Leita í fréttum mbl.is

Högun og húsreglur

Skömmu eftir að ég fór að blogga á þessum vettvangi talaði ég við minn gamla kollega Pétur Gunnarsson og hann sagði mér að hann hefði yfirleitt ekki ýkja mikið fyrir færslum sínum, enda hefði hann sett sér þá vinnureglu að eyða ekki meira en fimm mínútur í hverja færslu. Þetta er góð regla og skynsamleg, því auðvitað getur svona bloggur auðveldlega orðið mikill tímaþjófur en tekjurnar eru engar. Fyrir okkur, sem höfum framfæri af því að skrifa, setur slíkt strik í reikninginn.

Þessi regla Péturs (þó ekki Peter Principle!) er ágæt og menn þurfa sjaldnast meira, eins og ofurbloggarinn Glenn Reynolds benti á í SOS-færslu (FAQ) sinni fyrir liðlega fjórum árum:

 

It takes less time than people think. Much of InstaPundit gets squeezed into the cracks of the day: with always-on Internet connections at home and at work, all I need is five or ten free minutes to come up with a post. (Longer stuff, like this, is done — as this is being done — on my laptop. Right now I'm sitting in the playroom while my daughter plays with Barbie dolls). There are a lot of wasted five-minute intervals in most people’s days. I've managed to put more of mine to work.

 

Glenn skrifar blogginn Instapundit, sem að mestu er byggður á ábendingum um efni annars staðar á vefnum, yfirleitt með örstuttum athugasemdum. En það eru ekki allir bloggar þannig. Mín nálgun er þannig oftast pólitísk og kallar oft á lengri athugasemdir en þeir Pétur og Glenn ástunda. Ég veit að ég skrifa oft í fulllöngu máli, en ég vil líka njóta frelsisins hér á vefnum, meðan að blaðaskrif mín eru í afar þröngum skorðum hvað lengd áhrærir. En ég skal nú samt reyna að halda aftur af ritgleðinni, þó ekki væri nema til þess að skrifa knappari, skýrari og betri stíl. Menn verða svo bara að virða það við mig þegar langlokurnar birtast; nú eða hlaupa yfir þær.

Sumir hafa þá reglu á bloggum að breyta færslunum ekki eftir að þær birtast. Ég er ekki alveg svo kalvínískur, ég er oft að fikta við orðalag eftir á og innsláttarvillur hvenær, sem ég kem auga á slíkt. En ég ætla ekki að breyta bloggfærslunum hvað merkingu og inntak varðar. Verði mér á mistök, ranghermi eða því um líkt, sem kallar á leiðréttingu eða breytta færslu, geri ég það með viðbót, sem þá verður auðkennd sem slík og með dagsetningu. Í sumum tilvikum læt ég nægja að gera það í athugasemdum við þessar ótímabæru athugasemdir mínar. Dæmi um þetta má finna hér

Ég hef opið fyrir athugasemdir, enda finnst mér lítið vit í að vera að tjá sig með þessum hætti ef aðrir fá ekki að andæfa eða leggja orð í belg um færslurnar á sama stað. Ég er með hálfsmánaðartímatakmörk á þeim athugasemdum, en það er nú eiginlega aðeins af því að þannig var það sjálfvalið í kerfinu. En það eru kannski ágæt takmörk, því ég nenni varla að vera elta ólar við einhverjar nótur á löngu afgreitt umræðuefni. Berist hávær mótmæli frá lesendum bloggsins er ég þó alveg til í að hnika því.

En hvað með athugasemdir lesenda, ætla ég að svara þeim? Það er auðvitað upp og ofan. Sumar eru klapp á bakið, sem ekki kalla á nein svör, en aðrar geta verið óttalegt raus, sem varla kalla á nein svör umfram „Sælir eru fattlausir". Ég ætla ekki að leggjast í slíkt. Síðan eru líka til vel grundvallaðar athugasemdir, þar sem málflutningur minn er gagnrýndur með röklegum hætti og þá finnst mér ég líka knúinn til þess að svara. En ég vil þá líka biðja athugasemdasmiðina — í fullri vinsemd — að vera sæmilega skorinorða og endilega að rökstyðja mál sitt með slóðum fremur en að „líma“ inn heilu bálkana annars staðar að af netinu.

Kemur til greina að ritskoða athugasemdir? Já, fari menn út fyrir mörk velsæmis eða laga, mun ég ekki hika við það, sér í lagi ef um árásir á fólk úti í bæ er að ræða. Þá verður viðkomandi athugasemd bara látin hverfa út í ljósvakann með stuttri athugasemd þar um. En þar sem ég dreg sjálfur oft ekki af mér í palladómunum er mér ekki heldur stætt á öðru en að leyfa mönnum allnokkurt svigrúm í ummælum um yðar einlægan.

Þessi færsla er orðin lengri en til stóð. Ekki í fyrsta skipti og örugglega ekki í hið síðasta. Góðar stundir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Það tekur nú ekki mikinn tíma að blogga  en ef maður vísar í bakgrunnsupplýsingar og tengir út og suður þá tekur það langan tíma. 

Það er náttúrulega alveg hægt að hafa blogg þannig að bloggarinn er í tómarúmi eins og blaðamaður og vísar ekkert út fyrir sinn pistil en þá verið að nota miðilinn eins og prentmiðil.  

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 6.12.2006 kl. 11:29

2 Smámynd: Andrés Magnússon

Já, Salvör, en þá væri nú betur heima setið og allt það. Væri eins og að flytja aðeins lesnar fréttir í sjónvarpi. Um að gera að nota miðilinn, því til þess er leikurinn gerður.

Andrés Magnússon, 6.12.2006 kl. 15:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband