met.
Forsetinn sagði brýnast væri að skapa á ný samfélagslega sátt í íslensku samfélagi. Eða hvað menn vildu kalla það, þjóðareitthvað, nýtt Ísland, nýtt lýðveldi eða eitthvað svoleiðis. Í því samhengi kynni einhver að vilja minnast þess hversu vel forsetanum tókst til síðast þegar hann var á þessum buxunum, upptekinn af sínu eigin einstaka hlutverki við að brúa gjána milli þings og þjóðar. Ég nenni því ekki að sinni.
En er það verkefni í alvöru brýnast? Ég tek heilshugar undir þau sjónarmið að stjórnkerfi Íslands og helstu stofnanir þjóðfélagsins hafi brugðist; ekki aðeins á síðustu vikum á mánuðum, heldur ræðir hér um samfellda þróun undanfarna áratugi. Þar má tína flest allt til: löggjafann, framkvæmdavaldið og dómsvaldið; fjölmiðla, fræðasamfélag og fjármálamarkað. Og já, meira að segja sjálfan forsetann, þennan æðsta handhafa sannleika og réttlætis. Það, að smíða nýtt lýðveldi, er hins vegar ekki vandalaust verkefni og allra síst ber að flana að því. Nei, hér eru mun brýnni verkefni eins og að bjarga því, sem bjargað verður, koma í veg fyrir gjaldþrot atvinnulífsins, fjöldaatvinnuleysi, gjaldþrot heimila og að fólk missi heimili sín. Að ógleymdu langtímamarkmiðinu, sem er að koma í veg fyrir að hér blasi við landauðn innan nokkurra áratuga, sem er raunveruleg og aðsteðjandi hætta.
En finnist forsetanum brýnast að búa til nýtt lýðveldi, áður en ljóst er hvort hér verður þjóð, hann um það. Hann ætti þó máske að líta sér nær. Væri ekki tilvalið að forsetinn gengi á undan með góðu fordæmi við að skapa hið nýja Ísland með því að axla loks ábyrgð á öllu sínu ömurlega auðmannaflangsi sem brautryðjandi útrásarinnar og segði af sér?
Ef ekki, getur þess verið langt að bíða að búasáhaldabyltingin frelsi Bessastaði?
![]() |
Skapa þarf samfélagslegan frið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:38 | Facebook
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.4.): 1
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 14
- Frá upphafi: 406079
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 12
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég var nú að klára ævisögu Ólafs Ragnars Grímsson og eftir þá lesningu er alveg augljóst að hann sér embætti sitt í algjörlega öðru ljósi en það er er skilgreint í stjórnarskránni og hvaða hefðir gilda um það. Hann lítur á sitt embætti eins og það væri forsetaembætti einhversstaðar í Austur-Evrópu eða annarsstaðar, þar sem embættið er mun valdameira.
Ég er alveg til í að embættið væri valdameira og meiri "öryggisventill" en það er núna, en þá myndi ég alls ekki vilja sjá Ólaf Ragnar Grímsson í því, heldur einhvern sem "ég" treysti betur.
Guðbjörn Guðbjörnsson, 26.1.2009 kl. 20:06
Takk fyrir þessa ágætu færslu.
"Væri ekki tilvalið að forsetinn gengi á undan með góðu fordæmi við að skapa hið nýja Ísland með því að axla loks ábyrgð á öllu sínu ömurlega auðmannaflangsi sem brautryðjandi útrásarinnar og segði af sér?"
Það væri vel til fundið.
Hörður Þórðarson, 26.1.2009 kl. 22:59
Ólafur Ragnar virðist ætla að vanda sig og það er vel. Hlustar og metur stöðuna áður en hann gengur veginn til góðs í takt við vilja þjóðar. Þú virðist ekki frekar en aðrir innvígðir sjá hrun og vanda þíns flokks eða hugmyndaheim. Engin þörf á endurmati?
Sjálfstæðismenn eiga að skamma sín fyrir að þora ekki að setja fjölmiðlalögin í þjóðaratkvæði eins og forsetinn kvað upp úr um með virkjun 26. greinar stjórnarskrár. Þar liggur ósóminn í því máli.
Ef þú vilt sjá hverjir hafa verið á villtustu og vitlausustu götunum þá geturðu horft á nokkra tengla sem eru bara fyndnir í ljósi stöðunnar og þessi mynd hér að neðan sýnir okkur hvað best það samhengi sem er að koma okkur í þrot.
http://www.youtube.com/watch?v=jYT5Ef0Xnjk&feature=related
http://www.youtube.com/watch?v=5egkmJRikKw&feature=related
http://www.youtube.com/watch?v=AoD8umlAOFs
Gunnlaugur B Ólafsson, 26.1.2009 kl. 23:14
Jú, það er þörf á endurmati. Síðasti forseti lýðveldisins er þar ekki undanskilinn. Burt með hann!
Andrés Magnússon, 26.1.2009 kl. 23:29
Andrés. Já - hann er búinn að vera of lengi - banggi á þjóðinni - BURT - með hann ! ! !
Benedikta E, 27.1.2009 kl. 00:11
Gunnlaugur. Ertu ánægður með aðild síðasta forseta lýðveldisins - að ÚTRÁSINNI ? - Var það landi og þjóð til sóma - að "forseti" Íslands legði lag sitt við - pappírsvöndla baróna útrásarinnar - og þvældist með þeim heimsálfanna á milli - krafti - Forsetaembættis Íslands - Hver skyldi hafa borgað - Reikningana ??? Var það kanski almenningur á Íslandi sem gerði það - eða fær það í hausinn síðar ! ! !
Benedikta E, 27.1.2009 kl. 00:33
Berin eru súr! Er það ekki?
Baldur Gautur Baldursson, 27.1.2009 kl. 07:09
Berin súr? Áttu við að Andrés sé ennþá fúll yfir að hafa tapað forsetakosningunum fyrir Óla Grís?
Ég hef reyndar efasemdir um að búsáhaldabyltingin nái til Bessastaða því reiðin snýr að stjórnmálamönnum miklu fremur en útrásarvíkingum og jábræðrum þeirra.
Hvað um það: Þetta var ágætis undirbúningur undir valdarán, ef til þess hefði komið. Reyndar er ég nú á því að það hefði hugsanlega verið heppilegast ef grísinn hefði stolið mojoinu og skipað utanþingsstjórn.
Þorsteinn Siglaugsson, 27.1.2009 kl. 09:15
Nú þegar honum hefur verið sagt upp sem flugþóni hjá Air Grís (Bónus) vegna þungatakmarkana og sparnaðar í olíu, verður hannn að hafa eitthvað fyrir stafni.
Honum leið ekki vel að skrifa r´ður sem voru auðmjúkar gagnvart öðru en sjálfum sér.
Egóið er stórt og hrokinn nánast ómældur, svona líkt og andstaða samvisku fjárplógsmanna af ættmeiði Singmann og Goodmann.
Óhaggað er, að nú fer í hönd strangur skóli og upprifjun gamalla gilda innan míns ástkæra Flokks, --Sjálfstæðisflokksins.
Nú verða menn að grafa upp gamla þekkingu um mannlegt eðli og hve fláráðir ,,vinir" okkar í útlöndum geta verið.
Mibbó
Bjarni Kjartansson, 27.1.2009 kl. 10:16
Stefnir þetta ekki bara í valdarán ?
Hildur Helga Sigurðardóttir, 27.1.2009 kl. 11:42
Ólafur Ragnar ferðaðist um heiminn og hélt ræður í nafni forsetavalds Íslendinga til þess að auka lánshæfismat Íslenskra auðmanna sem meir að segja sendu einkaþotur sínar til að flytja hann á milli ræðustaða.
Nú þurfum við að greiða þessa peninga.
Honum rétt tókst að breyta bókinni áður en hún fór í prentun eftir bankahrunið.
Jónas Jónasson, 27.1.2009 kl. 13:02
Blasir ekki við að Ólafur Ragnar Grímson er valdaræningi?
Minnumst þess að í kringum fjölmiðlalögin tók hann sér vald, sem margir töldu að hann hefði ekki (sakir ábyrgðarleysisins þó ekki væri annað). Nú er hann aftur við sama heygarðshornið og það í sömu mund og hann er að hræsna um nauðsyn þess að koma á betri stjórnarskrá og að eftir slíkum plöggum sé farið! Mannkertið bætti meira að segja í nú í dag, þegar í ljós kom að hann er að setja stjórnmálaflokkunum einhverjar reglur um það hvernig þeir skipi ríkisstjórn sína.
Kannski hann sé orðinn galinn og þá má finna honum viðeigandi meðferð um leið og búið er að ná af honum Napóleonshattinum. Hafi hann ekki þá vörn er hannhins vegar að ræna völdum (eða að skáka í skjóli valdþurrðar) og þá þarf að grípa til viðameiri ráðstafana. Nema náttúrlega hann verði borinn út af búsáhaldabyltingarmönnunum fyrst.
Andrés Magnússon, 27.1.2009 kl. 14:56
Fulltrúi Baugs á Bessastöðum víkur of seint, hvenær sem það verður.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 27.1.2009 kl. 16:20
Það þarf að kjósa oftar og af hverju ekki að nota helvítis hraðbankana okkar í stað kjörklefa?? Auka lýðræðið, það er ekkert svo mikið mál.
Jónas Jónasson, 27.1.2009 kl. 16:57
Mikið óskaplega á Andrés Magnússon bágt,þarf hann ekki að fara að mæta meira í viðtöl á ómega sjónvarpstöð.Veit hann ekki að það er vont að öfunda menn og kasta skít í forsetann okkar sem að sjálfsögðu er ekki gallalaus frekar en við hin og fer stundum fram úr sér þegar hann hefur verið að kynna land og þjóð sem hefur bara orðið okkur til góðs.Ég held að 'Ólafur hafi ekki reiknað með að eigendur bankana væru fjárglæpamenn sem höfðu ótakmarkað leifi frá auðvaldsíhaldinu í sálfseiðingarflokknum til að ræna okkur öllu og gera þjóðina gjaldþrota,mér sýnist að Andrési finnist þetta bara alt ólafi að kenna,og sínir það hvað hann er seinþroska.
Og talandi um valdarán,er ekki sjálfseiðingarflokkurin þegar búinn að fremja valdarán,allavega erum við búin að missa æruna og allt okkar lausa fé í hendurnar á fjárglæpamönnum undir verndar væng fasistaíhaldinu í sjálfstæðisflokknum Andrés skamastu þín
H.Pétur Jónsson (IP-tala skráð) 27.1.2009 kl. 18:07
Jú, það veitir sjálfsagt ekki af því að ég fari brátt í viðtal á Ómegu, þó ekki væri nema til þess að uppfræða trygga áhorfendur stöðvarinnar á borð við H. Pétur Jónsson, límdan við skjáinn í skiljanlegri leit að hjálpræðinu.
Það er fjarstæðukennt að ég hafi öfundast út í forsetann, líkt og H. Pétur telur, enda erfitt að finna nokkurn, sem telur herra Ólaf öfundsverðan að einhverju leyti.
— — —
Ég er ekki viss um að það hafi aðeins verið þjóðinni til góðs þegar herra Ólafur fór fram úr sér (og heimsbyggðinni allri) við að kynna land og þjóð, en sérstaklega dvaldi hann þó við snilligáfu útrásarvíkinganna. Það var fráleitt út af fyrir sig, en þó ekki síður vegna þess hvernig forsetinn gumaði af því að hann væri þeirra sérstaki þjónn og vinur og þáði margvíslega greiða úr hendi þeirra.
Verra var þó þegar hann gerðist hreint þý vina sinna. Eða var hann að hygla fjölskyldunni? Gleymum ekki að þegar hann beitti neitunarvaldinu í þágu einkavina sinna hjá Baugi (þó sá vinskapur kæmi ekki fram opinberlega fyrr en síðar) vegna uppkaupa þeirra á fjölmiðlum landsins, var dóttir hans í vinnu hjá Baugi. Á sínum tíma létu málsvarar Baugs eins og það væri hreinasta goðgá að minnast á það og eyddu talinu með því að segja að hjá Baugi ynnu tugþúsundir manna. En dóttir hans var ekki kassadama í Bónus, hún var lykilmaður í málinu. því hún stýrði íslenskum fjárfestingum hjá Baugi.
Á myndinni efst í færslunni má sjá þegar forsetinn færir sínum góða vini Útflutningsverðlaun forseta Íslands í fyrra. Baugi veitti víst ekki af klappi á bakið, enda farið að næða hressilega um fyrirtækið. En hvað hefur Baugur nokkru sinni flutt út nema annarra manna peninga? Lánsfé frá bönkum og lífeyrissjóðum, langstærsti lántakandi Landsbankans og einn hinna stærstu hjá Glitni og þá voru viðskipti Baugsmanna við Kaupþing ekki smá í sniðum. Og fyrir það veitti forsetrinn útflutningsverðlaun árið 2008! Maður veit ekki hvort maður á að hlæja eða gráta.
Vissi Ólafur ekki hvers kyns var? Máske ekki, en þá hefur hann tekið meðvitaða ákvörðun um að hann vildi ekkert vita. Baugur var engan veginn eini kúnninn hjá herra Ólafi. Menn geta t.d. velt fyrir sér hvernig forsetinn taldi sjálfsagt mál að panta lofgjörðarbók um sjálfan sig og panta að bankarnir borguðu fyrir hana. Finnst mönnum það sjálfsagt og eðlilegt hjá þjóðhöfðingjanum... svona alveg burtséð frá því hvernig fór fyrir bönkunum í millitíðinni? Slíkur sponsorship-díll á vegum forsetaembættisins er hreint ekkert einsdæmi, eins og má raunar sjá nokkur ummerki um á vef forsetaembættisins um „samstarfsverkefni“ og þess háttar. Þar er þó engan veginn allt upp talið. Einhver kynni t.d. að vilja kynna sér meðalgöngu fyrirtækisins Alþjóðavers í því samhengi.
— — —
H. Pétur gerir einnig að umræðuefni hvernig ógæfan hafi steypst yfir landið á ábyrgð sjálfstæðismanna einna, en þá nefnir hann ýmsum nöfnum. Víst er um það að ábyrgð sjálfstæðismanna í þeim efnum er mikil og af alls kyns orsökum. En hana bera fleiri.
Jón Baldvin galaði þannig af þrepum Ráðherrabústaðsins að hann krefðist að þeir, sem mistökin hefðu gert, bæðust afsökunar og viðurkenndu mistök sín. En svo vildi hann ekkert frekar ræða hvort EES-samningurinn hans hefði hugsanlega verið of opinn og jafnvel stórgallaður.
Á það má líka minna að sjálfstæðismenn drógu ekki af sér við að gagnrýna hvernig fjármálafurstarnir fóru sínu fram, en við misjöfn viðbrögð. Á hátindi síns pólitíska ferils tók Davíð Oddsson meira að segja sinn stærsta pólitíska slag um nákvæmlega þau óhóflegu áhrif og tapaði með þeim afleiðingum að sú pólitíska sól hneig hratt í framhaldinu. Þar var nýauðvaldið dyggilega stutt af nýfrjálshyggjuliðinu í Samfylkingunni og hver getur gleymt Borgarnesræðum Ingibjargar Sólrúnar, þar sem hún kvað upp úr um að ekkert mætti trufla hin frábæru störf þessara frábæru náunga fyrir land og þjóð; sérstaklega ekki þessi ljóti og leiðinlegi Davíð Oddsson.
Þá er enn órætt um þátt Samfylkingarinnar í hinni vondu niðurstöðu fráfarandi ríkisstjórnar að Íslendingar yrðu að láta undan kúgun óvinaþjóða okkar í Evrópu og borga til fullnustu ábyrgðartryggingar á erlendum innistæðum hjá íslenskum bönkum, þrátt fyrir að erlend ríkisstjórn hefði átt beinan þátt í að eyðileggja viðkomandi banka. Af hverju? Jú, eitthvað var umlað um þjóðréttarlegar skuldbindingar (sem þó var aldrei skýrt nánar), en aðalmálið var þó það að Evrópsambandið vildi ekki komast að hinni lagalegu niðurstöðu málsins — vildi það raunar allra síst — og þá var það bara tekið gott og gilt, því þá herra má ekki fyrir nokkurn mun styggja. Það verður athyglisvert að sjá hvernig ESB mun bregðast við fjöldagjaldþrotum banka á evrusvæðinu á næstu mánuðum. Og hvernig Íslendingar svara Evrópuspurningunni, sem Samfylkingunni liggur svo á að leggja fyrir hana.
Þar í felst líkast til stærsta ábyrgð Sjálfstæðisflokksins, að hafa fallist á að ríkissjóður bæri fulla ábyrgð á innistæðutryggingum íslenskra banka, rétt eins og Tryggingasjóður væri ekki til og að einu gildi í hvaða gjaldmiðli innistæðurnar eru. Og það án þess að nokkur hafi minnstu hugmynd um endanlega upphæð ábyrgðanna eða verðmæta eigna, sem á móti eiga að koma. Þær tölur sem heyrst hafa í opinberri umræðu um það eru hreinn skáldskapur og gisk.
Ný ríkisstjórn hefur því tækifæri til þess að snúa við blaðinu, enda hafa samningar ekki enn tekist (að því best er vitað). Vinstrigrænir voru andsnúnir þessum samningum á forsendum Evrópusambandsins. Eru þeir það enn?
— — —
Minnumst svo aftur á forsetann í lokin. Heldur einhver að hann sé búinn að ljúka sér af í valdafíkninni og sýniþörfinni?
Andrés Magnússon, 28.1.2009 kl. 02:57
Það er ekki eins og menn séu alveg að skilja eðlismuninn á túlkun í þágu lýðræðis þegar þjóðhöfðinginn er þjóðkjörinn forseti og þegar hann fyrir 1944 var arfborinn konungur.
Í yfir 100 ár höfðu Evrópumenn ströglað við að túlka stjórnarskrár í Evrópu vítt í þágu þings og lýðræðis en þröngt gagnvart arfbornum þjóðhöfðingjunum - kóngunum, - líka í þágu lýðræðis. Eðli þessarar togstreitu gerbreyttist þegar þjóðhöfðinginn okkar fékk ekki lengur vald sitt í arf heldur beint frá þjóðinni með kosningum - var þjóðkjörinn.
Eftir það er það ekkert sjálfkrafa í þágu lýðræðis að tálga niður allt vald þjóðhöfðingjans eins og það er í stjórnarskrá - oft er það þvert á móti aðeins í þágu ríkisstjórnar og framkvæmdavalds gegn vilja þjóðarinnar - eiganda valdsins.
„Þingræði“ merkir bara að ríkisstjórn skuli vera umborin af þinginu. Tilkoma þess var stór sigur á leið frá einvaldskonungunum til fulltrúalýðræðis og þrígreiningu valdsins. Menn fengu því framgengt að kóngur lofaði að setja ekki ríkisstjórn eða ráðherra sem ráðgjafaþing hans get ekki umborið. - Þess vegna er það ríkjandi fyrirkomuleg á Norðurlöndum - konungsríkjunum.
Aðalatriðið er að á Íslandi á nú þjóðin valdið og en ekki kóngur og kýs sér bæði þjóðhöfðingja og þing, og við túlkun á stjórnarskrá um stjórnskipun ber að hafa hliðsjón af því. Ekki eins og einstakar valdastofnanir eigi valdið: ekki þing, ekki flokkar, ekki forseti, ekki ríkisstjórn og ekki dómstólar - heldur þjóðin - skríllinn. Og til þess að tryggja framkvæmd þess hefur þjóðin reyst tvær þjóðkjörnar stoðir þ.e. forseta og fjölskipað þing.
Þó Sjálfstæðismönnum falli illa að hafa aldrei fengið kjörinn forseta verða þeir að sætta sig við að þjóðin á valdið en ekki bara þeir.
Helgi Jóhann Hauksson, 28.1.2009 kl. 03:14
Punkturinn er að Þingræði var sátt um að erfðakóngur hefði ekki ríkisstjórn/ráðherra sem þing þyldi ekki og var því aðeins áfangi á leið til lýðræðis frá einveldi erfðarkonunga en alls ekki endastöð á þróun til lýðræðis.
- Grundvallarmunur er síðan á þjóðhöfðingja sem fær vald sitt í arf eða þeim sem er þjóðkjörinn og fær því umboð sitt beint frá þjóðinni sjálfri.
Helgi Jóhann Hauksson, 28.1.2009 kl. 03:21
Vinkona mín í london hringdi og tilkynnti mér að Ólafur Ragnar, strax byrjaður að gaspra á bbc að Íslendingar muni í framtíðinni verða leiðandi afl og kenna öllum heiminum hvernig á að stjórna öllum heiminum.
Jónas Jónasson, 28.1.2009 kl. 09:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.