Leita í fréttum mbl.is

Hvenær má sökkva landi?

Við Andri Snær Magnason höfum að sumu leyti deilt efasemdum um virkjanir á hálendinu, en að öðru leyti ekki. Eins og gengur. Og ég verð að meta það við Andra, að hann hefur ekki ofsótt mig með endalausu virkjanatali eins og sumir vinir mínir aðrir; hefur hann þó haft sæg tækifæra, því við erum bundnir fjölskylduböndum. Ég hef líka tekið vörn hans þegar ég hef heyrt menn gagnrýna að hann, borgarbarnið, sé að hafa einhverjar meiningar um hvað sé að gerast uppi á öræfum. Eða mega ekki aðrir en handhafar sjóferðabóka og fiskverkafólk hafa skoðanir á sjávarútvegsmálum?

Málflutningur hans hefur verið á þá leið, að Íslendingar eigi að hverfa frá hálf-sovéskri stóriðjustefnu, að fremur beri að leggja rækt við huglægari atvinnugreinar og að náttúran eigi að vera alls óhult af umgengni okkar mannanna. Sér í lagi hefur hann mótmælt því að náttúruperlum sé sökkt undir vatn.

Það er því með nokkurri undran, sem ég les blogg Björns Inga Hrafnssonar, formanns borgarráðs, því Andri hefur sent honum bréf. Þar rekur hann hvernig gamla hafnarsvæðið í Reykjavík — sem nú er að hluta í rúst vegna fyrirhugaðrar byggingar tónlistar- og ráðstefnuhallar — sé sár í miðbænum. Sem má svo sem taka undir.

En hvað vill Andri gera? Jú, hann vill vitaskuld sökkva svæðinu í sæ!

Punkturinn hjá honum er að með því að fjarlægja uppfyllinguna verði hin eiginlega vík, sem Reykjavík dregur nafn sitt af, til á ný, skáldum og kaffihúsaspekingum til yndis og ánægju.

Ég veit ekki alveg hvað mér á að finnast um þessa tillögu Andra Snæs, en hún togar óneitanlega í mig. Þó ekki væri nema í þeirri von að þá verði fyrrnefnd tónlistar- og ráðstefnuhöll send út í hafsauga. Í orðsins fyllstu merkingu. En svo er það líkast einnig íhaldskurfurinn í mér og sagnfræðiáhugamaðurinn, sem tekur undir hugmynd Andra. Fortíðarþráin er svo sterk, að hún nær til daga, sem ég þekki ekki nema af myndum. Mér dettur því í hug — ef tónlistar- og ráðstefnubákninu yrði sópað burt — að viðeigandi væri að reisa skúlptúr þar í nágrenninu, sem gæti heitað Hegrinn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband