Leita í fréttum mbl.is

Óheilbrigt ástand

Það er ástæða til þess að vekja athygli á góðri grein eftir Tinnu Laufeyju Ásgeirsdóttur í Fréttablaðinu í dag, en þar fjallar hún um heilsuhagfræði. Í innganginum segir hún frá því að til hennar hafi nýlega verið leitað með þá fullyrðingu, að hagfræði ætti ekki við þegar viðfangsefnið væri heilsa og heilbrigði. Að hennar viti er fullyrðingin röng og rökstyður hún það ágætlega í greininni. Að einmitt vegna þess hve mikils við metum heilsu og heilbrigði beri okkur að leggjast vel yfir hvernig takmörkuðum auð sé best varið í þetta nánast takmarkalausa verkefni. Þar þarf að velja og hafna.

Ég hef gluggað í skrif svonefndra húmanista að undanförnu og greini hjá þeim allnokkra gremju ef ekki óþol vegna þess hve margir trúa á æðri máttarvöld, að því er virðist skilyrðislaust og án þess að geta fært sönnur á tilvist þeirra. En það er nú einmitt skilgreiningin á trú, að  hún byggist á innri vissu og er í eðli sínu ósannanleg — ella væri hún ekki trú!

En þeim mun einkennilegra finnst mér hvernig skynsamasta fólk getur umhverfst í slefandi ofsatrúarmenn þegar heilbrigðismálin eru annars vegar. Þar blandast illa saman dulspekileg lotning fyrir ríkisvaldinu sem hinum eina handhafa valds yfir lífi, dauða og alls þar á milli, kredda jafnaðarhugsjónar skógarhöggsmannsins (Janteloven), og kennisetningin um að mannslíf verði ekki metin fjár.

Þá er hollt að rifja upp að ríkið er til í okkar náð en ekki öfugt, tæki til þess að sinna sameiginlegum hagsmunum borgaranna allra á sviðum, þar sem þeim verður ekki sinnt með öðrum hætti. Í þeim efnum þurfum við að takmarka verksviðið með öllum ráðum, því ella mun ríkið — oftast af hinum bestu hvötum — belgjast út með tilheyrandi þrengingum fyrir borgarana og sóun á fjármunum þeirra. Svo má ekki heldur gleyma hinu, að í hinu opinbera er innbyggt ábyrgðarleysi, sem gerir það að verkum að það leysir verkefni sín verr af hendi en borgararnir gera sjálfir. Engum myndi t.a.m. detta í hug að hinu opinbera væri betur treystandi en kaupmönnum til þess að verða landsmönnum úti um betri og ódýrari skó, sem þó er ekki ýkja flókinn starfi. En ef við treystum ríkinu ekki til þess, af hverju í ósköpunum halda sumir að það sé betur til þess fallið að reka óendanlega flókið apparat eins og heilbrigðiskerfið? Þar sem líf liggur beinlínis við?

Þar vefst fyrrnefnd jafnaðarhugsjón skógarhöggsmannsins vafalaust fyrir mörgum. Hlynurinn unir því illa hve hátt eikurnar teygja sig, en skógarhöggsmaðurinn kann aðeins eina leið til þess að jafna trén. Margir láta sem það sé óendanlegt óréttlæti ef einn býr við betri heilbrigðisþjónustu en annar, og flestir stjórnmálaflokkarnir hafa tekið undir þetta sjónarmið. En hvað? Fólk hirðir misvel um sig og á sú breytni engin áhrif að hafa? Læknar eru misgóðir og á að reyna að reikna það inn í kerfið með einhverjum hætti? Eða — svo augljósara dæmi sé tekið — á að banna fólki að leita sér lækninga erlendis, þar sem það telur sig geta keypt sér betri umönnun eða einfaldlega framhjá biðröðinni? Það er ekki heldur eins og þetta sé óþekkt í heilbrigðiskerfinu, tannlæknar starfa upp á þessi býti og þykir engum mikið um. Væri ekki nær að horfast í augu við veruleikann og gefa fólki kost á fjölbreytni í heilbrigðiskerfinu í stað þess að reyna að viðhalda miðstýrðum, sovéskum áætlanabúskap með tilheyrandi biðröðum?

En svo er það þetta með mannslífin og matið. Auðvitað er það rétt að við metum mannslíf ekki til fjár og sé maður í bráðri hættu erum við jafnan tilbúin til þess að leggja allt í sölurnar til þess að koma honum til bjargar. En samt verðmetun við sjálf okkur á hverjum degi. Með því að fallast á tiltekin laun erum við að verðmeta tíma okkar, hin einu verulega takmörkuðu gæði hverrar mannsævi. Og hvað gera menn með því að kaupa sér líftryggingu? Heilsugæslan er snar þáttur í þjóðfélaginu, en langt í frá hinn eini, sem máli skiptir. Þess vegna var „aðeins“ helmingi nýsamþykktra fjárlaga varið til heilbrigðismála, almannatrygginga og velferðarmála, en ekki bara 100% sett í það. Um leið og menn hafa sniðið sér slíkan stakk er búið að viðurkenna að einhversstaðar liggi mörk á því hverju skuli varið í heilbrigðisiðnaðinn. Í þessu tilviki um 600.000 krónur á hvert mannsbarn á ári.

Ætli það veiti af að menn skoði heilbrigðisgeirann frá hagfræðilegu sjónarmiði? Eða þiggi einhverjar lausnir hagfræðinga á vanda hans?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Andrés

Ég sé að þú ert í stuði að vanda. 

Einkavæðing í heilbrigðiskerfinu, það er ekkert annað.

Það er engin á móti því að þurfi að skoða hvernig fjármunum ríkisins er varið þegar að þessum málaflokki kemur enda er hann, eins og þú bendir á, stór hluti útgjalda ríkisins.

En sagan sýnir að einkavæðing í heilbrigðismálum er einhver alversta lausn sem hugsast getur. Ef við tökum Bandaríkin sem dæmi þá sýna okkur hagfræðitölur þaðan að þar er hlutur heilbrigðisútgjalda af heildarþjóðarbúskapnum 16% á meðan að í OECD er meðaltalið  8%, og er þó Bandaríska heilbrigðisþjónustan ekki aðgengileg stórum hluta þjóðarinnar.

Þetta helgast af því að ríkið ber alltaf stóran hluta af þessum kostnaði, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Það er ekki hægt að samþykkja að fólk deyji á götum úti (þó svoldið sé um það í Bandaríkjunum), þjónusta við gamalt fólk og niðurgreiðsla þjónustunnar við þá sem minna meiga sín í samfélaginu og þess vegna kemur til kasta ríkisins að koma þar inn og fylla í skörðin.

Þetta er gert beggja megin hafsins. Útgjaldamunurinn útskýrist af því að í Bandaríkjunum hafa stjórnvöld enga möguleika á því að halda aftur af útgjöldunum þar sem þau eru ákveðin af einkafyrirtækjum.  Á meðan í Evrópu geta stjórnvöld haldið útgjöldum og þenslu þeirra innan skynsemismarka þar sem þau hafa heildarsýn yfir málaflokkinn.

Þess utan er þetta hatur þitt á ríkinu alltaf jafn sorglegt. Ég skil ekki hvernig jafn greindum manni eins og þér getur sést yfir að ef menn hefðu ekki ákveðið á einum tíma að mynda samfélög þá væri hætt við því að mannkynið væri mun styttra á veg komið en raun ber vitni.

Það var þá aðeins að menn fóru að deila þekkingu, skipuleggja sig, veiða og seinna framleiða saman að framþróunarskilyrði voru fyrir hendi.

Og hluti af því að búa í samfélagi er að hugsa um þá sem minna meiga sín, heilstæð mynd samfélagsins byggir á öllum hlutum þess, góðum sem slæmum. 

Það sem þú ert að leggja til í grein þinni er aðskipt samfélag. Það hefur ekkert með það að gera hvar maður stendur í flokki að svona samfélag (eða einfélag) getur stór hluti þjóðarinnar ekki sætt sig við, og er það vel.

Þorleifur Örn Arnarsson

Þorleifur Örn Arnarsson (IP-tala skráð) 7.12.2006 kl. 01:58

2 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Andrés.

Það er fínt að velta þessu upp því fyrir löngu síðan hefur verið nauðsynlegt að verðmeta niðurgreitt framboð af heilbrigðisþjónustu á grundvelli vitundar um árangur veittrar þjónustu á hverju sviði fyrir sig og bæta þar sem á skortið og skera þar sem það á ekki við.

Þessu verkefni hafa stjórnmálamenn komið sér hjá til langtíma því miður og nægir í þvi efni að nefna endurskoðunarleysi laga um almannatryggingar svo eitt dæmi sé tekið.

kv.

gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 7.12.2006 kl. 02:15

3 Smámynd: Andrés Magnússon

Ég hugsa að ég láti vera að svara Þorleifi í bili, það kallar eiginlega á sérinnlegg (eða innlögn?). Og sjálfsagt fleira en eitt, því annars vegar ræðir þar um samanburð á fyrirkomulagi heilbrigðismála en hins vegar eðli ríkisins. Um hvort tveggja má skrifa lærðar ritgerðir. Sé til hvernig tóm gefst til þess, en þori engu að lofa hérna megin jóla.

En það er hárrétt hjá Guðrúnu Maríu að stjórnmálamenn hafa veigrað sér við að taka á þessum málum og nær ávallt valið hina sársaukalitlu smáskammtalækningu dópistans og dælt meiri pening í kerfið í von um að fá frið. Sérhver breyting á kerfinu er nefnd niðurskurður — jafnvel þó aðeins sé verið að hægja eilítið á útgjaldaaukningunni — en líkast til veitir kerfinu ekki af uppskurði. Það eru allnokkur ár síðan ég spurðist fyrir um athugun á árangri í heilbrigðiskerfinu, en þá var engin tölfræði fyrirliggjandi. Það má vera að hún sé til núna, en hún hefur ekki rekið á fjörur mínar.

Andrés Magnússon, 7.12.2006 kl. 09:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband