Leita í fréttum mbl.is

Vöxtur og viðgangur Blaðsins

Senn líður að því að ég ljúki störfum mínum á Blaðinu, en þar hef ég starfað frá því að því var hrundið úr vör hinn 6. maí 2005. Það eru rétt liðlega eitt og hálft ár, en mér finnst stundum að það hafi verið lengri tími, enda skemmtilegt og viðburðaríkt að stofna nýtt blað. Það spratt vitaskuld ekki fullskapað úr höfði Seifs eða Sigurðar G. Guðjónssonar, þó ég leyfi mér að halda því fram að Siggi hafi að mörgu leyti haft gleggri hugmynd en flestir um eðli og karakter Blaðsins, en hitt er svo annað mál hvernig gekk að koma því til þess þroska. Það hefur beinlínis gengið á ýmsu í því.

Mér er engin launung í því að stærstu skrefin í því voru stigin á fyrstu vikum ritstjórnartíðar Sigurjóns M. Egilssonar. Hann vissi vel hvert hann vildi færa Blaðið, bæði hvað varðaði uppbyggingu, efnistök og fréttastefnu. Ekki svo að skilja að það hafi allt verið frábært, um sumt má deila eins og gengur. Þá ætti ekki að líta hjá hlut Janusar Sigurjónssonar, ritstjórnarfulltrúa (og sonar Sigurjóns), sem kom langþráðum skikki á útlit Blaðsins. Í því samhengi þarf að taka fram að Janus er ekki aðeins með snjallari síðuhönnuðum, því nálgun hans er „journalistísk“. Ég veit ekkert um það hvort Janus kann að skrifa, en hann veit upp á hár um hvað blöð snúast. Að því leyti er ég ekki frá því að meiri fengur hafi verið í Janusi fyrir Blaðið en karli föður hans. Með fullri virðingu og allt það.

Ég minnist á þetta eftir að hafa lesið bloggfærslu sme þar sem hann gerir lítið úr fyrstu forystugrein Trausta Hafliðasonar, hins nýja ritstjóra Blaðsins, sem varð það á að segja að Blaðið hefði mjög sótt í sig veðrið frá stofnun þess.

Frá fyrsta degi og þar til um mitt sumar var lestur Blaðsins lítill, mældist innan við þriðjung, hafði nánast ekkert breyst frá fyrsta útgáfudegi. Lesturinn var alltof lítill og á hverjum degi hentu þúsundir Íslendinga Blaðinu ólesnu. Um miðjan júlí urðu miklar breytingar, nánast nýr fölmiðill með sama nafni hóf göngu sína. Lesturinn tók kipp, aukningin mældist í tugum prósenta. Önnur eins breyting á lestri dagblaða var óþekkt.

Þarna er Sigurjón vitaskuld að vísa til hins gífurlega lestrarkipps Blaðsins, eftir að hann settist þar í ritstjórastólinn, og er ekkert afar fínlega að ýta undir þá söguskýringu, að þar hafi persónulegt framlag hans sem kraftaverkamanns í blaðamennsku skipt öllu.

Sem fyrr segir vil ég ekki gera lítið úr hlut Sigurjóns í þessum öra vexti Blaðsins á markaði, en það kom fleira til og að mínu viti veigameira. Þar munaði örugglega mestu um að Árvakur tók að sér dreifingu Blaðsins, sem um leið tryggði að það bærist lesendum fyrir klukkan sjö á morgnana. Áður hafði það verið að detta inn um lúguna með póstinum milli kl. 10.00 og 14.00, þannig að flestir lesendur sáu það ekki fyrr en á kvöldin og þeir, sem nenntu að lesa það þá, lásu fréttir, sem verulega var farið að slá í, enda var efninu skilað í prentsmiðju um sólarhring áður en það kom lesendum fyrir augu. Þetta viðurkenndi Sigurjón enda óbeint, því þegar í ljós kom öllu hægari sigling á Blaðinu í síðustu lestrarkönnun en hinni næstu á undan, kenndi hann slakari dreifingu Árvakurs um, en ekki efnistökum.

Hitt skipti líka verulegu máli, að þegar Sigurjón kom inn á Blaðið fékk hann fullt athafnafrelsi, gat ráðið menn og rekið eftir þörfum og lagt meira í útgáfuna að öllu leyti. Þetta skiptir máli, því fyrirrennari hans, Ásgeir Sverrisson, var í algerri fjárhagslegri spennitreyju, mátti ekki einu sinni reka fólk, hvað þá ráða, sakir afar þröngrar fjárhagsstöðu Blaðsins og ritstjórnarvald hans var af þeim sökum verulega takmarkað. Sigurjón þurfti engar slíkar hömlur að þola og skömmu eftir ráðningu hans var hlutafé Árs og dags, útgáfufélags Blaðsins, aukið um 200 milljónir króna.

Ég held að Sigurjón hefði þurft að vera alveg sérstaklega ömurlegur ritstjóri ef lestur Blaðsins — hvaða blaðs sem er raunar — hefði ekki aukist verulega við það eitt að fá 200 milljóna króna innspýtingu, frjálsar hendur í starfsmannavali og morgundreifingu á einu bretti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Börkur Gunnarsson

alltaf svolítið skemmtilegt þegar menn skrifa svona blogg um sjálfa sig einsog kraftaverkamenn og gleyma að horfa til 200 milljóna inputs og þess að blaðið fór að berast á heimili landsmanna fyrir morgunverð.  ég fór að lesa blaðið af einni ástæðu - það fór að berast til mín á morgnanna áður en ég fór út.  það var ekkert flóknara.  Bob Woodward hefði getað ritstýrt því en ég hefði ekki lesið það ef það hefði haldið áfram að koma heim á hádegi.

Börkur Gunnarsson, 21.12.2006 kl. 17:14

2 Smámynd: TómasHa

Það er eitt sem mér finnst verra eftir breytinguna, en það er að blaðið hætti að berast til fyrirtækja eins og áður.  Blaðið lág fram á kaffistofum margra fyrirtækja fyrir vikið.  

Þetta er mjög góð greining.  Fólk er með svona Eurovision minni í þessu. 

TómasHa, 21.12.2006 kl. 20:18

3 Smámynd: Atli Fannar Bjarkason

Vissi ekki af fjárhagslegu spennitreyjunni hans Ásgeirs.. maður veit samt ekkert hvernig hefði farið ef hann hefði losað sig úr henni?

Atli Fannar Bjarkason, 21.12.2006 kl. 23:49

4 Smámynd: Andrés Magnússon

Athugasemd: Henti út athugasemd um óskylt efni. Svaraði fyrirspurninni, sem varðaði aðra færslu hjá mér, á sínum stað.

Andrés Magnússon, 22.12.2006 kl. 09:32

5 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Varðandi stefnumótaþjónustu í skólum þá hafa íslenskir háskólar ekki sett sér samskiptareglur um hvað sé viðeigandi og hvað óviðeigandi á milli kennara og nemenda. Án þess að hugsa mig lengi um þá veit ég um fjögur dæmi þar sem háskólakennari tekur saman við nemanda sinn. Þá er það vitað að kennarar eru misvandir að virðingu sinni í samskiptum við nemendur.

Hér er komið nýtt efni í Kompásþátt eða Ísafoldargrein. Tálbeita er gerð út af örkinn til að komast yfir háskólakennara.

Páll Vilhjálmsson, 22.12.2006 kl. 09:34

6 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Ég held að það þurfi aðrar 200 milljónir til að halda Blaðinu á sama róli. Efast um að það verði gert. Ég man að það var komin svipuð nálykt af Blaðinu áður en það fór í moggadreifingu og af mörgum netfyrirtækjum sem ég hef starfað hjá þegar þau voru að verða gjaldþrota. Ekki veit ég hverjum þessi mikli lestur er að þakka. Ætli það séu ekki margir samverkandi þættir. Ekki einhverjum einum að þakka eins og sme. Hann er ekkert að hrósa starfsfólkinu sem lagði sig fram við að hjálpa honum í grettistakinu án þess að fá neitt í staðinn, því það er opinber stefna hjá Blaðinu að greiða ekki fyrir yfirvinnu.

Ef fólk les blaðið aðallega til að lesa Halldór ætti það þá ekki bara að gerast áskrifendur af teikningunum hans sem eru nb tær snilld.

Birgitta Jónsdóttir, 22.12.2006 kl. 12:36

7 Smámynd: Sigurður G. Tómasson

Sæll frændi!

Sé eftir þér af blaðinu, þótt sjaldnast geti ég samþykkt öfgafull hægri viðhorf þín. En það er bara til gamans. En, svona í umvöndunartón, Blaðinu var hrundið af stað, en ekki hrint. Hrekkjalómar hrinda, þt. hrinti, en báti er hrundið úr vör. Hið sama gildir um fyrirtæki og blöð. Með bestu jólakveðjum og óskum að þú fáir að njóta þín á einhverjum nýjum stað.

Sigurður G. Tómasson 

Sigurður G. Tómasson, 22.12.2006 kl. 16:49

8 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Kem til með að sakna viðhorfa þinna á síðum Blaðsins, en vona að þú haldir áfram að blogga.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 22.12.2006 kl. 22:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband