19.12.2006 | 11:35
Kengúrur í Kompási
Það er með hálfum huga, sem maður setur á blað vangaveltur um Kompás-þáttinn alræmda. Málið er allt svo subbulegt, að maður þarf eiginlega að þvo sér um hendurnar á eftir. En stundum þarf maður að bretta upp á ermarnar og gramsa í ógeðinu.
Ég held að Kompás-mönnum hafi orðið á allnokkur mistök við gerð þessa þáttar:
- Í fyrsta lagi voru þeir að fjalla um tvö nánast óskyld mál: annars vegar meinta breytni forstöðumanns meðferðarheimilis í garð skjólstæðinga sinna og hins vegar fjárreiður stofnunarinnar. Það þvældi málin að reyna að tvinna þau saman í einn þátt.
- Í öðru lagi rýrði það gildi heimilda Kompáss, að þrátt fyrir að heimildamennirnir væru sagðir 20 talsins reyndist ekki einn einasti þeirra reiðubúinn að koma fram undir nafni. Ég á bágt með að trúa því að þeir hafi allir haft knýjandi ástæðu til nafnleyndar, þó hún sé þeim vafalaust öllum þægilegri.
- Í þriðja lagi hef ég efasemdir um að sanngirni hafi verið gætt við forstöðumanninn þegar málið var borið undir hann. Það kom raunar ekki skýrt fram, en viðtalið við hann hafði á sér allan brag fréttar úr launsátri. Það var tekið við hann bókstaflega á milli húsa, og ljóst var að maðurinn hafði afar lítið ráðrúm til þess að kynna sér ávirðingarnar á hendur honum. Spurningarnar voru svo sumar hverjar beinlínis til þess fallnar að leiða viðmælandann í gildru eða dylgja um eitt og annað.
- Í fjórða lagi þurfti forstöðumaðurinn að grípa til þeirra varna að greina frá samlífi sínu og eiginkonu sinnar. Viðtalið var að öðru leyti klippt til, en þetta myndskeið látið fylgja með þó það ætti nánast ekkert erindi nema við gægjuhneigt fólk.
- Í fimmta lagi fór notkun á frumheimildum langt út fyrir það, sem til þurfti, og gerði þáttinn sjálfan pornógrafískan.
- Í sjötta lagi var engan veginn heimfært í hverju ætluð brot mannsins ættu að liggja, hvort þau vörðuðu við lög eða hvort hann væri aðeins ósiðvandur. Í því samhengi var hins vegar nokkuð gert úr trúarlegu inntaki meðferðarstarfsins og gefið í skyn að forstöðumaðurinn væri hræsnari.
Höfuðvandinn í þessu máli er þó að mínu viti sá, að þarna er fjölmiðill að taka sér fyrir hendur að vera allt í senn: rannsakari, saksóknari, dómari og böðull. Setjum sem svo, að málið allt sé úr lausu lofti gripið og forstöðumaðurinn geti með óyggjandi hætti sýnt fram á sakleysi sitt og samsæri illviljaðs fólks gegn sér, sem Kompás-menn hafi fallið fyrir í góðri trú. Gæti hann með einhverju móti náð að hreinsa nafn sitt með fullnægjandi hætti? Eða undið ofan af þeim sársauka, sem málið hefur valdið fjölskyldu hans og vinum?
Til þess er réttarkerfið, að mál séu rannsökuð af hófsemi og sanngirni, þannig að réttlætinu verði fullnægt. Einmitt til þess að við búum ekki við dómstól götunnar, þar sem múgurinn hrapar á augabragði að ofsafenginni niðurstöðu. Raunar heyrist mér á flestum, sem ég hef rætt við, að þeim þyki Kompás hafa farið allt of geyst fram, þannig að e.t.v. má vænta meiri mildi af dómstóli götunnar en dómstóli þessa fjölmiðils.
En setjum á hinn bóginn sem svo, að allt sé þetta satt og rétt. Hvað þá? Engum blöðum er um það að fletta að þá væri um einkar alvarlegt athæfi að ræða. Þá hefur forstöðumaðurinn notfært sér trúnaðartraust skjólstæðinga sinna, sem eðli máls samkvæmt eru veikir fyrir, en þar fyrir utan felast meðferðarúrræði einatt í því að brjóta manneskjuna niður áður en farið er að byggja hana upp að nýju. Kynferðis- eða tilfinningasamband meðferðarfulltrúa og sjúklings er jafnóeðlilegt og á milli læknis og sjúklings, sálusorgara og sóknarbarns eða kennara og nemanda. Þar á milli er ekki það jafnræði, sem nauðsynlegt er í slíku sambandi fólks og hættan á misneytingu yfirboðarans veruleg. Þess vegna hafa menn enda fyrirboðið slíkt með lögum, þó í reyndinni séu þau mun oftar sniðgengin en hitt.
Allt um það, þá er málið grafalvarlegt ef rétt reynist og þá gildir einu hvers eðlis kynferðissamneytið var. En þá á það líka að ganga sína leið í réttarkerfinu til þess að ganga úr skugga um hvað hæft er í ásökunum, þannig að réttlætið nái fram að ganga og allir bæði þeir sem bera fram sakirnar og þeir sem sökum eru bornir njóti sanngirni og réttlætis. Það gerist ekki með kengúruréttarhöldum og aftöku í sjónvarpi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:38 | Facebook
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 37
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 15
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sammála.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 19.12.2006 kl. 12:26
Sæll Andrés, mér finnst rétt að taka fram, vegna þriðja punktar að ofan, að viðmælandi og spyrill höfðu mælt sér mót.
Þórir Guðmundsson varafréttastjóri Stöðvar tvö
Þórir Guðmundsson (IP-tala skráð) 19.12.2006 kl. 14:02
Hjartanlega sammála þér Andrés.
Bergþóra Jónsdóttir, 19.12.2006 kl. 16:02
ég er bara sammála þér varðandi atriði 3 og 4. Sérstaklega 4. Nr 1 og 2 er alltílagi en hefði mátt vera mikið betra og atriði 5 og 6 skipta alveg máli fyrir alla, einfaldlega vegna þeirrar stöðu sem forstöðumaður byrgissins er í... hann setti sig þangað sjálfur og verður að taka á því ef upp kemst. Sönnunargögnin um hræsni hans og brot á skjólstæðingum sínum (sem eru í skjóli hans sem trúarleiðtoga) eru einmitt þess eðlis að þau eiga ekkert erindi í dómsstóla, en ef fólk vill koma þeim á framfæri þá er það þeirra réttur. Hann verður að kæra það ef brotist var inná hans skrifstofu og mannorð hans lagt í rúst, það er nefninlega glæpur en það sem hann gerði var einungis siðlaust. Ef fórnarlömb siðleysis sem ekki flokkast sem glæpur, mega ekki tjá sig, útí hvað erum við þá komin? Þannig lít ég allavega á málið.
halkatla, 19.12.2006 kl. 19:25
ég meina það sem hann á að hafa gert er siðlaust...
halkatla, 19.12.2006 kl. 19:27
siðlaust eða ekki þá eru mörg af afsökunarrökunum sem forstöðumaðurinn kom með i kvöld svolítið barnaleg til dæmis áhver sem a tölvu a að geta sett password kerfið i gang sjalfur en ekki biðja um að fa það virkjað i langan tima = léleg málsvörn
solon
siggi skula (IP-tala skráð) 19.12.2006 kl. 20:50
Eins og mælt úr mínum munni, Andrés.
Konráð Jónsson, 19.12.2006 kl. 22:15
saklaus maður myndi ekki bregðast við eins og Guðmundur gerir... mér finnst að allir ættu að sjá það að maðurinn er sekur um allt sem hann er sakaður um..
dómskerfið í þessu landi er ekki upp á marga fiska og þess vegna finnst mér ágætt að fjölmiðlar taki þátt í því. Kompás þátturinn verður svona brútal vegna þess að Guðmundur vísar þessu svo fáránlega á bug að ekki er hægt annað en að sýna þetta allt saman.
Bríet Konráðsdóttir (IP-tala skráð) 20.12.2006 kl. 01:43
Mér þykir þú Bríet aldeilis taka stórt upp í þig. Þú þekkir semsagt til?
Einar (IP-tala skráð) 20.12.2006 kl. 02:22
Sæll Andrés Ég horfði á Kastljós í gær 19/12 þar sem Guðmundur Jónsson var að verja sig og lýsti því yfir að gögnin sem ásakanir Kompás byggðu á gagnvart sér væru fölsuð, röng og rangtúlkuð. Hann tók til varnar (sókn er besta vörnin) og upplýsti að Kompásmenn hefðu notað vafasamar og ólöglegar aðferðir til að afla gagna. Þegar ritsjóri Kompás var kominn upp að vegg þá var hann ekkert að hika við að upplýsa að Guðmundur Jónsson væri heimildarmaður hans þegar Kompás var að upplýsa um læknadópið. Kvöldið áður hafði Sigmundur Ernir komið í Kastljósið og tjáði þjóðinni að þeir gerðu allt til að vernda heimildarmenn sína. Verndin nær greinilega ekki til þess þegar þeir prívat hafa hag af því að upplýsa hverjir heimildarmenn þeirra eru. Ef Guðmundur Jónsson hefur brotið eitthvað af sér er það þá ekki hlutverk lögreglu að rannsaka málið og dómstólanna að kveða upp um sýknu eða sekt. Hvaðan kemur Kompás heimild til að taka að sér rannsókn á sakamálum, kunna þeir eitthvað til rannsóknarlögreglustarfa að ekki sé talað um heimild þeirra til að taka mannorð manna af lífi í sjónvarpi. Eiga allir menn ekki rétt á að teljast saklausir þar til sekt þeirra er sönnuð?
Guðmundur Óskarsson (IP-tala skráð) 20.12.2006 kl. 10:00
"Þess vegna hafa menn enda fyrirboðið slíkt með lögum, þó í reyndinni séu þau mun oftar sniðgengin en hitt." Hefurðu eithvað sérstakt fyrir þér með þessi orð að trúnaðarasmband sjólstæðings og yfirboðara sé oftar brotið en hitt kynferðislega?
Sigurður Þór Guðjónsson, 20.12.2006 kl. 10:56
Já, merkilegt, að Kompás upplýsti að Guðmundur hefði verið heimildamaður fréttarinnar um "læknadópið". Samt sögðust þeir vernda heimildamenn sína fram í rauðan dauðann. Og segja síðan að Guðmundur sé hræsnari...eða gefa það a.m.k. í skyn. Sigmundur Ernir má síðan upplýsa, hvort einhver af skyldmennum hans, nánum, hafi verið í Byrginu, eins og guðfræðineminn sagðist hafa heyrt (man ekki nafnið í svipinn). Það myndi gera Sigmund vanhæfan...eða amk vanhæfari en venjulega!! Síðan er ég í aðalatriðum sammála Andrési.
Snorri Bergz, 20.12.2006 kl. 13:34
Aðferðirnar sem hér hefur verið beitt eru umdeilanlegar... Það er þó staðreynd að læknirinn sem Guðmundur hafði bent á var staðinn að lygi nokkru áður og það í Kompási. Svo segir hann að Kompás hafi borgað fólki með dópi... Sá maður hlýtur að vera vanhæfur og/eða í stöðu þar sem varla er hægt að taka hann trúanlegan...
Svo segir Guðmundur Jónsson að hann hafi aldrei gefið bíl en svo kemur hann með nýja bílasögu í kastljósi.
Þá segir Guðmundur einnig í kastljósi að ef fjármálin væru í rúst þarna að þá væri fólk að kvarta undan einhverju öðru en kynlífi og að hann væri að notfæra sér einhverja einstaklinga til kynlífs... Hvers lags svar er það? Það var kvartað undan hvoru tveggja ef hann náði því ekki.
Auk þess svarar Guðmundur aldrei um tengsl sín um laun og starfsemi byrgisins. Hann hleypur ávallt út og suður og fer að tala um að hann þurfi alltaf sjálfur að núlla út byrgið. Það er frekar loðið svar og getur þýtt nánast hvað sem er...
Það er nú ýmislegt fleira sem mætti skoða betur af því sem Guðmundur hefur verið segja undanfarna daga.
Annað sem er athyglisvert var að Kompás töluðu um gögn sem þóttu ekki við hæfi að sýna og/eða gætu komið upp um heimildarmenn þeirra. Tilurð slíkra gagna, ef þau eru til, hljýtur að varpa meira ljósi á þetta mál og það er auðvitað engum til gagns að þau séu ekki til umræðu. Ef þetta fer fyrir dómstóla að þá hljóta þau að koma þar fram en þangað til erum við engu nær.
Auðvitað vonar maður að þetta sé allt saman eintómur misskilningur en allt þetta mál er farið að líta ansi illa út svo ekki meira sé sagt.
Guðni Rúnar (IP-tala skráð) 20.12.2006 kl. 18:10
Mér er ófært að taka efnislega afstöðu til málsins, því ég hef ekki hugmynd um hvað er sannast og réttast í því. Og er raunar til efs að það komist nokkru sinni á hreint. Á hinn bóginn finnst mér ýmislegt athugavert við matreiðsluna á þessu hjá Stöð 2 eins og ég lýsti. Þar mætti svo sem tína meira til, en ég læt það vera að sinni.
Varðandi það hvað ég hafi fyrir mér um að "trúnaðarasamband skjólstæðings og yfirboðara sé oftar brotið en hitt kynferðislega" áttu orð mín nú ekki að vera svo svakaleg, en ég skil hvernig mætti misskilja þau á þann hátt. Ég var fyrst og fremst að vísa til þess að manni virðast fáir ef nokkrir taka þau alvarlega, nema þegar beinlínis er um annarlega misneytingu að ræða. Sérstaklega var mér í huga ástandið í háskólum landsins, sem fjölmargir kennarar umgangast nánast sem stefnumótaþjónustu.
Andrés Magnússon, 20.12.2006 kl. 18:36
Sammála þér Andrés um efnistökin.
Þetta var annsi ógeðfellt yfir kvöldmatnum hvernig þeir skelltu þessu inn í kvöldfréttirnar, ég sá ekki Kompás þáttin en þetta var nóg fyrir mig og kom mér í hug kvæðið; "Á Valhúsarhæð er verið að krossfesta mann". Það var greinilegt á fréttinni að það átti að taka þenna blessaða forstöðumann af lífi. Eru fréttamenn virkilega búnir að gleyma hvernig DV hegðaði sér? Svona mál þurfa að fara í réttan farveg það er óþolandi þegar fréttamenn eru að gerast dómarar.
Ég sá Kastljósið og sýndi það að það eru margar hliðar á þessu ég held að við getum þakkað fyrir að hafa ábyrga fréttastöð eins og RúV þegar svona mál koma upp.
orn (IP-tala skráð) 20.12.2006 kl. 21:31
Skrýtið að það það eigi ekki að fara fram opinber rannsókn á þessu. Maður hefði haldið að allir aðilar vildu að það færi fram eðlileg rannsókn og menn sekt eða sakleysi kæmi bara í ljós.
TómasHa, 20.12.2006 kl. 23:44
Nú verður þú að útskýra mál þitt Andrés!
Sérstaklega var mér í huga ástandið í háskólum landsins, sem fjölmargir kennarar umgangast nánast sem stefnumótaþjónustu.
Hvað meinar þú með þessu ?!?
skúmur (IP-tala skráð) 21.12.2006 kl. 02:51
Það hlaut að koma að því að við fyndum sameiginlegan grunvöll á þessu Andrés.
Ég er þér hjartanlega sammála. ég taldi að menn hefðu lært af reynslunni snemma á þessu ári þegar meintur barnanýðingur fyrirfór sér vegna fréttar DV, en svo virðist ekki vera.
Þegar um svo viðkvæmt mál er að ræða þá er það ótækt að koma fram með ásakanir sem þessar án þess að gefa öllum hlutaðeigandi jafnan grundvöll til þess að koma sínu máli á framfæri.
Að grípa mann með kaffibolla út á götu, þó svo það hafi verið mælt sér mót, og demba á hann ásökunum er með öllu ótækt og gjaldfellir málaflutninginn.
Og það sem stendur eftir, burtséð frá sekt eða sýknu, er það að svona eiga fjölmiðlar ekki að hegða sér. Þeir eru ekki dómendur í samfélaginu, heldur aðhald, og það hlutverk verða þeir að taka alvarlega, vilji þeir að þeir séu teknir alvarlega.
Þorleifur
Þorleifur Örn Arnarsson (IP-tala skráð) 21.12.2006 kl. 18:27
Þetta er að mestu leiti réttir punktar hjá Andrési. Hann hlýtur þá að sjá hvað gerist þegar einkaaðilar eru látnir sjá um jafn mikilvæga hluti og fréttaflutning og afeitrun.
.... ég bara varð!
Steingrímur Jónsson (IP-tala skráð) 21.12.2006 kl. 22:22
Varðandi athugasemd Skúms er rétt að taka fram að tek ég ekki þátt í rökræðu við fólk, sem skrifar bak við dulnefni. En menn þurfa ekki að þekkja mikið til háskólasamfélagsins suður á Melum til þess að vita um nánara samneyti kennara og nemenda þar en æskilegt væri og eins eru mörg dæmi um að fólk hafi ruglað reytum sínum eftir slíkan samdrátt. Nýlegt mál á Bifröst er af sama meiði, en í þessu samhengi skiptir engu hvort nemandinn sé orðinn lögráða. Það er ekki jafnræði með læriföður og nemanda og því er kennaranum óheimilt að eiga í slíku sambandi.
Andrés Magnússon, 22.12.2006 kl. 09:22
Sæll Andrés!
Frumskylda fjölmiðla er að birta þær upplýsingar sem þeir búa yfir hversu erfitt sem það kann að vera. Þó það kosti að labbakútar á borð við Þorleif leyfi sér að fullyrða um að einhver meintur barnaníðingur hafi fyrirfarið sér "vegna fréttar DV" eins og hann segir. Kjánaskapurinn ríður ekki við einteyming eins og alltaf sýnir sig betur og betur. Ekki síst með tilkomu Netsins.
Annars langaði mig, Andrés, um leið og ég óska þér gleðilegra jóla, að benda þér á blogg Binga. Ég varð skelkaður þegar ég las 1984 eftir Orville á sínum tíma. Ef þú vilt sjá nýja hrollvekjandi framtíðarsýn þá ert þú kominn í hóp með mönnum sem algerlega er fullreynt með á fjölmiðlum.
Kveðja,
Jakob
Jakob (IP-tala skráð) 22.12.2006 kl. 16:49
Sælir
Þó svo ég sé yfirleitt á þeirri skoðun að maður eigi ekki að vera að eltast við fólk sem finnur fróun í því að uppnefna annað fólk í skrifum þá vil ég benda á það að umræddur (meintur) barnanýðingur tók það fram í sjálfsvígsbréfi sínu (samk. fréttum) að umfjöllun Dv hefði vissulega verið þar áhrifavaldur.
Hvað svo sem Jakobi finnst um það þá er það ekki hlutverk fjölmiðla að mínu mati að koma fram sem dómendur, heldur sem upplýsendur. Það er auðvitað mat hvað maður birtir og hvað ekki, en sé sú ákvörðun tekin að birta hluti þá hlýtur það að vera grundvallarréttur hvers manns að fá að sjá sönnunargögnin gegn honum áður en dómurinn er felldur, það er, að hann njóti sanngirni og hafi möguleika á því að verja sig.
Ef Jakob er ekki sammála því þá vona ég svo sannarlega að hann starfi ekki á fjölmiðlum.
til hamingu með nýtt starf Andrés, viðskiptablaðið ætti að eiga vel við þig.
Þorleifur
Þorleifur Örn Arnarsson (IP-tala skráð) 27.12.2006 kl. 21:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.